Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Viðburðarrík helgi er nú að líða. Íbúaþing var hér í gær, langt og strangt. Það var vel skipulagt og skilaði vona ég góðri vinnu.

Það var á margra vitorði að slíkt þing hefði mátt halda fyrr, og mætti halda aftur. Og mikilvægt er að úrvinnslan lendi ekki bara ofan í skúffu.

Á þinginu var akurinn svolítið plægður og ýmsum fræum sáð. Þar voru margir málaflokkar til umræðu: skólamál, umhverfimál og skipulagsmál, svo eitthver séu nefnd. Við þurfum nefnilega öll að taka þátt í því að gera samfélagið okkar hér betra, því við getum ýmislegt, hvert og eitt.

Það er að verða svo mikið þjóðarmein hvað við, þegnarnir, erum miklir neytendur í stað þess að vera þátttakendur í kærleikans samfélagi við náungann og umhverfið. Ef við gleymum því er illt í efni.

Neytandinn hugsar eitthvað á þá leið: Hvað á ég að kaupa mér? Hvað á ég að fá mér? Hvað hentar duttlungum mínum í dag? Sá sem er þátttakandi í uppbyggjandi samfélagi hins vegar hugsar hvað get ég lagt að mörkum? Hvar nýtast kraftar mínir best?

Ég veit að þið þekkið þetta. Við erum öll þátttakendur á þessum markaði, neyslumarkaðnum, og getum ekkert annað, og lifum þess vegna að mörgu leiti eftirsóttu lífi með möguleika á mestu lífsins gæðum og þægindum – það viljum við nú ekki missa.

Mikilvægt er hins vegar verið meðvituð um þá stöðu. Við verðum að vera meðvituð um að sú þátttaka okkar hefur áhrif á annað líf, aðrar manneskjur, umhverfi og jörðina í heild.

Hversu langt nær neysluhyggjan?

Það er ekki eðlilegt að verðmeta allt, sumt er ómetanlegt. Er hægt að verðmeta súrefni andrúmsloftsins, eða mannlíf þess við hliðina á þér í kirkjunni í dag? Er hægt að verðmeta náttúruauðlindir jarðarinnar, eða þroski og menntun komandi kynslóða? Er hægt að velja sér trúarbrögð eða hvað manni er heilagt, eins og hvað annað á markaðstorgi heimsins? Og hvers virði er hið heilaga í okkar samfélagi?

Um leið og við, sem einstaklingar, verðum bara neytendur þá vex í hjarta okkar græðgi, öfund, og fleira illgresi sem kæfir þá jurt sem Guð sáði til.

Fyrir það segir maður ekki til hamingju við íslensku þjóðina. Sem minnir mig nú á söngvakeppnina sem var í sjónvarpinu í gær.

Þar var sáð til glæsilegrar keppni, og engu til sparað, Bobbysocks og Gísli Marteinn, og allt þar á milli. Og uppskeran, mörg falleg lög og frábær flutningur, og framlag okkar til Grikklands í vor: ,,Til hamingju Ísland”.

Mér finnst það svolítið kaldhæðnislegt að það skemmtiatriði skyldi sigra.

Skemmtilegur tilbúinn karakter, hún ,,Silvía Nótt” virðist endurspegla afstöðu fjöldans. Kannski afstöðu yngri kynslóðarinnar, hinna ungu neytenda á markaðnum, og sem slík hefur henni greinilega tekist vel upp. Silvía Nótt er búin til í neysluhyggjunni sem heltekur okkur öll, og því talar hún án efa svo sterkt til þeirra sem kusu.

Nokkrar söngkonur í keppninni voru hreint út sagt á heimsmælikvarða, tónlistarlega séð, en þjóðin virtist ekki vera að leita að því. Einhverra hluta vegna var það sjálfumgleðin og glimmerið, strípihneigðin og smekkleysan sem átti hug okkar allan, sem Silvía Nótt nær svo vel að túlka.

