Hér bitist erindi sr. Kristjáns Björnssonar, sóknarprests, sem hann flutti á dagskrá til minningar um 380 ár frá mannránunum í Vestmannaeyjum (tyrkjaráninu) 1627. Einnig er þess minnst að 200 ár eru frá afnámi þrælahalds að breskum lögum (25. mars 1807)

Það er enginn vafi í mínum huga að það er rétt og skylt að minnast jafnan þeirrar sögu sem átt hefur sér stað hér í Vestmannaeyjum í aldanna rás. Það gerðum við öðrum þræði í Landakirkju við guðsþjónustu í morgunn og í göngu Ragnars Óskarssonar fyrr í dag. Við höfum minnst þess með afgerandi hætti á hverju ári hvenær ógn af jarðeldunum á Heimaey linnti árið 1973 síðast um síðustu helgi. Við höfum oft og margvíslega minnst þess að 242 Vestmannaeyingar voru hnepptir í þrældóm af harðvítugum ræningjum árið 1627 og allmargir myrtir í sama strandhöggi. Það er og verður órjúfanlegur hluti af sögu Vestmannaeyja og er án efa sá atburður sem markað hefur hvað dýpstu spor í sögu eyjanna og sögu Íslands. Það er mikilvægt að við minnumst þess sem gerst hefur en það er á sama hátt mjög mikilvægt að skoða vel á hvern hátt við minnumst sögulegra atburða. Við þau tímamót að 380 ár eru liðin frá þessu mannskæða strandhöggi er afar mikilvægt að við látum endurmat okkar leiða til réttlætis á einhvern hátt, t.d. með eflingu uppbyggilegra viðhorfa til framtíðar. Það er nauðsynlegt að við notum tilefnið til að losa okkur við ýmsa fordóma og óréttmæta óvild eða ranghugmyndir, án þess þó að við fáum nokkru sinni breytt því sem gerðist hið örlagaríka ár 1627.

Það virðist vera háttur Eyjamanna að minnast stórbrotinna atburða í sögu sinni þannig að það sæmi stolti samfélagsins. Fara skal rétt með staðreyndir á viðeigandi hátt. Hetjulegra tilburða er minnst með þökk og þá er ekki síður vert að minnast á trúarlegan hátt á þá trú flestra Eyjamanna að Guð hefur haldið verndarhendi yfir byggðinni. Þetta viðhorf kemur afar sterkt fram í minningunni um jarðeldana 1973 enda eru þeir enn í fersku minni mjög margra. Þegar ég sit á áhorfendabekknum við Hásteinsvöll og þannig vill til að fótboltaleikur er við það að tapast eða virðist þegar vera gersamlega tapaður tek ég eftir því að Eyjamenn sitja þar frekar hljóðir. Sterkur svipur færist yfir andlit þeirra og þeir fylgjast grannt með hverri hreyfingu á vellinum. Það eina sem veitt getur stoltu fólkinu gleði er sigur ÍBV. Allt látæði er tilgangslaust ef það virðist ekki vera að takast að vinna leikinn og æðruleysi á heldur ekki við.

