Lagt er út af guðspjalli Lúkasar, 18.31-34, en hér er farinn langur inngangur að undri upprisunnar á þriðja degi. Á þeirri leið er fjallað all mikið um mannhelgina og hina heilsusamlegu hlið föstunnar, sem færir okkur nær Guði, og hvernig það minnir okkur á það er Guð gerist algjörlega nálægur í þjáningu mannsins minnstu barna.

Sunnudagur í föstuinngangi – Konudagurinn 2007

Sr. Kristján Björnsson. Lk 18.31-34.

Úr prédikuninni:
Guð er ætíð í morgunskímu hverrar gleðistundar í lífi mannsins, lyftir honum upp þegar á bjátar, heldur í hönd þeirra sem þjást, gengur á veginum með þeim sem eru uggandi um vegferð sína, heldur í hönd og horfir í augu þess sem er smáður, einmitt á þeirri stund sem hann er að bugast, svo að enginn brákaður reyr verði brotinn, enginn dapur kveikur slökktur, ekkert líf verði smánað algjörlega.

Ég vil byrja á því að ítreka hamingjuóskir mínar til kvenna með konudaginn, eins og ég gat um í upphafi guðsþjónustunnar. Þetta er merkisdagur sem á sér djúpar rætur í íslenskri menningu og þá ekki síst í sálarheimi karlmanna, sem sumir taka þetta mikið inná sig. Má segja að eiginmönnum hafi verið hjálpað mjög mikið þegar blessuð blómin voru fundin upp. Og svo hefur það líka hjálpað mikið hvað öll tjáning hjónaástarinnar hefur fengið staðlaða ímynd á þessum degi, s.s. að útbúa morgunverðinn fyrir eiginkonuna og allt þetta, sem ekki er aðeins viðeigandi heldur er almennt talið viðunandi framlag af hálfu karlanna. Það er nokkur þversögn fólgin í því að maðurinn, sem hikar ekki við að fórna fjármunum og jafnvel veraldlegri stöðu sinni fyrir konuna, í það minnsta í frægustu ástarævintýrunum, er næstum ófær um að gefa henni nokkru sinni nógu mikið með hugmyndaauðgi eða rómantík. Svona erum við bara þótt við förum sjálfsagt batnandi. Og vonum þá að konum finnist að með batnandi mönnum sé best að lifa. En í þessum óði til kvenna verð ég að segja það eins og er að einmitt núna hljótum við að hugsa til þeirra kvenna sem eru í hörku vinnu á vertíðinni einmitt núna á þessum degi, enda spyrja vaktir ekki að vikudögum þegar Drottinn er að gefa okkur svona mikið af góðri loðnu.
Víða um heim eru haldnar kjötkveðjuhátíðir á þeim tímamótum sem felst í föstuinnganginum, en hann stendur yfir núna. Í dag er sunnudagur í inngangi föstunnar og síðan tekur við hin mikla kveðjuhátíð fyrir allar veraldarinnar lystisemdir. Það er bolludagur og sprengidagur. Við úðum í okkur bollunum af því að við erum að kveðja þessi sætindi um tíma og eins er það með þungar kjötmáltíðir. Við kveðjum kjötið með því að sprengja okkur við kjötátið. Þetta er nokkuð ýkt en svona er það.

Víða um heim hefur kjötkveðjuhátíðin farið upp í hæstu hæðir með dansi og glensi, búningum, vögnum og skrúðgöngum sem vitnað er til um allan heim. Margt slæðst þar með því það er eins og menn séu að keppast við að kveðja alla ósiði á einu bretti ef marka má fjölda ofbelisverka, morða, líkamsmeiðinga, nauðgana og rána sem framin eru á stærstu kjötkveðjuhátíðum þessa heims. Í norðanverðri Suður Ameríku eru þessar hátíðir hvað stærstar og fyrirferðamestar en um leið hefur það gerst að þær missa tengsl sín við raunveruleika kirkjuársins, föstuinngangsins, sem ég minntist á í upphafi. Okkar bolludagar og sprengidagar eru hátíð sakleysingjanna við hlið hinna stóru alvarlegu neysluhátíða. Þetta kemur í ljós ef við spjöllum við kirkjunnar fólk af þessum eyjum sem eru hvað frægastar fyrir kjötkveðjuhátíðirnar. Þeir kannast ekki lengur við sambandið þarna á milli og kannast ekki við að hátíðarhöldin eigi svo mikið sem uppruna sinn í sögu kirkjuársins. Íbúarnir, sem vilja halda trú sinni og sómakennd fara einfaldlega úr borgunum og hverfa í þorpin til fjalla meðan ósköpin ganga yfir. Það sama gera þeir reyndar æði oft þegar skemmtiferðaskip leggja að, því víða blundar í hugskoti ferðamanna löngun til að sleppa fram af sér beislinu og halda helst sína kveðjuhátíð lystisemdanna í hvert sinn er þeir stíga á land í Suður Ameríku, á hvaða tíma ársins sem er. Þeir skeyta því ekki um allt það sem njóta má í saklausri undrun og skoðun þess er virðir allt og virðir þá um leið alla mannhelgi að fullu. Það er vert að minnast þessarar stöðu kvenna í öðrum löndum, á konudegi. Það er ekki allsstaðar verið að færa konum blóm og morgunverð uppí rúm, einsog hér gerist á hverju heimili – býst ég við.