Ég velti því fyrir mér hvort í þessu sigur framlagi endurspeglist það gildismat sem við stöndum fyrir sem þjóð, sem kristin norræn þjóð. Er verðandi framlag okkar til Evrovision lýsandi fyrir okkur?

Kannski á ég ekki að stúdera þetta svona mikið! Kannski á ég ekki að hafa svona mikla skoðun á þessu, þetta skiptir kannski ekki svo miklu máli! En þó, kemur fram einhvers konar skoðun ,,almennings” hér á því hvað er viðeigandi, hvað er skemmtilegt, hvað er grípandi!

Og ég velti fyrir mér hvernig verður litið á framlag okkar, fulltrúa okkar innan annarra menningarheima? Eða annarra trúarbragða? Ætli Silvía Nótt hefði komist svona langt í öðrum menningarheimi, og kannski getað orðið fulltrúi einhvers múslimaríkis! Ég veit ekkert um það, en ég efa það!

Með það í huga dettur mér í hug það moldviðri sem skapaðist í heimsþorpinu, eftir birtingu danska blaðsins Jótlandspóstsins af teikningunum af Múhameð spámanni. Sú birting og þær teikningar voru nú ekki þau fræ friðar eða virðingar sem tjáningarfrelsið getur sannarlega staðið fyrir. Sú birting var engum til framdráttar, nema síður sé.

Að eiga þau dýrmætu réttindi að búa við lýðræði og frelsi til hugsunar, gerða og orða fylgir ábyrgð.

Ég man það vel að það snerti við kauni landsmanna þegar Spaugstofumenn gengu á skítugum skónum um heilagt páskaguðspjall, hér um árið. En nokkuð vatn er runnið til sjávar síðan. Og kannski hefur teygst ögn á þolrifi okkar að þessu leiti. Eða erum við búin að týna því sem okkur er heilagt?

Hvað er okkur heilagt? Má allt í dag? Er frelsið fólgið í því að afhelga allt? Því fer fjarri. Það er í það minnsta misnotkun á frelsinu.

Ef við missum sjónar af því sem okkur er heilagt verður jarðvegur hjartnanna okkar slíkur að fræ góðmennsku, fræ umburðarlyndis, fræ virðingar, fræ trúar, vonar og kærleika fást ekki þrifist þar. Og ávextir lífsins Orðs, verða engir.

Ef sá jarðvegur er ekki lengur til staðar í hjörtum okkar kristinna manna, í okkar samfélagi þá er illt í efni.

Guðspjall dagsins boðar okkur hins vegar ekki slíkt vonleysi heldur fullvissar okkur einmitt um það að þrátt fyrir allt, er einnig góður jarðvegur í öllum mannanna hjörtum. Mannsins samfélag Krists, getur verið sá jarðvegur sem hýsir jurtir trúar, vonar og kærleika.

En aftur að spurningunni, hvað okkur sé heilagt? Hvaða von eigum við? Fyrir hvað stendur kristin kirkja, kristin þjóð?

Í dag er Biblíudagurinn. Hann er árlegur dagur í Þjóðkirkjunni, og minnir okkur á mikilvægi hinnar helgu bókar. Án heilagrar Ritningar væri kirkjan engin.

Biblían er grundvöllur þess að við heyrum Guðs orðið sem boðar okkur von eilífs lífs. Biblían geymir það fræ sem talað er um í guðspjalli dagsins. Eins og Kristur útleggur dæmisöguna fyrir lærisveinum sínum er fræið orð Guðs sem sáðmaðurinn gekk út með til að sá, og ber fræið ríkulegan ávöxt þegar það fellur í góða jörð.

Hver er jarðvegur okkar, hver er jarðvegur þjóðarsálarinnar? Við verðum að biðja kærleikans Guð um góðan jarðveg til að Orðið beri ríkulegan ávöxt í okkar mannlega lífi. Að það bjargi okkur frá neysluhyggjunni og hégómanum.

