Jesús mettar

1Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. 2Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki. 3Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.

4Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga. 5Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?“ 6En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra. 7Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.“ 8Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: 9″Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?“ 10Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. 11Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. 12Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.“ 13Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu. 14Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.“ 15Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

Fyrri ritningarlestur er úr 5. Mósebók, 8: 2-3

Guð agar þig

2Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki.

3Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.

Síðari ritningarlestur er úr 2. Koritnubréfi, 9:6-11

Guð elskar glaðan gjafara

6En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. 7Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. 8Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks. 9Eins og ritað er:

Hann miðlaði mildilega,

gaf hinum snauðu,

réttlæti hans varir að eilífu.

10Sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar. 11Þér verðið í öllu auðugir og getið jafnan sýnt örlæti sem kemur til leiðar þakklæti við Guð fyrir vort tilstilli.

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Hver sá sem les Jóhannesarguðspjall, kemst fljótt að því að höfundurinn lifir í heimi, sem er uppfullur af andstæðum. Ljós og myrkur takast á, nótt og dagur, sannleikur og lygi, að ekki sé minnst á það sem kemur að ofan og það sem kemur að neðan, nú eða þá líf og dauði. Það sem er uppi er því andstæða þess sem er niðri og því er það engin tilviljun að Fjallið kemur aftur og aftur fyrir, nú í sögunni af mettun fimm þúsund manna á fjallinu. Mun meiri líkur eru á því að allt þetta fólk njóti náðar Guðs, þótt ekki sé nema vegna þessarar nálægðar við himininn á fjallinu, umfram það sem ætla mætti, ef allur þessi fjöldi hefði verið orðinn matar þurfi niðri í djúpum dal. Jesús gerir engin kraftaverk, eftir því sem ég man af guðspjöllunum, niðri í dalkvosum. Ræðuna miklu flutti hann á fjallinu, nema þá að það tákni hjá guðspjallamönnum að fjallræða sé einfaldlega himnesk ræða. Það sem kemur að ofan.

Þannig andstæður ríkja einnig þegar kemur að samskiptum mannanna. Þar ríkir yfirleitt togstreita milli sannleika og lygi. Margt orkar tvímælis, sem sagt er. Er þá ekki úr vegi að minnast ágætrar sögu af því þegar þau voru saman á ferð, lygin og sannleikurinn. Sagt er um sannleikann að hann sé án landamæra, en það er lygin líka. Hún er þó sennilegri, en bæði hafa geðfelldan tón, segir Stefán Hörður Grímsson í ljóði sínu samleikur, í ljóðabókinni “Yfir heiðan morgunn.”

Hvað um það. Þarna voru þau saman á ferð í samleik sínum, sannleikurinn og lygin. Á göngu sinni eftir skógarstígnum komu þau að fallegri tjörn og hitinn var mikill. Nánast samtímis fengu þau þá hugmynd að hvíla sig aðeins á göngunni og fá sér sundsprett í þessari stilltu tjörn. Þau snara sér úr og útí og var sannleikurinn frakkari, enda hefur hann yfirleitt aldrei neitt að fela. Öruggum sundtökum synti hann út vatnið og líkaði vel, en lygin var eitthvað varfærnari. Hún svamlaði nálægt fjöruborðinu og var ekki nema hálf útí. Þegar sannleikurinn snýr sér við og kallar á hana að koma dýpra útí, segist hún vera alveg að koma. Sannleikanum til mikillar undrunar sá hann að þótt hún segðist vera að koma, fór hún allt í einu upp á bakkann klæddi sig og stakk hann af út í buskann. Það sem verra var, sá hann að lygin tók líka öll fötin hans. Segir sagan að síðan hafi sannleikurinn alltaf verið ber og nakinn.

Þetta kom sér að vísu ekki eins illa fyrir sannleikann og ætla mætti, því þessi sannleikur var fagur. En verra var að lygin, sem var víst frekar ófögur, klæddist eftir þetta ekki aðeins sínum eigin fötum, heldur greip til þess í tíma og ótíma að íklæðast fötum sannleikans. Hefur æ síðan verið erfitt að átta sig á því hvort þeirra er á ferðinni, sannleikurinn klæddur að nýju eða lygin íklædd fötum sannleikans. Og þetta skýrir það að oft á tíðum er lygin jafnvel sennilegri en það sem er satt.

