Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Merkilegt með okkur mannfólkið hvað við fæðumst ósjálfbjarga.

Ef við lítum til annarra dýra þá erum við svo langt á eftir þeim að þessu leyti. Folaldið er fljótt að komast á fætur og átta sig á að sækja sér fæðu, kálfurinn einnig.

Lambið er blautt og þvælt þegar það kemur í heiminn, og ærin sleikir það og hugar að því. En fljótlega tekur það við sér og fer að hugsa um sig.

En við mennirnir þurfum marga mánuði við móðurbrjóstið, og mörg ár á tryggu heimili áður en við getum farið að takast á herðar það verkefni að vera sjálfstæð.

Öll erum við í mörgum hlutverkum í lífinu. Í fjölskyldum okkar erum við m.a. synir, bræður, feður, frændur og afar, eða dætur, systur, mæður, frænkur og ömmur.

Í kringum störf okkar og félagasamtök erum við einnig í ýmsum hlutverkum.

Eitt mikilvægasta hlutverkið af þessum öllum er sjálfsagt foreldrahlutverkið.

Að ala upp börnin okkar.

Í traustum samskiptum við foreldra sína byggir barnið upp grundvallartraust til heimsins, til tilverunnar. Og á þeim grunni byggist síðan gjarnan traust barnsins til Guðs, og lífsins alls.

Traust og trú til Guðs!

Hvar fæðist trúin? Er möguleiki að lifa í guðlausri veröld, án trúar á æðri mátt? Sumir játa það að eiga engan Guð – og lifa að sögn bærilegu lífi.

Slíkar frásagnir eru til í Ritningunni af fólki sem hafði aldrei eignast trú eða féll frá trúnni. Við vitum sem þekkjum að trúin er dýrmætt veganesti í lífinu.

En hvar fæðist trúin?

Engin einn staður eða tími svarar þeirri spurningu en án efa fæðist trúin, kviknar trúarneisti, þörf fyrir eitthvað æðra, hvað oftast í samfélagi við annað fólk. Þörfin kviknar einnig oft þegar reynir á í lífinu, við verðum fyrir missi, já eða öðlumst eitthvað.

Til dæmis börnin okkar. Fæðing barnanna, hverjum þakkar maður… jú eiginkonunni – (þið eruð náttúrulega ekkert nema frábærar) þær standa sig alltaf sem algerar hetjur…, að koma ungviðinu í heiminn og við feður stöndum máttvana hjá og vanmegna…

en ef við hugsum lengra, til upphafs alls… þá er oft sem maður finnur svarið og þakkar Guði. Og biður Guð að vaka yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni, og gefa að barnið lifi langa og farsæla ævi í skírnarnáð sinni.

Skírnin! Þessi athöfn sem Jesús segir lærisveinum sínum að framkvæma, og fara síðan um jörðina skíra, kenna og boða.

Skírnin er inntaka í söfnuðinn. Söfnuð kirkjunnar, söfnuð lífsins, þess lífs sem hefur eilíft gildi og eilífan tilgang.

Skírnin er sakramenti, leyndardómur. En leyndardómur sakramentanna felst í nærveru Jesú Krists í orði sínu og anda, og í vatninu hér.

Skírnarvottar hafa mikilvægu hlutverki að gegna, ekki bara við athöfn sem þessa heldur í lífinu öllu.

Hér inni eru án efa þónokkrir sem hafa tekið það að sér gagnvart börnum að vera þeirra skírnarvottar, eða guðforeldrar.

Hlutverk skírnarvotta er að vera á staðnum við skírnarathöfn. Guðforeldrar bera síðan þá ábyrgð að vera nokkurs konar fulltrúar kirkjunnar í fjölskyldunni, eða gagnvart barninu.

Þeir eiga ásamt foreldrum að kenna barninu hvað það er að vera skírður, þannig að barnið kunni að nota sínar greipar spenntar og hlusta eftir bænarsvari hins ljúfa Jesú sem vill leiða litlar hendur.

En umfram allt eiga skírnarvottar að bera barnið á bænarörmum sínum allt lífið. Hvetja barnið til að rækta allt hið góða í lífinu, og trúna þar með.

Ávallt er vettvangurinn opin í þessu bænarhúsi, þessum aldna helgidómi. Þrátt fyrir að kirkjan hér sé gömul er hún síung því orðið heilaga er hér lesið og ræktað af nýjum og nýjum kynslóðum sem lifa undir þeirri náð sem Kristur gefur.

