Prédikun sr. Kristjáns Björnssonar á jólanótt í Landakirkju 2009 er um það er spádómarnir rættust um komu Drottins með fæðingu Jesú í Betlehem. Brugðið er á myndmál af fyrstu bólstraskýjum lægðarinnar og hvaða viðbrögð þau vekja, annars vegar hjá þeim er áttu allt í vonum en hins vegar hjá þeim valdhöfum er sáu það ógna veldi sínu í heiminum. Helgi jólanætur er alger enda varð atvikið við lágan stall til þess að umbreyta skilningi okkar á sögu mannkyns.
Guð gefi þér gleðileg jól í ljósi þessa mikla fagnaðarerindis!

Jólanótt og helgin er alger á mestu hátíð kristinna manna. Jólin hafa náð því að verða fullkomnuð í reynslu okkar enn í ár og rennur saman við reynslu margra jóla liðinna ára. Mörgum sinnum hafa jólin verið haldin um víða veröld áður en kom að þessari stund hér í Landakirkju á Drottins árinu númer 2009. Sleginn er samhljómur við allt heilagt og því er sem kirkjuklukkurnar hljómi með hátíðlegra falli en á helgum og öðrum hátíðum kristni. Klukkurnar sem fyrir löngu voru settar upp hér til að kalla söfnuðinn og voru áður í eldri Landakirkjum, einnig til að kalla fólk þeirrar tíðar, eru þó hinar sömu og um aldir. Sú eldri verður brátt fullra 400 ára en sú yngri litlu yngri eða um 266 ára gömul, tæpum fjörtíu árum eldri en sjálft guðshúsið.
Samhljómurinn er ríkur og fagur. Hann ómar af öllum slætti fyrri helgistunda og er það sem allar þær stundir í gleði og raun eigi part í tærum klukknahljómi kirkjunnar. Svo djúp getur þessi tilfinning orðið í lífi kristins manns í Eyjum, að í einni andrá er sem heimurinn standi í stað. Allur asi er eitt augnablik horfinn og við stöndum þá stund uppnumin úr daglegu amstri, kölluð til að íhuga eitt andartak þennan hluta tilverunnar. Hann er heilagur og fagur og bara góður. Þá má í sjálfu sér allt hringnúast, stólar og borð, ef við eignumst eina slíka helga stund, sem tendruð er af ljóma klukknanna.
Áhyggjur hverfa sem dögg fyrir sólu. Hafi bólstraský þokast fyrir birtu geisla sólarinnar – að geilsar hennar kæmust ekki niður á jörð í þessum heimi – er það sem fyrirboði um komandi kraft heilags anda. Það er fyrirmynd af fullri dýrð Drottins. Slík ský eru sem klósigi eða Máríutása á fyrsta himni þess morguns er birta mun af komu Drottins. En þegar við hefjum augu okkar til himins í leit að von í vonleysi, gleði í raun eða kjarki í kvíða, sjáum við í fyrstu ekki lengra upp í himininn en sem nemur gráblikunni. Nema hér er ekki blikuský óveðurs, kvíða og rauna. Í ljósi þess að Guð gerðist maður í Jesú Kristi er fyrstu hnoðrum á háhimni fengin ný merking. Þeir boða vissulega hreyfingu andans, hreyfingu sem lægðardrög fela í sér, en hér er miklu heldur sigling himinskýjanna áfram á efstu braut. Langi okkur að líta til þessarar umbreytingar á daglegum táknum um breytingar í veðri, sem breytingar á skilyrðum okkar lífs, skulum við líta til himins með sömu formerkjum og vitringarnir litu til himins austur í Persíu forðum. Af öllum stjörnum sáu þeir eina sem yrði skærust innan skamms. Ekki sáu þeir þá þegar eina albjarta stjörnu, heldur fyrsta blik af stjörnu sem átti eftir að verða svo björt að hún lýsti öllum heimi. Þeir sjá komu hennar í fyrstu sem fyrsta gráblik. En þeir voru gamlir að ráðum og höfðu víða sýn og háleita þekkingu að leiðarljósi. Þarna var fæðing stjörnu, fyrsta tákn fyrir komu hans, sem spámennirnir höfðu sagt frá í ritum sínum um aldir. Konungur konunganna var að fæðast. Æðstiprestur að hætti Melkísedeks var að fæðast. Friðahöfðingi og ljós heimsins var að fæðast. Það stóð ekki bókstaflega letrað í skýin eða stórum hvítum stöfum á himni. Þeir lásu það úr fyrsta klósigi komandi tíma. Hver gat með nokkru móti vitað þá að koma hans – með fæðingu sonarins – yrði upphaf hinnar mestu sigurtíðar í sögu mannkyns? Það átti allt eftir að koma fram, en var ekki nema í vonum. Það byggðist á aldagömlum spádómum en var um það bil að sjást gerast í fyrstu táknum umbreytingarinnar miklu.
