Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er nú á öðrum sunnudegi eftir þrettándann að við heyrum frásöguna af brúðkaupinu í Kana.

Veisluhöld jólanna eru okkur flestum í fersku minni. Guðspjall þessa sunnudags segir okkur frá öðrum veisluhöldum og öðru tilefni.

Guðspjallið er úr bók táknanna, bók kraftaverkanna, úr Jóhannesarguðspjalli.

Í því riti eru sjö kraftaverkafrásögur, sex þeirra eiga sér hliðstæður í samstofna guðspjöllunum, en ein þeirra ekki.

Frásagan af brúðkaupinu í Kana á sér ekki beina hliðstæðu í hinum guðspjöllunum.

Frásagan af brúðkaupinu í Kana hefur verið talin tengjast heiðindómi, dýrkun á hinum gríska guði Dionysusi, öðru nafni Bacchusi í goðafræði rómverja. En hann átti að hafa getað breytt vatni í vín.

Dýrkun Dionysusar í heiðindómi Hellenismans, var haldin 6. janúar í heiðnum hofum, þar sem vín flaut í stað vatns.

Þessi lestur í Jóhannesarguðspjalli varð síðar hluti af þrettánda hátíð kristninnar, er við minnumst komu vitringanna á þrettánda degi jóla og því viðeigandi að lesa það nú stuttu eftir þrettándann. Þeir komu með gjafir til Jesúbarnsins. Eins voru gjafir venjulega gefnar við hjónavígsluhátíðir í gyðingdómi.

Vera má, í þessu samhengi, að Jesú hafi komið á óvart. (eins og oft) Honum var boðið til brúðkaupsins ásamt lærisveinum, en hann hefur kannski komið með fleiri með sér en gert var ráð fyrir.

Veigarnar hafa kannski ekki dugað vegna þessa, vínið var á þrotum! En slíkar vangaveltur eru nú ekki í textanum sjálfum.

Móðir hans, María, hefur kannski sökum þessa leitað ráða hjá honum og fundið til ábyrgðar, eins og hann gerði sjálfsagt og brást við!

Það er mikilvægt að hafa í huga þann menningarmun sem er á milli okkar hér á snjóþunga landinu fagra og hins gyðinglega siðar í fortíð og nútíð.

Í menningu okkar hefur vín og áfengi á sér stimpil böls og hins illa, og ekki að ófyrirsynju. Fólk lendir svo sannarlega fyrir barðinu á áfenginu og öðrum vímugjöfum í okkar menningu eins og við þekkjum.

Slíkt getur lagt fjölskyldur í rúst og við hér í Eyjum erum ekki laus við bölið sem fylgir því.

Vínið er hins vegar ómissandi í menningu gyðinga og hefur ekki þetta yfirbragð sem leggur fjölskyldur í rúst. Þar er mikil skömm að drekka sig fullan og var vínið því gjarnan blandað vatni. Varðandi meðferðina á víninu er mikill munur á sið okkar og þeim sem hér um ræðir í guðspjalli dagsins.

Það sést á þessari frásögu að ekkert mátti vanta til þessarar gleði og hátíðarstundar í lífi karls og konu sem ganga í hjónaband.

Að verða uppiskroppa með vín í slíkri veislu þótti mikil hneisa þeim sem veisluna hélt.

Það kemur ekki fram í textanum hvaða hjón hér um ræðir en sumir hafa getið sér til um að Jóhannes skírari hafi verið að ganga hér í hjónaband. En ekki verður farið nánar út í það hér.

Eitt einkenni Jóhannesar guðspjallamanns er það að hver frásögn hefur tvíþætta merkingu. Frásögurnar eru iðulega auðsildar samkvæmt orðanna hljóðan en að baki hverri frásögn býr djúpur veruleika þeim til handa sem þörf hefur á að kafa og leita dýpra.

Í því samhengi er merkilegt að hugleiða hver fókus guðspjallamannsins er? Hver eru aðalatriði textans, þessa hér sem og guðspjallsins í heild?

