Á fyrsta sunnudegi í aðventu, 3. des. leggur sr. Kristján Björnsson út af Lúkasi 4.16-21, en það er þegar Jesús les úr Ritningunni í Nazaret og velur kaflann úr Jesaja: „Andi Drottins er yfir mér …“ og segir: „Í dag hefur þessi Ritning ræst í áheyrn yðar!“

Kirkjuklukkum er í dag hringt um allt land í tilefni þess að á fyrsta sunnudegi í aðventu hefst hin formlega eftirvænting jólanna. Það er ræs!

Fólk fer í flokkum til kirkju um allt land í dag af því að fyrsti sunnudagur í aðventu er að verða einn af betri kirkjusóknardögum ársins þótt hann slái auðvitað seint út allra stærstu dagana okkar um jólin. Víða er efnt til aðventuhátíða og við heyrum um þennan eða hinn sem flytur hugvekju. Það hafa skapast ágætar hefðir í helgihaldi á þessum degi víða og líka um næstu daga og fyrstu vikur aðventunnar. Í flestum stöðum er verið að minna á það hvað orðið merkir og rekja hvernig aðventa ber mót sitt af “adventus Domini” eða “komu Drottins”.

Víðast er þó gleðin mest yfir þeirri eftirvæntingu, sem kveikt er í brjóstum okkar allra, þegar kveikt er á fyrstu ljósum aðventunnar, og við minnumst þess hvernig þessi eftirvænting eykst með hverri peru og týru, sem bætist við. Mættum við jafnvel snúa merkingunni á fallegu ljóðinu yfir á þessa eftirvæntingu og segja með Árna úr Eyjum: “og brjóstin ungu bifast af blíðri þrá.”

Í ljóði hans “Vor við sæinn” er vissulega verið að lýsa eftirvæntinunni “í vorsins unga blæ”. Allt er nýtt en þó er enn allt í vonum. Það sama á við um þennan tíma í árshring trúarlífsins, því nú er eitthvað alveg nýtt að gerast og hefjast sem jafnframt felur í sér allt sem við eigum í vændum. Eftirvænting vorrar nýju vonar einkennir þennan dag, því nú er að hefjast nýr tími, en samt vísar þessi dagur á það sem í vændum er. Dagurinn er eins og dyr inn í nýja heima og þar með er aftur komin samlíkingin við vorið.

Það er þó margt sem greinir þessa daga að, því með komu vorsins þurfum við ekki annað en ganga út í gættina og draga djúpt andann til að finna sönnun þess að vorið er að taka völdin með nýjanál og angan af kviknandi lífsmagni jarðarinnar. Í gær var þó ekki örgrannt um að slík endurvakning jarðarinnar væri einmitt að eiga sér stað eftir því hvernig ylmur lá í lofti við þýðuna.

Myrkrið er þó enn alls ráðandi og daginn er ekki enn tekinn að lengja. Úti í heimi geysa enn stríð og enginn getur séð fyrir endann á því mikla blóðbaði sem við heyrum af í nær hverjum fréttatíma. Ef við vissum ekki betur gætum við fengið það á tilfinninguna að myrkur næturinnar væri að ná yfirhöndinni og að lokum yrði ekki eftir neinn dagur eða birta af degi. Ef við vissum ekki betur gætum við haldið að friður kæmist aldrei á í löndum þar sem barist er núna á líðandi stundu. Jafnvel hin óhljóðamestu bardagadýr lýjast og þurfa á hvíld að halda. Ef við vissum ekki betur gætum við haldið að aldrei yrði hægt að brjóta á bak aftur ok harðstjóranna og binda enda á kúgun manna. Blessunarlega eiga einræðisherrar það líka til að deyja eins og við hin. Blessunarlega munu harkmikil hermannastígvél og blóðstroknar skykkjur verða brenndar, en meðan þessi stríð eru enn að geysa er eins og sá fagnaðarríki boðskapur sé óraunverulegur með öllu. Ef við vissum ekki betur gætum við haldið að plágurnar sem þjaka allan fjöldann í heilu löndunum úti í heimi muni á endanum breiðast út og eyða öllu mennsku lífi og hverri þjóð af annarri en aldrei nema staðar. Það væri vissulega í eðli drepsóttanna að breiðast út í hið óendanlega líkt og virðist vera með eyðni í mörgum ríkjum Afríku.

En jafnvel þar sem plágan virðist vera á hvað mestri og harðastri yfirreið er einnig að finna viðnám og vonir í brjóstum manna. Eftirvæntingin deyr aldrei og hún er ekki aðeins til staðar þar sem vorar fyrir öllu því sem við væntum. Eftirvæntingin er slíkt afl hið innra með okkur að jafnvel þótt ekkert bendi til þess að niðadimma dagsins eða hamsleysi hernaðarátaka eða miskunnarleysi drepsótta muni hætta framrás sinni, jafnvel við slíkar aðstæður getur eftirvæntingin tekið að ríkja.

