“Orð Drottins varir að eilífu!”
Áletrun á kirkjuklukkunni frá 1617

Efni úr sögu Landakirkju:

Upphafið

Eftir því sem best er vitað hefst saga kirkjubygginga í Vestmannaeyjum árið 1000. Þá reistu þeir Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti kirkju á Hörgaeyri (sjá Kristnisögu) vegna þess að þar komu þeir fyrst að landi í för sinni frá Ólafi konungi Tryggvasyni til Alþingis. Kirkjan var því reist að boði Ólafs og var Stafkirkjan við Hringskersgarð reist árið 2000 til minningar um þá kirkjubyggingu. Sú kirkja er gjöf frá norsku þjóðinni. Kirkja Hjalta og Gissurar var helguð heilögum Klemensi, verndara sæfarenda, og var það sannkölluð kristnitökukirkja. Hún getur talist fyrsta sóknarkirkjan á Íslandi sökum þess að hún var afhent öllum íbúum Vestmannaeyja. Þess má geta að til eru ýmsar tilgátur um Klemensarkirkju.

Kirkjur að Ofanleiti og Kirkjubæ

Síðar, sennilega á 13. öld, voru kirkjur reistar á prestsetrunum að Ofanleiti og Kirkjubæ. Kirkjan að Ofanleiti “Kirkjubæ ofan leitis” er eldri og helguð Pétri, en ekki er vitað hvort það er sú kirkja sem Páll biskup Jónsson skyldi vígja um 1197. Kirkjan á Kirkjubæ var helguð Nikulási og er hún sett af Árna biskupi Þorlákssyni 1269. Áfram er þó þjónað að Klemensarkirkju eins og fram kemur í máldögum.

Fjórar Landakirkjur

Árið 1573 létu sr. Bergur Magnússon að Ofanleiti og Símon Surbech kaupmaður reisa fyrstu kirkjuna að Löndum og var það allstór timburkirkja. Kirkjurnar að Kirkjubæ og Ofanleiti urðu að bænhúsum og er getið um bænhús að Ofanleiti allt til 1860 en bænhúsið á Kirkjubæ var rifið um 1900. Vorið 1924 fannst legsteinn sr. Jóns Þorsteinssonar píslavotts í gamla stæði kirkjunnar, en eftirmynd af steininum stendur nú í Kirkjubæjarhrauni yfir hinu forna kirkjustæði. Kirkjan að Fornu Löndum stóð þar til hún var brennd í tyrkjaráninu 17. júlí 1627. Fjórum árum síðar, 1631, var byrjað á nýrri kirkju sem reist var nokkru lengra upp frá kauptúninu og vestar en kirkjan á Fornu Löndum en var áfram kennd við Lönd. Hún stóð nálægt núverandi sáluhliði kirkjugarðsins, sem þá var suðvesturhluti garðsins. Árið 1722 er byggð þar ný Landakirkja, ekki síst fyrir áeggjan Jóns biskups Vídalíns, sem var sonardóttursonur sr. Jóns Þorsteinssonar píslavotts, og fjölda gjafa og framlaga til kirkjusmíðinnar. Kirkjan frá 1722 hefur ekki verið vönduð smíð því hún stóð aðeins í 26 ár. Árið 1749 er risin ný kirkja á sama grunni kostuð úr konungssjóði en hún hefur heldur ekki verið endingargóð.

Núverandi Landakirkja

Árið 1774 er ákveðið að reisa nýja kirkju úr steini, sem staðið gæti um aldur og ævi. Henni var valinn staður á flötinni vestan við kirkjugarðinn og hafist handa í ágústmánuði 1774 en hún er talin fullgerð 1778. Hirðhúsameistarinn C.D. Anthon teiknaði kirkjuna og er hún einstök fyrir það að á henni er tiltekinn stíll útfærður í smáatriðum. Hún telst vera barrokk-kirkja. Upphaflega var hún turnlaus og sneitt var af burstum. Fyrsta stóra breytingin var gerð á kirkjunni á árunum 1853-60. Þá var reistur lítill turn á kirkjuna og innréttingu hennar breytt þannig að prédikunarstóllinn var settur yfir altarið fyrir miðjum kórgafli. Skilrúm milli kórs og kirkjuskips var fjarlægt. Svalir voru settar vestast í kirkjuna. Árið 1903 varð einnig breyting á kirkjunni er lítil forkirkja var reist við vesturdyr og norðurdyrum var lokað. Síðar á árunum 1955-9 var byggð sú forkirkja og turn sem einkenna kirkjuna í dag. Einnig var lagt yfir steingólfið og nýir bekkir voru smíðaðir. Teikninguna að þessum miklu breytingum gerði Ólafur Á. Kristjánsson, bæjarstjóri.

