Fjörtíu árum eftir fermingu aldarinnar í Skálholti hittist hópurinn aftur með fermingarföður sínum og messaði í Landakirkju sl. sunnudag. Fjölmenni var og góð stemning, prédikun Karls biskups Sigurbjörnssonar var persónuleg og var mikil gleði yfir endurminningum ekki síður en sjálfu fagnaðarerindinu. Árgangurinn var með árgangsmót þessa helgi og var sammælst um að koma til messu með Karli biskupi en hann mætti með konu sinni, Kristínu Guðjónsdóttur, og þjónaði líka fyrir altari með prestum Landakirkju, sr. Kristjáni Björnssyni og sr. Guðmundi Erni Jónssyni. Fulltrúar úr árganginum lásu lestra. Það voru þær Sigurlín Guðný Ingvarsdóttir og Drífa Kristjánsdóttir.
Þennan sunnudag, 23. maí 1973, voru um hundrað börn fermd sama daginn í tveimur fermingarguðsþjónustum og var kaffiboðið sameiginlegt á eftir. Tveir prestar voru þá í Vestmannaeyjum og messuðu þarna saman, en gamli presturinn var sr. Þorsteinn Lúther Jónsson. Minntist Karl biskup sr. Þorsteins með þökk og hlýju. Aðstæður voru allar mjög sérstakar vegna jarðeldanna sem geysuðu þá enn á Heimaey en það er mál manna að þetta hafi verið hin besta lausn að halda fermingarbúðir á Flúðum og ferma í Skálholtsdómkirkju enda jafnan mikil tengsl milli Skálholts og Vestmannaeyja söguleg og eignaleg, enda Landakirkja í Skálholtsstifti.