Prédikun sr. Kristjáns Björnssonar sunnudaginn 10. sept. 2006, 13. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Til þessarar guðsþjónustu komu fermingarbörn vetrarins og foreldrar þeirra og fylltu kirkjuna. Leik ÍBV og FH seinkaði vegna veðurskilyrða á flugbraut og byrjaði því á mínútunni þegar messu lauk í Landakirkju. Þar náðum við í eitt mikilvægt stig. Guði sé lof fyrir það.

Lúkas 10. 23-37. Sæl eru þau augu sem sjá það sem þið sjáið. Lögvitringurinn og eilíft líf. Miskunnsami Samverjinn.

Í öllum fréttum hefur verið sagt frá hnífstungu ungs manns og sérstaklega hefur verið haft eftir honum hvað honum hafði gengið til með hnífstungunni. Hann svaraði því víst til að hann langaði til að prófa að drepa mann. Þegar ég las þessa fyrirsögn fyrst, kom mér ekki til hugar annað en þetta væri frétt af einhverjum sálsjúkum manni í útlöndum eða atviki í milljónaborg. Nei, viti menn. Þetta er Ísland í dag.

Ekki ætla ég að kasta rýrð á þessa kynslóð og það er líka rangt að við köstum sérstaklega rýrð á tölvunetið, en það mun hafa verið þannig að unglingurinn, sem bilaðist svona, að langa til að prófa að drepa mann, komst í samband við fórnarlambið sitt á netinu og nú er sagt að það hafi verið á vef samkynhneigðra. Ég ætla ekki heldur að fjalla um þetta atvik með því að kasta rýrð á samkynhneigða. Þannig ætla ég að reyna að sneiða hjá því að falla í alls konar freistingar sem í því gætu falist að fordæma Reykjavík, samkynhneigða, Netið, tölvuleiki, hnífa, unglinga, fullorðið fólk sem leitar eftir nánum kynnum við börn eða fólk sem þarf að sæta geðrannsókn.
Þetta er einfaldlega sorgarsaga og ég var mjög að velta því fyrir mér hvort þetta atvik úr daglega lífinu ætti yfirleitt erindi í prédikunarstólinn. Hvað þá á þeim degi sem Landakirkja kallar saman fermingarbörn næsta vors í fyrstu messu þeirra þetta haust. Það var líka nokkur efi í huga prests í Reykjavík, sem hann lýsti á tölvunetinu í vikunni, hvort það væri ekki óþarflega grófur ritningartexti fyrir næsta sunnudag að lesa söguna af Kain og Abel. Hann velti því fyrir sér hvort bróðurmorðið það ætti nokkuð erindi í ritningarlestur frá altari í helgidómi kirkjunnar. Ég lét mig samt hafa það að lesa söguna af því þegar ungi maðurinn drap bróður sinn. Það gerði hann ekki af því hann langaði til að prófa að drepa mann eftir einhverri fyrirmynd úr bíómyndum eða tölvuleikjum. Það er hægt að útiloka það þar sem sagan á að gerast við upphaf mannkyns. Ótal ástæður hafa verið færðar fyrir því af hverju Kain myrti Abel. Læt ég það liggja milli hluta núna að rekja þær allar enda er það í sjálfu sér mjög djúp og fyrirferðamikil umræða.

Það sem liggur fyrir í þeirri sögu er einhvern veginn áleitin spurning á okkar tímum ennþá eins og þá. Lykillinn er hér í textanum eins og venjulega, því Orð Guðs lætur okkur ekki eftir í reiðileysi með alveg óleysanlegar gátur. Guð er búinn, rétt fyrir fyrsta morðið í veröldinni, að tala við Kain og leggja honum ákveðið lögmál á hjarta. Hann ítrekar við Kain að han skuli alltaf leitast við að breyta rétt, gera það sem er rétt og þá geti hann verið upplitsdjarfur. Drottinn sá að Kain var niðurlútur og það er þess vegna sem hann víkur sér að honum með þessum hætti. Og svo leggur hann spilin á borðið og segir berum orðum við hann: Ef þú gjörir ekki rétt þá liggur syndin við dyrnar og hefur hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni. Og hann spyr Kain: Er þetta ekki rétt?

Svar Kains er að hann biður Abel að koma með sér út á akurinn. Þið þekkið framhaldið, því það er fyrsti morðstaðurinn í heimi þótt ekki hafi verið strengdur í kringum blóðvöllinn gulur borði eins og nú til dags með áletruninni: Crime scène. Drottinn er áður búinn að tala við manninn um löngun en það eigi að drottna yfir henni.

Enn á ný liggur syndin við dyrnar og hefur hug á manninum. Það er ekki vegna þess að svona sé nú komið fyrir henni Reykjavík, eða að unglingarnir séu orðnir ruglaðir af því að spila leiki á tölvum og á netinu, og ekki endilega vegna kynhneigðar, nú eða öfundar, græðgi eða afbrýðissemi. Það er vegna þess að í frumeðli mannsins, og það er það sem sagan af Kain og Abel segir okkur hvað helst, liggur að hann er veikur fyrir freistingum og hann lætur langanir sínar leiða sig, en drottnar ekki yfir þeim. Hann ber ekki gæfu til að drottna yfir syndinni sem liggur við dyrnar og hefur hug á manninnum.

