Biðjum:

Lát mig starfa, lát mig vaka, lát mig iðja, lát mig biðja, lifa, meðan dagur er. Lát mig þreytta, þjáða styðja, létt sem fuglinn lát mig kvaka, lífsins faðir, Drottinn hár. Lofsöng, Drottinn, flytja þér, þerra tár og græða sár, meðan ævin endist mér, gleðja og fórna öll mín ár. Margrét Jónsdóttir

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég svaraði þeim spurningum um daginn: Er að marka Biblíuna?

Já, svaraði ég, það er að marka Biblíuna.

Er það satt sem stendur í Biblíunni?

Já það er satt sem stendur í Biblíunni.

Af hverju er svona mikið um styrjaldir og hörmungar í Biblíunni, mér finnst að það eigi ekki að vera í hinni helgu bók? Er hún ekki skrifuð af Guði!

Góðar spurningar og hollar vangaveltur.

Biblían er orð Guðs, rituð af mönnum á hinum ýmsu tímum. Ritningin hefur tvær víddir ef svo má segja. Annars vegar hina sögulegu vídd, það er hún er rituð í sögulegu samhengi. Hins vegar hina andlegu vídd, það er, heilagur andi Guðs leiddi þá sem rituðu, og mætir þeim sem lesa Biblíuna með augum trúarinnar.

Biblían er óskeikul og sönn í sinni andlegu vídd. Hún boðar Guð almáttugan föður, sem er trúfastur Guð, hún boðar Jesú Krist, frelsara, hinn rauða þráð, sem bindur saman allar bækur Biblíunnar. Þannig er hún innblásin og óskeikul.

Jesús Kristur er hjarta Biblíunnar.

Það var maður dæmdur í dómskerfinu um daginn til 16 ára fangelsisvistar fyrir að hafa banað sambýliskonu sinni Sri Ramawati, blessuð sé minning hennar.

Hryllingur!

Ofbeldi!

Andlegt – líkamlegt! Ofbeldi á heimili.

Þar sem ríkja á skilningur, nærgætni, virðing, kærleikur og traust.

Réttlætið verður að fá að tala í slíkum málum.

Þeir sem lenda í slíkri stöðu geranda eða þolanda, heimilisofbeldis, andlegs eða líkamlegs, geta fundið slíkan veruleika á síðum hinnar helgu bókar.

Ritningin fjallar nefnilega um mannlegt líf, og samskipti Guðs við okkur mennina og aðra sköpun sína. Stöðu okkar mannanna gagnvart Guði, gagnvart umhverfi okkar og stöðu okkar og líf í mannlegu samfélagi.

Í gamla testamentinu er að finna lögmálið. Lögmál Gamla testamentisins hefur í för með sér ákveðinn dóm. Ýmis boðorð byrja: ,,Þú skalt ekki…”.

Víða er vísað í hinn hinsta dóm, lokadóminn á hinstu tímum.

Það má líka segja að í lífinu miðju er það andi Guðs sem dæmir okkur breyska menn í hjarta okkar þegar samviskan nagar og brennur.

Þetta er eitt af grundvallaratriðum kristindómsins – Guð dæmir. Guð dæmir okkur fyrir hugsanir hjartans, verk tungunnar og líkamans.

En dómur Guðs er sýknudómur. Jesús Kristur tók á sig syndir mannsins, bar þær alla leið á krossinn og sigraði dauðann með upprisu sinni.

Það er fagnaðarerindið. Syndir þínar eru fyrirgefnar.

Syndir þínar, verknaðarsyndir, hugsanasyndir, allt sem geigar í lífi þínu, það er þér fyrirgefið. Vegna Krists. Hann elskar þig.

Siðbótarmennirnir Lúther og fleiri, þeir sögðu: sola fide, sola scriptura. Sem útleggst eitthvað á þá leið: ,,Trúin ein” frelsar, ,,ritningin ein” sker úr um kenningarleg málefni.

Ekki mannasetningar páfa, biskupa, presta, heldur trúin ein á Guð: föður og son og heilagan anda.

Í Kristi finnum við eðli Guðs, þá náð, að öðlast fyrirgefningu og sátt. Því Guð elskar þig!