Alltaf guðshús í 2000 ár

Af aldri guðshúsa að dæma er ljóst að Vestmannaeyingar hafa aldrei verið kirkjulaus söfnuður síðan kirkja Hjalta og Gissurar var reist árið 1000. Og jafnvel hefur eldri Klemensarkirkja staðið hér fyrir þann tíma að ekki sé minnst á goðsögnina um papakrossinn í Heimakletti. Orðin úr Davíðssálmi (119.89)og hjá Jesaja spámanni (40.8), sem rituð eru á klukkuna gömlu eru lýsandi um sögu kirkjunnar í Eyjum, en þau eru orðrétt tekin úr Fyrra Pétursbréfi (1.25): “Orð Drottins varir að eilífu.”

Trúarlíf

Kirkjusaga Vestmannaeyja er viðburðarík og trúarlíf hefur verið fjölskrúðugt. Eyjarnar voru lengi konungseign og vald konungs og umboðsmanna hans hefur verið meira í kirkjumálum en annars staðar á Íslandi. Þess vegna láta kaupmenn oft að sér kveða og leggja kirkjunni mikið lið um aldir. Einangrun Eyjanna og mikilvæg lega þeirra hefur mótað sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni íbúanna í kirkjumálum eins og í öðru. Fyrr á öldum varð þéttbýli meira í Eyjum en víðast hvar á Íslandi og prestar hafa því verið í mun nánari samskiptum við söfnuðinn en gengur og gerist. Það hefur gefið þeim margvísleg tækifæri, sterka stöðu og mikil áhrif í samfélaginu í gegnum tíðina. Vegna nálægðar kirkjunnar við kauptúnið og höfnina í byrjun hafa guðsþjónustur alla tíð verið auðsóttar og kirkjuganga hefur auk þess verið auðveld vegna veðursældar. Sjaldan eða aldrei hefur orðið messufall vegna óveðurs eða ófærðar. Safnaðarlíf hefur m.a. mótast af tíðum skipaferðum og góðu sambandi við lönd í Evrópu. Óhætt er að fullyrða að straumar og stefnur í trúmálum álfunnar hafa haft mikil áhrif í Vestmannaeyjum um aldir. Nægir að benda á sögu mormóna, aðventista og hvítasunnumanna. Einnig má minnast á sögu KFUM&K og hvernig hún tengist Ofanleitispresti og Landakirkju allt frá fyrri hluta síðustu aldar og gerir enn í æskulýðsstarfi safnaðarins.

Safnaðarheimili 1990 og 2005

Kirkjustarfinu hefur fylgt aukin þörf fyrir húsnæði umfram sjálfa kirkjuna. Myndarlegt safnaðarheimili var reist árið 1990 norðan við kirkjuna og er þar safnaðarsalur, eldhús og vinnuherbergi auk snyrtinga og geymslu. Þessi aðstaða er tengd við forkirkjuna með gangi undir stéttinni austur í kirkjugarð. Árið 2005 var lokið viðbyggingu við Safnaðarheimilið í vestur á tveimur hæðum og myndaðist þá einnig veglegt kirkjutorg framan við kirkjudyr. Í viðbyggingunni er m.a. að finna fræðslustofu, sem er stækkanleg inn í safnaðarsalinn, starfsmannaeldhús, fundarherbergi, skrifstofur, lyfta og annað sem þjónar vaxandi safnaðarstarfi.

