Lúkas 2.1-14, En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústus Keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.

Í Íslensku hómelíubókinni, sem er frá því um 1200, þeirri íslensku bók, sem elst er allra innlendra bóka, eru skráðar stólræður fyrir ýmsa hátíðisdaga og merkis messur. Tvær stólræður eru þar fornar fyrir jóladag og er það kostuleg lesning. Hálft í hvoru var ég að velta því fyrir mér, hvort ég gripi bara ekki aðra af þessum átta hundruð ára prédikunum og læsi orðrétt fyrir söfnuðinn í Landakirkju á jóladegi í ár. En tvennt kom í veg fyrir það. Annað er augljóst, að ég hef ekki unnið þannig að stólræðugerð í mínum prestskap, sem gæti flokkast undir “kópí-peist” aðferðina, það er að klippa ræðubúta héðan og þaðan og splæsa þeim saman í samfellda útleggingu á guðspjalli dagsins, hvort sem það er á jóladag eða aðra helga daga. Hitt er ekki alveg ljóst nema textinn sé lesinn. Kemur mjög fljótt í ljós að orðfærið getur ekki átt við. Textinn er of kyngimagnaður. Strax í annari setningu hómelíunnar, er minnst á tælingu Adams, er hann var tældur af hinni djöfullegu vél. Svona orðfæri gæti kostað mig kallið ef ég væri að segja þetta beint frá sjálfum mér en ekki að vitna í forna texta. Um þessar mundir þykir slíkt orðbragð ekki hæfa í kirkjunni, eða hjá blessuðum prestinum yfirleitt. Og guðhræddar sálir þyrftu að signa sig ítrekað undir slíkum og þvílíkum reiðilestri.

En það er engu að síður gaman að sjá hvernig prédikarinn byggir upp sína vönduðu útleggingu. Hómelían er fræðandi. Höfundurinn leggur út af ýmsu sem þá var talið um heiminn og söguna. Þegar hann leggur út af þeim orðum jólaguðspjallsins, “En það bar til um þessar mundir,” tímasetur hann fæðingu Drottins vors Jesú Krists, Domini nostri Iesu Christi. Um tilkomu hans hafði verið spáð all ítarlega og aðstæður í heiminum voru einmitt eins og þær áttu að vera, samkvæmt því sem höfundur Hómelíunnar segir. Tímasetningin hljómar einkennilega í dag, á okkar herrans ári 2005. Í því áratali, sem við notumst við, miðum við vitaskuld við árin, sem helguð hafa verið frá fæðingu Frelsarans, ár ríkidæmis hans, árin sem veldi kærleika hans hefur verið ríkjandi. Árin, sem helguð hafa verið sigri hans yfir dauðanum og hvítþvotti syndanna. Árin undir sigurmerki hins auða kross, táknmynd þess að Kristur er sannarlega upprisinn.

En í þá daga varð að miða við veldisár annarra konunga en konungs konunganna, því það sannaðist ekki fyrr en eftir fæðingu hans og eftir úrslitaorrustuna á Golgata, hver hann var. Því er það að Jesú fæddist árið 5338 frá sköpun heimsins. En eins og títt var um merka atburði, er dagsetningin tekin út frá fleirri en einni línu, rétt eins og þegar við tökum tvö mið hið minnsta til að ákvarða staðsetningu. Jesú var semsagt fæddur á 52. ríkisári Ágústínusar keisara í Róm, sem ríkti alls í 56 ár eftir Júlíusi keisara. Eru þá nefndir til tveir þekktir keisarar hið minnsta því atburðurinn var merkur. Hann hafði áhrif út fyrir veldisár eins konungs en það er það sem það vísar til, þegar tveir eða fleiri eru nefndir í þessu samhengi. En eins og allir menn Ágústínusar voru kallaðir þannig eftir honum, þá eru allir kristnir menn kallaðir eftir Kristi. Þar með er komin ein samlíkingin.

