Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það er allra heilagra messa!

Hverjir eru heilagir?

Við játum trú á ,,heilaga almenna kirkju” í Postullegu trúarjátningunni, sem við fórum með hér fyrr. Sú játning er gömul skírnarjátning frá Jerúsalem og sameinar ýmsar ólíkar kirkjudeildir kristninnar, sem Níkeujátningin gerir fyrst og fremst.

Heilög almenn kirkja. Orðið heilagur hefur stundum verið útskýrt út frá orðinu frátekinn. Kirkjan er heilög vegna þess að hún er frátekin til ákveðinna athafna, til helgihalds. Hún er heilög því hún er byggð um hið heilaga.

Barnið, hvítvoðungurinn, sem borinn er til skírnar hefur ekki unnið sig til metorða hér í heimi. Ekki unnið sig upp virðarstiga og sigra.

Í skírninni er Guð að verki. Í skírninni er það Guð sem skuldbindur sig barninu og lítur til einstaklingsins í náð og segir: Þetta er barnið mitt, ég er þinn Guð!

En hverjir eru heilagir?

Orðið heilagur, er gjarnan notað yfir þá einstaklinga sem taldir eru hafa lifað slíku lífi að nafnbótin hæfi þeim. Ýmsir hafa þjónað Guði í kyrrþey, án þess að fara hátt með. Ýmsar manneskjur hafa einnig látið á sér bera í þeirri þjónustu og fengið stöðu dýrlinga hjá kaþólsku kirkjunni.

Mótmælendakirkjur hafna slíku, dýrlingadýrkun, en viðurkenna þó að ýmsir séu þeir sem lifa lífu sínu til eftirbreytni fyrir aðra.

Á allra heilagra messu minnumst við og þökkum líf og störf allra þeirra. Og ekki síður er dagurinn minningardagur um alla þá píslavotta sem gjalda lífi sínu fyrir trúna. Þeim fer fjölgandi í heiminum á okkar tímum.

Hinir heilögu eru samt fyrst og fremst þær manneskjur sem safnast saman um hið heilaga.

Hinir heilögu eru þeir sem safnast saman til að hlýða á heilagt orð, safnast saman til að neita heilagra sakramenta og leyfa hinu heilaga að helga líf sitt og starf.

Hinir heilögu eru sem sagt allar kristnar manneskjur sem safnast um hið heilaga. Því með skírninni erum við bræður og systur Jesú Krists. Erfingjar eftir fyrirheitinu, samarfar hans og þiggjum með því eilífð og endurfundi.

Allra heilagra messa er í auknum mæli að verða minningardagur. Minningardagur þar sem við minnumst þeirra sem hvatt hafa okkur og gengið yfir þau skil sem aðgreina líf og dauða. Við horfum því aftur á þessum degi og minnumst.

Í sýn Jóhannesar í Opinberunarbókinni er hins vegar horft til framtíðar. Þar er að finna vitnisburð um eilífðina handan móðunnar miklu.

Þar mun eigi til vera hungur né þorsti né heldur brennandi hiti sólar eða nístandi kuldi frostsins. Því lambið í hásætinu verður hirðir þeirra, sem safnast um hið heilaga, og mun leiða þau öll að vatnslindum lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.

Það er falleg huggunarsýn sem postullinn gefur í orðum sínum á degi minninga.

Hverra minnist þú, kæri kirkjugestur, á þessum degi? Settu þau þér fyrir sjónir. Hver eru þau sem gengin eru á undan þér sem þú minnist með þakklæti í kirkjunni í dag?

Öll eigum við án efa minningar um einhvern sem látinn er. Vinur, vinkona, amma eða afi, mamma eða pabbi, systir eða bróðir…, og/eða aðra sem staðið hafa okkur nærri.

Einstaklinga sem hafa verið þýðingarmiklir í okkar lífi, við höfum á tímum stólað á. Sumir kannski brugðist okkur einhvern tímann, aðrir staðið sem klettar í gegnum uppvöxt okkar, þroska, lífið allt.

Slíkar minningar kveikja tilfinningar í brjóstinu, söknuður og sviði gera vart við sig, og kannski vakna ýmsar spurningar sem var ósvarað, þegar andlát bar að höndum, og verður ekki svarað hér í okkar heimi.

Dagurinn í dag er því ekki aðeins dagur minninganna heldur einnig dagur sársaukans. Þar sem hugurinn hvarflar til þeirra sem við eigum ekki enn hjá okkur, þeirra sem minningin ein geymir. Og minningin á stundum gleymir. En við einnig biðjum fyrir. Þannig verður dagurinn ekki einungis dagur minninga og sársauka heldur og kannski umfram allt dagur bænarinnar.