Prestatal Landakirkju frá 15. öld til 2005

Eins og fram kemur í sögu Landakirkju er fyrsta Landakirkja reist árið 1573. Með konungsbréfi 7. júní 1837 voru Ofanleitis- og Kirkjubæjarprestaköll lögð saman og gerð að einu Vestmannaeyjaprestakalli. Eftir það er oftast talað um sóknarprest og annan prest eða annan sóknarprest. Þekktustu sóknarprestarnir eru án efa sr. Jón Þorsteinsson, er þjónaði Kirkjubæ frá 1612 allt þar til hann var höggvinn í tyrkjaráninu 17. júlí 1627, og sr. Ólafur Egilsson á Ofanleiti, en honum var veitt kallið um 1594. Sr. Ólafi var veitt kallið að nýju eftir útlegðina í Alsír árið 1634 og hélt því til dánardægurs 1. mars 1639. Því miður er þess ekki kostur að rekja að þessu sinni merka sögu þeirra og margra annarra presta sem sóknarbörnunum hafa verið kærir frá einum tíma til annars. Þess í stað var stefnan tekin á að rekja prestatal Landakirkju síðan 1780 eins nákvæmlega og kostur er í þau 225 ár, sem kirkjan hefur staðið. Aðalheimildin er Prestatal og prófasta eftir Svein Nielsson sem Björn Magnússon sá um að búa til prentunar fyrir Hið íslenska bókmenntafélag 1949-51, en auk þess samnefnd bók eftir Björn sem hann gaf út um árin 1950-77. Viðbótin síðan þá er byggð á Guðfræðingatalinu sem gefið var út í Reykjavík 2002 og bréfasafni Biskupsstofu. Yfirleitt er aðeins getið um næsta prestakall áður en hingað er komið, ef presturinn vígist ekki hingað, og eins er aðeins getið um næsta kall á eftir, með örfáum undantekningum. Miðað er við þann tíma sem prestar eru skipaðir í embætti og getið er um setta presta ef setningin var lengri en mánuður.

Kirkjubæjarprestakall

Þeir prestar sem þjónuðu núverandi Landakirkju í Kirkjubæjarprestakalli eru fimm.

Sr. Guðmundur Högnason kom frá Holti undir Eyjafjöllum árið 1742 en hann hafði verið vígður að Holti sem aðstoðarprestur 19. maí 1737. Hann er sóknarprestur hér við vígslu kirkjunnar 1780 en virðist hafa þjónað til 1792 en er dáinn 6. febrúar 1795 þá 82 ára með 55 embættisár að baki.

Sr. Bjarnhéðinn Guðmundsson er vígður hingað 20. september 1778 en tekur ekki við kallinu sem sóknarprestur fyrr en með bréfi 19. nóvember 1791. Hann er því ungi presturinn á Kirkjubæ þegar Landakirkja er vígð. Hann er dáinn 67 ára að aldri 20. október 1821 að afloknum 43 embættisárum.

Sr. Högni Stefánsson er vígður aðstoðarprestur 4. október 1807. Hann fer til Hrepphóla í Hrunamannahreppi 9. sept. 1816 og er þar til dánardags 24. sept. 1837, 66 ára og 30 embættisár.

Sr. Stefán Stefánsson vígist hingað aðstoðarprestur 18. maí 1817. Hann fer héðan að Efri Holtaþingum (Marteinstunga, Hagi, Árbær) 1821.

Sr. Páll Jónsson, sem er fæddur á vígsluári kirkjunnar, kemur hingað úr Efri Holtaþingum 12. maí 1822 sem sóknarprestur (tekur við embætti sr. Bjarnhéðins), og gegnir því til 1837 að kallið er sameinað Ofanleitisprestakalli. Hann er dáinn hér 12. maí 1846, 66 ára að aldri, eftir 27 embættisár.

Ofanleitisprestakall

Sóknarprestar sem þjónuðu í þessari Landakirkju í Ofanleitisprestakalli voru sjö.

Sr. Benedikt Jónsson kom frá Sólheimaþingum í Mýrdal (Sólheimar Ytri og Dyrhólar) með veitingu 12. október 1747. Hann er dáinn í júlí 1781, 77 ára eftir 49 ár í embætti, vígður að Sólheimaþingum 30. nóv. 1727. Hann hefur því lifað að sjá kirkjuna vígða og örugglega tekið þátt í byggingu hennar.

