Lagt er út af Lúkasarguðspjalli 7.11-17, en það er frásagan af ekkjunni frá Nain og hvernig Jesús reisti son hennar frá dauðum. Í prédikuninni leggur sr. Kristján Björnsson áherslu á að frásögnin snýst öðru fremur um tákn þess að Guð hefur, í Jesú Kristi, vitjað fólksins, sem hann elskar. Koma guðsríkisins er opinberuð í þessu kraftaverki.

Sunnudagurinn 23. september 2007 kl. 14 í Landakirkju

16. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Sr. Kristján Björnsson, sóknarprestur:

Það er ekki laust við að mörg atvik í mörgum litum minninganna komi upp í huga okkar á jafndægri að hausti, sem er í dag. Haustið er eins og samstæða eða andstæða við allar þær myndir sem koma upp í hugann þegar talað er um vorið. Einsog vorið er mynd alls þess sem er að fæðast og hefjast, hvort sem það verður langlíft eða skammært, tákn alls þess sem er ósnert enn og saklaust, stundum reynslulaust og laust við áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut, þá verður haustið að táknmynd þess sem er að hverfa. Hverfulleikinn á sér sterkar myndir í einmana laufi í krónu trjánna sem ofan á einmanaleik sinn hefur brugðið lit. Í slíkum myndum leynist stundum kvíði fyrir vetri sem getur hugsanlega átt eftir að bera með sér ógn inn í líf einstaklingsins, samfélagsins eða náttúrunnar gang. Héðan af verður nóttin lengri með hverjum degi þar til botninum hefur verið náð með þeim stysta. Hugmyndir manna um hrörnun og dauða verða einhvern veginn samofnar horfnu sumri og þeim tvísýna tíma sem í haustinu felst. Við setjum diskinn hans Vivaldi í tækið og leikum Árstíðirnar hans. Þegar kemur að fjórðungnum um haustið gætum við á góðum degi fellt tár í hvert sinn er við heyrum þar laufblað falla og fuglasönginn þagna. Svo leitum við að ljóðstefi um haust og hverfulleika. Við látum það eftir okkur að minnast alls sem í hausti er fólgið leynt og ljóst á einhvern samofinn hátt við eigin reynslu liðinna ára og áratuga allt frá okkar fyrstu bernsku.
Í forneskjunni var alls óvíst hvort nótt hætti að lengjast og dagur hætti að styttast. Það gat eins gengið inn í það óendanlega og dagurinn yrði alfarið tekinn af. Svartnættið gæti hugsanlega borið sigur úr bítum þetta árið. Það var alveg hugsanlegt. Því var hin heiðna hátíð sólarinnar á hinum forneskjulegu jólum með þeim sigurbrag sem var: Sólin var að ná sér aftur, ætla mátti að blótin og fórnirnar hefðu borið tilætlaðan árangur. Og það hélst í hendur við hátíðina á vorin þegar náttúran vaknaði aftur – þegar tókst að vekja hana af löngum og köldum vetrarsvefni sínum. Þannig var maðurinn undir náttúrunni og dutlungum hennar. Hann var ofurseldur þeim hverfulleika og dauða sem heyrðist hvíslað um í gnauði napra haustvinda. Í þessu umhverfi varð hrörnun að kvíða og ótta í lífi þess sem vildi endlega lifa en sá núna að það gat ekki gengið endalaust.

Þannig hafði líka sorgin og óttinn við dauðann á sér annan blæ áður en Kristur stígur fram og mætir manninum á götuslóða í landi fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir tvö þúsund árum síðan. Um leið og ég nefni þann tíma sem mönnum varð fyrst ljóst að spádómarnir um komu Messíasar höfðu ræst í Jesú frá Nazaret, Drottni vorum, veldur það mér enn og æ undrun hversu margir hafa enn fram á þennan dag farið á mis við þessi miklu góðu tíðindi. Það er mér undrunarefni hversu margir gráta enn í þessum heimi, án þess að nokkur von um eilífa björgun, frelsun eða eilíft líf í Guði, bærist í brjóstum þeirra. Gráta án vonar.

Frásögnin í Lúkasarguðspjalli, sem við reynum að nálgast í þessari messu, er einstök hvað þetta varðar. Þarna heyrum við af viðbrögðum fyrstu vitna að þeim atburði er Jesús reisir ungan mann frá dauða. Ungi maðurinn var mikið grátinn af mörgum ástvinum sínum. Hann var einkasonur ekkjunnar frá Nain. Meistarinn finnur til samsömunar við sorg ekkjunnar og á vissan hátt er það skiljanlegt í ljósi þess sem síðar varð við dauða hans sjálfs og hann sjálfur einkasonur. Og hann sér móður sína í ekkjunni frá Nain og það er því engin undrun í því sem segir í textanum, að hann hafi kennt í brjósti um hana. Reynsla hennar snart hann.

