Söguleg og trúarleg tenging við grundvallaratriði páskanna, steinar sem tala og brauð sem mettar að eilífu. Vorjafndægur og aldur tunglsins og áhrifin á almanak heilu þjóðanna. Fáránlegar birtingarmyndir græðgi og efnishyggju, að eiga ekki tíkall í stöðumæli fyrir Bentleyinn og svindla sér inn á fótboltaleiki. Trúin á upprisinn Frelsara sem leiðir okkur út úr þrælahúsi efnishyggjunnar. Trúin sem ætti að laða fram dyggðir og kærleika í anda Jesú Krists. Skyldi þjóðin læra nokkuð?
Sr. Kristján Björnsson leggur út af Jóhannesi 6.35-51, „Jesús er brauð lífsins“ í föstuguðsþjónustu í Landakirkju 4. sd. í föstu, 22. mars 2009.

Nú er miðfastan og við erum nærri hálfnuð í undirbúningi okkar að hátíð páskanna. Enn syngjum við ekki dýrðarsönginn heldur syngjum lágstemnda föstuguðsþjónustu. Hér er lítið svigrúm fyrir glens. Það er einmitt þannig sem það á að vera á þessum tíma. Enn erum við að íhuga veruleika trúarinnar og lítum það að hluta til í sögulegu ljósi. Hin kristna trúarafstaða er ekki eitthvert hugmyndakerfi eða hugsjónasmíð í heimspekinni. Hún er byggð á raunverulegum atburðum í sögu mannkyns og það er einmitt á föstunni sem við verðum svo áþreifanlega vör við hinar sögulegu rætur trúarinnar. Í stuttu máli sagt erum við að nálgast þann atburð sem gegnir grundvallarþýðingu fyrir kristna trú og sið. Og það er meira, því sá atburður gegnir grundvallarþýðingu í skilningi mannkyns á endanlegum afdrifum sínum.

Söguleg tenging við atburði páska

Í gegnum tíðina hafa menn fjarlægst hina sögulegu tengingu af og til og á hverjum tíma hafa komið fram kenningar sem gera ekki ráð fyrir að hinir sögulegu atburðir hafi átt sér stað í raunveruleikanum. Við höfum gnóstíkera og við höfum Markíonista og við höfum kenningarnar um mýtuna um Krist. Við höfum kenningar um skynveruleika og sýndardauða Jesú og kenningar um samsæri og jafnvel kenninguna um síðustu freistingu Jesú. Og það er merkilegt að fólki finnist líklegt að Jesú hafi einmitt fallið fyrir freistingunni að bjarga sér af krossinum eftir að hafa þó staðist allar freistingar fram til þeirrar stundar, sem sagan kennir. Merkilegt að taka það þá ekki með í reikninginn að ef eitthvað hefði borið út af með dauða Jesú á krossinum eða með upprisu hans út úr gröf sem gætt var af sterkustu hermönnum rómverska setuliðsins í Jerúsalem, hefði það trúlega þótt fréttnæmt, eða hvað? Er ekki líklegt að ráðandi valdhafar í Landinu helga, bæði rómverskir landsstjórar og æðsta ráð Gyðinga, hefði séð hag sinn í því að upplýsa það rækilega og halda um það bækur og skráningar, enda hámenntað lið með háþróðað stjórnkerfi? Um veruleika Jesú er enginn sagnfræðingur tilbúinn að efast, sem á annað borð vill láta taka sig alvarlega. Það gildir um gagnrýnustu sagnfræðinga allra alda að enginn efast um að Jesú hafi verið til og kenndur við Nazaret. Og um hann er fjallað í heimildum langt út fyrir guðspjöll og bréf Nýja testamentis.

