Hér fer á eftir prédikunsr. Kristjáns Björnssonar í Landakirkju fyrsta sunnudag eftir þrenningarhátíð 10. júní 2012. Guðspjallið er Lúkas 16, dæmisagan um ríka manninn og Lasarus, um lán og gjafir til fátækra og umlíðun skulda. Það verður ekki séð að dæmisaga Jesú fjalli svo mjög um bilið milli ríkra og fátækra heldur miklu frekar um það hvernig við brúum þetta bil í ljósi kærleika Guðs, en fyrst og fremst er prédikað um þá staðreynd að þrátt fyrir upprisuna hafa ekki allir menn tekið sinnaskiptum enda hlýða þeir ekki Orði Guðs og fagnaðarerindinu um Jesú. Lexían er úr 5. Mósebók 15. kafla og pistillinn er úr 1. Jóh. 4. kafla.

Þú skalt gefa fátækum! – Ríki maðurinn og Lasarus

Við þurfum ekkert að fara í grafgötur með boðskap dagsins, því hann ber allan að sama brunni. Hann fellur undir það sem kallað er kærleiksþjónusta, ávöxtur kærleika Guðs. Nánar má segja að hér fjallað sé um boðorðið: „Þú skalt gefa fátækum.“ Eftir orðum 5. Mósebókar, sáttmálsbókarinnar, er ljóst að okkur er skylt að ljúka upp hendi okkar fyrir hinum fátæku og þurfandi í landinu sem Drottinn hefur gefið okkur. Við lítum svo á að þetta land sem við byggjum sé land sem við höfum sjálf þegið úr hendi Drottins, líkt og lífið sjálft, og því erum við aðeins að gjalda líku líkt ef við gefum þeim sem eru fátækir í landinu sem við höfum þegið af hendi Guðs. Þetta er nú ekkert óskaplega flókið og því hefur það ekki vafist fyrir mönnum að stunda þetta í gegnum tíðina nema þá að sérhygli eða græðgi okkar sjálfra komi í veg fyrir það. Erindi dagsins er ekki svo mikið um bilið milli ríkra og fátækra heldur um það hvernig við getum með kærleikanum brúað þetta bil og verið þannig í kærleikanum hver sem kjör okkar eru.

Það er stundum sagt að þessi eða hinn gefi ekki mikið því hann sé svo mikill Gyðingur. Til er ágæt saga um þetta hér í Eyjum þar sem einhver var nefndur þessu þjóðarheiti vegna þessa að hann þótti eitthvað nískur á fé eða borgaði knappt í laun. Á þá einn ágætur Eyjamaður að hafa sagt: „Nei, það getur ekki verið að hann sé Gyðingur, Eyjamaður í báðar ættir.“ Þetta hefur líka verið notað á þá sem stunda okurvexti í útlánum sínum. Og það þykir mér skondið. Það er nefnilega þannig að Gyðingar, líkt og Arabar og allir Múhameðstrúarmenn, halda í heiðri þetta boðorð um að gefa fátækum. Ölmusugjöfin er þeim svo mikilvæg að lögreglan má helst ekki hirða útigangsmenn af strætum borganna því það er til þæginda fyrir þá sem gefa að hinir fátæku séu jafnan í leiðinni í vinnuna, í bankann eða í matvörubúðina. Fátækir eru alltaf til og því gengur ölmusugjöfin ekki beint út á útrýma fátækt í landinu. Fullyrt er að alltaf verði einhver hluti manna í samfélaginu undir í baráttunni, hljóti örorku eða örkuml sem banni þeim að vinna. Enn í dag verða menn gjaldþrota og það er líklega engin vandi á Íslandi okkar tíma að verða gjaldþrota eða missa fótanna, jafnvel þótt við séum með ríkustu þjóðum heims. Það er því rétt sem segir í 5. Mósebók að aldrei verði fátækra vant í landinu sem Drottinn hefur gefið þér.
Þannig var það líka í græðgisárinu mikla hér rétt fyrir hrun. Þá voru margir fátækir. Nema þá einkenndi það samtíma okkar að fáir gáfu því sérstakan gaum. Fáir voru þeir sem gáfu til innanlandsaðstoðar því samtíminn hafði lokað augunum fyrir neyð náunga síns. Og það var til marks um græðgisár okkar á fyrsta áratug þessarar aldar að litlir sjóðir voru stofnaðir til styrktar fátækum eða þurfandi ef borið er saman við allar þær óraunverulegu upphæðir sem talað var um sem gróða og eignir. Á þeim árum brutu samlandar okkar ekki aðeins boðorðið um ágirnd og ljúgvitni heldur líka þetta skýlausa boð um að gefa fátækum.