Erum við ekki að standa okkur að því að segja stundum: Ótrúlegt en satt!

En sumt skiljum við alls ekki og eigum jafnvel erfitt með að trúa því sem sagt er í heilögum guðspjöllum. Það er til ágæt saga af trésmið, sem var að vinna við smíði á heilmiklum stiga. Kom þar að nágranni hans og spurði hvort það myndi nokkuð eyðileggja verkið hans, þótt hann sæi af einu þrepi, en það vantaði hann sárlega. Trésmiðurinn varð við því. Sömuleiðis varð hann við þeirri bón að gefa fátæki konu borðvið til að negla fyrir gat á húsveggnum en um þetta gat smaug vetrarvindurinn og börnunum hennar var kalt. Hann sá aumur á henni og gaf henni fjölina. Veturinn varð harður og margir nágrannar smiðsins komu og báðu um við í eldinn. Hann var bóngóður en stöðugt minnkaði tréverkið. Margir þurftu eldivið. Og svo kom að hann varð að rífa meira og meira af stiganum sem hann vildi svo gjarnan fá að reisa upp til skýjanna. En einn vordaginn sagði hann við konu sína: “Ég á erfitt með að trúa þessu; stiginn minn hefur rýrnað og lækkað með hverjum degi sem líður, en samt er ég kominn nær og nær himnaríki, þegar ég klifra hann upp til að gá hvernig gengur.”

Við eigum oft erfitt með að koma auga á það, þegar Guð lætur kraftaverkin gerast í lífi okkar. Kom ekki sólin upp í morgunn? Lifðum við ekki að sjá enn einn dag og þiggja hann úr hendi Guðs? Hefur ekki ótal margt gott hent okkur og eigu við ekki ótal margt að þakka fyrir, þegar við erum á þeim buxunum að gefa því gaum?

Þetta eru margar spurningar á stuttum tíma og ég gef ykkur ekki færi á að svara. Þannig eru víst prédikarar. Þeir láta bara móðan mása. En við verðum líka að reyna að vakna til þeirrar vitundar að boðskapur Guðs þarf að komast til skila. Hann er stöðugt að vinna kraftaverk í okkar lífi og við vitum það bara ekki, að fyrir hans verk, en sjaldan fyrir okkar verk eingöngu, erum við stöðugt nær himnaríki, stöðugt nær því sem er heilagt, þótt okkur finnst lítið miða í rétta átt.

Það eru ekki bara prédikarar sem láta móðan mása. Það stendur oft mikil buna út úr bölmóðsmönnunum í samfélaginu okkar. Það eru alltof margir stöðugt að tala um það hvað öllu fer aftur og svekkelsið hefur ekki aðeins dregið þá niður heldur dregur það alla niður í kringum þá. Menn hætta að hafa trú á því að tækifærin eru hér allt í kring og framtíðin vonargóð.

En svo mætir maður fólki sem hefur mikið að þakka fyrir. Þessu fólki, sem er lífsnauðsynlegt fyrir byggðalagið okkar og það öfluga samfélag sem við hrærumst í, ekki síður en fyrir framgang guðsríkisins. Það er ekki endilega það fólk sem við köllum hið mesta athafnafólk. Athafnafólk er vissulega afar mikilvægt fyrir samfélagið, en ég er þó með í huga það fólk sem er ennþá mikilvægara en nokkur einstök stétt eða t.d. framkvæmdarmenn og stjórnendur.