Sr. Páll Magnússon hafði veitingu fyrir Stóra Dal undir Eyjafjöllum er hann var skipaður hér sóknarprestur 24. september 1781 við andlát sr. Benedikts. Sr. Páll hafði verið vígður að Dvergasteini í Seyðisfirði 16. janúar 1769 en ekki er víst að hann hafi flutt að Stóra Dal milli þess að vera sóknarprestur í Seyðisfirði og að Ofanleiti. Hann er í embætti til þess að hann deyr aðeins 46 ára að aldri 24. maí 1789 eftir 19 embættisár.

Sr. Ari Guðlaugsson kemur úr Selvogsþingum (Strönd í Selvogi og Krýsuvík) 19. ágúst 1789 eftir andlát sr. Páls. Hann hafði komið að Strönd frá Stað í Grindavík en vígðist aðstoðarprestur að Görðum á Álftanesi 20. október 1771. Sr. Ari dó hér í embætti 69 ára að aldri 17. júlí 1809, eftir 37 embættisár.

Sr. Jón Arason vígðist hingað 2. júní 1805, tók við kallinu 13. október 1809 og dó hér þrítugur 10. september 1810 eftir fimm embættisár. Hann var fæddur á vígsluári Landakirkju 1780.

Sr. Jón Högnason hafði veitingu fyrir Útskálum í Garði en kom hingað án þess að taka við því kalli frá Ólafsvöllum á Skeiðum 4. janúar 1811. Hann varð 61 árs og dó hér í embætti eftir 34 embættisár 12. október 1825.

Sr. Snæbjörn Björnsson fékk kallið 31. desember 1825 en vígðist hingað 5. febrúar 1826. Hann dó frá embættinu aðeins 26 ára að aldri 17. janúar 1827 eftir tæpt ár í þjónustu.

Vestmannaeyjaprestakall

Sr. Jón Jónsson Austmann var síðastur til að fá veitingu fyrir Ofanleitisprestakalli 19. júní 1827. Hann kom frá Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri, var þar áður á Stórólfshvoli, en enn fyrr vígðist hann aðstoðarprestur að Sólheimaþingum í Mýrdal, 11. október 1812. Sr. Jón varð fyrsti sóknarprestur í sameinaða prestakallinu sem heitir eftir það Vestmannaeyjaprestakall. Tók hann við því við breytinguna 1837 og gegndi því til dánardags 20. ágúst 1858. Hann varð 71 árs og var 45 ár í embætti.

Sr. Brynjólfur Jónsson tók við Vestmannaeyjum 3. ágúst 1860 og gegndi því til dánardægurs 19. nóvember 1884, þá 58 ára, eftir 32 embættisár. Hann kom frá Reynisstaðaklaustri í Skagafirði en þangað hafði hann verið vígður 9. maí 1852.

Sr. Stefán Thordersen fékk veitingu 24. febrúar 1885 og gegndi kallinu til 3. apríl 1889, er hann andaðist 59 ára að aldri eftir 24 embættisár.

Sr. Brynjólfur Gunnarsson vara settur til þjónustu 3. maí 1889. Hann kom frá Útskálum í Garði og fer að Stað í Grindavík sem hann fær veitingu fyrir 10. ágúst 1894.

Sr. Oddgeir Þórðarson Guðmundsen var sóknarprestur með veitingu 29. ágúst 1889 frá fardögum sama ár allt til æviloka 2. janúar 1924. Hans embættistíð varð 49 ár. Þar af var hann sóknarprestur hér í 35 ár.

Sr. Sigurjón Þorvaldur Árnason var settur sóknarprestur frá 5. janúar 1924 og skipaður sóknarprestur frá 1. maí sama ár. Hann var aukaprestur við Dómkirkjuna í Reykjavík 1938 til fardaga að vori 1939. Hann fór héðan þegar honum var veitt Hallgrímsprestakall í Reykjavík frá 1. janúar 1945. Hann hafði áður verið aðstoðarprestur föður síns, sr. Árna prófasts Björnssonar í Görðum á Álftanesi.

Sr. Halldór Kolbeins kom frá Mælifelli í Skagafirði. Hann var skipaður sóknarprestur 14. maí 1945 og fékk lausn frá embætti 1. júní 1961. Sr. Halldór þjónaði síðar Norðfirði.

Sr. Jón N. Jóhannessen, sem þjónað hafði síðast í Stafholti í Borgarfirði þjónaði í forföllum ágúst til október 1953.