Þegar fæðing Jesú er miðuð út frá sköpun heimsins, ber okkur að líta framhjá því hvernig litið var á upphaf heimsins út frá þekkingu á náttúrunni í þá daga, á þeim dögum sem hómilían er rituð eða nú á tímum eftir að náttúruvísindin hafa þróast og dafnað. Það mið sem okkur er gefið í þessari tímasetningu er að vísa okkur til æðri hluta en svo. Tímasetningin er að vísa til þess Drottins allsherjar, sem er hinn alvaldi Guð allra heima og geima, Guð eilífðarinnar og Guð þess tilgangs, sem við sjáum með lífinu hér á jörð, hinni tímanlegu tilvist í hverfulleika heimsins og fallvaltleika mannsins og manna verka samanborið við eilífa nærveru Guðs og Orðs hans, er varir að eilífu. Hér er vísað til sambandsins á milli skapara og sköpunar hans, sambandið milli Guðs og manns og hvernig Guð mætir manninum og maðurinn Guði í atburði jólanna. Auk þess er vísað til þeirrar setningar trúarinnar að með fæðingu Jesú í Betlehem hafi orðið hin önnur sköpun. Og síðar meir var ekki talað um annað en hina nýju sköpun, þegar talað var um fæðingu Jesú. Það kemur meðal annars vel fram í Passíusálmum sr. Hallgríms og guðfræði hans, sem hefur mótað guðfræði Íslands síðan á 17. öld. Í því fellst ekki síst sú staðreynd trúarinnar að með fæðingu Jesú hafi aðstæður alls mannkyns endurnýjast svo algerlega að heimsmyndin var orðið breytt. Afstaða Guðs til manna og reynsla manna af Guði voru hvoru tveggja svo gersamlega endurnýjuð að hið fyrr var horfið. Því aðeins er stuðst við tíma hinnar gömlu sköpunar að það var til samanburðar og skírskotunar vegna hinnar nýju. Og auðvitað byggði fagnaðarerindið á hinu gamla, en einkum á spádómunum um þann atburð að Guð gerðist maður.

“En það bar til um þessar mundir,” er sá hluti jólaguðspjallsins, sem við ætlum að staldra ögn lengur við að sinni. Þegar Ágústínus hafði ríkt í hartnær 52 ár og þar á undan Júlíus Cesar var sannarlega festur í sessi sá tími, sem á síðan hefur verið nefndur Pax Romanum, hinn rómverski friður. Með nokkuð öruggum og Biblíulegum hætti má færa fyrir því rök að Guð hafi einmitt stuðlað að því að þessi friður ríkti um tíma áður en hann sendi son sinn eingetinn inn í þennan heim. Aðeins langvarandi friðartími var við hæfi sem sögulegur bakgrunnur að fæðingu friðarhöfðingja heimsins, eilífðarhetjunnar. Friðarkonungurinn kæmi í sannan frið, þá er hann kæmi til jarðar.

Vissuleg er hér samlíking í því að friður ríkti um allan heim, í öllum þeim þremur hlutum heimsins, sem honum var þá skipt í, Asíu í austur, Afríku í suður og Evrópu í norður. Og hann kom einmitt til jarðar í skurðarpunkti þessara þriggja hluta heimsins. En með komu Guðs í heiminn skyldi ekki aðeins ríkja þessi friður í þremur hlutum hans, heldur og á milli himins og jarðar. Í því felst sáttmálinn, sem nú var gefinn, orðfæri nýrrar sköpunar.

En tímasetningin er einnig fyllt með æðri merkingu þegar litið er til þess tilefnis, er rak heimsbyggðina alla, hvern mann til sinnar heimaborgar. Og þar er komin ein hliðstæðan enn, sem Hómelíubókin vekur okkur til umhugsunar um. Það er hliðstæða þess að skrásetningin var gerð til þess að hver maður greiddi keisaranum, sem sat á friðarstóli, skatt sinn – eftir hinu veraldlega réttlæti. Fæðing Jesú var til þess að krefja alla menn til fylgdar við hið æðsta boðorð um kærleikann og skylduna við aðra menn – til fylgdar við rættlæti Guðs. Það var skattheimta almættisins. Og undan þeirri skattheimtu allri, bæði af hálfu keisarans og af hálfu Guðs, gat enginn maður vikist. Allir menn voru krafðir reiknisskila því atburðirnir voru samlíking þess að eins og keisarinn átti erindi við alla menn heimsbyggðarinnar í Rómaveldi, átti Guð erindi við allt mannkyn, sem heyra skyldi undir veldisstól himnaríkis.