Augu valdhafa heimsins, augu sem engu trúðu, litu líka upp til himins. Þau blindu augu sáu ekki annað en fyrstu bólstra í háloftunum. Það þóttist konungurinn í Jerúsalem vita að vissi á kólguský, þrútið loft og þungan sjó og þokudrungað vor. Já, geygur var svip hans í á þeirri stundu, hans sem hafði ástæðu til að óttast komu Messíasar. Heimurinn og þeir sem stýrðu borgum og löndum og lýðum með harðri hendi heimsvaldhafans grimma sáu ekkert annað en óverðursbakka er fylgja myndu í kjölfar þessarar stálgráu bliku breytinganna. Og þeir brugðust við eftir eðli sínu með valdi og grimmd. Þeir létu hart mæta hörðu gegn því að spádómarnir rættust og konungur lífsins stigi fram.
„Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.“ Höfundur Jóhannesarguðspjalls sér hvernig ástandið var með forystumenn hins útvalda lýðs, sem þó var eign Drottins, börn hans er hann hafði fóstrað í gegnum sút og sæld, yfir eyðimörk og inn í gósenland. Þarna glittir í eina úrslitastundina enn og fyrir því var spádómur líka. Sá spádómur er mjög merkur og lýsir mannssyninum sem líðandi þjóni er almenningur allur gat ekki þolað í návist sinni. Hann skyldi hrakinn úr borginni og frá augliti manna vegna afskræmdrar ásjónu sinnar. Þó var hann mannssonurinn sjálfur. Hann skyldi hrakinn út í buska eins og væri hann syndahafur, hlaðinn syndum íbúanna sem þeir höfðu kastað á hann, sjálfur grandalaus, en hrakinn út fyrir borgarhliðin og út í óbyggðina til að týnast eða farast með þessar syndir, bara ekki snúa aftur með bagga hildar þessa byggðalags. Þannig vildu valdhafar heimsins afgreiða þessa spá, sem þeir litu á sem óveðursspá fyrir sig. Ekki gengi að láta einn nýfæddan barnkonung riðja þeim úr sessi. Þeirra var valdið og þeirra landið og fólkið og allt sem bærðist undir sólinni á þeirra yfirráðasvæði. Þeir, sem einnig stjórnuðu prestunum og guðsdýrkun við musteri Guðs, yrðu að sjá við því að spádómurinn rættist og allt það kæmi fram sem ógnaði þeirra blíðum sessi í eigin velmegun þeirra.
Klósigi komandi aldar var hins vegar fagnaðarerindi í augum allra þeirra er varðveittu spádóma vonar og endurlausnar. Það var von um frelsun frá valdi heimsins en ekki von um annað vald, sem líka yrði afhuga Guði. Það var von um að friðarhöfðinginn og undraráðgjafinn – guðhetjan – kæmi með efsta himni að stofna eilífðarríki Guðs. Þá yrðu þau í þegar í sjöunda himni og stutt í þann áttunda, sem er himnaríkið sjálft. Þá yrði ekki lengur myrkur í landi því sem nú var í nauðum. „Sú þjóð, sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós.“ Spádómurinn var að rætast en til að umbreytingin gæti orðið og frelsunin gengi eftir hlaut að gusta um samfélagið. Þann hvirfil boðaði Máríutásan á himninum yfir Betlehem forðum. Ekki var það með ófriði heldur friði, sem er öllu æðra. Ekki var það með stríðsrekstri heldur með útrekstri hins illa úr heimi mannsins. Nýr himinn rann upp yfir fólkið sem Guð hafði nú kosið að leysa úr ánauð sinni. Of oft hafa kynslóðir manna hert sig aftur inn í ánauð og séð annað í kortunum en frelsun mannsins. Þeir hafa í gegnum tíðina litið framhjá því að með fæðingu Frelsarans skyldu öll harkmikil hermannastígvél og blóðstorknar skykkjur brenndar og verða eldsmatur.
Engan geyg var nú að finna í ásjónu hins gamla þular sem hjá græði sat. Hinn gamli þulur, spámaðurinn Jesaja, sér hvernig vottar fyrir hinu nýja ríki. Það sem gerðist svo í Betlehem var að spádómurinn rættist og Guð birti ríkisáform sín öllum augum sem vildu sjá. Guð og maður voru eitt. Markmiðið var eitt. Viljinn varð einn. Tilveran glóði undir björtu skini Betlehemsstjörnunnar. Hér voru ekki lengur nokkur skil milli þess jarðneska og þess himneska þaðan í frá og að eilífu. Sigur Drottins var alger og því er helgi jólnætur alger enn í okkar lífi.
Fyrir þetta ótrúlega og gertæka fagnaðarerindi Jesú Krists, sé Guði dýrð, fður og syni og heilögum anda.