Kannski skiptir það okkur sem neytendur á Íslandi ekki máli, hvaða hugtak er notað um skuldastöðu okkar, en hver er munurinn? Sá er munurinn að orðið lánþegi tekur með sér hugtakið lánsali í þessum texta, en orðið skuldunautur tekur með sér hugtakið okrari. Og önnur spurning vaknar: Eru lánveitendur á Íslandi lánsalar eða okrarar?

Lánþegi eða skuldunautur

Flutt í Landakirkju 23. júlí 2006

Það er allsérstakt hlutverk að stúdera lögmál og fagnaðarerindi Biblíunnar. Það er hlutverk sem við prestar fáum og eigum að sinna. Það eru forréttindi að mörgu leyti að fá að sinna því hlutverki, en vandmeðfarið einnig. Hvaða leið er farsælust í að stúdera og skilja boðskap Biblíunnar?

Einn prófessor í guðfræði orðaði það þannig að best væri að halda á Biblíunni í annarri og Mogganum (eða öðru dagblaði) í hinni. Og þannig finna leið í þeirri glímu.

Sem sagt, sá sem rýnir í Biblíuna í leit að merkingu og tilgangi, hefur það hlutverk að taka mið af þeim veruleika sem manneskjan og samfélagið glímir við, hlusta á fréttir, reyna að finna hjartslátt samfélagsins. Hvernig er staða hinna ólíku hópa, einmitt í dag?

Erfitt hlutverk, og kannski ómögulegt, en markmiðið göfugt og hvert orð sem talað er í prédikun er best að tala í bæn.

Stundum situr eitthvað atriði í manni, og í dag er það svo hjá þeim sem talar hér.

Lánþegi eða skuldunautur?

Spurning vaknaði hjá mér í vangaveltunum í morgun, og hún er eftirfarandi:

Lánþegi eða skuldunautur, ert þú annað hvort kæri kirkjugestur?

Hinn frjálsi markaður fjármagns og viðskipta virðist að mörgu leyti auka möguleika og lífsgæði almennings.

Flestir geta fengið lán þótt kjörin séu án efa misjöfn og breytileg. En lán er sjaldan fengið nema lánveitandi fái veð (skuldaveð) i einhverju hjá lánþega. Ef lán er tekið til íbúðarkaupa, fær lánveitandi veð í íbúð lánþega, svo nefnt sé einfalt dæmi.

En segir Biblían eitthvað um skuldaveð?

Já hún segir ýmislegt. Í annarri Mósebók stendur:

,,Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest, því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja sig með, hún skýlir líkama hans.” (2. Mós. 22:26-27)

Skila klæðunum, veðinu!

Lögmálið boðar sem sagt lánveitanda að skila klæðum lántakanda, það er að segja veðinu, áður en sólin sest.

Það mætti nú líta á þessi orð sem mikla vernd fyrir lántakanda, hann skal ekki vera klæðalaus á nóttunni.

Hins vegar hlýtur neyðin að vera stór, þegar einstaklingur veðsetur klæðin sem hann á, einu klæðin sín. Til hvers að veðsetja klæði sín? Kannski fyrir mat, fötum á börnin eða húsaskjóli mætti ímynda sér, eða einhverju öðru lífsnauðsynlegu.

Vangaveltur um stöðu almennings í dag.

Hvernig er ástandið á Íslandi? Á Íslandi virðist fæðan dýrari en í nágrannalöndum okkar, þótt við búum í kringum matarkistu hafsins. Á Íslandi eru meiri álögur á barnaföt en víða erlendis. Á Íslandi hefur verð á húsnæði á vissum svæðum hækkað gríðarlega, svo erfitt reynist ungu fólki að koma sér þaki yfir höfuðið, nema skuldsetja sig til elliára og veðsetja hverja spjör, ef svo má segja.

Hugtökin lánþegi og skuldunautur er að finna í íslensku þýðingu Jesaja spádómsbókar þar sem spámaðurinn er að tala um efsta dag en þar segir:

,,Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans.” (Jesaja 24:2)

Í textanum er meðal annars talað um seljanda og kaupanda, lánsala og lánþega, okrara og skuldunaut. Og spurningin vaknar hjá mér: Lánþegi eða skuldunautur, ert þú annað hvort kæri kirkjugestur?