Ég er með það fólk í huga sem hefur tamið sér að þakka fyrir lífið og allt sem því hefur hlotnast. Þakklátt fólk er til í öllum stéttum og þakklátt fólk berst mismikið á í þessu lífi, þakklátt fólk er einfaldlega allt það fólk, sem gefur meira en það tekur, líkt og trésmiðurinn í sögunni áðan, opnar frekar en að loka. Það er ef til vill ótrúlegt að trúa því, en þetta fólk er eins og gangandi kraftaverk í samfélaginu. Það byggir stöðugt upp. Það tekur ekki, en þiggur allt sem Guð gefur, með ríkulegu þakklæti. Það þiggur líka og gefur eitt lítið bros, sem getur sannarlega dimmu í dagsljós breytt.

Kraftaverk, eins og þegar Jesús mettaði fimm þúsundirnar á fjallinu, er ekki aðeins þakkarvert heldur er það heilög saga af atburði sem er erfitt að trúa þótt sannur sé. Margt í þeirri frásögu rennir stoðum undir þá staðreynd að sá atburður var allur gerður af hendi Guðs í þágu þeirra manna sem hann hafði velþóknun á. Jesús var ekki með sýningu. Hann var að opinbera sig fyrir fólkinu sem hann deildi kjörum með. Fyrst og fremst var hann að opinbera þá staðreynd að nú væri guðsríkið komið á jörðu. Himnaríkið var komið til jarðar, líkt og í sögunni, að þótt stiginn styttist stöðugt hjá þeim sem gaf úr honum til að veita skjól og verma köldum, smáum og þjáðum, þá var smiðurinn stöðugt nær himnaríki. Eina skynsamlega skýringin á því er að þótt stiginn styttist vegna miskunnarverka mannsins, var Guð stöðugt að færa himnaríkið sitt nær þessu sanna góðmenni.

Himnaríkið kom til mannsins, rétt eins og segir í inngangi guðspjallsins góða: “Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.” Og síðar í þessum sama inngangi, prólógus Jóhannesar: “Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.” Og ögn síðar aftur: “Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.”

Í þessu ljósi skulum við íhuga þann boðskap sem Drottinn vill að við skiljum og meðtökum, en umfram allt trúum. “Því öllum sem tóku við honum, gaf hann rétt til að vera Guðs börn.”

Það er kraftaverk sem stöðugt er að eiga sér stað í okkar lífi, að við höfum öðlast þann rétt að kallast Guðs börn. Því ætti ekki hjarta okkar að fyllast einlægri gleði yfir því, allt frá því við vöknum við rísandi sól, nú eftir endurfæðingu náttúrunnar, nú eftir jafndægur á vori, og allt til þess að við göngu að nýju til hvílu. Ætti ekki lífið okkar einmitt að vera eins og lífið var hjá fjallræðufólkinu, hinum miskunnsömu og hjartahreinu, friðflytjendunum og salti jarðarinnar. Þannig lifum við í stöðugri undrun yfir því dásamlega sköpunarverki sem heimurinn er, þessi heimur sem Guð skapar og Jesús frelsar og heilagur andi fyllir þrótti er ekki dalar. Hefjum augun því til fjallanna og hlýðum Orði Guðs, því orði sem kom í heiminn og breytti honum.

Og fyrst við erum frelsuð, og í blóma lífsins, hví skyldum við ekki taka undir þann góða og gleðiríka boðskap sem kemur meðal annars fram í leikritinu Nunnulíf sem verið er að sýna hér í Vestmannaeyjum af Leikfélagi Vestmannaeyja. En hann gæti verið í stuttu máli þessi: Verið þakklát og glöð, og látið ekki leggja á yður ok eða fjötra, látið ekki hið illa ná yfirhöndinni, en samgleðjist sannleikanum, trúið öllu, umberið allt og fyrirgefið allt. Og munið að kærleikurinn, sem meðal annars kemur þar svo skemmtilega fram í líflegri uppfærslu og frábærlega skemmtilegum leik Leikfélagsins, hann fellur aldrei úr gildi. Þetta nefni ég til að minna á hvað það er margt að þakka í þessum heimi og hvað við lifum dásamlega daga. Festið ykkur það í minni. Og munum líka að öll gleði og dýrð heimsins, allt sem er satt og gott, kemur frá Guði. Fyrir það sé honum dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir ald. Amen.