Trúarlegur skilningur á upprisunni

Það er hins vegar trúarlegur skilningur okkar að byggja átrúnað kristinna manna á upprisu hans frá dauðum. Við eigum eftir að koma að því betur og betur þegar nær dregur páskum og á hátíðinni sjálfri þegar við söfnumst hér saman árla dags á páskamorgni, fyrir upprás páskasólar. Og fyrst ég minnist á páskasól er rétt að minnast þess líka núna á sunnudegi eftir vorjafndægur, sem var á föstudaginn, hvernig hátíð páskanna er reiknuð út. En reiknireglan var í upphafi byggð á sömu reiknireglu og Gyðingar notuðu til að ákvarða hinn breytilega páskadag sinn, en tók breytingum og var staðfest sem ný regla kristinna manna til að reikna út páska sem upprisudag Jesú Krists. Gyðingarnar fögnuðu á páskahátíð sinni er þeir minntust brottfararinnar frá Egyptanlandi forðum daga, út úr þrælahúsinu, undir forystu Móses, en handleiðslu Guðs. Pasach er hebreska og merkir einmitt brottför, en af því dregið íslenska orðið páskar. Gyðingar ákváðu þá reiknireglu að miða páskadag við fyrstu tunglfyllingu eftir jafndægur að vori. Þá gat hátíð páskanna þeirra borið upp á hvaða vikudag sem var.

Páskar og aldur tunglsins

Skýrir það auðvitað hvernig talað er um það í guðspjöllunum að Jesús frá Nazaret hafi verið krossfestur á páskahátíð Gyðinga á föstudegi. Lengi vel héldu kristnir menn sína mestu fagnaðarhátíð á sama tíma í Landinu helga og páskar Gyðinga voru haldnir. Vitaskuld var hér komin ný fylling í trúarlegt innihald páskahátíðarinnar enda minnumst við þess fyrst og síðast að Jesús reyndist vera Kristur er hann reis upp á þriðja degi frá krossfestingu sinni. Kristnir menn utan Landsins helga minntust upprisunnar á næsta sunnudegi eftir fyrstu tunglfyllingu eftir jafndægur að vori og fljótlega varð sú regla ofaná. Kristur reis enda upp á sunnudegi. Því fylgdi það þeirri þróun að sunndagurinn varð að helgidegi kristinna manna og menn fögnuðu í trú sinni á upprisuna fyrsta sunnudag eftir fullt tungl eftir jafndægur að vori. Það var svo staðfest á kirkjuþinginu í Nikeu árið 325. Síðar, þegar stærðfræðingar náðu betri tökum á útreikningi tunglfyllinganna og tókst að ákvarða vorjafndægur með meiri nákvæmni en áður, varð sú regla ríkjandi um allan hinn kristna heim að halda hátíð páskanna hátíðlega fyrsta sunnudag eftir fyrsta tunglfyllingardag frá og með 21. mars ár hvert. Og er þá engin furða þótt menn tali um hræranlegar hátíðir kristinna manna ef tekið er tillit til þess að sjálf reiknireglan hefur meira að segja hrærst til og tekið breytingum í ljósi stjarnfræðilegra vísinda, útreikning á tunglöldum, gyllinitali, kvartilatali tunglsins og pöktum, sem einstökum hjálpardögum til að ákvarða aldur tunglsins.

