Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þetta er magnað umhverfi að sameinast á til guðsþjónustu.

Örlagastaður Eyjanna fyrir 32 árum.

Og við hér í gígnum sjálfum.

Á goslokum þökkum við. Við þökkum enda náttúruhamfara, það að höfnin skyldi ekki lokast, það að þrátt fyrir að margir misstu allar sínar eigur, að bærinn lagðist í eyði um tíma, þá tíndi enginn lífi sínu í eldum eldgossins.

Það skulum við þakka.

Að sumu leyti er það auðvelt þegar allir sleppa með skrekkinn, þegar lífum er ógnað en þau bjargast, þá er auðveldara að þakka.

Það væri erfiðara ef hér undir fótum okkar væri hinsta gröf nágranna, samferðarfólks og kannski ættingja.

Eyjamenn sýndu aðdáunarverðan kjark og dug þegar þeir byggðu bæinn upp aftur eftir gos. Bærinn var á ný grafinn upp úr gjóskunni og er magnað að sjá myndir frá þeim tíma, þvílík bjartsýni þvílíkur dugnaður.

Og enn á ný taka Eyjamenn upp skófluna og grafa eftir húsum sem fóru undir gjósku, hér fyrir handan. Pompei norðursins. Spennandi verkefni það.

Það er með öðrum hætti sem við getum horft til baka á söguna heldur en íbúar hinnar einu sönnu Pompei. Borgin við Vesúvíus sem fór undir hraun í sprengigosi á fyrstu öld eftir Krist, þar týndu margir lífi, einungis fáir komust undan þeim eyðandi náttúruhamförum.

Afleiðingar voru ólíkar þar og hér, en hið sameiginlega er þó að stór hluti byggðar fór undir hraun.

Það segir um lögmál gyðinga í Davíðssálmum: ,, Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran!” (sl. 19)

Jesús Kristur segir í guðspjalli dagsins: ,,ég er ekki kominn til að afnema heldur uppfylla.”

Í hugum gyðinga hafði Guð opinberað sig í lögmálinu og spámönnunum.

Jesús segir á einum stað: ,,Maðurinn er ekki til kominn vegna hvíldardagsins heldur hvíldardagurinn sökum mannsins!” Hann er að sumu leyti í andstöðu við sjálfan sig hér, þar sem hann segir að ekki stafkrókur úr lögmálinu falli úr gildi!

Lög og reglur eiga ekki að ganga af trúnni dauðri. Allt of mörg dæmi eru til um það að lögmál er notað til að kúga eða mismuna. Lögmál manna eiga að leiðbeina á kærleikans máta. Það er einmitt það sem Jesús benti á og hann segir: ,,Ég kom ekki til að afnema heldur til að uppfylla!”

Mörg erindi lögmálsins í hinni helgu bók hefjast á orðunum, ,,þú skalt ekki…!” osfrv. Lögmálið leiðbeinir manneskjunni til réttlætis og farsæls lífs, þar er að finna félagslegt réttlæti.

Jesús virti lögmálið. Allt líf hans og starf sýndi að hann virti þennan kjarna og dró saman á öðrum stað í Mattheusarguðspjalli í eftirfarandi orð: ,,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“

Jesús er í orðum Mattheusar holdgervingur hins nýja lögmáls – uppfyllingu fyrirheita Guðs. Hann er hið nýja torah. Orð hans má túlka sem la siðferðilega hvatningu til að virða kjarna lögmálsins í hinu tvöfalda kærleiksboðorði. Þau orð endurspegla kærleika skaparans og munu þar af leiðandi aldrei falla úr gildi.

Páll postuli útvíkkar síðan ennfrekar lögmálið í orðum sínum til íbúa Galatíu, er hann segir: ,,Hér er enginn Gyðingur né Grískur, þræll né frjáls maður … Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú!” Það voru ekki lítil orð í hans umhverfi.

En þau tala sterkt inn í aðstæður heimsins í dag og um þessar mundir. Ennþá er gríðarleg félagsleg misskipting, og benda popparar á það út um allan heim (á live eight tónleikum sem nú standa yfir!)– enn er langt í land með að þriðji heimurinn búi við viðunandi mannréttindi, svo fátt eitt sé nefnt.

Jesú sagði nefnilega: ,,Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.“

Þar er fagnaðarerindið. Jesús er kominn. Hann er kominn með orð sitt og anda. Hann gefur okkur eftirdæmi.

Sá sem reynir eftir megni að breyta eftir orðum Jesú gengur til þjónustu við lífið; hann reisir líf sitt á honum.

Menn spyrja oft hvað það merki að vera kristinn maður í nútímasamfélagi og hvort kristin trú sé nokkuð betri kjölfesta í lífi en hvað annað sem býðst á markaðstorgi lífsskoðana og trúarbragða.

