Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ketill flatnefur hét maður son Bjarnar bunu. Hann var hersir ríkur í Noregi og kynstór. Hann bjó í Raumsdal í Raumsdælafylki. Það er milli Sunnmærar og Norðmærar.
Ketill flatnefur átti Yngvildi dóttur Ketils veðurs, ágæts manns. Þeirra börn voru fimm. Hét einn Björn hinn austræni, annar Helgi bjólan. Þórunn hyrna hét dóttir Ketils er átti Helgi hinn magri son Eyvindar austmanns og Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.

Unnur hin djúpúðga var enn dóttir Ketils er átti Ólafur hvíti Ingjaldsson Fróðasonar hins frækna er Svertlingar drápu. Jórunn manvitsbrekka hét enn dóttir Ketils. Hún var móðir Ketils hins fiskna er nam land í Kirkjubæ. Hans son var Ásbjörn faðir Þorsteins, föður Surts, föður Sighvats lögsögumanns.

Þannig hefst Laxdæla, sem á sögusvið sitt frá um 850 til 1100. Í henni er sagt frá ættum Íslendinga, afkomendum og uppruna. Hún fjallar um ástir, öfund, hefndir og bardaga, eins og margar Íslendingasögur.

Við Íslendingar byggjum sjálfsmynd okkar og þjóðernisvitund á ákveðinni sagnahefð.

Við Íslendingar höfum sagt sögur um aldir, og komið þeim á prent.

Frásögurnar eru um uppruna okkar, eru um forfeðurna, og hvernig landið okkar var numið.

Frásögur okkar Íslendinga segja frá Sturlungum og styrjöldum, segja frá biskupum og baráttu, og ýmsu sem þjóðin hefur lifað. Einnig geymir sagnahefð okkar ýmsar þjóðsögur um náttúruleg fyrirbæri og ónáttúruleg. Og annað mætti nefna.

Í sagnahefð okkar hefur tungumálið varðveist, og þar hrærist okkar lifandi tunga, hún þróast og breytist. En alltaf getum við sótt í hefð okkar og út frá henni, meðal annars, skilgreinum við hvað það er sem gerir okkur að Íslendingum.

Rabbínar (prestar og fræðarar í trúarefnum gyðinga), leiðtogar gyðingar, kenna Torah, lögmálið og spámennina. Til þess nota þeir sérstakar aðferðir. Þeir segja sögur.

Í aldir hefur Ísraelsþjóðin sagt sögur. Það er sú leið sem þeir velja til að kenna sína trú og siðfræði. Þeir hafa sagt sjálfum sér sögurnar og eru sögurnar um þá sjálfa.

Þessar sögur hafa verið kryddaðar, útfærðar, færðar til nútímans á hverjum tíma, og þannig og með þeim hefur fólk glímt við skaparann og veruleikann, glímt við Guð, og hvað er rétt og rangt.

Allar fjalla frásögurnar um það sama.

Þær fjalla um það að Guð skapaði heiminn og manninn eftir sinni mynd, og þar með alla menn.

Með þeirri trúarvissu að Guð hafi skapað alla menn eftir sinni mynd, fá allir menn sömu stöðu gagnvart Guði, enginn er öðrum æðri, merkilegri eða mikilvægari. Allir menn eiga tilkall til þess að vera Guðsbörn.

Sögurnar fjalla um það að allir menn eiga að elska og virða hvern annan, og þjóna Guði með bæn og þakkargjörð.

Einnig bera þessar frásögur þann vitnisburð að Gyðingar (Ísraelsþjóðin) hafi mikilvægu hlutverki að gegna.

Þjóðin er ljósberi lögmálsins í heiminum, þjóðin er hin útvalda þjóð Guðs.

Einmitt í takt við þann veruleika eru orð Sakaría spámanns um einkasoninn. Líknar- og bænarandann sem þjóðin öðlast sökum blessunar og náðar Guðs boðar spámaðurinn.

Heilög ritning geymir frásögur þjóðarinnar sem byggt er á, sem unnið er út frá, og hafa þær frásögur áhrif á líf þjóðarinnar og annarra sem líta til þessarar hefðar.

Jesús frá Nazaret sonur Jósefs og Maríu þekkti þessa sagnahefð Ísraelsmanna.

Hann þekkti þá hefð að samfélagið skilgreindi sig út frá þessum frásögum og að sjálfsmynd sína og hlutverk sótti hún til þeirra og gerir enn. Jesús tilheyrði þessari þjóð.

Rabbínar endursegja stöðugt þessar frásögur, hafa gert í aldir og gera enn í dag.

Jesús endursagði þjóðinni þessar frásögur.

