Það hefur á stundum verið glímt við það verkefni hvort hægt sé að heimfæra dæmisögur Jesú upp á þjóðir eða samfélag þjóða á sama hátt og þær hafa lengi verið heimfærðar upp á einstaklinga og persónur.

Það virðist ekki alveg einhlítt að þetta geti gengið, en þó hafa menn verið að reyna. Kristin siðfræði, sem í mörgum greinum tekur mið af því, sem Jesús segir í dæmisögum sínum, hefur t.d. ekki aðeins verið rituð og rannsökuð út frá kristinni siðfræði einstaklinganna og hvernig þeir skulu lifa í samfélagi manna. Hún hefur einnig verið rituð sem nokkurs konar siðfræði kristinna þjóða. Það hljómar ef til vill einkennilega, en ein helsta gagnrýnin á þetta, er að Frelsarinn sé yfirleitt aðeins að tala um samskipti manna í þessum heimi, þegar hann víkur að því hvernig við eigum að vera. En reyndar, þegar enn betur er að gáð, er hann fyrst og fremst að taka á því, hvernig við erum sem manneskjur frammi fyrir Guði okkar. Engu að síður getum við varla sagt að kristin siðfræði eigi ekki við í hvers konar milliríkjaviðskiptum eða í alþjóðlegu samstarfi þjóða og stórfyrirtækja. Ég hallast sjálfur að því að kristin siðfræði eigi á þann hátt við í fjölþjóðlegum samskiptum hópa, að einstaklingurinn, sem stundar þessi milliríkjaviðskipti, stjórnmálamaðurinn eða hinn alþjóðlegi viðskiptajöfur, sé bundinn af því siðferði, sem hann hefur játast undir, eða aðhyllist, sem persóna.

Það væri þá til að skýra þessa afstöðu, ef ég segði að maðurinn er áfram bundinn af sinni trúarafstöðu og siðferðilegum gildum, þótt hann sé á ferðalagi í útlöndum. Margt í okkar menningu bendir þó til hins gagnstæða, eins og til dæmis vísan:

Þar sem enginn þekkir mann

þar er gott að vera,

því þar er allan – jú, sei sei,

af sér hægt að gera.

En það hefur sýnt sig að það, sem menn gera af sér í útlöndum er ekki lengur falið í fjarska. Heimurinn hefur skroppið saman og vegalengdirnar hafa styst. Það er ekkert óalgengt að þegar maður hringir í einhvern svarar hann eins og ekkert sé í London eða norður í Þrándheimi. Ætli þetta hendi mig ekki í hverri viku núorðið. Síðast talaði ég til Wittenberg á söguslóðir Lúthers, þegar ég ætlaði að heyra örstutt í prófastinum mínum á Reynivöllum í Kjós. Það þarf ekki að fara lengra aftur en í mína æsku, að það var fyrirtæki að síma til útlanda. Og þar sem ég var í kaupamennsku í Refasveit í Húnavatnssýslu, þurfti að sjálfsögðu að fara í kaupstað til að þvílíkt undur væri yfirhöfuð framkvæmanlegt, en þá með því að símstöðvarstjórinn hringdi fyrir þann, sem ætlaði sér að tala svo langt, og pantaði samtalið hjá skiptiborðinu í Reykjavík. Svo beið bóndinn á símstöðinni meðan sambandinu var komið á. Og nærri má geta að erindið þurfti að vera áríðandi. Bíst ég við að ein algengasta fyrsta setningin, þegar menn fengu símtal að utan, hafi verið: “Hvað er að?”

En þá erum við líka komin að guðspjalli dagsins. Fyrsta setning föðurins, þegar glataði sonurinn sneri aftur, var einmitt ekki: “Hvað er að?”