Kannski skiptir það okkur sem neytendur á Íslandi ekki máli, hvaða hugtak er notað um skuldastöðu okkar, en hver er munurinn? Sá er munurinn að orðið lánþegi tekur með sér hugtakið lánsali í þessum texta, en orðið skuldunautur tekur með sér hugtakið okrari.

Eru lánveitendur lánsalar eða okrarar?

Og önnur spurning vaknar: Eru lánveitendur á Íslandi lánsalar eða okrarar?

Í spádómsbók Nehemía frá um 5. öld fyrir Krists segir meðal annars frá því er Gyðingar fengu heimfararleyfi úr herleiðingunni árið 538 fyrir Krist. Þar segir frá ánauð þjóðarinnar í útlegðinni. Hugtökin yfirgangur og okur eiga við reynslu þjóðarinnar. Í einum af textum þessarar bókar segir:

,,En það varð mikið kvein meðal lýðsins og meðal kvenna þeirra yfir bræðrum þeirra, Gyðingunum. Sumir sögðu: Sonu vora og dætur verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn, svo að vér megum eta og lífi halda. Og aðrir sögðu: Akra vora, víngarða og hús verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn í hallærinu! (…) Og ég hugleiddi þetta með sjálfum mér og taldi á tignarmennina og yfirmennina og sagði við þá: Þér beitið okri hver við annan!” (Nehemía 5:1-3, 7a)

Í textanum segir í framhaldinu frá heilmikilli orðræðu um ánauðina sem fylgir veðsetningunni, og þeirri kröfu sem spámaðurinn setti fram um úrlausn. Tignarmennirnir og yfirmennirnir féllust á orð spámannsins og þjóðin öðlaðist frelsi.

Tignarmenn og yfirmenn, hverjir eru það á Íslandi?

Hinn frjálsi markaður fjármagns og viðskipta á Íslandi í dag, virðist auka lífsgæði og möguleika fólks. Stuttur er hins vegar vegurinn yfir í ánauðina. Á einhverjum tímapunkti breytist lánþeginn í skuldunaut og lánsalinn í okrara.

Hvar liggur eignarhaldið?

Fyrir ekki svo mörgum árum var eignarhald banka og fjármálastofnana á höndum ríkis og almennings. Allmikil breyting hefur orðið síðustu ár, og hefur eignarhaldið færst til. Og nú síðustu misseri virðist eignarhaldið stöðugt vera að færast á færri hendur.

Hvernig líta lánveitendur á hlutverk sitt? Í stað þess að þjónusta og ávaxta krónu almennings skiptir mestu í dag að skila eigendum sem mestum arði. Eigendur fjármálastofnana eru hagsmunahópur sem þessar stofnanir sinna og gæta hagmuna fyrir.

Auðvitað skiptir miklu að reksturinn gangi vel, að fjárfestingar eigenda skili arði, að veðin haldi og hjól atvinnulífsins snúist.

Lögmál ritningarinnar, sem nefnd voru hér að framan, virðast tala rétti fjármagnseigenda, að stórum hluta.

Eðli mannsins!

Sú vissa virðist að baki, textum lögmálsins, að lánsalar gangi eins langt og þeir geti til að tryggja það að verðmæti sín tapist ekki (eðlilega).

Það þarf sem sagt að nefna það í lögmálinu að klæði hins fátæka ber að skila fyrir sólsetur (leyfilegt er samt að taka klæðin að veði). Það þarf að nefna það að ekki skal taka veð í klæðum ekkjunnar.

Sá veruleiki er til, og verður kannski ávallt til, að foreldrar þurfi að veðsetja börn sín og framtíð þeirra til að hafa ofan í sig og á. Frásögn af slíku er í spádómsbók Nehemía sem nefnd var hér að framan, og slík reynsla er án efa til víða í heiminum í dag, og kannski á Íslandi framtíðarinnar.