Það er til marks um hræsni þegar við ætlum að kenna okurlán og nísku við Gyðinga, þá sem hvorki var heimilt að taka vexti af lánum sínum né láta hjá líða að gefa fátækum, helst á hverjum degi. Ölmusuboð og okurvaxtabann er einmitt það sem einkennir átrúnað Gyðinga, enda voru það kristnir menn sem byrjuðu hina alþjóðlegu bankastarfsemi strax á miðöldum og höfðu ekki í heiðri bannið við okri né ölmususkylduna með sama hætti og Gyðingar. Kristnir menn blómstruðu í hinu rómverska ríki sem bankamenn og gera enn með óhóflegum vaxtamun í lánastarfsemi og áhættufjárfestingum. Og hér í þessu guðspjalli dagsins er einmitt varað við þessu og minnt á kærleiksríkt viðskiptasiðferði. Í dæmisögu Jesú tekur hann þann sem klæðist purpura (dýrasta litnum í fatnaði) og ber hann saman við Lasarusa allra tíma. Og svo bætir hann heldur í og ýjar að enn öðru boðorði sem hljóðar uppá umlíðun skulda, en það kemur fyrir nokkrum versum fyrr. Það var ekki aðeins heimilt heldur skylt að lána þeim sem þuftu lán vegna þess að það er náskylt því að gefa fátækum. Það er ekki meira veð í því láni en svo að ef sá sem lánið þáði hafði ekki greitt lánið til baka á sex árum varð að gefa honum eftir restina því sjöunda árið var umlíðunarár skulda. Það hljómar örugglega einsog skerandi ískur í eyrum lánadrottna okkar tíma en var lengi um aldir bremsa á útlán og lántökur. Ef þetta boð er haft í huga má líta á það sem mesta guðlast að bjóða mönnum að lækka afborgun með því að bæta hluta hennar aftan við lán með lengingu lánstímans. Það ætti auðvitað að benda bankanum á að slíkt er bannað með Guðs lögum þótt það bann hafi að vísu ekki verið tekið alvarlega af kristnum mönnum síðustu alda. Hversu fjarstæðukennd sem slík kenning kann að hljóma í kirkjunni í dag er það umhugsunarvert bann í ljósi þeirra vandræða sem þjóðin hefur komið sér í með útlánastefnu bankanna og einnig í ljósi þess að bankahrun hefur hvarvetna byrjað með því að mörg og stór lán hafa verið veitt án ábyrgðar til kaupa á stærri húsum eða bílum, dýrari en lántakinn hafði nokkru sinni efni á að kaupa. Og hið sama er að gerast með heilu þjóðirnar og það ekki fjarri okkur. Það verður merkilegt að fylgjast með því hversu langt menn láta það ganga að skuldsetja heimili og þjóðarbú án þess að gangast undir þá lausn sem boðin er í lögmáli Móse sem kveður á um eftirgjöf lána eða svokallað umlíðunarár skulda. Fyrr moka menn óskiljanlega háum upphæðum til frekari lána en fella niður þau sem fyrir eru og eru þegar að sliga þessar þjóðir. Það er hættulegur leikur og mun ekki enda með öðru en upplausn þeirra ríkja og tilheyrandi ábyrgðarleysi í stjórnmálum þessara landa. Þar virðast menn búnir að gleyma því sem gerðist í skuldsettu Þýskalandi og leiddi til hinnar mestu helfarar þjóðar og á endanum alls heimsins.

