Reglulegt helgihald er gott fyrir sálina. Gunnar Nelson segir að styrkurinn liggi í rútínunni. Við erum sammála því að það er styrkur okkar í trúnni að sækja reglulega helgihaldið í kirkjunni okkar. Sunnudagurinn 14. september er dæmi um reglulega góða guðsþjónustu. Barnaguðsþjónustan er kl. 11 og eftir hádegi er guðsþjónusta kl. 14. Það verður lögð áhersla á góðan söng og tónlistarflutning. Fagmenn í hverju hlutverki. Gítaristarnir eru Gísli Stefánsson og Jarl Sigurgeirsson og oft koma fleiri tónlistarmenn í barnaguðsþjónustuna og allt uppí fullskipað Sunday School Party Band. Kitty Kovács, organistinn í Landakirkju, og Kór Landakirkju leggja alúð við æfingarnar og syngja núna sálma úr nýjustu sálmabókinni sem kom út 2013. Þar eru mörg falleg ný lög og ætlum við að heyra hvernig þau gera messuna að innihaldsríkari en áður í bland við gamla góða sálma.

Það er einnig rétt að vekja athygli á því að fermingarbörnin eru heldur betur að setja mark sitt á helgihaldið í vetur með brúðuleikriti í barnaguðsþjónustunni og upplestri úr Heilagri Ritningu í reglulegu guðsþjónustunni. Það er að byrja einmitt núna á sunnudag.

Verum öll vakandi yfir því að mesta gleðin í guðsþjónustu hvers sunnudags er þegar fjölgar í kirkjunni. Og það eru gömul sannindi að hver og einn getur hæglega fjölgað um einn með því einu að mæta til leiks og vera kannski bara fulltrúi fyrir heimili sitt eða fjölskyldu eða vini og njóta þess sem hefur verið undirbúið vel og byggir sannarlega upp.