Sr. Gísli H. Kolbeins í Sauðlauksdal þjónaði í forföllum 1. janúar til 1. apríl 1954.

Sr. Jóhann Hlíðar, sem var áður á Siglufirði, var settur til aðstoðar á árinu 1954 en skipaður annar sóknarprestur frá 1. júní 1956. Sr. Jóhann fór í Nesprestakall í Reykjavík og var veitt það prestakall frá 1. október 1972.

Sr. Þorsteinn Lúther Jónsson kom úr Söðulsholti í Borgarfirði, skipaður sóknarprestur frá 1. júní 1961. Hann fékk lausn frá embætti frá 31. desember 1976. Sr. Þorsteinn var um tíma settur til að þjóna öðru prestsembættinu ásamt sínu frá 1. október 1972 til 1. febrúar 1973 og aftur á árinu 1975. Embættisár sr. Þorsteins voru 42.

Sr. Karl Sigurbjörnsson var settur annar sóknarprestur frá 1. febrúar 1973 og vígður hingað 4. þess mánaðar. Sr. Karl fór í Hallgrímsprestakall í Reykjavík og var veitt það frá 1. janúar 1975.

Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson var settur annar sóknarprestur frá 1. júlí 1975 og vígður hingað 29. júní 1975. Hann var skipaður annar sóknarprestur frá 1. júní 1976 og settur skömmu síðar til að þjóna embætti sr. Þorsteins ásamt sínu til áramóta það ár. Hann var síðan skipaður sóknarprestur og settur til að þjóna öðru prestsembættinu frá 1. janúar 1977 til ágúst 1991. Sr. Kjartan Örn var skipaður sjúkrahúsprestur við Landakotsspítala í Reykjavík frá 1. ágúst 1991 og síðar við Landsspítala-Háskólasjúkrahús.

Sr. Bragi Skúlason var settur sóknarprestur og aðstoðarprestur frá 1. september 1988 til 15. júní 1989 í námsleyfi sr. Kjartans Arnar. Hann var áður sjúkrahúsprestur í Minneapolis í Minnesota en eftir þjónustuna hér var hann skipaður sjúkrahúsprestur við Ríkisspítalana frá 21. júní 1989.

Sr. Bjarni Karlsson, sem verið hafði aðstoðarprestur við Lauganeskirkju og við fangelsin í Reykjavík, var skipaður sóknarprestur frá 1. september 1991. Sr. Bjarni var skipaður sóknarprestur í Laugarnesprestakalli í Reykjavík frá 1. júní 1998.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir var vígð hingað 29. sept. 1991 og var skipuð aðstoðarprestur (síðar breyttist starfsheitið í prestur) til 1998. Hún gerðist miðborgarprestur í Reykjavík og er nú sóknarprestur í Garðaprestakalli á Álftanesi.

Sr. Þórey Guðmundsdóttir var settur sóknarprestur og prestur frá 15. júlí til 1. september 1998. Hún var áður sóknarprestur í Desjamýrarprestakalli á Borgarfirði eystri en eftir þjónustu hér var hún sett í Garðaprestakalli á Álftanesi um tíma og er núna sóknarprestur á Fáskrúðsfirði.

Sr. Kristján Björnsson er skipaður sóknarprestur frá 1. september 1998. Hann var áður sóknarprestur í Breiðabólsstaðarprestakalli í Vestur Húnavatnssýslu (Hvammstanga). Sr. Kristján fékk leyfi frá 1. september 2003 til 31. ágúst 2004 til að stunda starfsnám í sálgæslu á TGH sjúkrahúsinu í Tampa á Flórída. Hann var settur til þjóna embætti prests hér ásamt sínu embætti í veikindaleyfi sr. Báru Friðriksdóttur 20. febrúar til 31. mars 2000.

Sr. Bára Friðriksdóttir var skipuð prestur frá 1. september 1998 og vígðist hingað 9. ágúst sama ár. Hún var settur sóknarprestur í Hveragerðisprestakalli frá 1. september 2002 og er núna settur héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Sr. Baldur Gautur Baldursson var settur prestur í veikindaleyfi sr. Báru frá 1. október til 20. nóvember 2001. Hann hafði áður verið sóknarprestur á Valþjófsstað á Héraði.

