Prédikun sr. Kristjáns Björnssonar í Landakirkju sunnudaginn 13. ágúst 2006 kl. 11.00. Hún er útlegging á Lúkasi 16.1-9: Gjör reiknisskil. Samtímaefnið er um afmæli biskupsstólanna og þau skil sem víða koma fram í sögu kirkju og vígðrar þjónustu.

Eins og fram hefur komið er á þessu ári er verið að minnast 950 ára biskupsstóls í Skálholti og 900 ára biskupsstóls heima á Hólum á margvíslegan hátt. Gefin hefur verið út vegleg bók um sögu biskupsstólanna og bæði Skálholtshátíð í júlí og nú Hólahátíð þessa helgina heima á Hólum er verið að minnast þess sérstaklega hvað þessi tímamót hafa að segja við okkur á líðandi stundu. Ég hef áður vikið að þessum afmælum og er skemmst að minnast þess í mínum huga þegar mér auðnaðist að vera viðstaddur bænagerð með biskupi okkar Karli Sigurbjörnssyni og öðru mætu fólki í Lundardómkirkju 3. maí sl. Þar minntumst við þess að þann dag voru liðin 900 ár frá vígslu sr. Jóns Ögmundssonar, þess mikla kennimanns og söngmanns í þeirri sömu kirkju. Um hann er sagt í “Jóns sögu helga” til að skýra þann dýrðarljóma er lék um þjónustu hans, að “almáttugur Guð vildi hefja upp sinn þjónustumann, hinn helga Jón, á hærra pall kennimannlegrar tignar en áður var hann …”

Ég stenst það ekki að minnast þessa þá og nú til að minnast hinna mætu presta og kennimanna sem setið hafa stólinn frá fyrstu tíð, en það hafa jafnan verið hinir mestu höfuðklerkar á hverjum tíma. Oftar en ekki komu þeir frá hinum betri brauðum. Það átti sér þær einföldu skýringar að hin betri bauð voru ekki veitt nema vel menntuðum og sigldum prestum. Þannig var það til dæmis með Breiðabólstað í Vesturhópi þá höfuðkirkju prestakallsins sem ég vígðist til, að þar höfðu áður þjónað allmargir prestar löngu á undan mér, er síðar urðu Hólabiskupar. Einn þeirra var frá fyrri tíð herra Guðbrandur Þorláksson – einn mesti biskup Íslandssögunnar – og í seinni tíð má nefna sr. Hálfdán Guðjónsson, vígslubiskup. Þetta skýrðist meðal annars af sterkum tengslum Hóla og Breiðabólsstaðar frá fyrstu tíð, eða allt frá tímum Hafliða Mássonar, sem dýr myndi allur, ef svo kostaði fingurinn. Mér er þetta eðlilega minnisstætt þar sem ég vígðist á Hólum til Breiðabólsstaðar og lifði mig því inn í þessa sögu staðanna og þá ekki síst Hólaprentsins er var á þessum stöðum báðum meðan fyrsti prentarinn lifði, Jón Matthíasson, biskupsson frá Stokkhólmi. Í gegnum tíðina hafa menn einmitt lifað sig svona inn í söguna og er það ef til vill ein ástæða þess að saga biskupsstólanna er stöðugt ný og stöðug skírskotun á sér stað á hverjum tíma. Í sögu staðanna kristallast saga þjóðarinnar svo að þetta tvennt verður ekki aðskilið. Í Skálholti er að finna upphaf innlends biskupsdóms en fyrstu biskupar Íslandssögunnar voru trúboðsbiskupar einsog Friðrekur og fleiri mætir menn. Þarna verður þó þróun sem sést vel í því að Ísleifur Gissurarson, fyrsti innlendi biskupinn hefur ekki biskupsstól í fyrstu en menningarleg tímamót eru augljós. Kristni á Íslandi hefur með honum eignast sinn fyrsta forystumann úr eigin röðum. Það gaf henni sterka félagslega stöðu og er það að þakka framsýni Gissurar hvíta, allt frá því að hann fer með son sinn utan til Herford í Westfalen í Þýskalandi að hann komist til góðra mennta. Hann verður ekki aðeins fyrsti vel menntaði íslenski presturinn heldur verður hann trúlega einn sá fyrsti Íslendingur sem fer utan til bóklegra mennta og kemur aftur heim til starfa. Ísleifur er því tímamótamaður í sögu kristni og bókmennta í landinu.Um leið var samband höfðingja landsins við erkibiskupsstólinn í Brimum eflt mjög með þessum tengslum og það hefur í sjálfu sér skýrst af sambandi Ólafs Haraldssonar noregskonungs við erkistólinn í Brimum. Það er rétt að geta þess hvað þetta var mikilvæg hugsjón í augum Gissurar hvíta, eins mesta höfðingja í landinu um og eftir þúsund, þess hins sama og reisti hér í Vestmannaeyjum fyrstu kirkju í sjálfri kristnitökunni árið þúsund með Hjalta Skeggjasyni, að hann sendir son sinn Ísleif í fóstur til Herford nálægt árinu 1012, eða þegar Ísleifur var aðeins um sex ára gamall. Heim kemur hann með kynni af málfræði, mælskulist, rökfræði, stærðfræði, rúmfræði, stjörnufræði og tónlist en sest að á föðurleifð sinni Skálholti og tekur við goðorði Gissurar Hvíta, kvænist höfðingjadótturinni Döllu úr Víðidalnum og gerist einn mesti höfðingi landsins.