Það hefur lengi verið til siðs að kveðja lystisemdirnar áður en gengið er inn á tíma föstunnar, gengið er í það að iðrast og sýna verklega yfirbót. Fara þó engar sögur af slíku ofboði hjá Móse, né heldur hjá Jesú, en báðir föstuðu þeir dögum saman sem þekkt varð. Maður sem ætlar að hefja megrunarátak gerir sennilega ekki best í því að raða í sig kræsingum kvöldið áður en átakið hefst. En hitt er sennilega enn fyndnara þegar við röðum í okkur krásum án þess að ætla nokkuð að kveðja hátíðarmatinn.

Það er nokkuð merkilegt að skoða af hverju við ættum að fasta og neyta okkur um ákveðinn mat þótt við séum ekki vön því. Ég hef sjálfur lent í því á ráðstefnu úti í heimi, að vera allt í einu búinn að fá nóg af öllu því fiskmeti, endalausum fiskihlaðborðum og fiskisúpum, sem boðið var uppá dag eftir dag – sannkallað lostæti samt. En þegar ég renndi ljúflega niður fyrsta bitanum af ljúffengri hálfblóðugri nautasteikinni sem ég pantaði mér á veitingarstað ráðstefnunnar, rann um leið upp fyrir mér að ráðstefnan var haldin á föstunni. Það skýrði þennan landburð af fiski sem ráðstefnuhaldarar höfðu lagt á borð. Þannig hendir það sjálfan prestinn ykkar að klikka illilega á föstunni og fyrst blessaður presturinn gleymir sér svona, er ekki furða þótt sóknarbörnin gleymi sér líka. Föstusiður er ekki útbreiddur hér á landi hvað varðar mat. Það hefur sjálfsagt verið einhvern tíma, en fyrst hæsta verð fæst fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum einmitt á þessum tíma, hefur það auðvitað ekki þótt búmannlegt að snæða þannig frá sér dýrmætið. Það hefur þótt nær að borða fisk á öðrum tíma þegar hráefnið er ekki í hæsta verði á erlendum mörkuðum. Vona ég að mörgum finnist þetta þægileg afsökun fyrir því að hafa ekki fastað uppá hvítt í gegnum árin hér í útgerðarplássinu í Eyjum, en það hét að fasta uppá hvítt, þegar föstumaturinn var aðallega mjólkurafurðir og fiskur, en í seinni tíma einnig hrísgrjón og þess háttar. Sjálfsagt mætti líka með góðu lagi telja hvítfuglinn með í þessum kúr.

Við ættum að geta staðið saman um svo jákvæða neitun sem í því felst að láta það missa sig, sem við þó eigum eða höfum átt. Það tengist reyndar því sem haldið er fram, að heimurinn getur eiginlega ekki samhryggst eða fundið til samhyggðar nema við jákvæðan missi. M.ö.o. má segja að heimurinn getur aðeins samhryggst með þeim sem missir, en finnur ekki eins til samhyggðar með þeim sem skortir, hvað þá ef hann hefur aldrei nokkru sinni átt það sem honum er vant. Ég er hræddur um að heimurinn hafi fundið mest til samúðar með þeim sem misstu ástvini og glæsilegt líf við strendur Indónesíu þegar Tsunami flóðbygljan gekk þar yfir á annan dag jóla um árið, en minna hafi farið fyrir samúð í garð þeirra sem átt höfðu ekkert í fátækt sinni í fátækustu þorpunum er þar fóru undir. Þannig er mannlegt eðli og því betur sem við áttum okkur á mannlegu eðli, því betur erum við klár í það verkefni að skilja stöðu okkar sem heilagt fólk frammi fyrir Guði okkar.

