Hér er jólahugvekja eða jólasaga sem sr. Kristján Björnsson þýddi og stílfærði úr sögu sem vinur í miðríkjum Bandaríkjanna, David James að nafni, sendi eitt sinn í bréfi frá vini til vinar. Ef sagan er notuð til upplestrar er vinsamlega óskað eftir því að uppruna hennar sé getið.

Aðfangadagskvöld í Bandaríkjunum eru mjög frábrugðin því sem við eigum að venjast, enda fagna kristnir menn þar yfirleitt ekki komu jólanna fyrr en á jóladagsmorgni. Sagan, sem ég ætla að segja þér, gerist á bensínstöð þar sem Georg gamli var einn að störfum. Georg stóð ekki í jólaundirbúningi svo honum þótti bara ágætt að fást við eitthvað sem ekki minnti á jólin. Þó var hann kristinnar trúar. Eftir fráfall eiginkonunnar fyrir nokkrum árum hefur honum þótt erfitt hvað allt hefur minnt á hana um jólin. Hann var að horfa á snjóinn á glugga þegar umrenningur einn gekk inn. Hann rak ekki flækinginn burt, heldur sagði honum að koma nær ofninum til að fá í sig hita. “Þakka þér fyrir, en ég ætla ekki að trufla,” sagði ókunni maðurinn. “Ég sé að þú ert upptekinn. Það er best ég fari.”

“Þú ferð ekki án þess að fá eitthvað heitt að drekka,” sagði Georg gamli. Hann rétti honum sveran hitabrúsa með heitri súpu. “Þetta er ekki mikið,” sagði Georg, “en þegar þú ert búinn með súpuna skaltu fá nýlagað kaffi.”

Í þann mund heyrðu þeir að bíl var ekið að. Georg bað ókunna manninn að hafa sig afsakaðan og gekk út. Þarna á hlaðið var kominn gamall Chevy ’53 og undan húddinu stóð gufustrókur eins og vélin væri að bræða úr sér. Ökumaðurinn var í uppnámi. “Þú verður að hjálpa mér,” kallaði hann til gamla mannsins með greinilegum spænskum hreim. “Konan mín er að því komin að fæða og bíllinn bilaður. Georg opnaði húddið og leist ekki á blikuna. “Ég er hræddur um að þú farir ekki langt á honum svona.” Hann gekk frá bílnum og þá jókst örvæntingin hjá hinum verðandi föður og vanfæru konunni hans. Georg gekk rakleitt gegnum búðina að skrifstofunni þar sem hann náði í lykla að gamla góða pallbílnum. Bílskúrinn var á bakvið og þangað gekk hann, setti trukkinn í gang og ók honum fram á hlaðið. “Hérna, taktu þennan,” sagði hann við unga manninn, “hann hefur ekki verið mikið fyrir augað seinni árin, en hann er í góðu lagi.”

Hann hjálpaði konunni að setjast upp í pallbílinn og horfði á eftir þeim aka greitt í burtu. “Ég er feginn að geta lánað þeim gamla pallbílinn. Dekkin undir Chevynum voru líka allt of slitin miðað við færð.” Hann hélt að hann væri að tala við ókunna manninn þegar hann gekk inn í búðina en hann var hvergi að sjá. Hitabrúsinn var þarna á borðinu og tómur kaffibolli. “Jæja, hann fékk þó einhverja kviðfylli,” tautaði hann við sjálfan sig. Hann skrölti á biluðum fólksbíl unga fólksins á bak við í bílskúrinn til að sjá hvað hann gæti lagfært. Vatnskassinn var í lagi, en neðri hosan hafði losnað. Hann lagað það, fyllti hann á kassann og þá var þetta komið í lag. En honum leist ekki á að vesalings fólkið færi langt á ónýtum dekkjum. Hann tók því óslitin vetrardekkin undan drossíunni, sem Marta hafði átt, en hann hafði ekki hreyft þann bíl lengi.

Mitt í þeim klíðum heyrði hann skothljóð. Hann hljóp framfyrir hús. Þar sá hann lögreglumann liggja við opnar dyr á lögreglubíl. Það blæddi úr vinstri öxlinni og lögregluþjónninn bað Georg að hjálpa sér. Hann kom honum innfyrir og rifjaði nú upp þjálfun sem hann hafði fengið í hernum. Hann þrýsti á sárið til að stöðva blæðinguna, lagði yfir það og reyrði að með teygjubindi. Hann fann verkjatöflu og vatnsglas og reyndi að láta hinum særða líða vel meðan hann reyndi að hringja á sjúkrabíl. Síminn var dauður, svo hann settist hjá manninum. “Takk fyrir að hjálpa mér,” sagði löggan. “Þú hefðir getað látið mig liggja. Sá sem skaut á mig er ennþá skammt undan.”

Í þeim orðum ruddist ungur og æstur maðurinn inn um búðardyrnar með byssu á lofti. “Alla peningana strax,” hrópaði byssumaðurinn. Höndin skalf og Georg sá strax að þessi hafði trúlega aldrei brotið af sér fyrr.

