Því miður hafa mistök verið gerð við innslátt og skráningu fermingarbarna þetta vorið og biðst sóknarpresturinn afsökunar á því. Það hefur hins vegar leitt til þess að listar sem félög hafa sent út þarfnast leiðréttingar og af sömu sökum vantar mynd af einu fermingarbarnanna í fermingarblaði Eyjafrétta, Alexanders Andersen. Síðustu leiðréttingar voru svo settar inn í gær.

Til að eyða óvissu og misritun á fermingarkveðjur og -skeyti er öllum sem vilja fylgjast með og finna réttan dag bent á að fletta upp leiðréttum opinberum lista hér á heimasíðu Landakirkju undir „Fermingarfræðsla“ og þar undir „Fermingarbörn 2014“. Ritstjóri Eyjafrétta hefur einnig ákveðið að birta lista fermingarhópanna fyrir hverja helgi í prentuðu útgáfu blaðsins og birta í vefútgáfunni myndir af hverjum hópi fermingarbarna fyrir hverja fermingarhelgi. Öll viljum við gera dag þeirra sem hátíðlegastan og fá að heiðra börnin er þau vinna heilög heit í söfnuðinum.

Ein helsta ástæða þessara mistaka er tilraun með nýtt fyrirkomulag á listanum á nýjum vef Landakirkju og svo líka innsláttur sóknarprestsins. Um leið og ég bið hlutaðeigandi afsökunar á þessu óska ég eftir því að foreldrar og forráðamenn láti vita núna fyrir þessa helgi ef enn leynast misfellur í þessum lista, ritun nafnanna eða breytt heimilisfang eða nokkkuð annað. Allir þeir sem útbúa fermingarskeyti eru einnig hvattir til að hafa samband við presta Landakirkju áður en skeytin verða útbúin og fara eftir opinberu útgáfunni hér á vefnum og í Eyjafréttum.

Með kærri kveðju, afsökun og blessunaróskum, Kristján Björnsson.