Fyrst ég minnist á verndarhendi Guðs yfir byggðinni í Vestmannaeyjum er rétt að minnast þess líka að nokkru fyrir hina mannskæðu hrottalegu árás höfðu aðrir ræningjar farið ruplandi um og skapað ákveðna skelfingu meðal íbúanna. Nægir að nefna John Gentleman til að heyra næstum því varnaðarorð prestanna af prédikunarstóli í öndverðum lútherskum sið á Íslandi. Prestarnir vara við áframhaldandi refsingum af hendi Guðs vegna breytni mannsins. Þeir mála guðfræði hinna síðustu tíma sterkum litum. Kirkjan er eskatólógísk (við lifum hina síðustu tíma) og hér eru næstum því biblíuleg tákn um að efsti dagur er í nánd. Fallvaltleikinn er augljós og þangað sækja þeir myndir, sjálfir undir þeirri sömu raunverulegu ógn. Ræningjarnir eru hér fyrst og fremst táknrænir og nærtækir í þeirri myndlíkingu. Þó er ljóst að bænir og sálmar kirkjunnar í byrjun 17. aldar nefna Tyrkina og Barbara berum orðum og upphátt í helgihaldi safnaðarins. Þeir eru nornin í veröld sóknarbarnanna – hið illa sem varast ber. Ég er ekki viss um að við getum afgreitt þetta sem hleypidóma þeirra tíma. Hér er varla um að ræða trúarlega afstöðu heldur sækir tjáningarmáti hins trúaða manns orðfæri sitt í þær aðstæður að samfélaginu stóð ógn af raunverulegum árásarmönnum. Líklega er hægt að fá aðeins meiri vídd í þetta atriði með samanburði við stjórnmálalegt ástand hér heima, í Danmörku og í þessum heimshluta. Það kemur strax í ljós að ýmsar stjórnvaldsaðgerðir lúta að landvörnum vegna mikillar ógnar sem stafaði af sjóræningjum frá löndum við Miðjarðarhaf og þá ekki síst frá Barbaríinu svokallaða, strandríkjum í Norður Afríku, Algeirsborg, Túnis og Marokkó. Það er ekki hægt annað en virða þær upplýsingar sem liggja fyrir í heimildum. Þúsundum skipa var rænt með manni og mús. Þrælarnir sem teknir voru af þessum sjóræningjum á sjó og landi skipta ekki þúsundum eða tugum þúsunda heldur miklu frekar hundruðum þúsunda ef ekki hátt í milljón manns á árunum 1500 til 1800. Afríkumenn minnast þess ekki hvað síst með miklum létti í ár að liðin eru 200 ár frá afnámi þrælahalds í breska heimsveldinu. En það batt ekki aðeins endi á verslun með afríska þræla yfir Atlantshafið til Norður Ameríku, heldur batt það þá líka endi á þrælasölu og starfrækslu þrælamarkaða við Miðjarðarhafið þar sem verslað hafði verið með hvíta þræla frá ýmsum Evrópulöndum. Ýmislegt bendir til að þetta hafi verið tvö aðskilin markaðssvæði fyrir þræla. Það sem flækir þessa sögu er meðal annars sú staðreynd að mannræningjarnir, þrælasalarnir og þrælahaldararnir í Barbaríinu voru yfirleitt múslímar og þrælarnir úr Evrópu kristnir. Í framhaldi af því sem ég sagði hér áðan legg ég hins vegar áherslu á að trúarleg afstaða þessara aðila er ekki ástæða mannránanna né heldur trú þeirra upphafleg forsenda þrælahalds. Það eru fyrst og fremst stjórnmálin, viðskiptalegar ástæður og lagalegar aðstæður sem ráða þróun þessara mála en ekki trúarbrögðin sem slík. Ég leyfi mér að draga hér fram dæmi úr allt annarri sögu nágranna okkar á Norður Írlandi til að leggja áherslu á þetta atriði, að flokkadrættir og átök sem oft hafa verið skilgreind sem átök kaþólskra manna og mótmælenda (siðbótarmanna) voru til staðar á Norður Írlandi fyrir siðbreytinguna á 16. öld. Á síðari tímum hafa kirkjudeildirnar hins vegar verið notaðar ótæpilega í því skyni að ganga úr skugga um hollustu fólksins við ólíkar stríðandi fylkingar um ólíkan málstað. Átökin eru því fyrst og fremst komin til af pólitískum ágreiningi þótt menn kenni sig síðar við kirkjudeildirnar sem tákn fyrir pólitíska afstöðu í sjálfstæðisbaráttu Írlands.

