Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Biðjum:

Ó virstu, góði Guð, þann frið,

sem gleðin heims ei jafnast við,

í allra sálir senda,

og loks á himni lát oss fá

að lifa jólagleði þá,

sem tekur aldrei enda. (sl. 69:3) Amen.

Nú í undirbúningi þess að ganga að jötunni og fagna komu Guðssonar í heiminn, erum við minnt á endurkomu hans.

Guðspjall dagsins er texti um hina hinstu tíma er Mannssonurinn mun koma í mætti og dýrð, Mannssonurinn mun koma öðru sinni.

Er við fögnum helgum jólum, fögnum því að skaparinn hái steig niður í duftið til sköpunar sinnar, erum við jafnframt minnt á endi tímanna, er allt verður fullnað í Drottni sjálfum.

Guðspjallatexti dagsins er því dómsdagstexti.

Eins og við segjum, um Jesú, í postullegu trúarjátningunni, sem við öll játum: ,,… situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða”.

Kristur mun koma! Kristur mun dæma!

Margir textar eru um hismið og kjarnann!

Margir textar eru um ávextina, verkin, ,,af ávöxtum þeirra skulið þér þekkja þá!”

Varað er við falsspámönnum er líkjast lömbum en eru úlfar í sauðagæru.

Í guðspjöllunum er einnig talað um

þrönga veginn og breiða veginn. Og er víða talað um að þröngur sé sá vegur sem liggur til lífsins, en breiður vegurinn sem liggur til glötunar, og margir þeir sem fara hann.

Á hvaða vegi ert þú kæri kirkjugestur?

Hér í helgri kirkju söfnumst við um hið heilaga. Við söfnumst saman til að heyra heilagt orð, frá þeim sem er og var og verður.

Guðspjallaorð annars sunnudags í aðventu boðar okkur dóm Guðs.

Hver okkar er hólpinn í þeim hinsta dómi?

Hver lifir sínu lífi réttlátlega?

Hver trúir nóg? Iðrast nóg? Hvað er nóg þegar hugsað er um dóm Guðs?

Við vitum það ekki. Guð einn veit.

En við höfum jólabarnið í jötunni, sem jólaljósin í gluggum okkar, á jólatrjánum, húsum og víðast hvar sem hafa verið tendruð á aðventunni, jólabarnið sem jólaljósin vitna um.

Jesús segir á helgum stað, ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Í trú og trausti til lífsins orða Jesú getum við verið náunga okkar það ljós og það líf sem skaparinn kallar okkur til.

Kristur kemur! Við bíðum komu hans. Um það snýst aðventan.

Á helgum jólum kemur Kristur í hógværð og lítillæti og biður mannkyn að koma að jötu sinni, taka við sér, opna leið, búa til pláss í hjarta okkar fyrir hann sem kemur, fyrir orðið sem hann er frá upphafi.

Þrátt fyrir alla tækni og vitneskju manna um heim og náttúru, ferðir manna um hnöttinn allann, út fyrir gufuhvolfið, til tunglsins. Þrátt fyrir vísindin, sem segja okkur ýmislegt um manninn og heiminn, eðli og hraða, stærð og smæð, erfðafræði, litninga, atóm, kvarka og bylgjufræði, þá er þeirri spurningu enn ósvarað sem varðar manninn mestu:

Hvað verður að lífi loknu?

Sú blákalda staðreynd blasir við, og verður ekki neitað, að allt jarðneskt líf tekur enda. Það er kaldur veruleiki, en sannur! Það getur verið kalt í mannanna heimi, og er napurt í Eyjum í norðaáttinni, við þekkjum hvað það getur verið kalt.

Er engin hjálp í þessum kalda og myrka heimi? Þegar sólin rétt skyggnist yfir sjóndeildarhringinn hér á norðurhveli? Er ekkert svar sem svalar sálu manns?

Jú!

Svarið var lagt í jötu. Svarið er Jesús Kristur. Það svar verður hver og einn að gefa rými í sínu hjarta og staldra við.

Staldra við!

Þess vegna heitir aðventan öðru nafni jólafasta. Aðventan er íhugunartími um hvernig við högum okkar lífi.

Fasta, að neita sér um mat. Þannig setjum við okkur í spor þeirra sem sitja ekki við gnægtarborðið líkt og við! Þannig minnumst við þeirra sem líða, og leitum leiða til að rétta fram hjálparhönd.

Jólin höldum við í kringum jötuna. Í Jesú Kristi er hjálpin fundin, hjálp mannkyns, hvers og eins, í köldum og myrkum heimi.

Í þeirri jötu hvílir hjálpræði manna.

Á jólum hefst vegferð Krists með mannkyni, vegferð sem illskan vildi enda á krossi. En náðarsól upprisunnar lýsti upp allt það myrkur, og bræddi allan þann illsku klaka.

Það er hjálpræðið sem allir menn eiga í Jesú Kristi. Það er hjálpin, dauðinn hefur ekki síðasta orðið, heldur kærleikur Guðs til þín.