Páskar stjórna almanaki þjóðar

Um allt þetta er sjaldan fjallað en þó eru þessi vísindi vel þekkt og mörgum kunn. Af því ræðst sá siður að páskarnir stjórna verulegum hluta af almanaki kristinna þjóða og þar með daglegu lífi alls almennings í landinu okkar, jafnvel þótt ekki séu alveg allir þegnarnir kristnir. Finnst mér við hæfi að rifja þetta upp núna til að sýna fram á að eitt og annað er ekki að breytast í lífi þjóðarinnar þótt gríðarlega margt hafi tekið kollhnýsa og dýfur og snúist á alla kanta í samfélaginu frá því í haust. Kristur er enn hinn sami og við erum enn að miða við einn grundvallaratburð í lífi mannkyns, sem sjá má í dagatalinu okkar. Við þennan útreikning á einum degi miðast allt okkar daglega líf frá bolludegi til hvítasunnu og getur meira að segja ráðið sjómannadegi í Eyjum, en eins og þið vitið ryður hvítasunna sjómannadegi aftur um einn sunnudag ef hvítasunnu ber uppá fyrsta sunnudag í júní. Og hvítasunnudagur er ævinlega reiknaður sjöundi sunnudagur eftir páska, sem kunnugt er. Allar hátíðir þarna á milli eru hinar hræranlegu hátíðir sem ráðast allar af því hvenær við fögnum upprisu Jesú Krists.
En það er rétt að minna á að þótt við tölum um grundvöllinn fyrir útreikningi á páskatungli og páskadegi, er grundvöllur páskahátíðarinnar upprisa Jesú Krists. Sama er að segja um grundvöll kristinnar trúar, því ef Kristur er ekki upprisinn er engin trú. Þá er það bara siðabálkur eða hugmyndafræði um almennan skilning á kærleika og friði. En fyrir upprisuna er trú á lifandi Drottinn og von um eilíft líf. Á upprisunni hvílir sú trú sem trúir því að við lifum þótt við deyjum, lifum að eilífu fyrir það verk sem hann vann á krossinum, en þó fyrst og fremst fyrir sjálfa upprisuna og merkingu hennar.

Steinar sem tala og þytur í laufi

Nú talaði Drottinn um sig sem hyrningarstein, steininn sem smiðirnir höfnuðu, að hann væri orðinn að þeim steini sem öll byggingarlist í musteri Guðs hvílir á. Steinninn er líka tákn sem tengist á vissan hátt páskum bæði hjá Gyðingum og kristnum mönnum. Hjá Kristi er það steinninn í hinu nýja musteri hins upprisna Frelsara. Hjá Móses er það steinninn sem boðorðin tíu voru letruð í. Hjá Kristi er það steinninn sem hrópar og talar ef fólkið hefði þagnað í lofsöngnum á pálmasunnudag. Hann sagði þessa berum orðum að ef fólkið hætti að syngja hósanna, hósanna, myndu steinarnir hrópa það í staðinn. Þetta vísaði til þess er gerðist hjá Móses. Það skýrist í því að til forna þótti það mikið undur að hægt var að skrá boðskap í letri á stein. Og þegar einhver las það sem var höggvið í steininn var haft á orði að steinninn talaði. Það er skýringin á þessu fyrirbæri að steinarnir tali. Fagnaðarerindið um Jesú Krist var ekki aðeins skrifað í hjörtu mannanna heldur stóð það ritað í stórum stöfum á hverjum steini og hvarvetna í þeirri náttúru sem Guð hafði sjálfur skapað. Öll náttúran stynur og það syngur í hverjum hól, það þýtur í laufi trjánna og hvíslast um grasið og ómar sem hófadynur af sléttunni eða bergmál af kletti að Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.

Brauðið sem er og mettar

Jesús er brauð lífsins. Af himni féll líka brauð sem var ósýrt líkt og brauðið í síðustu kvöldmáltíð Drottins, fyrirmyndin að heilagri altarisgöngu hjá okkur æ síðan. Hann er lífsins brauð, sem er þeirrar sortar að þann hungrar aldrei sem neytir þess, ekki frekar en þann þyrsti sem drekkur lífsins vatn. Hann er. Og hann er eins og hann var og verður um eilífð.
Það er mikil deyfð og það er mikil harðúð ef trú á slíkan frelsara hefur ekki áhrif á breytni okkar og daglegt líf. Mikið ólán er það ef trú á svo mikinn Drottinn hefur ekki afgerandi áhrif á hjartalagið og sálarlífið og mótun einstaklingsins yfirleitt. Og það er mikil synd ef það spretta ekki fram dyggðir af sjálfu sér í lífi þess manns er trúir á Jesú Krist, sem Drotttinn og eilífan frelsara. Mikil synd er það ef það verður ekki til þess að umbreyta lífi þess er trúir og hreinlega skapa honum ný lífsgildi.