Náðin er ný á hverjum degi. En skírnarkjóllinn er einmnitt tákn fyrir þá dýrmætu náð sem við mætum í Jesú.

Eins og með svo margt í kirkjunni þá er skírnarkjóllinn hlaðinn táknum. Hann er hvítur til tákns um þann tæra hug sem kemur fram fyrir Guð, þann tæra og saklausa hug sem skírnarbarnið á. Hann er síður því barnið á að vaxa upp í skírnarnáðinni. Vaxa upp til skilnings á því hvað það er að vera skírður. Læra á hvern maður trúir.

Fermingarbarnið klæðist síðan kirtli sem passar frá höndum og niður á hæla. Því fermingarbarnið fær tækifæri til að læra hvað í skírnarnáðinni felst og þannig vaxa upp í náðinni. En í rauninni líkur maður þeim vexti aldrei, því ávallt er maður að læra eitthvað nýtt um náungann, tilveruna og Guð.

Boðskapur skírnarinnar er mikill og kannski meiri en maðurinn fær nokkru sinni að fullu skilið.

Það er með þakklæti sem við tökum á móti nýju barni inn í þennan heim. Það er með þakklæti fyrir hið nýja líf sem foreldrum, fjölskyldu og söfnuðinum öllum er treyst fyrir.

Mér er líka þakklæti í huga þegar ég lít á söfnuðinn hér. Á hverjum sunnudegi árið um kring er guðsþjónusta hér, bænastund. Þar sem beðið er fyrir öllu sem á hvílir, fyrir nýfæddum börnum, meðlimum í kirkjunni, hjónaböndum, fjölskyldum, hinum látnu, syrgjendum, sjúkum, stjórnvöldum og fyrir heiminum öllum.

Og hér er ekki bara prestur heldur eru hlutverkin mörg og ærin. Meðhjálpari, organisti og kórstjóri, staðarhaldari, ýmsar nefndir og ráð, kórinn og fleiri og fleiri– þar sem fjölmargir ljá sína hönd og rödd.

Sú spurning hefur verið spurð á vettvangi kirkjunnar hvort ekki ætti að vígja til fleiri embætta í kirkjum. Vígja í ofangreind hlutverk?

Því öll þau hlutverk krefjast ákveðinnar helgunar til þjónustu á hinum kirkjulega vettvangi. Að syngja í kirkjukór krefst ákveðinnar helgunar til starfa, varðandi þjónustu, tíma og hugarfar. Og erum við vel sett hér í Landakirkju að því leyti.

Ég veit ekki með vígslu, en öll eru þau hlutverk mikilvæg og vert að þakka alla þá góðu þjónustu hér á helgum og hátíðum.

Því öll hafa þau hlutverk kannski það markmið að lofa Guð, boða friðarins orð og kærleika og kannski umfram allt að biðja til Guðs og teiga hið ferska upprisuvatn sem lífsins lindin gefur, sú lind sem Jesús er.

Hlutverkin eru ólík en markmið þeirra það sama.

Í guðspjalli og pistli dagsins er einmitt talað um lindina og spurningin spurð: Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn?”

Hægt væri að fara djúpt í túlkun þess texta, textafræðilega, menningarlega og á fleiri máta en grunnatriði þessa texta fjallar um tungumálið og verkin. Hvernig við notum tungumál okkar og verk – til blessunar eða bölvunar, til góðs eða ills. Það er heimspekilegur texti.

Það er mjög heimspekilegt hvað er gott og slæmt. En Jesús segir á einum stað: ,,Ég er góði hirðirinn!” og á öðrum stað segir hann: ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið…!”

Sannleikurinn!

Það er einmitt eitt boðorðanna tíu sem varar við því að sniðganga sannleikann, og það hljóðar svo:

,,Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.”

Það er samt stundum eins og samfélag dagsins í dag hafi búið til 11 boðorðið sem myndi hljóða eitthvað á þá leið: “Þú skalt ekki láta komast upp um þig”.

Það er stundum eins og tungumálið hafi orðið fyrir ákveðnu verðfalli. Ef það er ekki til á pappír, þá er ekkert að marka það!!

En Guð er sannleikurinn og Jesús er sannleikans megin, hjá honum var og er fullkomið samræmi milli orða og verka.

Í þeim anda komum við samhuga til kirkju í dag til bænahalds og samfélags, til að teiga af þeim upprisu og lífsins brunni sem náðarmeðöl kirkjunnar geyma.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.