Sr. Þorvaldur Víðisson vígðist hingað 8. september 2002 og var skipaður prestur frá 1. september sama ár. Hann var settur sóknarprestur frá 1. september 2003 til 31. ágúst 2004 í námsleyfi sr. Kristjáns. Sr. Þorvaldur var áður æskulýðsfulltrúi Dómkirkjunnar í Reykjavík.

Sr. Fjölnir Ásbjörnsson var settur prestur frá 1. september 2003 til 31. ágúst 2004. Hann var áður settur sóknarprestur á Sauðárkróki en var settur sóknarprestur í Bjarnanesprestakalli í Hornafirði eftir þjónustuna hér. Hann er nú sóknarprestur á Skagaströnd.

Sr. Guðmundur Örn Jónsson var vígður til prests í Vestmannaeyjaprestakalli í Dómkirkjunni í Reykjavík 1. október 2006. Sr. Guðmundur Örn var settur sóknarprestur 1.ágúst 2015 til 30.júní 2016. Skipaður sóknarprestur frá 1.júlí 2016.

Sr. Úrsula Árnadóttir var vígð til Skagastrandarprestakalls í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi 14.desember 2008. Hún fór í launalaust leyfi frá Skagaströnd í júlí 2012, í framhaldi af því var henni boðin 50% afleysingastaða við Garðaprestakall. Hún sagði embætti sínu lausu frá Skagastrandaprestaklli frá 14.desember 2013. Frá 15.september 2015 til 31.ágúst 2016 var hún í afleysingu í Vestmannaeyjaprestakalli. Veturinn 2016-2017 50% starf í afleysingum í Patreksfjarðarprestakalli. Haustið 2017 afleysingar Hofsós- og Hólaprestakall í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.

Sr. Viðar Stefánsson vígðist til Vestmannaeyja og var skipaður prestur frá 1. október 2016. Viðar starfaði sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ í Reykjavík áður en hann hlaut vígslu en hann lauk guðfræðinámi vorið 2014.

Fyrstu prestar, sem nefndir eru, allt frá miðöldum

Fyrsti prestur sem heimildir eru um á Kirkjubæ er sr. Þorlákur frá því fyrir 1451. Eftir sr. Þorlák koma þeir sr. Snorri Helgason, sr. Gizur Fúsason, sr. Jón Jónsson, sr. Ormur Ófeigsson, sr. Jón Þorsteinsson, sr. Jón Jónsson, sr. Böðvar Sturluson, sr. Árni Kláusson, sr. Oddur Eyjólfsson, yngri, sem varð presta elstur 83 ára og 58 ár í embætti, sr. Jón Oddsson og sr. Arngrímur Pétursson, en hann var næstur á undan sr. Guðmundi Högnasyni. Á Ofanleiti er fyrsti prestur sem vitað er um sr. Páll Hafliðason frá því fyrir árið 1543. Eftir hann koma sr. Halldór Tómasson, sr. Bergur Magnússon, sr. Magnús Svartsson, sr. Ólafur Egilsson, sr. Gísli Þorvarðarson, sr. Ólafur Egilsson aftur, sr. Gísli Þorvarðarson að nýju, sr. Pétur Gizurarson, sr. Gizur Pétursson, sr. Gísli Bjarnason, sr. Illugi Jónsson og sr. Grímur Bessason, en hann var forveri sr. Benedikts Jónssonar.

Sr. Kristján Björnsson tók saman

Helstu heimildir:

  • Saga Vestmannaeyja, e. Sigfús M. Johnsen, Reykjavík 1946.
  • Saga Kjalarnessprófastsdæmis, e. Jón Þ. Þór, Reykjavík 2000.
  • Prestatal og prófasta á Íslandi, e. Svein Níelsson, 2. útgáfa með viðaukum og viðbótum e. Dr. Hannes Þorsteinsson, HÍB 1949-51. Björn Magnússon sá um útgáfuna og jók við.
  • Prestatal og prófasta á Íslandi ásamt biskupatali 1950-1977, e. Björn Magnússon, HÍB 1978. Guðfræðingatal á Íslandi 1847 – 2002.
  • Bréfasafn Biskupsstofu.