Strax tólf ára er sagt frá Jesú í musterinu. Þar rak hann fræðimennina á gat og talaði þannig að menn hlustuðu, og var því strax kominn í hinar rabbínsku stellingar gagnvart samfélagi sínu og hlaut áheyrn.

Ýmislegt í frásögnunum styrkir líka hina rabbínsku stöðu Jesú. Margir gáfu sinn vitnisburð um það að Jesús hefði ákveðið hlutverk hjá þjóðinni.

Vitringarnir frá austurlöndum er færðu gjafir á sængina (í fjárhúsið), hirðarnir í haganum sem tóku við hinum himnesku tíðindum og báru þau áfram til foreldranna, Jóhannes skírari sem ruddi brautina og skírði Jesú í ánni Jórdan, Símeon öldungur sem mætti fjölskyldunni í musterinu og gaf vitnisburð, og fleiri, vísuðu þannig til Jesú að hann væri nýr túlkandi hinnar lifandi hefðar. Og ekki nóg með það heldur væri hann sá sem þjóðin hafði beðið eftir. Einkasonur Guðs, hinn smurði, Messías.

Í þeim ranni kenndi Jesú, orð hans hljómuðu í þeirri deiglu, vona og væntinga um nærveru Guðs og frelsun.

Guðspjöllin segja frá lífi Jesú. Stærsti hluti þeirra segir frá starfi hans, síðustu misseri ævinnar, um þriggja ára skeið.

Hápunktur hinnar rabbínsku-kennslu Jesú var síðan er hann kenndi á fjallinu, og hélt þá ræðu sem frægust er af ræðum hans, og má segja frægasta ræða heimsins, Fjallræðan.

Það að kenna á fjalli er táknrænt í rabbínsku hefðinni.

Von spámannanna og boð lögmálsins var sú að hinn réttláti Guð myndi koma í mætti og dýrð og hreinsa heiminn af synd og dauða og réttlætið næði fullnustu sinni.

Spámennirnir boðuðu friðarríki Guðs.

Hin nýja túlkun Jesú var sú að nú höfðu spádómarnir ræst. Hann sjálfur væri sá sem beðið hafi verið eftir, hann er sonur Guðs, kominn til sinna manna. Og því væri Guðs ríki komið frammi fyrir þeirra augum.

Í guðspjalli dagsins rekur Jesús út illan anda, sá var mállaus, eins og segir í íslensku þýðingu textans.

Jesús læknaði mann af málleysi, í þeim texta.

Viðbrögðin frá fjöldanum urðu þrennskonar. Undur, efasemdir og þörf fyrir tákn af himni.

Þarna eins og ávallt, samkvæmt guðspjöllunum, var fjöldi manns vottar þess hvað Jesús framkvæmdi og gerði.

Þegar maðurinn, sem áður var mállaus, tók að tala, þá undraðist mannfjöldinn.

Hvað er langt síðan þú, kæri kirkjugestur undraðist yfir því hve heimurinn er dýrlegur? Okkur er svo gjarnt að taka því sem að höndum ber, án þess að þakka, án þess að undrast og bera lotningu. Sjáum smábörnin, hve þau undrast, hve þau kætast yfir smáu. Þau geta verið fyrirmyndir. Að undrast hjálp og björgun, að falla í stafi yfir náttúrunni eða því að Guð hefur veitt blessun sína í okkar líf, það getur verið ávöxtur trúarinnar.

Önnur viðbrögðin, af kraftaverki Jesú, voru þau að sumir ásökuðu hann um að starfa með fulltingi hins illa, eða Beelsebúls.

Þeir trúðu ekki að lækning gæti fengist nema illir andar og ill öfl kæmu þar að.

En hvernig getur hið illa stuðlað að góðu?

Ef hið illa er ekki illt, hvernig fær það þá staðist?

Þriðju viðbrögðin sem mættu Jesú, voru vantrúin og það að sumir vildu freista hans, og fá tákn frá himnum, sönnun þess í hvaða mætti Jesús gerði máttarverk.

Leiðin sem Jesús fer til að svara er hin rabbínska leið. Hann svarar með lítilli dæmisögu, um sterka manninn og húsið.

En einnig svarar hann með því að vísa til þess ríkis sem hann starfar fyrir, Guðsríkis. Hann segir að Guðsríki sé þegar yfir okkur komið, að Guðsríkið sé þegar hér.

Við hljótum að taka við þeim boðskap með gleði, bros á vör og frið í hjarta!

Það er mannlegt að efast. Þörfin fyrir sönnun er manninum meðfædd. En það að trúa á Krist, byggist á því að leggja traust á það sem maður hefur ekki séð, og treysta því orði sem Biblían boðar.