Í sjálfu sér var ekkert sem benti til þess að Guð allsherjar myndi ganga svo langt að koma niður á þessa jörð sjálfur og knýja á dyrnar hjá hverjum manni og við gætum tekið undir með þessum fagnaðarsöng: Sjá, konungur þinn kemur til þín. Hvað þá að við heyrðum hvíslað utan af stétt: “Sjá, ég stend við dyrnar og kný á!” Ég veit satt að segja ekki hvort Drottinn er kominn nær mér en hallast þó heldur að því að hann hljóti að vera nær mér og mínu húsi þegar hann segist standa við dyrnar og meira að segja að knýja á þær. Það er vissulega nálægur boðskapur sem hreyfir við mér, þegar ég fæ þær gleðilegu fréttir að konugurinn minn sé að koma og það skapar sannarlega eftirvæntingu í hverju hjarta þegar slíkar fréttir eru sagðar. En það er enn áþreifanlegri eftirvænting þegar ég þarf ekki annað en opna dyrnar og hleypa góðum gesti inn til að neyta með mér málsverðar í þessu lífi og dvelja hjá mér. Vonin hefur næstum fengið staðfestingu sína og trúin við það að öðlast fullvissu sína.

En við þennan gleðilega boðskap er því að bæta að koma Guðs felur í sér algjöra endurnýjun fyrir okkur, eða eins og Jeremía segir svo fallega um stríðshrjáða borgin Jerúsalem: Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju. … Og ég hreinsa þá af allri misgjörð þeirra.”

Koma konungsins er mikilfengleg og raungeving fagnaðarboðskaparins er áþreifanlegur atburður í lífi manna, sem eiga við margt að stríða.

Þegar ég minnist komu konungs, kemur upp í huga minn þetta atvik, þegar við vorum að vígja Stafkirkjuna á steikjandi heitum sumardegi árið 2000. Barnakórinn okkar Litlir lærisveinar, höfðu stilt sér upp og biðu komu konungsins norska og ekki var eftirvæntingin minni fyrir það að drottningin var einnig með í för. Og mikil urðu vonbrigðin þegar þeim var sagt að það væri þessi þarna á dökku jakkafötunum sem væri kóngurinn og þau höfðu ekki einu sinni veitt honum eftirtekt meðan þau voru á útkíkkinu eftir þeim sem hlyti að koma skikkjuklæddur og að minnsta kosti með kórónu – og drottningin var ekki einu sinni í kjól! Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað eftirvæntingin hafði orðið að mikilli spennu, fyrr en síðar í athöfninni og eftir að hitinn hafði enn aukist og það lá við lognmollu við Hringskersgarð, að eitt og eitt barnanna í kórnum gat ekki lengur staðið svona lengi upprétt og það tók að líða yfir þau eitt af öðru, og kórstjórarnir og foreldrarnir þurftu að bera þau og leiða þau afsíðis til að láta þau setjast og gefa þeim ávaxtasafa eða vatn að drekka.

Það má segja að í þessu atviki hafi börnin getað með réttu sagt eins og drengurinn sem beið lengi eftir því að konungurinn kæmi í skrúðgöngunni eftir borgargötunni, en þegar hinn eðalborni var farinn veifandi hjá, spurði drengurinn stóru systir sína með tárin í augunum: “En hvenær kemur kóngurinn til mín?”

Hin formlega eftirvænting er hafin hjá okkur öllum. Það er stórkostlegt að við skulum lifa í samfélagi þar sem það er viðtekin venja að hrinjandi samfélagins mótast af þessari trúarlegu eftirvæntingu kristinna manna. Frelsarinn kom líka í heiminn fyrir alla menn og það er í því fólgin eftirvænting í leyndum í huga allra manna að koma Jesú nálgast. Það sem hann gerði og fyrir það er hann sagði, eru allir menn hólpnir. Það er ekki aðeins frelsunin mín.

Á sama hátt má líka segja að þessi fagnaðarríki boðskapur eigi ekki aðeins við á hátíðardegi sem þessum, er gleðin ríkir og lýsir af hverju andliti þeirra sem finna þessa trúartilfinningu bærast í eigin brjósti. Þessi gleði fagnaðarerindisins á með réttu að ríkja í okkar lífi alla daga þótt hátíð sem þessi hjálpi til og lyfti okkur um stund upp úr amstri daganna og leysi okkur frá áhyggjum einn ágætan Drottins dag.

Konungurinn er kominn til þín og hann stendur við dyrnar af því að Jesús Kristur hefur verið sendur til allra manna til að boða fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Til þess var hann smurður og til þess erum við kölluð að við förum að vanda okkar – líkt og hann sjálfur – í helgidóminn til að lofa Guð og heyra hvað hann vill við okkur tala. Hann stendur við dyrnar og knýr á en ryðst ekki inná okkur. Hann er enginn einræðisherra þótt hann sé alvaldur, en þegar hann kemur, kemur hann til okkar og snæðir með okkur og dvelur hjá okkur á svo raunverulegan hátt, að við þurfum ekki lengur að spyrja eins og drengurinn, sem ég sagði frá áðan, “hvenær kemur kóngurinn til mín?” Sjá, andi Drottins er þegar yfir honum og hann hefur þegar verið sendur. Hann hefur þegar sigrað heiminn og hann hefur þegar sest til hægri handar Guði föður sínum á himnum.

Og hann sem er á himnum hann er hér. Í dag hefur þessi Ritning ræst í áheyrn yðar, enn á ný, kæri söfnuður Landakirkju.