Ég var spurður að því um daginn hvaða nýjungar yrðu í safnaðarstarfinu í vetur og ég svaraði að bragði að kirkjan ætlaði að hafa sól í september. Þetta er gamalt orðatiltæki um að bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, en þó er þetta samt loforð uppá eitthvað sem er í vonum en við ráðum ekki miklu um. Svarið mitt er ekki alveg út í hött því endurnýjun í safnaðarstarfi og nýjungar eru mjög háðar því að fólk sæki kirkju og þætti safnaðarstarfsins. Þannig endurnýjast það af sjálfu sér og þannig hefur kirkjan stöðugt nýtt fyrir stafni.

Á sólríkum septemberdögum lítum við með gleði til þess sem getur orðið að uppbyggilegu kirkjulegu starfi. Barnaguðsþjónustan er hafin og verður hún klukkan ellefu alla sunnudagsmorgna fram að jólum og eftir jól til loka apríl, en lýkur með vorhátíð. Messan, eða almenna guðsþjónustan, verður klukkan tvö á sunnudögum. Fyrsta messan í september var helguð fermingarbörnum vetrarins og var það góður hópur sem mætti og átti fund um fermingarfræðsluna í Safnaðarheimilinu á eftir. Fermingarfræðslan ef hafin og er á þriðjudögum og miðvikudögum.

Þennan sunnudag, 8. sept., kemur Karl biskup Sigurbjörnsson og prédikar og er vænst góðrar þátttöku sóknarbarna. Árgangurinn sem hann fermdi í Skálholti 1973 mætir og heilsar uppá fermingarföður sinn og lesa fulltrúar þeirra úr Ritningunni, en allir eru velkomnir.

Fimmtudaginn 5. sept. hófust mömmumorgnar kl. 10. Sunnudagskvöldið 8. sept. er fyrsti fundur í Æskulýðsfélagi Landakirkju í Safnaðarheimilinu kl. 20. Mánudaginn 9. sept. hefst kirkjustarf fatlaðra kl. 17. Mánudaginn 16. sept. hefst Tólf spora andlegt ferðalag Vina í bata kl. 19.30. Kór Landakirkju er byrjaður reglulegar æfingar á fimmtudagskvöldum kl. 20. Aglow verður með fundi sína fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði og byrjaði 4. sept. Gideon verður með fundi fyrsta þriðjudag í mánuði og byrjaði 3. sept. Kvenfélag Landakirkju verður með reglulega starfsemi og eru nýjar félagskonur velkomnar. Tilraun verður gerð með barnakór með nýju sniði og verður það auglýst.

Tvo miðvikudaga í mánuði kl. 11 eru helgistundir á Hraunbúðum en það er allt árið, auk einnar guðsþjónustu á sunnudegi. Á sjúkrahúsinu verða aftur teknar upp helgistundir á dagstofunni annan hvern fimmtudag kl. 14.30 og byrjar það 5. sept.

Þegar líður á haustið verða auglýstar tónlistarmessur og tónleikar. Einnig verður boðið uppá biblíulestur og eitt og eitt fræðsluerindi með umræðum. Einnig hefst undirbúningur að minningu um sr. Hallgrím Pétursson, en á næsta ári verða liðin 400 ár frá fæðingu hans.

Varðandi kirkjusókn má benda á að það myndi auka hana mest ef þeir sem mæta af og til myndu ákveða að taka þátt í einni guðsþjónustu oftar en árið áður. Fjöldi sóknarbarna er það mikill að ef þeir sem taka þátt í guðsþjónustu einu sinni á ári kæmu tvisvar myndi það stórauka kirkjusókn. Það myndi einnig auka kirkjuvitund. Þá er og rétt að benda á að ekki þarf sérstakt tilefni til að koma til kirkju annað en koma og njóta næðis, spaklegra orða Biblíunnar, góðrar tónlistar og gleðilegra frétta af framgangi fagnaðarerindisins.