En með líf Jesú og dauða í huga sjáum við að sú sátt og sú fyrirgefning tekur á okkur. Fyrirgefningin er ekki aðeins fólgin í því að gleyma hinu slæma heldur felur hún í sér loforð þess efnis að bæta sig, loforð þess að við bætum okkur. Að já-in okkar þýði já, og nei-in okkar þýði nei. Bæði í orðum og athöfnum. Fyrirgefning manna í millum er fólgin í sáttargjörð, samningar eru endurnýjaðir og horft til framtíðar, með reynslu fortíðar fyrir hugskotssjónum.

Jesús hvetur í guðspjallalestri dagsins, um bræðurnar tvo, til þess að menn séu samkvæmir sjálfum sér.

Við eigum ekki að segja eitt en gera síðan annað.

Við eigum ekki að hugsa eitt og segja annað.

Við eigum ekki að látast. Jáið okkar á að þýða já, og nei-ið okkar á að þýða nei.

Það er grundvöllur þess að játa trú á Jesú Krist. Að við stöndum með þeirri játningu í lífi okkar.

Fermingarbörn ætla næsta vor að segja já við Jesú Kristi. Játa trú, leggja traust sitt á hann, biðja Guð að vera með sér í lífinu.

Undirbúningurinn þessa mánuði, felst í því að undirbúa þau til að játa þá trú og geta staðið við þau orð. Að getað leitað skjóls undir vængjum hans, byggist á því að játa trúna á Guð: föður son og heilagan anda.

Sú trúarjátning, eins og við játuðum saman áðan, felur í sér afstöðu til Guðs, og einnig til heimsins og umhverfis okkar.

Þegar við játum trú á Guð, skapara, frelsara og helgara, felur það í sér grundvallar afstöðu til lífsins.

Með þessari játningu neitum við því að heimurinn sé af tilviljun eða af hinu illa.

Játningin hafnar líka öllu kukli og göldrum. Játningin felur í sér þá afstöðu að heimurinn sé í eðli sínu ,,harla góður”.

Og með þessari játningu tökum við þá ábyrgð að taka þátt í því að gera heiminn að betri stað, tökum þátt í hinni sístæðu sköpun. Guð er enn að skapa, og hvetur menn til þátttöku í því góða verki.

Játningin felur líka í sér persónulega afstöðu til lífs og dauða. Trúin á Jesús Krist veitir okkur fullvissu um nálægð guðdómsins, fullvissu um frelsun lífsins okkar frá syndum og dauða, og fullvissu um fyrirgefningu alls þess sem aflaga fer í lífi okkar.

Trúin á Jesús frelsara felur í sér höfnun á öllum endurholdgunar kenningum og hringrásar hugmyndum. Hún hafnar hugmyndum sumra trúarbragða um endurfæðingu, nirvana og algleymi. Trúin á Jesús frelsara segir okkur að líf okkar hvers og eins er eilíft.

Foreldrar okkar, börn okkar, makar, við sjálf, við erum að eilífð lífsins megin, og væntum endurfunda í annarri lífsins höfn.

Trúin á Guðs anda og helgara leiðir okkur þann veg að lifa samkvæmt játningu okkar, lifa samkvæmt vilja Drottins, helga líf okkar honum. Helga líf okkar því sem byggir upp, því sem reisir við, því sem leggur líkn við þraut. Helga líf okkar því að viðhalda sköpun Guðs, taka að okkur uppbyggingar hlutverk í því máttarverki sem heimurinn okkar er.

Samkvæmni!

Að vera trúr þeirri ákvörðun, þeirri játningu sem við játum. Að halda okkur fast við þau lífsins orð.

Að leyfa þeim orðum, og þeirri játningu síðan að blómstra í lífi okkar, leyfa helgum englum Guðs að komast að hjarta þelinu, komast að tungunni, komast að öllum verkum okkar og hugsunum. Og tjá okkur í samræmi við það. Það er dýrlegt að mega, það er dýrlegt að eiga slíka trú.

Því sannleikurinn mun gera okkur frjáls.

Fyrir kærleika sinn og náð sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

Sr. Þorvaldur Víðisson