Vatnskerin, sem um ræðir, voru til hreinsunar, eftir lögmálum gyðinga. Þar sem götur voru rykugar og fólk í sandölum voru fætur þvegnir áður en gengið var inn í hús, og hendur þvegnar fyrir mat og jafnvel milli rétta. Kerin voru notuð til þess arna, þar var nóg af vatni geymt.

Guðspjallamaðurinn setur ekki fókus á nýjan tilgang kerjanna. Kerin voru sex, en sjö er tala fullkomnunar. Jesús mótar ekki nýtt ker heldur breytir innihaldi kerjanna sex.

Athöfnin að breyta vatni í vín er ekki tíunduð nánar, það einfaldlega gerist og er athöfnin sjálf því ekkert aðalatriði. María hefur stórt hlutverk í þessu samhengi, en þáttur hennar er þó ekki aðalatriðið sem guðspjallamaðurinn er að benda á. Það að vatnið skuli breytast í vín frekar en eitthvað annað, er ekki aðalatriði textans heldur, þó svo ákveðin augljós tengst eru við kvöldmáltíðarsakramentið og aðra þjónustu Jesú.

Textinn hefur hins vegar guðfræðilegan tilgang og er það kjarni textans. Hann hjálpar til við að afhjúpa persónu Jesú. Það er mikilvægasta atriði guðspjallamannsins Jóhannesar að boða lesendum sínum að Jesús er sendur af Guði föður til að færa heiminum frelsi. Þessi texti hjálpar til við að styðja þann sannleika guðspjallsins. Þeirri dýrð svara lærisveinar hans með því að trúa á hann.

Hvernig má þetta vera? Hvernig birtir þessi frásaga dýrð Guðs?

Þessi frásaga er fyrsta kraftaverkafrásagan í Jóhannesarguðspjalli, hinar sex koma í kjölfarið.

Hún markar því ákveðið upphaf innan guðspjallsins, upphafs táknanna.

Einkenni allra þessara tákna er meðal annars það að Jesús útvíkkar siði og hátíðir gyðinga með orðum sínum og verkum, og gefur þeim nýtt innihald.

Lærisveinar Jesú hafa án efa skilið orð hans og athafnir á mjög táknrænan máta, í samhengi guðspjallsins alls.

Hér breytir hann innihaldi hreinsunarkerjanna, úr vatni í vín, og þar með hlutverki þeirra.

Fleira mætti nefna sambærilegt: Musterið í Jerúsalem er staður hins allra heilagasta, en Jesús er hið sanna musteri samkvæmt boðskap guðspjallanna. Annað má nefna að orð Jesú og hold og blóð vísa leið sem mannakornin í eyðimörkinni, í Exodus frásögunni ná aldrei. Jesús er sjálfur hið lifandi vatn. Með ljósahátíð gyðinga í huga, er Jesús sjálfur hið sanna ljós.

Í samhengi við þetta endurtúlkar Jesú siði, hefðir og hátíðir gyðinga, og vísar nýja leið það er til upprisu og eilífðar.

Í samstofna guðspjöllunum notar Jesús líkingar á borð við nýtt vín á gömlum belgjum, í tengslum við boðun sína. Ef nýtt vín er sett á gamla belgi spengir vínið belgina og allt ónýtist. Nýtt vín verður að setja á nýja belgi. Hinn nýi boðskapur kristninnar sprengir ramma gyðingdómsins, og verður því að geymast á nýjum belgjum, í nýju samfélagi trúaðra.

Fleira í textanum gefur tilefni til að ætla að lærisveinar Jesú skyldu orð hans á táknrænan máta, um að Jesús væri uppfylling fyrirheitanna. Lykillinn af öllum táknum Jóhannesarguðspjalls er setningin í fyrsta kafla en þar segir guðspjallamaðurinn: ,,Orðið varð hold!” Orð Drottins varð hold í Jesú Kristi.

Ég hef nefnt bæði gyðinga og grikki (hellena). Jóhannes guðspjallamaður hefur án efa verið gyðingur, tilheyrt hinum Semetíska heimi, og skrifað fyrir gyðinga, en einnig skrifar hann fyrir hellena, eða hinn gríska heim.