Satt að segja tel ég að gamla sagan um valdabaráttu, fégræðgi og landsyfirráð hafi lang oftast verið ástæða átaka og stríða enda þótt stríðandi fylkingar hafi oft stuðst við sameiginlegan trúarlegan brakgrunn til að hjálpa til við að skapa einingu og samstöðu hjá samherjunum. Hafa trúarbrögð þá einnig verið notuð til að skapa andúð í garð óvinarins með fordómum og ávirðingum eða til að gera óvininn að einhvers konar öðru fólki. Með trúarbrögðum hefur oft verið sköpuð sú fjarlægð eða fyrring sem ég held að hljóti að vera nauðsynleg til að efla viljann til að ganga milli bols og höfuðs á tilteknum andstæðingi. Það gerist svo á 19. öldinni að menn finna upp þjóðernishyggju og af henni þjóðernisvandlætingu og þjóðernishreinsanir. Þjóðernishyggja 19. aldar virðist í eðli sínu vera upplögð til að kynda undir hliðstæð viðhorf og stuðla að fjandsemi. Raunveruleg ástæða er hins vegar alltaf hin sama og hana er að finna í því eðli mannsins að vilja ráða yfir öðrum, ráða yfir landi og þjóðum og eftir atvikum að ráða yfir þeim auðæfum sem í því felst. En jafnvel þótt við getum kennt þjóðernishyggjunni um margt af því versta sem gerðist á ofanverðri 19. öld og þó sérstaklega á þeirri 20. öld sem enn er í fersku minni, voru þjóðernishreinsanir, þjóðarmorð, stéttarmorð og morð á trúarhópum einnig þekkt löngu fyrir tíma nasistanna, stalínistanna og stríðanna á Balkanskaga svo eitthvað sé nefnt úr sögu Evrópu.

Eitt af því sem oft er nefnt í umræðunni um ræningjana frá Algeirsborg sem komu hingað árið 1627 er orðið Barbari. Upphaflega er orðið myndað úr grísku og er þá Bar Bar. Bar bar þýðir bókstaflega bla bla á íslensku. Barbari þýðir þá Bablari, sá sem bablar eitthvert framandi tungumál sem enginn skilur: útlenskur bablari. Barbaríin eru því lönd þessara bablara og þau hafa verið mörg, ólík og víða um heim. Rómverjar taka upp þetta gríska orð og síðan hefur það breiðst út. Það verður síðan að frekar niðrandi einkunn á þá sem iðka mjög framandi siði og trú. Barbarismi er því hreint ekki upphaflega notað um þá eina sem ekki aðhyllast kristna trú og siði. Samfélög framandi siða hafa lengi verið sett saman í einn flokk út frá þeim heimi sem þekktur er hjá þeim sem skilgreinir það hverju sinni. Þetta er ævafornt og kemur meðal annars fyrir hjá Hebreum fyrir meir en þrjú þúsund árum. Þeir tala um gojim og eiga þá við allar aðrar þjóðir en Hebrea, alla hina. Því miður er það þýtt sem heiðingi í íslensku Biblíunni, þeir hinir sem ekki aðhyllast trú Hebreanna.
En það er líka athyglisvert að þrátt fyrir allt þetta tal um „alla hina sem eru ekki eins og við“ og þrátt fyrir alls konar heimsvaldastefnu og nýlendustefnu er það ekki fyrr en á síðari hluta 20. aldar og í byrjun 21. aldar sem eitt stórt heimsveldi fær beinlínis á sig gæðastimpilinn að vera „hinn mikli Satan“ eins og Bandaríkin eru orðin í augum margra öfgafullra Íslamista. En hinn biblíulegi Satan er yfirleitt túlkaður sem andstæðingur Guðs eða andhverfa hans.

Þegar séra Ólafur Egilsson prestur á Ofanleiti kom upp á meginland Evrópu á leið sinni til að leita lausnargjalds fyrir Íslendingana í Alsír var hann varaður við að fara landleiðina í gegnum Þýskaland. Þar var enn ekki gróið um heilt milli hinna stríðandi afla innan kirkjunnar eftir siðskiptin. Það var beinlínis ekki varlegt fyrir lútherskan prest, auk þess sem hann var þegn Danaveldis og miklir ólgutímar í Evrópu í 30 ára stríðinu. Kom það stríð m.a. á hendur Dönum. Sömu aðstæður urðu líka til að tefja það um þrjá mánuði þetta örlagavor 1627 að herskip Danakonungs yrðu send til að verja siglingaleiðir við Ísland og Færeyjar eins og árin á undan. En það gerði Ísland og Vestmannaeyjar að auðveldri bráð fyrir sjóræningja.

