Nú þegar skólarnir eru komnir í gang byrjar lífið í félagsstarfi um allan bæ. Engin undantekning á því er upp í Landakirkju og er vetrarstarfið nú að fara á fullt. Kirkjan hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á vetrarstarf barna og unglinga og verður starfið nú enn öflugra en áður enda hefur aðstaðan verið bætt til muna og nú er svo komið að hægt er að vera með fleira en eitt í gangi í einu.

Prestar báðir, sr. Kristján Björnsson og sr. Þorvaldur Víðisson hafa unnið að skipulagningu vetrarins ásamt öllu því góða starfsfólki og sjálfboðaliðum sem koma að starfinu. Fréttir náðu tali af sr. Þorvaldi sem segir að í ár verði örlitlar breytingar á starfinu. „Nú getum við haft fleira í gangi í einu og ætlum við okkur að nýta aðstöðuna til hins ýtrasta.“Sunnudagarnir verða þeir dagar sem mest er að gerast í starfi kirkjunnar og ættu nú allir meðlimir fjölskyldunnar að finna eitthvað við sitt hæfi á hinum helga degi. Við verðum með sunnudagsskólann á sama tíma og venja er, klukkan ellefu um morguninn og er einvala lið sem heldur utan um sunnudagaskólann. Nú verður sú breyting á að við ætlum að vera með kirkjuprakkarastarfið á sama tíma niður í Safnaðarheimili,“ sagði Þorvaldur og útskýrði nánar hvað felst í prakkaraskapnum og hverjir eru þar í aðalhlutverkum. „Við hugsum okkur þetta þannig að yngri börnin verði upp í kirkju í sunnudagsskólanum með foreldrunum eða öðrum en eldri börnin (6-8 ára) fari niður í prakkarastarfið. Reyndar er hugsunin að allir byrji upp í kirkju, við kveikjum á kertum, biðjum og syngjum þar saman og síðan fari eldri börnin niður. Þar ætlar Vala Friðriksdóttir að stjórna starfinu í vetur ásamt leiðtogum, sem gengur út á að allir fái að njóta sín á sínum eigin forsendum. Það verður farið út í leiki, lesnar biblíusögur og jafnvel búin til leikrit og fleira.“ Þorvaldur segir að þau vilji færa kirkjustarfið meira inn á sunnudagana en á síðasta ári var kirkjuprakkarastarfið í miðri viku. „Þá upplifðum við okkur svolítið í samkeppni við íþróttafélögin og jafnvel Tónlistarskólann. En sunnudagurinn um og fyrir hádegi er frír að mestu við slíka samkeppni, enda hinn eiginlegi kirkjudagur.“ Síðan er það TTT hópurinn svokallaði en skammstöfunin stendur fyrir tíu til tólf ára krakka og verður það starf einnig á sunnudögum kl. 12:30, á eftir prökkurunum og á undan hinni hefðbundnu sunnudagsmessu klukkan tvö. Þorvaldur segir bætta aðstöðu breyta miklu fyrir starfið og bjóða upp á enn meiri möguleika. ,,Kirkjurtorgið sem hefur myndast framan við kirkjuna og nýja viðbyggingu Safnaðarheimilis er kannski táknrænt fyrir það að við viljum að fólk geti safnast til kirkju og fundið ýmislegt við sitt hæfi.”

Mömmumorgnar verða á sínum stað klukkan tíu á fimmtudagsmorgnum og síðan blómstrar kórastarf sem aldrei fyrr. „Það má segja að það séu fjórir kórar starfandi við kirkjuna og hreifst biskupinn okkar, hr. Karl Sigurbjörnsson mikið af þeim öllum þegar hann kom hingað síðasta vor að blessa nýja húsið. Barnakórastarfið er í góðum höndum þeirra Guðrúnar Helgu Bjarnadóttur og Joönnu Maríu Wlaszczyk. Æfingar verða á miðvikudögum og einhverja laugardaga einnig. Við höfum Litlu lærisveinana sem munu koma fram nokkrum sinnum í vetur í sunnudagsskólanum og svo er Stúlknakórinn sem mun koma tvisvar til þrisvar fram að áramótum syngja með kór Landakirkju í sunnudagsmessu og einnig við önnur tækifæri. En tónlistastjóri kirkjunnar og organisti er sem fyrr Guðmundur H Guðjónsson. Auk þessara þriggja kóra er svo kaffihúsakórinn starfandi, þannig að hér er öflugt kórstarf enda eigum við hér marga hæfileikaríka tónlistarmenn.“

Nýr fermingarárgangur er að taka til starfa eins og venja er og verður ýmislegt í boði fyrir unglingana. Æskulýðsfélagið mun starfa á miðvikudagskvöldum í Landakirkju og Tensing starf verður í KFUM&K heimilinu á mánudagskvöldum. Umsjón með unglingastarfinu hafa þær Hulda Líney Magnúsdóttir og Hjördís Kristinsdóttir. Æskulýðsstarf fatlaðra á einnig sinn stóra sess í dagskrá kirkjunnar.

Sú nýung verður í boði í vetur að biblíuleshópur verður starfandi, og hefst það starf fimmtudagskvöldið 29. september. Framhaldsskólanemar geta þar tekið virkan þátt og fengið sína þátttöku og sitt starf metið til einnar einingar í Framhaldsskólanum hér í Eyjum.

Fleira verður á dagskrá að sögn Þorvaldar, til að mynda tólf spora vinna, andlegt ferðalag, sem hefst mánudagskvöldið 12. september kl. 20 og ýmis námskeið og fræðsla. Kvenfélagið Landakirkju starfar einnig í hverri viku og eru víst ávallt laus sæti fyrir áhugasamar konur til þátttöku. Hvetur hann Eyjamenn til að kynna sér starfið og hlakkar til að sjá sem flesta Eyjamenn í kirkjustarfinu í vetur.

(Í Fréttum birtist ofangreint viðtal, en mikið vantaði þar inní, þess vegna er það hér birt í heild sinni)

sr. ÞV