Að eiga ekki í stöðumæli fyrir Bentleyinn sinn og svindla sér inn á fótbotaleiki

Í sjálfu sér ætti að vera meiri jarðvegur núna á líðandi stundu fyrir boðun kristinnar trúar og endurnýjun hugarfarsins hjá þeim sem trúa. Enn eru þau gildi að falla sem við höfum lagt traust okkar á í ríkari mæli en áður. Stoðir efnishyggjunnar eru margar brostnar og því ætti það stress og sú girnd að vera á undanhaldi sem fylgdi mesta efnishyggjuskeiði mannkynssögunnar, því er náði hámarki á Íslandi eftir aldamótin og fram til ársins 2007. Nú er komið í ljós að hinir ríkustu landar okkar áttu ekki einu sinni skiptimynt í stöðumæla í miðborg Londonar. Svo rammíslensk var þessi útrás kaupahéðnanna okkar að hún lítur núna út fyrir að hafa verið einn risavaxinn sólarlandapakki á VISA raðgreiðslum.
Það verður spennandi að sjá hvort við lærum nokkuð af þessu skipbroti efnishyggjunnar sem er trúlega ekki enn farið að sjást í sinni allra fáránlegustu mynd ennþá. Jafnvel þótt það sé fáránleg birtingarmynd hinnar sjálfhverfu efnishyggju að eiga ekki einu sinni tíkall í stöðumæli fyrir Bentleyinn og hafa ekki átt fyrir miða á fótboltaleik. Það er æpandi fáránleiki að þeir, sem hampað var sem ríkustu mönnum Íslands, svindluðu sér inn á fótboltaleiki með því að greiða ekki fyrir lúxusstúkur sínar. Mikill er hégómi þess lífs er treystir á það sem sýnist vera auðlegð og mikið er gott að það er komið í ljós hvað þetta var mikill sýndarveruleiki og plat.

Lærir þjóðin eða fær hún sér aftur VISA rað?

Það verður spennandi að sjá hvort þjóðin lærir eitthvað á þessum tíðindum öllum eða hvort hún er enn verr sýkt af sömu veiki og áður, og fari því bara að skipuleggja næstu sólarlandaferð á VISA rað. Það verður spennandi að sjá hvort íslensk þjóð muni dusta rykið af gömlum traustum gildum kristinnar trúar og taka upp breytni í anda háleitra og andlegra dyggða. Það verður spennandi að sjá hvort hún kastar núna skurðgoðum efnishyggjunnar, kastar hégóma og hafnar ágirndinni. Það á enn eftir að koma í ljós, því enn er öll umfjöllun bundin við eignir og fjármál og efnahag ríkis og þjóðar. Enn eru peningar oftast í fréttum.

Iðrun á föstu og Guð mun vel fyrir sjá – alltaf

Við skulum vona að iðrunartími föstunnar hafi eitthvað að segja og fólk finni hjá sér hvöt til snúa við blaði og helga líf sitt að nýju því sem eilíft er. Enn er bara miðfasta, enn er tími til afturhvarfs. Megi þessi tími og allar harðar áminningar um hverfulleika og sáran missi hinna efnahagslegu gæða verða okkur að lærdómstíma lífsins. Fyllum líf okkar þeim boðskap sem boðar fagnaðarerindið um hinn lifandi Drottinn, upprisinn frelsara og eilíft líf. Helgum okkur því og látum segjast. Fáum okkur góða kviðfylli af því lífs brauði sem Drottinn er og drekkum í okkur boðskap hans um kærleika, frið og eindrægni. Upphefjum dyggðir og alla þá hugsun og breytni sem fylgir í slóð þess er fylgir Jesú Kristi. Tökum fagnandi á móti honum inní allt okkar daglega líf. Aðeins þannig á þessi þjóð von um nýja og betri tíma og sannið til að þá mun Drottinn vel fyrir sjá, þegar honum er treyst í einu og öllu. Setjum aldrei framar traust okkar á heiminn en allt okkar traust á Guð og lofum hann. Það er leið út úr vanda og út úr hverju þrælahúsi sem verða vill og uppá það hljóðar fagnaðarerindið um Frelsara mannkyns, alltaf. Amen.