Jesús hvetur viðmælendur sína til að vinna með sér, en ekki í mót. Og segir því hver sem vinnur ekki með honum er á móti honum, og hver sem safnar ekki saman sundurdreifir, segir Jesús.

,,Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það!”

Segir Jesús Kristur einnig. Sælir eru þeir.

Jesús var því ekki bara rabbíni, ekki bara kennari og fræðimaður, heldur sá sem spádómarnir töluðu um. Orð hans eru Guðs orð.

Fyrir augum þeirra, og fyrir augum okkar, rætist því vonin um nærveru Guðs, samfélag og fyrirgefningu. Ljósið er borið í heiminn.

Þetta eru þau orð sem við komum saman til að heyra, til að meðtaka í líf okkar og viljum að þessi orð lifi með okkur hér í kirkjunni, sem og er við göngum til okkar heima, til lífs og starfs.

Hvað er það stór hluti safnaðarins sem er mættur til kirkju í dag, að hlýða á frásögurnar af Guði? Það er nú lítil prósenta af heildinni hér í Eyjum, en þó gott að sjá ykkur hér. Hvar eru aðrir hér í Eyjum sem tilheyra kirkjunni?

Hvaða smásögur sækja þeir sér til uppörfunar og styrkingar sem ekki eru hér í dag? Til fréttatíma, blaða, nets og sjónvarps? Ég veit ekki!

Páll postuli ritar hvatningu til safnaðarins í Efesus. Sú hvatning á við á öllum tímum. Hann biður söfnuð sinn að lifa sem börn ljóssins og láta af verkum myrkursins.

Hann vísar til krossdauða Jesú, þess að hann fórnaði sér fyrir syndir manna. Og fyrir trúna á hann öðlast maðurinn eilíft líf og sáttargjörð við Guð.

Ríki himnanna er þegar yfir okkur komið, og hvetur Páll okkur til að taka á móti ljósi heimsins og lifa í kærleika og sátt við alla menn.

Er þörf á því að hvetja okkur til dáða, höfum við ekki öll tekið við ljósi heimsins í skírninni, fermingunni? Nei við þurfum að koma saman til að fá olíu á þann lampa svo við getum borið ljósið út til annarra. Því þessar frásögur veita ró og frið, og gefa okkur viðmið til að lifa eftir.

Hverjir eru ávextir þess þess ljóss?

Ávextir ljóssins eru einskær góðvild, réttlæti og sannleikur, segir Páll postuli.

Hvernig gengur okkur að lifa með þær dyggðir að leiðarljósi?

Góðvild, réttlæti og sannleikur. Birtast þær dyggðir í smásögum samfélagsins okkar?

Hvaða sögur eru það sem við hlustum á? Hvert sækjum við þau viðmið sem við veljum til að styrkjast í góðvild, réttlæti og sannleika, sem segja okkur hvað er rétt og rangt?

Ýmsar smásögur eru sagðar í fréttatímum útvarps og sjónvarps og á neti og í blöðum.

Þar má finna smásögur af útrás fyrirtækja. Þar má finna smásögur af eignum og gríðarlegum vexti bankanna. Þar má finna smásögur af fyrirhuguðum iðnaðar- og álversframkvæmdum. Þar má finna smásögur af kjaramálum og stöðu öryrkja og einstæðinga. Þar má finna smásögur af aðbúnaði aldraðra. Þar má finna smásögur af herþotum. Þar má finna smásögur af meðferð opinberra starfsmanna. Þar má finna smásögur af samskiptum yfirmanna við sína undirmenn.

Hvað endurspegla þessar smásögur?

Endurspegla þessar smásögur góðvild, réttlæti og sannleika?

Þörf er á öllum kristnum til þátttöku til að bera ljósinu vitni. Mikilvægt er að allir skírðir, fermdir, kristnir einstaklingar vinni í því ríki sem er ríki Krists. Stór hluti af því starfi fer fram í kirkjunni þar sem allur söfnuðurinn kemur saman til að styrkjast og sameinast í trúnni á hann. Og taka við því verkefni að boða Krist, með orðum sínum atferli og bænargjörð alla daga vikunnar.

Trúin á hann læknar nefnilega heimsins mein. Iðkun þeirrar trúar færir frið í sál og tilgang í líf. Að lifa þá trú, hreinsar hinn trúaða af villu og öllu illu.

Það eru ýmsar smásögur nútímans sem ekki eru fallegar. Frásögurnar af Jesú, geta hjálpað okkur til við að sjá heiminn í réttu ljósi, sjá lífið með ljósi sannleikans.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir, alda. Amen.