Ísleifur reyndist þannig á einstakan hátt verða kænn í viðskiptum sínum við heiminn, en Íslendingar hafa eflaust verið samstíga um að afla hinum prestsvígða veraldlega höfðingja sínum biskupsvígslu. Þannig varð það úr, sem vígslufaðir hans, Aðalbert erkibiskup í Brimum færði í orð, að Íslendingar litu á biskup sinn sem konung og orð hans sem lög. Það var eflaust mjög mikilvægt skref í sögu menningar og stjórnmála og er því ótrúlega mikilvægur þáttur í sögu landsins. Allar götur síðan hefur saga Skálholts verið saga Íslands og saga Íslands hefur átt sína hverfipunkta í þessum merka stað. Biskupsvígsla Ísleifs Gissurarsonar á hvítasunnudag árið 1056 er einn steinn í þá miklu hleðslu.

Það er einnig merkilegt að sjá og lesa hvað höfðingjarnir voru miklir höfðingjar á fyrri tíð. Bæði Hólar og Skálholt urðu staðir biskupsstólanna vegna þess að þeir voru gefnir. Í dag gefur enginn slíkar milljarðagjafir vegna hugsjóna um aukið sjálfstæði Íslands og íslenskrar kirkju, eða vegna trúarinnar á að hér sé um það mikilsverðasta að ræða í þeirra lífi og trú. Í dag virðist mönnum hætta til að hugsa helst um afkomutölur næsta ársfjórðungs. En það er ég þó viss um að marga fýsir innst inni að verk þeirra, gjörðir og gjafir, breyti nokkru um langa framtíð; verði metnar á mælikvarða sögunnar til lengri tíma litið, nú eða þá á hinn eilífa mælikvarða sem guðspjall dagsins vísar til. Ein síðasta stórgjöf sem kemur upp í huga minn er sjálfsagt sú sem þið hafið einnig hvarflað til í huganum, en það var þegar Grímur Thomsen gaf Bessastaði á Álftanesi og þeir urðu síðar að forsetabústað. Áður hafði það mikla bú staðið undir skólarekstrinum á Bessastöðum, einsog þið þekkið. Þessar einstöku gjafir voru þess háttar að við verðum að skoða jarðirnar sem þau fyrirtæki er stóðu undir rekstri embætta og mennta. Í framhaldi af því var fleirrum gefinn kostur á því að styðja við það mikla starf með tíundum og einnig eignuðust þessir staðir aðra merka staði, einsog þegar Skálholt eignaðist Vestmannaeyjar og átti þær um tíma. Án þess hefði ekki orðið af skólahaldi og menningarlegum framförum í landinu einsog varð með biskupsstólanna. Það er lán íslenskrar kirkju að það varð allt meira og minna undir merkjum kirkju Jesú Krists og einmitt ekki á nokkurn hátt í heimóttalegum stíl eða tjóðrað niður af sértrúarlegum kreddum, heldur virkum tengslum við margháttaðan menningar- og trúararf Evrópu, einkum Noregs, Þýskalands og Rómar. Sá stórhugur og það samhengi sem hann starfar í ber vott um rík tengsl við hina alþjóðlegu kirkju og trú á almáttugan Guð sem öllu ræður á himni og jörðu.

Sjálfsagt hefur vísirinn ekki verið mikill á víkingaöld að því sem varð í íslenskri kirkju á tímum þjóðveldis. En hún óx sannarlega og dafnaði þótt átökin hafi verið allnokkur. Sennilega hefur enginn einn maður séð það fyrir, þótt margir hafi borið fagrar myndir fyrir brjósti. Og þótt margir hafi verið trúir yfir því sem þeim var trúað fyrir, trúir í smáu og settir yfir mikið, er það fólgið í speki þessa dags að það er Guð sem vekur og hefur upp og eflir og færir á hærri stalla kennimannlegrar tignar þá sem falla að ráðsályktun hans. Saga íslenskrar kristni og kirkju er því alltaf öðrum þræði sagan af afskiptum Guðs af þessari sögu. Saga okkar er það líka því mestu einstök afskipti hefur Guð eflaust haft af framgangi mannkynssögunnar er hann gaf son sinn eingetinn til að fara og frelsa þennan heim allan. Þúsund árum síðar reistu menn kirkju hér á Hörgaeyri og þúsund árum síðar er hér enn kirkja. Og enn er kristni við líði og meira en það, því enn er Orð Guðs að móta þá deiglu dagsins sem við hrærumst í. Enn mótar vilji Guðs menningu okkar og trúarlíf. Enn er Guð að skapa nýtt líf, nýja sögu og nýja framtíð. Þannig boðar speki Guðs, orð hans, sonur hans, að hann hafi ætíð nýtt fyrir stafni, en einnig felst það í trú okkar að í framtíðinni eða innan tíðar mun hann koma aftur að dæma lifendur og dauða. Á morgunn eða hinn eða í ómældri framtíð erum við, ráðsmenn hans á jörðu, kölluð fyrir hann og þá verða hin miklu reiknisskil. Höfum við reynst vorri feðra trú og hinum mikla arfi trúir umsjónarmenn? Um það verður spurt og við biðjum að við njótum svo miskunnar og náðar okkar mikla Guðs að við verðum metnir sem nýtir þjónar hans í samfélaginu og að við höfum þrátt fyrir allt notið náðar hans.