Við Gyðinga segir hann: Jesús er kominn í heiminn til að umbreyta hinu ófullkomna lögmáli í hina fullkomnu náð.

Við hinn gríska heim segir hann: Jesús er kominn til að gera í alvöru þá hluti sem ykkur dreymdi aðeins um að guðir ykkar gætu gert (sbr. Dionysos)

Allt hefur sinn tíma eins og þar stendur, og skilgreindi Jesús sig ávallt út frá vilja Guðs föðurs.

Hann segir í þessu guðspjalli:, ,, minn tími er ekki kominn!” Og vísar þar til þess hlutverks sem Guð ætlar honum til frelsunar og endurlausnar mannkyns.

Þau orð notar hann víða í Jóhannesarguðspjalli, að hans tími sé ekki kominn.

Jesús gekk alla leið í því að fylgja þeirri ætlun sem Guð hafði með hann í heiminum. Hann hafði ákveðinn tilgang sem Guð ætlaði honum á jörðinni, að brjóta ok dauðans og gefa af náð sinni líf og lausn öllum til handa sem trúa á hann.

Guð ætlar sér einnig eitthvað sérstakt með okkur hvert og eitt. Guð ætlar sér eitthvað með þig, kæri kirkjugestur.

Og minnir pistillinn úr Rómverjabréfi Páls postula okkur einmitt á þetta og náðargjafirnar. Mismunur er á þeim, hæfileikum okkar hvers og eins. Allar þær gjafir vill Guð að við notum okkur til blessunar og honum til dýrðar, til uppbyggingar til endurreisnar, sem verkfæri í guðsríkinu. Hverjar sem náðargjafir okkar nú eru!

Ég nefndi hér áðan hlutverk Maríu í þessum kafla guðspjallsins. Það er mikilvægt að sjá hve trú hennar á Jesú er sterk.

Hún sér að eitthvað skortir og þá snýr hún sér til Jesú, sonar síns og leitar aðstoðar hans. Hún veit ekki hvað hann getur svo sem gert, en hún trúir því að hann muni gera það sem rétt er. Hún trúir að það muni gerast eitthvað þó svo hún skilji ekki hvernig eða nákvæmlega hvað það er.

Eins er það svo oft í lífinu, að við mannfólkið stöndum í erfiðum sporum, stundum kveðjusporum er nákominn deyr.

Sælir eru þeir sem á þeim stundum treysta Guði þó svo þeir skilji ekki. Einmitt sú nærvera Guðs er boðskapur annarrar Mósebókar, og lesturs lexíunnar hér sem fermingarbörnin lásu hér áðan. Traustið á nærveru Guðs er aðalatriði texta. Drottinn yfirgaf ekki Móse og lýð sinn þrátt fyrir að lýðurinn tilbað gullkálfinn. Heldur beindi Guð lýðnum nýja leið og frelsaði lýðinn undan tortímingu.

Jóhannes sýnir okkur að hver og ein frásögn guðspjallsins segir okkur ekki aðeins það sem Jesús gerði einu sinni fyrir óralöngu, heldur það sem Jesús er alltaf að gera. Það sem hann er einnig að gera enn þann dag í dag.

Og það sem hann vill sýna okkur er að hvenær sem Jesús kemur inn í líf einhvers kemur eitthvað nýtt til sögunnar, sem er eins og að breyta vatni í vín.

Án Jesú er lífið leiðinlegt, innihaldslaust og flatt; þegar Jesús kemur inn í lífið verður það fullt af lífi, spennu og gleði.

Án Jesú er lífið ekki áhugavert; með honum er það spennandi og upp hafið.

Hvar sem Jesús fór og hvenær sem hann kom inn í líf einhvers var það eins og að breyta vatni í vín.

Þessa frásögu er Jóhannes einmitt að segja okkur, til þess að við sjáum þann sannleika í lífi okkar.

Ef þú þráir nýtt innihald í líf þitt, þá skaltu koma og fylgja Jesú Kristi, og það mun verða breyting á lífi þínu sem er eins og að breyta vatni í vín.

Því hvar sem Jesús er þar er líf. Bæði á gleðistundum sem og sorgarstundum lífsins.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.