Dagur bænarinnar er við biðjum fyrir þeim sem kvatt hafa, og við biðjum Guð að helga allar minningarnar. Við biðjum fyrir okkur sjálfum og þeim sem standa okkur nærri. Við biðjum fyrir þeim sem syrgja. Við biðjum fyrir öðrum, sessunautum okkar, náunga okkar, sem við vitum að á sömu reynslu í sínum brunni. Biðjum fyrir heiminum, öllum manneskjum að Guð vitji, þerri tárin, huggi, styrki, helgi og svali.

Bænin, Orðið heilaga, trúin skapar nýtt og hreint hjarta, hreinsar, svalar og nærir.

Í opinberun Jóhannesar er að finna framtíðarsýn postulans.

Kristin trú og von er von til eilífðar, von til lífs.

Önnur trúarbrögð eiga ekki þessa von með sama hætti, Kristur gefur þessa von, Kristur gefur þessa trú.

Þá von og þá trú eigum við fyrir náð Guðs. Eins og barnið sem borið er að skírnarfontinum er tekið í faðm Guðs að hans frumkvæði, eins erum við Guðs börn vegna náðar hans, ekki vegna þess hvernig við höfum staðið okkur í lífinu heldur vegna þess að Guð elskar hvern og einn – hér inni –hvert og eitt þeirra sem hvatt hafa – hvern og einn sinn lærisvein.

Dauðinn er ógnvaldur fyrir allt líf. Dauðinn ógnar mannlegu lífi, því þangað stefnir allt sem andann dregur.

Gagnvart þeirri staðreynd eiga vísindin fá svör. Vísindin geta sagt okkur margt um það hvernig heimurinn er, hvernig hann virkar, hvað það er sem gerir það að verkum að hlutir falla til jarðar, að öldurnar rísa, að vindurinn hvín, og svo framvegis. En trúin fer ekki í rökræður.

Trúin er það að eiga játningu gagnvart þeirri bláköldu staðreynd að lífið tekur enda.

Að játa trú í samfélagi um hið heilaga gefur líf og klett til að standa á gagnvart staðreyndum lífs og dauða.

Það að skyggnast bak við huluna, fá svör að handan er lífsseig íþrótt í íslenskri menningu, en sjaldnast farsæl.

Biblían er fátæk af slíkum upplýsingum. Biblían talar lítið um hvað þar er að sjá, handan hulu þessa heims.

En Biblían bendir til Jesú Krists. Hún bendir til þess sem segir: ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, enginn kemur til föðurins nema fyrir mig” og svo á öðrum stað segir hann sem Biblían bendir á ,,hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyji!”

Hver sem trúir á mig! Biblían bendir okkur mönnunum á leið trúarinnar.

Biblían bendir til hans sem gerir allt heilt. Hann mun reisa við hið fallna, reisa við frá dauða, gefa eilífð og endurfundi.

Ég tek það gilt!

Þar verður hver að svara fyrir sig. Játa fyrir sig.

Allra heilagra messa á að minna þig, kæri kirkjugestur, á, að hann sem gerir alla hluti nýja, hefur tekið við ástvinum þínum, sem kvatt hafa í dauða, og hann leiðir þau öll á grænar grundir til hvíldar, leiðir þau um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Og einnig þig, kæri kirkjugestur. Hann vill einnig leiða þig sinn lífsins veg, hér í heimi sem og er kvölda tekur og degi lífs okkar hallar.

Og ekki nóg með það heldur talar Jesús í guðspjalli allrar heilagrar messu um saltið og ljósið. Og segir: Þér eruð salt jarðar!

Saltið er hvítt sem er tákn hreinleika, heiðarleika, hins tæra huga. Saltið hefur það eðli í matargerð eins og við þekkjum að það dregur fram bragðið í matnum.

Og Jesús segir við þig kæri kirkjugestur, þú ert salt jarðar… hann vill draga það besta fram í þér svo heimurinn sjái í þér útrétta hönd skaparans.

Eins segir Jesús við lærisveina sína, sem eiga ljósið, heilagt lífsins orð. Hann segir við okkur sem fáum að heyra Guðs orðið: Ekki fela það. Sýnið það í lífi ykkar hvaða trú þið eigið. Ekki fela lífsins orðið undir bekk eða mælikeri, dreifum birtu þess í kringum okkur svo þeir sem í myrkri standa, þeir sem hafa myrkur sorgar eða vonleysis yfir sér, öðlist ljós af lífi okkar. Það er ekki lítið hlutverk, heldur mikil og dýrmæt ábyrgð sem frelsarinn felur lærisveinum sínum öllum.

Þrátt fyrir erfiðleika og missi í lífinu hvetur Jesús okkur til að gefa af okkur til uppbygginar fyrir aðra, til líknar, til svölunar fyrir þá sem ganga þyrnda stíga tilverunnar.

Því á þeirri leið heldur frelsarinn í tauminn og teymir lærisveina sína að vötnum þar sem þau öll mega næðis njóta, hann hressir sál þeirra og leiðir þau um rétta vegu til heimahafnar.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.