Vegna Jesús Krists, er dómur Guðs sýknudómur. Vegna Krists, vill Guð sættast við mannkyn. Vegna Krists, vill Guð eiga eilífð með mannkyni og gjörvallri sköpuninni.

Það er svarið, það er hjálpin sem öllum býðst, það er hjálpræðisboðskapur páskanna, þess vegna söfnumst við saman, í trú, um jötu þessa litla barns á jólum.

Hjálpræði Guðs er ætlað öllum mönnum, öllum mannfólki, öllum manneskjum, ungum gömlum, stórum smáum, konum körlum, gulum, hvítum, svörtum, brúnum, menntuðum ómenntuðum, síðhærðum sköllóttum, fjölskyldufólki einstæðingum, barnafólki barnlausum, gagnkynhneigðum samkynhneigðum. Öllum!

Hvaðan sem við erum eða komum, þá er boðskapurinn fyrir þig – við megum öll eiga von á því hjálpræði sem litla barnið í jötunni gefur tilefni til, gefur hverjum og einum.

Það eru dýrleg sannindi í okkar á stundum kalda og myrka heimi.

Jólaljósin okkar eru trúarjátning þess efnis að myrkrið hafi ekki síðasta orðið, að nepjan og kuldinn hafi ekki síðasta orðið, heldur kærleikans ljósið frá upphafi.

Í trúarjátningu okkar, játum við trú á skapara heimsins.

Um leið og við játum þá sköpunartrú, játumst við sköpun hans og framgangi sköpunarinnar, og tökum undir með orðum skaparans: ,,Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.”

Í þeirri sömu sköpunarfrásögu skapar Guð manninn eftir sinni mynd, (Imago Dei,) skapaði manninn eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.

Guð fékk mannkyni sérstakt hlutverk í sköpun sinni. Guð kallar mannkyn til ábyrgðar gagnvart umhverfi sínu, Guð kallar mannkyn til þátttöku í hinni sístæðu sköpun sem fram fer hverja líðandi stund til blessunar mannkyni og dýrðar skaparanum.

Þessi sköpunarguðfræði er grundvallandi fyrir okkar kristnu sköpunartrú.

Líkt og við lítum ekki framhjá þeirri staðreynd að jarðneskt líf tekur enda, þá eigum við ekki heldur að líta fram hjá þeirri staðreynd að kynin tvö þarf til, svo að mannkyn eigi möguleika á að fjölga sér.

Það er ekki tilviljun ein sem ræður því að kynin tvö skuli nefnd í fyrstu setningum heilagrar ritningar, og endurtekin af frelsaranum sjálfum í Mt. 19. þar sem á báðum stöðum er talað um framgang mannlegs lífs og samskipti manna á meðal og samskipti mannkyns við Guð.

Á þessari rót er hjónavígsla kirkjunnar grundvölluð. Hjónavígsla kirkjunnar, þar sem kynin tvö standa frammi fyrir skapara sínum og takast á hendur þetta grundvallar hlutverk sem Guð kallar mannkyn til.

Um leið játast þau hvort öðru og lýsa þeim vilja sínum að lifa saman í kærleika og sátt um aldur og ævi.

Sambúðin og samlífið getur síðan skilað þeirri blessun Guðs að ávöxtur kviðar hennar verði þeim báðum blessun og Guði dýrð. Það má segja að María og Jósef séu fyrirmynd hinnar kristnu fjölskyldu.

Þó svo flestir eigi játninguna til skapara síns alla ævi, þá reynist mörgum erfitt að standa við játninguna til maka síns, vera trú og traustur ævina út.

Svik og framhjáhöld eru orðin afþreying í sjónvarpi og víðar. En þegar einstaklingar standa í þeim sporum sjálfir er aldrei um afþreyingu að ræða. Þvílíkt böl og angist sem fylgir slíku, þegar traustið er rúið, þegar orðin standa ekki lengur milli fólks og ásakanir og hatur skjóta rótum.

Það er ekki á allra færi að ganga í hjónaband. Jesús Kristur segir það sjálfur á helgum stað þegar hann svarar spurningum um hjónabandið og samfélag, þá svarar hann í Mt. 19. kafla og er þar að tala um hjónabandið:

,,Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli sem höndlað fær.” (Mt. 19:11-12)

Hjónabandið er skikkans skaparans og blessun þeim karli og þeirri konu sem ganga þá leið og taka það hlutverk að sér sem skaparinn kallar þau til.

Það er ekki hjálpræðisatriði að ganga í hjónaband, en þvílík gjöf þeim sem fær og höndlað getur!

Hjálpræðið í Kristi eigum við öll sakir náðar Guðs til þín og mín. Þar er ekki spurt að kynþátt, kynferði, kynhneigð eða annað sem markar okkar jarðneska hold!

Hjálpræðið eigum við öll fyrir trúna á hann sem kemur. Trúna á hann sem við á aðventunni bíðum eftir, trúna á hann sem leiðir okkur að jötu sinni til samfélags við Guð og menn í ljósi og lífi, bæn kærleika og yl.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.