Velmegunarkóngurinn í dæmisögu Jesú, sem lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði, er ekki nefndur á nafn, en það er hins vegar fátæki maðurinn, Lasarus, sem lá fyrir dyrum hans. Það er ekki fyrir það girt að ríki maðurinn hafi gegnt ölmusskyldunni við Lasarus en sagt er að hann hafi þegið molana sem féllu af veisluborðum þess ríka. Ríki maðurinn hefur sennilega ekki brotið ölmusuboðið nema litið sé til þessara miklu andstæðna í fátækt og ríkidæmi í sömu götunni. Helsti lærdómurinn er sá að ríki maðurinn hefur þegar tekið út laun sín og kannski líka sá lærdómur að þótt hann hafi gefið hefur hann ekki gefið í neinu samræmi við ríkidæmi sitt. Þetta var aðeins örlítið klink í lófa Lasarusar sem hinn ríka munaði ekkert um. Það er ágætt að minna hér á eyrir ekkjunnar sem gaf meira en ríki maðurinn því það var aleiga hennar sem hún gaf þótt það væri aðeins einn eyrir. En hér í dæmisögunni er mikil áhersla á umskiptin í lífi þeirra.
Þegar réttlætið hafði náð fram að ganga eftir daga hins ríka og Lasarusar á jörðu varð það tilefni rökræðu milli Abrahams á himnum og þess ríka sem nú brann í þurrum loga heljar. Það er afar merkilegt í þessari dæmisögu að ríki maðurinn virðist koma með ákveðna viðskiptahugmynd einsog það heitir í dag. Áður var þetta kallað að prútta. Nema sá ríki hefur séð að sér og þótt hann sjálfur hljóti ekki nokkra líkn í brennandi þurrum logum í neðra biður hann fyrir þeim sem enn lifa ríkidæmi gróða fjölskyldunnar á jörðu. Hann vill að þeir fái skilaboð og snúi til betri vegar. En Abraham kaupir ekki þessa hugmynd, sem gengur út á að Guð sendi Lasarus upprisinn í hús ríkra bræðra ríka mannsins og vari þá við. Honum þykir það vænt um þá að hann vill ekki að þeir komi líka í þann kvalarstað sem honum var búinn í eilífðinni eftir breytni hans í lifanda lífi. En svarið er í einfaldri mynd byggt á reynslu aldanna og speki Guðs: „Ef þeir hlýða ekki boðorðum mínum láta þeir ekki segjast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“

Þetta er sláandi svar í ljósi þess að þegar í lifanda lífi reisti Jesú vin sinn, Lasarus að nafni, upp frá dauðum og þeir lifðu saman og snæddu saman eftir þetta kraftaverk upprisunnar. Það segir frá því í Jóhannesarguðspjalli í 11. og 12. kafla. Samt létu þeir ekki segjast. Það kom sannarlega í ljós sem segir í þessari dæmisögu Jesú af ríka manninum og Lasarusi.

Það er því von að spurt sé í dag, hvort menn láti segjast sem bæði hafa boðorð Guðs og frásagnir, ekki bara af upprisu Lasarusar, heldur og af upprisu Drottins vors Jesú Krists. Og ekki nóg með það, heldur höfum við líka frásagnir af þeim sem trúðu og byggðu trú sína á upprisu Jesú og trú þeirra sem trúa því að Guð er kærleikur. Að finna það rætast á okkur verða að teljast mikil laun og mikið ríkidæmi.
Við erum sannarlega rík og það er ríkidæmi trúarinnar en í ljósi þess er fátt mikilvægara en það að við verðum líka trú einsog Lasarus, sönn og þar með hólpin að eilífu, vegna vonar og trúar á Jesú, upprisinn Drottinn og Frelsara mannkyns.

Fyrir þá von sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.