Biblían, Orð Guðs, er til á flestum kristnum heimilum. Hvar er hún á þínu heimili? Hvenær lastu síðast Biblíuna? Guðspjall dagsins er úr Lúkasarguðspjalli 8. kafla. Hvernig væri nú að fletta upp á því guðspjalli heima og kíkja á það, lesa kaflann í heild, eða guðspjallið í heild, og kannski eitthvað á hverjum degi? Leyfa Orðinu að búa með sér, leyfa Guðsorðinu að bera ávöxt í lífi sínu, ég vil hvetja ykkur til þess.

Það er mikil gjöf að eiga Biblíuna á þjóðtungunni. Að eiga Guðs orðið á þjóðtungu okkar þrjúhundruð þúsund manna samfélags, það er hreint undrunarefni, einkenni okkar, móðurmálið. Talandi um móðurmálið, mæður og konur til hamingju með daginn í dag – Konudaginn!

Biblían á móðurmáli hefur verið fengur okkar í aldir. Húslestur á heimilum og fræðsla/kennsla presta á fyrri öldum gerði þjóðina snemma læsa og skrifandi. Sem er forsenda lýðræðis, tjáningarfrelsis, og stuðlar að sterkri sjálfsmynd, gagnkvæmri virðingu og mennsku.

Í mannlífinu er hið himneska orð.

Hvað er Orð Guðs? Orð Guðs er orð sem segir frá Guði samkvæmt orðanna hljóðan, eða líklega fremur orð sem kemur frá Guði.

Það getur verið vandi að lesa Biblíuna. Hvernig á að nálgast hana? Biblían er ávallt lesin og skilin út frá þeim aðstæðum sem lesandinn sjálfur lifir í. Þegar Biblían er lesin á sér stöðugt stað ákveðin túlkun á því sem þar er ritað, það er mikilvægt að hafa það í huga. Samfélagsstaða, kynferði, aldur, litur, þjóðerni, fjölskyldustaða, reynsla og fleira, allt hefur áhrif á það hvernig við lesum Biblíuna.

Sú leið við lestur Biblíunnar, sem vex hvað mest ásmegin í heiminum í dag, er leið bókstafshyggju. Það er að nota texta Biblíunnar óbreyttan sem rökstuðning fyrir einhverju málefni, að nota textann án þess að túlka hann.

Það er varhugaverð leið, því fræið ber mestan ávöxt þegar það er vökvað og hlúð að því í góðum jarðvegi. Það þarf því að lesa, ræða, biðja, í einrúmi og samfélagi, til að öðlast skilning, til að meðtaka hið heilaga.

Þessi einfalda en í senn flókna dæmisaga Jesú, sem guðspjallið segir okkur frá, er töluð inn í veruleika jarðræktenda.

Útleggingin er eitthvað á þá leið: Sæðið við götuna táknar þá sem heyra orðið en taka ekki við því. Sæðið sem fellur á klöppina táknar þau sem taka við orðinu með fögnuði en huga ekki náið að inntakinu, guggna þegar á hólminn er komið. Sæðið sem féll meðal þyrna táknar þau sem hafa alla burði til að ávaxta andlega sjóði sína, en annríki dagsins, nautnir, sjálflægni, neysluhyggja og áhyggjur ná yfirhöndinni svo vöxturinn verður vonum minni, eða enginn.

Ætli við þekkjum ekki öll þá stöðu í dag, ætli við þekkjum ekki mörg þyrna neyslu og annars sem glepur.

Þessi fræga dæmisaga Jesú er bæði til varnaðar og hvatningar. Dæmisagan varar okkur við því að hlusta án þess að fara eftir orðinu, en hvetur okkur einnig og uppörvar, því ekkert afl getur komið í veg fyrir uppskeru um síðir, þar sem Orði Guðs er sáð á annað borð.

Það virðist á stundum gleymast í samfélagi okkar að orð Guðs ber fyrirheit um ávöxt. Neyslan er svo mikil, kappið, uppfylling duttlunganna og nautnanna getur verið endalaust, svo menn missa af. Missa af því að lifa þá trú sem gefur allt hið góða sem ekki er hægt að kaupa.