“Þetta er maðurinn, sem skaut mig,” sagði lögreglumaðurinn.

“Drengurinn minn,” sagði Georg, “af hverju ertu að þessu? Þú ættir að leggja frá þér byssuna. Annars gætu fleiri slasast.”

“Þegiðu gamli minn,” sagði byssumaðurinn, “annars skýt ég þig líka. Alla peningana strax!” Lögreglumaðurinn gerði sig líklegan til að seilast til byssunnar en sá gamli stoppaði hann af. “Það er komið nóg af skothríð í kvöld.” Hann sneri sér síðan að byssumanninum og sagði honum að hann gæti fengið allt sitt fé, en það væri að vísu ekki mikið. Hann yrði að leggja frá sér vopnið. Hann minnti hann á að nú væri aðfangadagskvöld. Því næst rétti hann honum þá peninga sem hann fann í vasanum og tók rólegur hendi um byssuhlaupið. Sá ungi gaf nú eftir, féll svo á kné og grét. Saga hans var sú að hann hafði aldrei gert nokkuð þessu líkt. En hann var örvæntingarfullur. Hann var nýbúinn að missa vinnuna, húsaleigan í vanskilum og bíllinn tekinn upp í skuld. Honum fannst hann verða að komast yfir pening til að kaupa jólagjafir handa konu sinni og barni.

Georg reyndi að hughreysta hann og talaði um hvernig allir lenda af og til í vanda, en oftast sé hægt að leysa það. “Stundum gerum við líka eitt og annað sem er heimskulegt. Það er bara af því að við erum mannlegir. Þú leysir ekki neitt með því að æða hérna inn með byssu á lofti. Það er betra að setjast niður með öðrum og reyna að finna lausn á vandanum.” Þeir ræddu málin og drukku nú kaffi gamla mannsins.

Þá heyrðist í sírenum og áður en þeir vissu af, voru tveir lögreglumenn komnir inn á bensínstöðina með byssurnar brugðnar. Þeir höfðu fundið bílinn með staðsetningartækjum og félagi þeirra hafði ekki svarað. “Hver gerði þetta?” spurðu þeir félaga sinn. Hann sagðist ekki hafa séð manninn og ekki orðið hans var, en hann hafi kastað frá sér byssunni áður en hann hvarf út í myrkrið. Georg og ungi maðurinn litu hvor á annan. Svo skýrði sá gamli frá því að sá ungi ynni hérna hjá honum og hefði hjálpað til.

Þegar bráðaliðarnir höfðu komið hinum slasaða á börurnar, laut ungi skotmaðurinn að honum og spurði: “Af hverju?”

“Gleðileg jól, drengur minn,” var eina svarið.

Þegar þeir Georg voru orðnir tveir eftir höfðu þeir orð á því að það hlyti að vera búið að leysa eitt vandamál hans mjög farsællega. Svo fór sá gamli á bakvið, náði í einn hring úr eigu konu sinnar sálugu. Hann gaf hann unga manninum til að færa konunni. “Komdu þér nú af stað og reyndu að halda jólin hátíðleg með fjölskyldunni.” Og þegar drengurinn var farinn sneri hann sér við og sá þá aftur ókunna manninn, umrenninginn. “Hvaðan komst þú? Ég hélt þú hefðir farið.”

“Ég hef verið hér. Ég hef alltaf verið hér,” sagði sá ókunni. “Mér heyrðist þú ekki halda jólin hátíðleg sjálfur. Af hverju ekki?”

“Eftir að Marta dó hef ég ekki haft mig í það. Bara sóun að setja upp jólatré fyrir einn gamlan mann. Og mér finnst of sárt að hugsa til þess að ætla að undirbúa jólin.”

Sá ókunni lagði hendur sínar á axlir Georgs, horfði í augu hans og sagði: “Þú gafst mér mat og kaffi þegar ég kom hér inn kaldur og svangur. Konan sem þú hjálpaðir mun fæða son og hann verður læknir og hjálpar mörgum. Lögreglumaðurinn sem þú bjargaðir á eftir að þjóna lengi enn og bjarga 19 manns frá bana. Ungi maðurinn sem reyndi að ræna þig mun gera þig ríkan. Þú hefur haldið jólin eins gleðileg og hægt er.”

Nú varð Georg hissa. “Hvernig veist þú allt þetta?”

“Treystu mér, Georg. Þekking mín er örugg. Og þegar þú kveður þennan heim, muntu hitta Mörtu þína aftur.”

Nú gekk ókunni maðurinn í átt að dyrunum og baðst forláts. “Þú fyrirgefur, en nú þarf ég að fara heim. Þar er verið er að undirbúa mikla veislu.” Og í þeim orðum breyttust tötrar mannsins í hvítan kyrtil og ljóminn af ásjónu hans fyllti húsið. “Það er nefnilega þannig, Georg, að ég á afmæli í nótt. Gleðileg jól.” Og gamli maðurinn féll fram fyrir hann og sagði stundarhátt: “Til hamingju með afmælið, Drottinn minn!”

Kæri lesandi Kiwanisfrétta, Guð gefi þér og þínum gleðileg jól!