Þegar foreldrar og yfirvöld sinna ekki skyldum sínum gagnvart börnum og unglingum aukast líkurnar á að ungmennin upplifi harmleik í lífi sínu.

Það er grátlegt að margir unglingar skuli ekki fá tækifæri til að læra að skemmta sér án áfengis. Stærsta ástæða þess er að fyrirmyndirnar vantar. Það er harmleikur þegar unglingar upplifa fyrstu kynlífsreynslu sína í annarlegu ástandi í annarlegu umhverfi, og kannski með einhverjum sem unglingurinn þekkir ekki mikið.

Kannski eru flestir fullorðnir hér í Eyjum ábyrgðarfullir og rækja skyldur sínar vel gagnvart börnum sínum og unglingum. En það er vitanlega erfitt þegar margir hlaupast undan merkjum þegar mest á reynir. Það gilda ekki aðrar reglur á Þjóðhátíð varðandi umönnun og umhyggju fyrir börnum og unglingum. Reglur um útivistartíma og áfengisdrykkju eru þær sömu þá og á öðrum tímum.

Við þurfum að standa saman til að börnin okkar og unglingarnir fái tækifæri til að læra hvað lífið er fagurt. Mig langar til að biðja að við hjálpumst öll að við að gefa þeim tíma og ramma til að upplifa tilveruna í takt við sinn aldur og þroska. Ég vona og bið að við stöndum öll saman á komandi þjóðhátíð og gerum hátíðina að sannri gleðihátíð. Gleðilega komandi þjóðhátíð.

Í Guðs friði,
Sr. Þorvaldur Víðisson (6. júlí 2005)

Skráningar í Prestsþjónustubók Ofanleitissóknar í júní eru eftirfarandi:

Skírnir í júní voru þrjár:

  • Halldór Páll, sonur Huldu Sumarliðadóttur og Victors Friðþjófs Guðnasonar, var skírður á heimili sínu 4. júní. Hann er fæddur í Vestmannaeyjum 8. maí 2005.
  • Sunna, dóttir Þóru Hrannar Sigurjónsdóttur og Daða Pálssonar, var skírð í Landakirkju á sjómannadaginn 5. júní. Hún er fædd í Vestmannaeyjum 31. maí 2005.
  • Kári Steinn, sonur Þóru Hallgrímsdóttur og Helga Bragasonar, var skírður í Landakirkju 25. júní. Hann er fæddur 23. maí 2005.

Hjónavígslur í júní voru tvær:

  • Kristborg Einarsdóttir og Rickard Martin Peterson gengu í hjónaband í Landakirkju 25. júní. Þau eru búsett í Svíþjóð.
  • Cecilie Ingeborg Ruud og Trond Hilmo gengu í hjónaband í Stafkirkjunni 26. júní. Þau eru búsett í Noregi.

Dánir í júní voru fimm:

  • Ásta Haraldsdóttir fv. verslunarkona lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 2. júní. Útförin fór fram frá Landakirkju 11. júní. Ásta var fædd í Reykjavík 26. október 1914.
  • Sigurður Ármann Guðmundsson fv. verkamaður lést að hjúkrunarheimilinu Eir 5. júní. Útförin fór fram í Reykjavík en jarðsett var í kirkjugarði Vestmannaeyja 18. júní. Sigurður Ármann var fæddur í Vestmannaeyjum 3. janúar 1927.
  • Erla Jóhanna Elísabet Gísladóttir fv. verkakona og húsmóðir lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 7. júní. Útförin fór fram frá Landakirkju 18. júní. Erla Jóhanna Elísabet var fædd í Vestmannaeyjum 26. október 1927.
  • Kristín Helgadóttir fv. saumakona lést á Hraunbúðum 10. júní. Útförin fór fram 18. júní. Kristín var fædd 6. nóvember 1918.
  • Arndís Egilson húsmóðir lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 14. júní. Útförin fór fram frá Landakirkju 21. júní. Arndís var fædd í Reykjavík 3. apríl 1942.