Það er nefnilega mikilvægt að hrinda trúnni í framkvæmd. Það er orðið algengt að við heyrum um hópa sem hrinda vígaverkum í framkvæmt í nafni trúar sinnar. Í því ljósi er mikilvægt að hrinda hinni kristnu trú í framkvæmd. Það er að sameinast um að bera fram ljós friðar, sáttargjörðar og einingar sem kristnin hefur fram að færa.

Kristnin geymir þær perlur og þá fjársjóði sem lífsnauðsynlegir eru í samskiptum við aðra menningarheima, í samskiptum við aðrar manneskjur og annað líf. En neyslan virðist teyma okkur ansi langt frá þeim lífsins lindum á stundum.

Þegar ég hugsa til ferminga, skýtur þessari stöðu okkar óneitanlega upp í hugann. Þar kemur það oft skýrt fram hve helteknir neytendur við erum. Salur, boð, gjafir, peningar, þvílík læti oft. Pössum okkur á því öllu, vörumst það sem glepur, hégómann. Munum eftir þeim kærleika sem við eigum aðgang að, látum hann ekki verða undir í látunum.

Kristin kirkja stendur fyrir myndugleik, mannúð og kærleika. Kristin kirkja stendur fyrir umburðarlyndi og fyrirgefningu, bræðralagi og vináttu.

Kristin kirkja boðar líf í fullri gnægð þar sem pláss er fyrir alla, allt sem lifir. Kristin kirkja lifir Guði, þar sem Jesús Kristur er nálægari en sjálfur andardráttur okkar og skaparinn eins nálægur og sköpunin sjálf. Í þeim anda skulum við róa í takt.

Kristin kirkja er það samfélag trúaðra þar sem Guð fæðist inn í mannanna kjör. Þar sem Kristur er söngurinn í hlátri á góðum degi og saltið í tárum er sorgin sækir heim.

Kristur er hér, Kristur er upprisinn, það játum við sem kristið samfélag, á hverjum sunnudegi, á hverjum fermingardegi sem og í hversdagslífinu.

Það sama ætti að einkenna kristið samfélag. Það sama ætti að hafa áhrif á viðhorf samfélagsins sem vill kalla sig kristið, en spurningin er hvort við veljum leið glimmersins eða leið lífsins.

Leitin að hinu heilaga hefst í bæn og lestri hinnar helgu bókar. Leitin að hinu heilaga í þínu lífi byrjar er þú svarar já við Kristi og fetar þig leið pílagrímans í bænagjörð og helgihaldi í kirkju og á heimili.

Framundan er hálfgerð pílagrímaganga. Tími föstu er að renna upp, þar sem stefnan er sett til páskanna. Pílagrímagangan er kannski fólgin í lærdómi og lestri, bænahaldi og samfélagi um Guðs orð. En hér fyrrum þá endaði gjarnan slíkur kirkjutími á fermingum, líkt og hann gerir enn í dag. Fermingarbörnin okkar eru á hálfgerðri pílagrímagöngu nú, þar sem þau taka þátt í lærdóm og samfélagi, sem endar síðan með athöfninni sjálfri í vor.

Við erum öll á vegi Krists. ,,Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!” (Jes 55:6) segir spámaðurinn í lexíu dagsins.

Við komum hér til móts við Orðið, í bæn og þakkargjörð og biðjum um leiðsögn og handleiðslu á lífsins vegi, og það að kraftur Guðs megi taka sér bústað í hjörtum okkar. (2. Kór. 12:9)

Við skulum, í þeim anda, hjálpast að við að sá fræi trúar, vonar og kærleika í hjörtun öll, til að Orðið fái að bera ríkulegan ávöxt, í kirkju og kristnu samfélagi. Ávöxt réttlætis og kærleika, ávöxt hins heilaga og ávöxt umburðarlyndis.

Fyrir Orðið heilaga sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir aldan. Amen.