Snemma á 17. öldinni, fyrir tyrkjaránið, var varað við ofríki Tyrkjans í kirkjulegum bænum hér á landi. Þeir eru nefndir þar tyrannar. Fyrir lok 13. aldar misstu krossfararnir Jerúsalem og hið rúmlega tveggja alda gamala ríki sitt, Landið helga, í hendur Tyrkjans svokallaða, en þannig voru þeir skilgreindir sem fylgdu Múhameð spámanni. Í raun reis hér heimsveldi Ottomanna og framrás þeirra varð ekki stöðvuð í bráð. Allri Evrópu stafaði ógn af því sem kallað var harðstjórnarveldi Tyrkjanna. Rennur mér í grun að heiti tyrkjanna hafi orðið ofaná af því að orrusturnar um Litlu Asíu skiptu sköpum. Þar var upphaflega lítill en öflugur þjóðflokkur af mongólskum uppruna að hasla sér völl. Tyrkinn fær á sig óafmáanlega og fjandsamlega mynd í hugum kristinna evrópska manna þegar hann hefur tekið íslamska trú og hefur auk þess með tímanum náð undir sig Konstantínóbel (seinna Istanbúl) höfuðborg hins Bysanska heimsveldis, borginni sem Konstantín keisari hafði gert að einni helstu borg Rómarveldis. Konstantín var ekki aðeins fyrsti kristni keisarinn heldur og sá sem gerði kristna trú að ríkjandi trú Rómarveldis. Yfir þessi mörk öll fer hinn nýi siður Islam og fer mikinn með hervaldi sem var öflugra en nokkuð sem þekkt var í Evrópu. Oft er miðað við árið 1320 sem táknrænt ár um yfirráð Tyrkjanna og þá miðað við yfirráðin yfir Landinu helga og Litlu Asíu og fyrstu skrefunum vestur yfir Bosporussund. Framrásin í norður og vestur var stöðvuð við Vín af pólska kónginum Jan Sobieski á ofanverðri 17. öld en yfirráðin urðu mikil og viðvarandi á Balkanskaga og um mörg lönd hinnar svokölluðu Austur Evrópu um Svartahaf og allar götur upp til Rússlands. Og segja má að það hafi ekki breyst fyrr en Þjóðverjar, Frakkar og Bretar taka löndin fyrir botni Miðjarðarhafsins um 1920 m.a. fyrir ótrúlegt starf Arabíu Lawrence. Múslímskur veruleiki er því ekki nein bóla í Evrópu ef miðað er við þessi 600 ár á þessu víðáttumikla landsvæði. Útbreiðsla Islam náði mun fyrr yfir megnið af Norður Afríku og varð það hluti af áhrifasvæði og veldi Ottomanna. Ekki þekki ég sögu Algeirsborgar allar götur frá þessum tíma eða frá þeim tíma sem okkur er hvað efstur í huga núna; aldirnar fyrir og eftir 1627. En hitt er þó alveg ljóst að þar ríktu múslímar í Algeirsborg og Túnis og Morokkó í skattstjórnarlegu og stjórnmálalegu sambandi við Istanbúl. Þeir virðast lúta sínum eigin lögmálum hvað varðar þrælamarkaði nær óslitið í þrjár aldir, ef reiknað er frá því um 1500 til aldamótanna 1800. Af Evrópuþjóðum urðu það Frakkar sem lögðu svo þessi lönd undir sig beint í suðri og voru það í það minnsta nýlendur þeirra í byrjun 20. aldar. Frakkar fóru að vísu alveg frá byrjun öðru vísi að en Bretar og gerðu þessar nýlendur að nánast sjálfstæðum ríkjum í nokkurs konar ríkjasambandi Frakklands. Það gaf þegnum nýlendanna ríkisborgaralega stöðu um allt franska heimsveldið á ólíkan hátt en hjá öðrum nýlenduherrum.
Áður en lengra er haldið finnst mér rétt að nefna stöðu Islam innan Evrópu í vestri, en það er ljóst að Márarnir taka Pýrenneaskagann, Spán og Portugal strax árið 711. Þeirra framrás varð ekki stöðvuð fyrr en með vörnum Karls Martel í Frakklandi árið 732. Hið múslímska ríki Máranna stóð allt til ársins 1493 eða í nær átta aldir. Það er heldur engin bóla. Nær er að tala um menningarríki því önnur trúarbrögð döfnuðu þar líka við ákveðið frelsi, bæði Gyðingar og Kristnir. Undir Islam var ríki Máranna satt að segja nær því að teljast dyr fyrir ýmsa menningarstrauma, talnareikning og þekkingu inn í Evrópu heldur en hindrun.