Hnífstunga er því gömul saga og ný og alltaf er það sama orsökin, að syndin sem lá við dyrnar og hafði hug á þeim sem þar átti heima, náði yfirhöndinni með öllum sínum birtingarmyndum af því sem manninn getur langað að gera. Og enn er verið að stinga menn og myrða. Það verður lengi viðloðandi. Það er svo algengt að þar sem ég var spítalaprestur á mjög fullkomnu sjúkahúsi í Tampa á Flórída, sem er hreint ekki þekkt fyrir að vera sérstaklega mikil glæpaborg, sá ég á eyðublaðinu sem við prestarnir höfðum með að gera, að þar var hægt að krossa við algengustu ástæður slysa. Það voru auðvitað bílslys, fjórhjólaslys, mótorhjólaslys, brunaslys og fall og eldingar, svo nokkuð sé nefnt. Það var einnig hægt að krossa við skotsár og hnífstungur og það voru ástæður áverka nokkuð framarlega í upptalningunni. Niður á Mæami er opnuð sérstök bráðamóttaka um helgar, sem er mönnuð sérhæfðu fólki allan sólarhringinn eingöngu fyrir skotsár í borginni. Sjálfur tók ég nógu oft á móti fólki sem hafði verið stungið eða skotið að ég get með engu móti verið að dæma það sem einhvers konar annað fólk en ég sjálfur er. Maðurinn er eins og hann er og hann fellur oftast fyrir þessu sama í freistni og hleypir syndinni innfyrir dyrnar. Það er í frumeðlinu og fyrr en maðurinn áttar sig á því að þetta er hættan, getur hann tæplega lært að varast hana. Og þegar ég hafði tekið á móti þessu blessaða fólki og komist til að tala við þá sem voru þó ekki meira slasaðir en svo að hægt var að ræða málin, fann ég að þar hitti ég fyrir mennskar manneskjur. Það var lang oftast þannig og eiginlega aðeins einu sinni þannig, að glæpamaðurinn var svo harðsvíraður að heita mátti að hann væri algjörlega glataður – horfinn frá allri mannlegri snertingu. Og svo kallaði ég oftast í ættingjana og leiddi þá að sjúkrabeði eða á biðstofur skurðstofanna og beið stundum með þeim í því sem verða vildi. Oft voru þetta þung spor og oft þurfti fólkið að taka erfiðar ákvarðanir um leiðir til lækningar eða líknar. Oft var beðið til Guðs um handleiðslu hans og vernd og blessun.

Í sögunni af miskunnsama Samverjanum er okkur bent á það hvernig við eigum að breyta rétt. Það er svo að löngun okkar og freistni drottni ekki yfir lífinu okkar. Það er vegarnestið sem okkur er fengið í dag og við eigum ekki aðeins að samsama okkur Samverjanum sem gerði rétt. Við eigum líka að íhuga það hvernig við erum sjálf eins og manngreyið sem barinn var og rændur og kastað hafði verið í vegkantinn. Hann er sviptur allri mannlegri reisn en er um leið einsog fulltrúi fyrir alla menn. Það er ekki nokkur leið að sjá hverrar þjóðar hann er, eða af hvaða stigum eða hvaða starfi hann gegndi. Hann er því fulltrúi allra þeirra manna sem Guð leggur ást á. Hann er fulltúi þeirra sem geta ekki annað en treyst á náð og miskunnarverk Drottins, en það erum einmitt við. Við erum algerlega undir náð Drottins og háð vernd hans og blessun í lífinu. Samverjinn er eins og mynd af Kristi í þessum heimi, hann kemur og bjargar og setur manninn aftur í öruggt skjól, sem hann hafði verið sviptur af ribböldum heimsins. Og Samverjinn er einnig fullkomin mynd af Jesú Kristi í þessum heimi þegar hann segir við gistihúsaeigandann, ráðsmanninn á jörðu, að hann muni á síðan greiða honum allt það sem á kunni að vanta, þegar hann kemur aftur. Í endurkomu Jesú Krists í mætti og mikilli dýrð verður hann ekki lengur dulbúinn sem Samverji, maður af þjóðerni sem enginn vildi hafa of mikil samskipti við. Það er svona þjóð sem á ekki olíulindir eða annan heimsins auð, heldur miklu fremur lítils metin þjóð í samfélagi annarra þjóða. Hann birtist í þeirri dýrlegu mynd sem enginn mun villast á.
Megi það vera okkar hlutskipti í lífinu að gjöra rétt og varast syndina sem liggur við dyrnar og hefur hug á því að ná yfir hugsun okkar, langanir og gjörðir. Nei, það skal vera okkar hlutskipti með Guðs hjálp, að við drottnum yfir henni, með því að gjöra að sem er rétt og gott fyrir náunga okkar, en velþóknanlegt í augum Guðs.

Sr. Kristján Björnsson.