Og hann gengur rakleitt til hennar og segir henni að gráta ekki meir. Síðan gengur hann einfaldlega að líkbörunum og snertir þær svo líkmennirnir nema staðar. Við unga manninn segir hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Og það varð að sjálfsögðu eins og hann mælti.

Nú er það einkenni þessarar frásögu að Lúkas gerir ekki neitt með afstöðu ekkjunnar eða nokkura annarra í sögunni og enn síður gerir hann nokkuð úr hugsanlegum tengslum Jesú við fólkið eins og t.d. í sögunni af Lasarusi. Aðalatriði sögunnar liggur þá í öðru en trúarafstöðu fólksins. Við þessa athugun færist öll áherslan á það eina atriði sem skiptir máli, en það er það atriði sem atvikið leiðir ljós: Að Guð hefur komið til fólksins, sem hann elskar, og vitjað þess. Hann hefur gert það á þann hátt sem spáð var fyrir um og áherslan er því öll á þetta eina atriði. Guð er með oss, einsog felst í heitinu Immanúel. Guð er kominn hingað. Hann hefur ekki gleymt fólkinu sínu eða snúið við því baki. Guð er hér mitt á meðal manna. Þetta er meginþunginn í frásögn Lúkasar. Hér birtist Guð almáttugur og hann opinberar sjálfan sig fyrir augum þeirra á mjög sýnilegan hátt. Guðsbirtingin verður um hábjartan dag fyrir augunum á miklum fjölda manna. Í kraftaverkafrásögninni sjá heimamenn í Nain að spámaður mikill er risinn á meðal þeirra því þetta var það tákn sem fylgdi hinum mestu spámönnum á borð við Elía. Og eftir það fara menn að spyrja, líka Jóhannes skírari: „Ert þú sá sem koma skal?“

Svarið, sem enn í dag er svo augljóst var staðfesting á því að allt, sem koma skyldi fram við komu Messíasar var nú komið fram: blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindið. Allt þetta kom fram og á það benti Jesús þeim er spurðu. Meira þurfti ekki að segja því spádómarnir voru allir að rætast í honum. Og það er þess vegna og bara þess vegna sem við eigum von. Og það er engin venjuleg von að eiga von um eilíft líf og frelsun fyrir Jesúm Krist, Drottinn vorn.

Það er ótrúlegt að fjölmiðlarnir skuli ekki vera með fleiri fréttir af framgangi guðsríkis og fréttir af vísitölu vonarinnar. Það er lygilegt hvað fjalla þarf mikið um fjármálin og eignamálin hjá þessari litlu þjóð en lítið um stóru andlegu málin. Það er eins og Þjóðkirkjan sé ekki verðug í þessari umræðu dagsins í dag af því að hún hefur ekki verið að leggja áherslu á milljarðana í krónum. Kirkjan okkar ætti ef til vill að leggja meiri áherslu á umfjöllun um alla þá milljarða manna sem komist hafa til vonar um eilíft líf og til trúar á Jesú Krist í tvö þúsund ára sögu kirkjunnar. Það er víst ekki nein frétt lengur ef enginn er í henni milljarðurinn. En ekkert af þeim tölum um fjölda fylgjenda Drottins eru orðnar úreltar. Og vísitala vonarinnar hefur ekkert lækkað nema hjá þeim sem fallið hafa frá trúnni eða ekki fengið að frétta hin mestu tíðindi allra tíma: Að Kristur er upprisinn. Við eigum ekkert undir því sem heimurinn gefur og ekkert er að óttast undir sólinni, enginn kvíði, engin háski, engin smán, því allt er undir því komið að vera staðfastur í voninni og heitur í trú á Drottinn. Engin ógn, engin freisting, enginn glæpur, ekkert ofbeldi, ranglæti eða ofríki fær því breytt. Ef vonin er björt og trúin hrein og ómenguð af tíðarandanum, verður engin nótt svo dimm að við óttumst hverfulleika haustsins. Við njótum dýrðarinnar á degi, sem Guð hefur skapað þannig að nóttin er til jafnlendar degi og ekkert hallar á krafta himintunglanna tveggja, sólar og mána. Kraftar heimsins eru í jafnvægi og við siglum blíðan byr í krafti heilags anda. Verk Guðs eru sannarlega góð og það sést vel á ögurstundu sem þessari. Það sést vel í ljósi þeirrar björtu vonar sem lýsir á vegi okkar á líðandi stundu.

Fyrir þessa von eilífs lífs sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um allar aldir alda. Amen.