Hún merkileg sýn lögmálsins. Lögmálið gerir ráð fyrir því að manneskjan gangi alla leið í því að tryggja eigin rétt, burt séð frá neyð náungans.

Staðan á Íslandi! Lögmál – fagnaðarerindi

Systir lögmálsins er réttlæti. Kirkjan boðar þetta réttlæti og þetta lögmál. En kirkjan boðar ekki bara lögmál. Kirkjan boðar einnig fagnaðarerindi.

Kirkjan stendur fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists. Sem felst í nærveru Drottins, í orði sínu og anda, í sakramentum og náðarmeðölum. Systur fagnaðarerindisins eru miskunnsemi og auðmýkt.

„Ég kalla þig með nafni, þú ert minn.” segir í Jesaja spádómsbók í lexíu dagsins. Þessi orð eru áhrifamikil, töluð af Guði.

Guð ávarpar þjóðina á kærleiksnótum. Guð elskar okkur, Guð er með okkur. Guð mun ekki láta okkur farast. Við erum synir og dætur Guðs, sem hann kallar á með nafni. Við, sem vorum sköpuð af Guði og honum til dýrðar, við tilheyrum honum.

Nafnakallið skírskotar til skírnarinnar þar sem hver einstaklingur er nefndur um leið og hann tekur á móti skírnargjöfinni, þeirri náð að fá að kallast Guðs barn.

Má sjá það á hinum frjálsa markaði fjármagns og viðskipta að Guðsbörn séu þar að störfum? Á lögmál kærleikans upp á pallborðið þar? Eða er réttlæti eina dyggðin á þeim vettvangi? Er réttlæti markaðarins kannski ekki dyggðum skrýtt réttlæti? Ekki get ég svarað þeim spurningum öllum. En svo virðist sem hinn frjálsi markaður fjármagns og viðskipta auki möguleika og lífsgæði almennings. Þar, eins og annarsstaðar, virðist hið synduga mannseðli hins vegar ekki langt undan, og stutt í hættu á ánauð og okri.

Allt vald er mér gefið!

Textar dagsins úr helgri bók minna á skírnina. Í skírninni er Drottinn nærri í orði sínu, anda og vatninu. Í skírninni tekur Drottinn við barninu/ skírnarþeganum í ríki sitt, ríki lífsins, lífsins sem hefur eilíft gildi og eilífan tilgang. Í skírninni öðlast barnið gjöf Drottins, sem er sú náð að vera Guðsbarn, og eiga von eilífs lífs.

Guðforeldrar og skírnarvottar bera síðan það hlutverk að hjálpa til við kristilegt uppeldi barnsins. Kenna barninu bænir og það hvað felst í skírninni. Umfram allt bera guðforeldrar það hlutverk að biðja fyrir barninu, og þannig bera það á bænarörmum, eins og segir í góðum stað.

Í guðspjalli dagsins segir:

,,Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. (Mt. 28-18-20)

Segir Kristur upprisinn í guðspjalli dagsins, í skírnarskipuninni.

Þessi skilnaðarræða er töluð af fjalli, líkt og fjallræðan, líkt og ummyndunarfrásögnin og fleiri merkilegustu orð Jesú. Fjallið hefur sterka merkingu í hinni rabbínsku hefð sem er lýsandi fyrir Matteusarguðspjall.

Í þessum orðum er lærisveinunum falið að tala orði Drottins. Skíra í nafni þrenningarinnar, kenna allt sem hann hafði kennt, og muna að Drottinn er ávallt nærri.

Nærvera Drottins minnir okkur á að virða hvert annað, koma fram á miskunnarmáta og virða mannhelgi og líf hvers einstaklings.

Varðveisla lífsins er verkefni kirkjunnar. Kirkjan verður stöðugt að minna sig á það að allar manneskjur, óháð trúarbrögðum og menningarheimum, allar manneskjur eru Guðs góða sköpun. Slíkt verður að koma fram í samskiptum menningarheima, og öllum viðskiptum manna á meðal. Það er fagnaðarerindi sem á erindi við heiminn, sem á erindi við þig.

Amen.