Það er mjög merkilegt að sjá hvernig þessi hugsun, rökfærsla og samlíking frá miðöldum getur átt mikið við á okkar nútíma. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við víða merki þess að á okkar tímum hugsa menn ekki eftir ólíkum leiðum. Mjög fróðlegt er að sjá og heyra af sögulegri framvindu þjóðmála, eða jafnvel alþjóðlegra átaka og stríða, í samhengi og með samlíkingu við vilja Guðs og hvert ætla má að hann vilji að við stefnum. Talað er um íhlutun Guðs og hönd Guðs getur meira að segja verið að verki á úrslitastundu í fótboltanum. Bandaríkjaforseti lítur á sig sem verkfæri Guðs og leitast við að vera honum handgenginn. Er það ekki dæmi af handahófi, því þar er auðvitað keisari nútímans, er stýrir einu mesta heimsveldi sögunnar. Það, sem gerist þar í þeirri álfu, er einnig að gerast hér á landi enda er ekki annað mögulegt en að vera undir áhrifavaldi heimsveldisins, svo nærri sem við erum og svo seldir sem við erum þeirri menningu. Samt skiljum við ekki allt sem þar fer fram og hvert stefnir. Hver er staða Drottins vors Jesú Krists gagnvart hinni miklu veraldarhyggju sem knýr efnahagsvél þessa mikla heimsveldis? Hver er staða hans orðin í stórmarkaðskeðjunni Sears, í desember á því Herrans ári 2005, þegar starfsfólki var hótað brottrekstri ef það óskaði viðskiptavinum sínum gleðilegra jóla? Það mætti spyrja sig ýmissa spurninga í þessum dúr, en við gætum líka litið okkur nær. Við gætum velt fyrir okkur hver staða guðsríkis er í okkar veraldarríki, Íslandi, sem haslar sér stöðugt víðari völl á alþjóðlega vísu og viðskiptaveldið vex. Á sama tíma er sú þróun furðu mikið áberandi að efast er um áhrifavald Guðs, vegið er að boðorðunum og Orði Guðs í Biblíunni er riðið á slig til að það falli betur að geðþótta mannanna. Og mér er spurn, hvort hið æðsta boðorð, um náungakærleikann og um elskuna til Guðs, er enn hið æðsta boðorð eða aðeins til skrauts á tyllidögum. Já, hvernig stendur hin nýja sköpun að vígi gagnvart veröldinni á okkar tímum, þegar það ber til, að við erum kölluð saman til jólahátíðar?

Það er spurning hvort Orð Guðs þyki orðið of kyngimagnað fyrir viðkvæm eyru nútímamannsins, því hann er altekinn orðinn af veraldarhyggjunni, jafnræðishyggjunni, frjálsræðishyggjunni, ágóðavæðingunni, útþennslustefnunni, sérhyglinni og hvað það nú allt heitir sem ræður ríkjum í íslenskum veruleika um okkar mundir. En það er eitt sem þessi veruleiki hefur ekki uppá að bjóða. Nútímamaðurinn hefur ekki friðarsýn. Hann veður fram ógreiddur, illa rakaður og bindislaus með hjörð af lögfræðingum og alls kyns veraldlegum ráðgjöfum í föruneyti sínu, ekki til að skapa frið heldur til að vinna á öllu, sem á vegi hans verður og brjóta niður alla dóma og kennivald, sem hugsanlega gæti stöðvað hann og hans einarða hyggjuvit.

Í friðarsýn jólaboðskaparins er dómur Guðs æðstur dómur og kennivaldið í Orði hans er hið æðsta kennivald. Guð forði okkur frá því að vera tæld af vélum andstæðinga hans. Guð leiði okkur fyrir sjónir þá friðarsýn sem boðskapur jólanna hljóðar uppá og sú friðarsýn leiði okkur til móts við réttlæti Guðs, sem er æðra öllu öðru réttlæti. Guð forði okkur frá því að vera ofurseld hisminu og vera tæld til hlýða ekki boðorðum hans. Reynum að sjá hvað það er í þessum heimi, sem Guð er að láta gerast, svo að það megi bera til um okkar mundir, að boð Hans heyrist um gjörvalla heimsbyggðina. Aldrei mun heimurinn sjálfur, né heldur nokkurt heimsveldi, geta komið á friði á jörðu í eigin mætti. Ekki frekar en maðurinn geti nokkru sinni bjargað sálu sinni sjálfur. Aðeins með því að Drottinn alsherjar hagræði og hlutist til um stjórnarfarslega og þjóðfélagslega þróun mála á alþjóðlega vísu mun það verða sem hann vill. Aðeins þá mun vilji Guðs og hans friðarsýn fá að leiða mannkyn á vit réttlætisins sem er öllu öðru réttlæti æðra. Aðeins þannig mun jarðvegurinn plægður og búinn til sáningar að hann geti á endanum borið fagnaðarerindinu um Jesú Krist fagurt vitni. Og mitt í látlausum fréttaflutningi af auðæfum og stórkostlegum veltugróða skulum við minnast þess, að Drottinn, Jesús Kristur, kom einmitt í þennan heim í algerri fátækt, til þess eins að það væri augljóst, að hann kom til að auðga okkur af óumræðilegum góðum hlutum er sjást munu í komandi dýrð hans og mætti. Minnumst þess að einmitt þannig kom hann sem lausnari heimsins, friðarhöfðingi, eilífðarkonungur og guðhetja. Og með komu hans á jörðu, tók Guð faðir, skaparinn, yfirvegaða áhættu er hann lét hina nýju sköpun ganga fram. Berum þetta ljós upp að öllum hlutum sem eru að gerast og gerast munu á sýnilegan eða ósýnilegan hátt til að við sjáum þá dýrð sem hann er sannarlega að opinbera allri heimsbyggðinni.