Margar stefnur í mannlífinu bjóða upp á farsælt líf og hamingjuríkt; ýmsir straumar vilja hrífa mennina með sér og færa þá til hamingjulandsins. Það eru margir sem telja sig geta boðið mönnum nýtt líf.

Kristin trú talar oft um Jesú sem fyrirmynd. Og kristinn maður spyr gjarnan sjálfan sig: Hvernig get ég breytt eftir orðum Jesú? Hvernig get ég verið kristinn maður í þessu samfélagi þar sem allt er á ferð og flugi; þar sem samfélagið virðist engu þjóna öðru en eftirsókn eftir vindi, peningum og öllu því er mölur og ryð fær grandað; samfélagi þar sem maðurinn hefur nánast gleymt sálarheill sinni og telur sig vera eilífan á jörðinni, hér og nú, – hvernig er hægt að tala um sig sem kristinn mann í þessu fjölskrúðuga mannlífi? Og hvað merkir það að vera kristinn maður í þessu ölduróti samtímans?

Sá sem kristinn er verður að gera sér grein fyrir því að hann er ekkert öðru vísi í eðli sínu en aðrir menn – hann hefur hins vegar aðra sýn til lífsins; aðra útsýn yfir hið mikla mannhaf sem hann er hluti af.

Hann er kallaður til þjónustu við náungann; til þjónustu við lífið og að benda öðrum á þá lífsfyllingu sem felst í kristinni trú: að líf manna er svo sannarlega reist á hamingjuslóð ef þeir hafa Jesú Krist í öndvegi og leitast við að breyta eftir orðum hans, þ.e. þjóna náunga sínum í kærleika.

Verk eyjamanna voru einmitt afsprengi þeirrar hugsunar fyrir 32 árum. Þeir voru svo sannarlega samverkamenn Guðs í hinni sístæðu sköpun. Greinar á hinum lífgefandi stofni sem færir heiminum líf.

Hér í Eldfellsgíg, þar sem hinn eyðandi máttur átti uppsprettu sína, að þeim rótum réðust Eyjamenn (með góðri trú og hjálp) og unnu sigur. Að þeim rótum komum við í dag til að lofa Guð, til að hlýða á orð algæskunnar.

,,ég kom ekki til að afnema heldur til að uppfylla.” Segir Jesús Kristur.

Texti þessa sunnudags er tekinn úr Fjallræðunni. Oft er sagt að sú ræða Jesú geymi siðaboðaskap kristinnar trúar í hnotskurn. Jesús talar og vísar veg í orðum og gjörðum. Ræða hans er sterk og opnar ýmsar leyndar dyr í hugskoti manna. Hún afhjúpar margt í mannlegu eðli en dvelur ekki við hugarvíl og depurð heldur hvetur til bjartsýni og athafna; hvetur manninn til að horfast í augu við sjálfan sig og gjörðir sínar; hvetur til raunsæis og sjálfsrýni.

Það er viðeigandi að heyra orð úr fjallræðunni hér á hinu örlagaríka felli í Eyjunum, Eldfelli.

Hver stafkrókur úr lögmáli og spámönnum, það er úr öllu gamla testamentinu stendur en Jesús er ekki kominn til að afnema það heldur til að uppfylla hvern stafkrók.

Hann gefur heiminum líf en ekki dóm.

Að Jesús skuli koma til að gefa heiminum líf hefur áhrif á hinn trúaða. Það gerir hinn trúaða ábyrgan, og samfélagið allt er kallað til umhyggju og velferðar. Hinn kristni maður er kallaður til verka og til þátttöku í hinu góða verki, til þátttöku í kirkjunni, þar er ávallt þörf fyrir raddir trúar og sannleika, þar er ávallt pláss fyrir þann sem starfa vill í ríki hans.

Hver og einn einstaklingur getur lagt sitt að mörkum með margvíslegu móti. Hver og einn getur spurt sig hvernig hann geti gengið veg umhyggju og elsku.

Í gamla testamentinu segir: ,,Drottinn er minn hirðir…!” Í þeim anda og inn í þann trúarheim, sem uppfyllingu þeirra orða, segir Jesús í Jóhannesarguðspjalli: ,,Ég er góði hirðirinn!”

Drottinn er minn hirðir – Jesús Kristur – ég er góði hirðirinn!

Þau orð koma frá hinum eina syni, Guðs okkar og föður. Þau orð koma frá Jesú Kristi sem sigraði dauðann með upprisu sinni á páskadagsmorgni.

Það segir á helgum stað, undir lok hins nýja testamentis: ,,Sjá, ég gjöri alla hluti nýja!” Þau orð eiga svo sannarlega við hér á goslokahátíð. Drottinn gjörir alla hluti nýja og kallar manneskjuna til eftirfylgdar við hinn góða hirði.

Fyrir miskunn sína og náð sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

sr. Þorvaldur Víðisson