Með allri þessari sögu hef ég verið að byggja undir þá kenningu að í nútímanum er staða Islam allt önnur en hún var um aldir í Evrópu. Sjálfsagt hefur nýlendutíminn, sem náði langt fram á 20. öldina, breytt þar mestu fyrir viðhorf samtímamanna okkar en ekki átök eða skilgreining ólíkra trúarbragða. Um aldir er saga Evrópu því mótuð af hinum þremur stóru trúarbrögðum sem öll eiga uppruna sinn í Abraham á einn eða annan hátt, Gyðingar, Kristnir og Múslímar. Ég tel að hægt sé að segja um flest múslímsk ríki og múslímskar þjóðir síðustu hundrað árin að sjálfsmynd þeirra og sjálfstæðisbarátta hafi verið mótuð og mörkuð af baráttu nýlendunnar við nýlenduherrana. Og þegar ég segi þetta er að sjálfsögðu átt við hundruði milljóna múslíma í þeim ríkjum sem allt fram á okkar tíma lutu heimsvaldastefnu kristinna evrópuþjóða. Ef við lítum bara til Alsír þá hafa borgarastríðin þar í landi og barátta til sjálfstæðis á síðustu öld, sem oft var innbyrðis barátta Alsírbúa sjálfra, valdið ólýsanlegum þjáningum og kostað tugþúsundir manna lífið. Engin orð fá lýst þeim harmleik né hversu margir hafa flúið þessi ömurlegu stríð bara í Alsír. Er þá aðeins verið að líta til þeirrar hafnarborgar sem við höfum lagt svo þungan hug til í hálfgerðum biturleika 380 ára minningar um hörmuleg afdrif Íslendinganna 400.

Ekkert fær réttlætt stríð og styrjaldir. Ekkert fær heldur réttlætt það sem kallað hefur verið heilagt stríð. Ég nefni það aðeins hér þótt það tengist á engan hátt mannránunum í Vestmannaeyjum 1627. Jíjhad hefur verið túlkað á ömurlega rangan hátt í gegnum aldirnar og þetta fyrirbæri hefur skotið upp kollinum hjá Gyðingum, Kristnum mönnum og í Islam. Heilagt stríð, eins og öll stríð virðast vera kölluð á okkar tímum, er ekkert annað en herská yfirráðastefna í trúarlegum búningi – eins og úlfur í sauðagæru – sem leitar ekki annars en yfirráða valdagráðugra manna. Þeir höfðingjar eru blessunarlega flestir dauðlegir. Þeir hafa átt það sammerkt að afbaka hið biblíulega heilaga stríð. Það var ófrávíkjanlega einskorðað við varnir landanna gegn innrásarliði og háð því að Guð væri með í verki á einhvern áþreyfanlegan hátt eða að Guð hefði sýnilegan áhuga á því að verja líf fólksins eða landið þeirra. Ég hygg að sögurnar af Davíð og Golíat séu með síðustu sögum um ærlegt heilagt stríð Guðs barna. Strax þegar Davíð varð konungur fór hann að stunda annars konar stríð.