Sonurinn, sem greinilega hafði glatað öllu í misheppnuðum viðskiptum sínum í útrás fyrirtækisins á erlendri grund, var nú kominn aftur. Hann hafði lagt allt undir og kom nú snauður heim. Gamla fyrirtækið heima, jörðin sem þeir höfðu yrkt og annast mann fram af manni, stóð enn fyrir sínu og þeir voru margir, sem höfðu haft af því varanlegt lífsviðurværi, þótt ekki sé tilgreint í sögunni hversu margir þeir ættliðir voru. En þessum syni hafði komið í hug, að nú væri lag að stofna Group eða International eitthvað og hasla sér völl á framandi slóðum. Það fór ekki eins vel og ætlað var og alls ekki eins vel og hjá grúppudrengjunum okkar, sem eru að freista gæfunnar með arfinn sinn af landinu okkar fyrirframgreiddan. En það merkilega er að allt er að gerast á ógnar hraða á Íslandi og allt er tekið sömu öfgatökunum. Þannig höfum við reyndar verið alla tíð, þessi þjóð. Þetta byrjaði allt með því að einn sigldi í vestur og fann þessar eyjar og Ísland, en á augabragði varð landið fullsetið á landnámstíð. Löngu síðar náðum við fram sjálfstæðinu okkar og eitt af því fyrsta var vinnan fyrir herinn. Fyrir þann tíma var nánast enga launaða vinnu að hafa nema hjá vegagerðinni eða slíkum fyrirtækjum. Síðan þá hefur þessari þjóð legið heil ósköp á að verða rík, og helst vilja allir drífa í því að gera það gott. En það er alveg sama hversu mikil útrásin hefur verið, nýsköpunin eða hvað það á að heita, það hefur alltaf farið í þann farveg að menn steypa sér í skuldir. Ég fullyrði það, þótt ég hafi ekki stundað nokkra rannsókn á því, heldur byggi á tilfinningunni, að það er krafan um hinn hraða gróða allra, sem gerir það að verkum að allur fjöldi manna er nú orðinn svo skuldsettur að varað er við því af miðbankanum okkar, Seðlabankanum, og miðbönkum Evrópu. Nægir að minna á nýjasta brjálæðið, með það, sem kallað er svo fínu heiti, endurfjármögnun á eldra húsnæði. Með réttu ætti það að heita skuldsetning eignarinnar, sem þú áttir að mestu eða öllu leiti skuldlausa áður en brjálæðið gekk yfir. En annað ætti líka að vera okkur mikið áhyggjuefni, en það er sú staðreynd að eignir, sem fjármálamenn eru skráðir fyrir, eru í flestum tilfellum taldar á því gengi, sem þær eru metnar á hverju sinni, en þessar eignir eru ekki geymdar í sjóðum eða varðveittar í bankahólfum. Að mínu viti standa þau fjármálaumsvif, sem nú rísa sem hæst, ekki á nægjanlega traustum gullfæti, til að hægt sé að treysta því að þau endist um aldir. Enda reikna ég ekki með að þeim sé ætlað að endast um aldur, heldur sé fyrst og fremst verið að fá sem mestan hita út úr veltu líðandi stundar.

Á þann hátt gæti guðspjall dagsins talað til okkar inn í þann reynsluheim, sem enn er ekki orðinn að frásögn frá liðnum tíma. En svo má líka segja, sem svo, hvort ég sé ekki bara eins og hinn sonurinn, sem ekki fór að heiman, en tók bara á sig ábyrgð á akri föður síns heima. Það er þó auka atriði í þessari tilraun minni til heimfærslu á sögu, sem þið þekkið öll. Enda var þetta aðeins tilraun og hugarflug mitt, í því skyni að við hugsuðum ekki um þessa frásögn sem klysju, heldur létum hana tala merkingu sinni inn í atvik okkar daglega lífs, sem er æði ævintýralegt á köflum.
Hin raunverulega merking er þó enn ekki fundinn í þessari prédikun, þótt ég hafi leikið mér að því að erta þá hugsun af og til með öðru. Þessi dæmisaga segir okkur mest af öllu frá því hvernig Guð faðir mun bregðast við okkur, þegar við syndgum og iðrumst og snúum okkur svo til hans aftur. Hann mun fagna hverjum þeim, sem mun iðrast mislagðra handa sinna, rangrar hugsunar og gjörða, en snúa aftur til hans. Því fyrir utan akur hans er ekkert ærlegt lífsviðurværi að hafa í andlegum eða eilífum efnum. Hvar, sem Frómur flækist, og hvað sem hann tekur sér fyrir hendur í lífinu, í sveitinni heima, eða í borginni ytra, skal hann á hverju andartaki lífins, hafa það hugfast, að hann er í verki með Guði og vinnur á akrinum hans. Til þess erum við öll kölluð, og því kalli ber að svara. Alveg á sama hátt og þegar sonurinn, sem glatað hafði öllu því, sem faðirinn hafði gefið honum, þegar hann kom til sjálfs sín. Það er hverfipunkturinn í sögunni, að sonurinn kom til sálfs sín, og það skal vera okkar hverfipunktur líka, í hvert sinn sem við höfum villst af leið. Og ef við fáum það á tilfinninguna, skulum við líka hafa það hugfast, að akur Drottins er stór og víðáttumikill, og hvarvetna í þessum heimi er þörf á verkfúsum höndum og helgun í huga í því mikla verki sem hann ætlar sér með þennan heim. Verði hans vilji í öllu okkar lífi, alla tíð.