Hér á Íslandi er enn verið að fjalla um ástandið í Írak, og ekki vanþörf á. Umræður á Alþingi hafa snúist um hvernig hægt sé að koma til móts við þarfir kvenna, barna og gamalmenna í Írak eftir innrás, bráðabirgðastjórn og nú síðast ,,lýðræðislegar” kosningar. Þörf umræða.
En á meðan ræða Bush Bandaríkjaforseti og Rice utanríkisráðherra hvort ekki eigi örugglega að ráðast inn í Íran vegna hættu á ógn þaðan.

Hvernig væri nú fyrir okkar litlu þjóð að taka upplýsta ákvörðun um að styðja frið og mótmæta stríðsrekstri? Við eigum að hætta að taka þátt í olíu- og hagsmunastriði og heimsvaldastefnu Vesturlanda. Við eigum að horfa til framtíðar og taka afstöðu gegn árásarstríðum.

Ég var að lesa áhugaverða bók um daginn: ,,Píslavottar nútímans, samspil trúar og stjórnmála í Írak og Íran” eftir Magnús Þorkel Bernharðsson. Það er margt áhugavert sem kemur fram í þeim skrifum. Meðal annars ýmis atriði um heimsvaldastefnu Breta og Bandaríkjanna á 20. öldinni. Rætur þessara þjóða sem nú búa í þessum tilbúnu löndum Íraks og Írans, og þann yfirgang sem almenningur hefur þurft að þola frá Vesturlöndum alla síðustu öldina. En einnig það, að af þessum menningarsvæðum er hægt að læra margt.

Það segir í spádómsbók Mika þar sem spámaðurinn horfir til framtíðar er Drottinn sjálfur mun ríkja: ,,Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smiða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.”

Slíka sýn ættum við að hafa, því friður verður aldrei unnin með ofbeldi og yfirgangi, hvort sem það er í utanríkismálum eða í öðrum samskiptum fólks.

Í Guðs friði,
Sr. Þorvaldur Víðisson
Prestur Landakirkju.

Skráningar í prestsþjónustubók Ofanleitissóknar í janúarmánuði voru eftirfarandi:

Skírnir voru þrjár í janúarmánuði:

  • Guðbjörg Sól, dóttir Fríðu Hrannar Halldórsdóttur og Sindra Óskarssonar, var skírð í heimahúsi 2. janúar. Hún er fædd í Vestmannaeyjum 21. september 2004.
  • Ragnar Orri, sonur Ásu Hrannar Ásmundsdóttur og Ingimars Ágústs Guðmarssonar, var skírður í Landakirkju 8. janúar. Hann er fæddur á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi 6. nóvember 2004.
  • Gústav Þór, sonur Fannýjar Yngvadóttur og Kristjáns Þórarinssonar, var skírður í Landakirkju 23. janúar. Hann er fæddur í Ódense 13. nóvember 2004.

Hjónavígsla var ein skráð í prestsþjónustubók sóknarinnar.

  • Sæunn Stefánsdóttir og Kjartan Örn Haraldsson, gengur í heilagt hjónaband í Kópavogskirkju þann 8. janúar síðastliðinn. Þau eru búsett að Reynimel 46 í Reykjavík.

Andlát voru fjögur skráð í prestsþjónustubók sóknarinnar.

  • Ingólfur Arnar Þorkelsson, fv. skólameistari, lést á Sótúni í Reykjavík þann 3. janúar síðastliðinn. Útförin fór fram frá Kópavogskirkju 11. janúar og jarðsett var í Gufuneskirkjugarði. Hann var fæddur 23. janúar 1925.
  • Gísli Hjartarson, fv. loftskeytamaður, lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þann 5. janúar síðastliðinn. Útförin fór fram 12. janúar og jarðsett var í Vestmannaeyjum. Hann var fæddur 8. desember 1927.
  • Brynheiður Ketilsdóttir, fv húsmóðir, lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þann 11. janúar síðastliðinn. Útförin fór fram 22. janúar frá Landakirkju og jarðsett var í Skeiðflatarkirkjugarði í Mýrdal þann 23. janúar. Hún var fædd 4. ágúst 1907.
  • Elín Loftsdóttir, fv. verslunarkona og húsfreyja, lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 22. janúar síðastliðinn. Útförin fór fram 29. janúar og jarðsett var í Vestmannaeyjum. Hún var fædd 5. mars 1922.