Í tilefni þess að í dagskrá þessari fór hér fram leikrit um uppboð á þrælum í minningu þess sem hinir herteknu Eyjamenn máttu þola og líða fyrir 380 árum, og í minningu þeirra sem létust, skulum við minnast þess að þau mannrán snerust fyrst og síðast um verslun með frelsi manna. Í mörgum tilfellum var ekki um annað að ræða en mannrán sem var best heppnað ef lausnargjald fékkst sem fyrst fyrir hinn hertekna. Margir voru beinlínis seldir til þrælkunnar en ekki er vitað til þess að þeir hafi þó lent á galeiðum sjóræningjanna í miskunnarlausri þrælkun hlekkjaðir við þóftir ræðaranna. Áherslan á lausnargjaldið fyrir hina herteknu og sendiför sr. Ólafs Egilssonar í því skyni að ná þeim lyktum benda til þess að það hafi verið ætlun ræningjanna frá upphafi, í það minnsta með hluta af hópnum. Það tókst ekki nema að litlu leyti, m.a. vegna fjárskorts í Danmörku, af ástæðum sem áður er getið.

Það fer vel á því að við leggjum áherslu á lausnargjaldið í þessari minningardagskrá allri. Þess vegna endaði gjörningurinn eða leikritið á því að þrælarnir voru leystir. Lausnargjaldið gæti verið lykillinn að því sem kalla mætti lausn á því margræða og flókna máli sem hinn hörmulegi atburður leiddi yfir Vestmannaeyinga á sínum tíma. Það gæti verið lausn að leggja algjörlega nýtt mat á það hvaða þýðingu þessi gjörtæki atburður í sögu eyjanna hefur í okkar vitund á okkar tímum. Er ekki kominn tími til að gera það upp og þá um leið að leita þeirrar lausnar sem fólginn er í okkar eigin trúarlega arfi með afli bænarinnar, fyrirgefningar og sáttagjörðar. Það er afl sem er að finna í öllum þremur eingyðistrúarbrögðunum sem mótað hafa okkar vestrænu menningu frá því þau bárust hvert á sínum tíma frá suðupottinum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Ef við byggjum á annað borð á kristinni trúarmenningu ættum við að sjá allt þetta geta orðið eins og í fyrirmynd þess sem sjálfur meistarinn Jesús frá Nazaret gerði. Er ég þar að tala um hvernig hann hafði vald á að fyrirgefa og koma á sáttargjörð þar sem óréttlætið og ómennskan ríkti. Hann sá höftin en veitti frelsi. Það er fyrirmynd þess frelsis sem Vesturlöndin hafa lengi þekkt og virða mæta vel.
Einhvern veginn finnst mér að við ættum að nota 380 ára minninguna til að leita þeirra lausna sem mjög trúlega eru til. Við þurfum að stefna á sáttargjörð við liðna atburði. Við þurfum að stefna að því að verða fjær fordómum og varhug en nær fyrirgefningunni og sáttargjörð við 400 ára minninguna í Vestmannaeyjum árið 2027. Ég hygg að það sé afar hjálplegt að vinna út frá stolti Eyjamanna og lundarfari hins sjálfbjarga frjálsa manns, hinni afgerandi samskiptahefð og hreinskilni og þó allra helst út frá hinni kristnu trú okkar. Hún er algerlega samofin stórbrotinni sögu ólíkra strauma utan úr heimi og sögu samfélagsins hér heima með vitundarvakningu og endurmati frá einum tíma til annars. Í því öllu er lykillinn að lausn og sátt og áframhaldandi frelsi hins kristna manns.

Helstu heimildir:
Norman Davis. Europe East & West. London 2006
Raymond G. Helmick, S.J. and Rodney L. Petersen, editors. Forgiveness and Reconciliation. Religion, Public Policy, and Conflict Transformation. Forword by Desmond M. Tutu. Pennsylvania USA 2002.
Robert C. Davis. Christian Slaves, Muslim Masters. White Slavery in the Mediterranean, the Barbary Coast, and Italy, 1500 – 1800. London UK 2003.
Steinunn Jóhannesdóttir. Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Mál og menning, Reykjavík 2001.
Ólafur Egilsson. Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Almenna bókafélagið, Reykjavík 1969.
Jón Helgason. Tyrkjaránið. Iðunn, Reykjavík 1983.
Sigfús M. Johnsen. Saga Vestmannaeyja 1. og 2. bindi. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1946.