Það er einmitt í föstunni sem við skiljum best hvernig það er að nálgast það líf að vera með Guði. Í Íslensku Hómelíubókinni er þetta orðað svo fallega af trúmanni sem fastaði og skildi af hverju það var gert, en það var einhvern veginn í þessa veru:
Nú er komin tíð sú, er þægileg er Guði til yfirbótar synda vorra, og eru nú komnir heilsudagar. Nú skulum vér bæta oss í mikilli þolinmæði.[1]

Þarna erum við komin æði nærri tilgangi föstunnar en það er samt hægt að ganga enn innar. Með því að finna á okkur sjálfum þann skort sem við skömmtum okkur og stjórnum, getum við búist við því að finna á sjálfum okkur þá smlíðun sem maður getur átt með kröppum kjörum annarra, en ekki síst að finna þannig örlítið sýnishorn af skorti annarra. Það er frekar erfitt fyrir okkur sem allt eigum og allt höfum við hendina – lifum í allsnægtum – að þykjast vera stöðugt að ímynda okkur bága líðan annarra.

Með þjáningu sinni á krossi, og píningu, sem blasir nú við í þessum fyrsta almenna aðdraganda páskanna, á inngangi föstunnar, erum við minnt á það sem hann gerði. Við minnumst þess að hann lét manninn ekki þjást í synd sinni einan og yfirgefinn. Hann kom til mannsins þar sem hann var í kröm og dauða og veikindum sínum og veikleika, í stöðu hins synduga manns. Hann horfði ekki bara á hann og kenndi í brjósti um hann né heldur lét hann manninn afskiptalausan. Guð greip inn í gang sögunnar og greip inn í verlferðarsögu mannsins. Ekki með því að hrinda í burtu öllu því illa sem að manninum steðjaði. Ekki með því að steypa varnarbrynju um manninn eða setja hann í sótthreinsandi búninga, heldur með því að stíga inn á rykuga götuna og ganga með manninum spölkorn á ævinni. Með því að ganga inn í kröm og þjáningu, veikleika og veikindi, og gera manninum þar með kleift að standast feistingar og standast álagið í þessum heimi – með því gaf hann manninum það hugrekki í trúnni sem hann þarf svo mikið á að halda til að standast þau spjótalög sem hann verður fyrir með því að vera á lífi. Fastan er einn góður kafli ársins til að minna sig á þau gæði að Guð er ætíð í verki með þér. Guð er ætíð í hverri sorg og mæðu. Guð er ætíð í morgunskímu hverrar gleðistundar í lífi mannsins, lyftir honum upp þegar á bjátar, heldur í hönd þeirra sem þjást, gengur á veginum með þeim sem eru uggandi um vegferð sína, heldur í hönd og horfir í augu þess sem er smáður, einmitt á þeirri stund sem hann er að bugast, svo að enginn brákaður reyr verði brotinn, enginn dapur kveikur slökktur, ekkert líf verði smánað algjörlega. Allt er það vegna þess sem Mannssonurinn gerði og þess sem hann leið í samlíðun sinni með öllum mönnum – börnum þessa heims. Og mannhelgi okkar eigum við einmitt vegna þess að Guð gerðist maður og varð ekki aðeins mönnum líkur, heldur gekk í gegnum allt það sem hver af minnstum bræðrum og systrum geta þurft að ganga í gegnum og að lokum er hann gekk í sjálfan dauðann. Hann gerði það allt fyrir okkur og okkur er því hollast að íhuga þetta, íhuga stöðu mannsins, íhuga stöðu okkar sem menn með mönnum, karlar jafnt sem konur á þessum degi gjafarans. Þá munum við sjá það undur sem Drottinn hefur sett upp svo það blasi við augum okkar, undrið sem hann kom svo haganlega fyrir milli mannsins og trúarinnar á Guð, undrið sem á leiða okkur inn í heim trúarinnar. En þetta undur er sannarlega sjálfur Jesús Kristur, Drottinn vor og frelsari allra manna, og undrið mesta er upprisa hans á þriðja degi. Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.