Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það er hátíð hjá okkur í dag – það er þrenningarhátíð. Þá eru þrjár helstu hátíðir kirkjunnar að baki á yfirstandandi kirkjuári, en kirkjuárið hefst á aðventu er við bíðum jólanna, eins og við vitum.

Og um síðustu helgi var hátið kirkju upphafs haldið, hvítasunnan – þá er haldið upp á það er lærisveinarnir fylltust heilögum anda, töluðu tungum og tóku við því hlutverki að boða Jesú Krist upprisinn til allra þjóða – og við tökum við þeim kyndli og höldum verkinu áfram, tökum þátt í þeirri sístæðu sköpun.

Það er hálfgerður barnadagur hér í Landakirkju í dag. Kór Landakirkju fékk bara frí og Stúlknakórinn ásamt Unglingakór Hafnafjarðarkirkju sjá um að leiða allan söng hér í dag. Síðan var hún Andrea Dögg borin hér til skírnar – til hamingju með hana.

Með börnin hér í kirkjunni í dag, barnakórana, er viðeigandi að minnast orða Páls postula í pistli dagsins er hann segir um Jesú Krist: ,,Hann kom því til leiðar að Guð sýndi oss náð, tók oss í sátt og gaf oss fyrirheit um eilíft líf.”

Hann minnir okkur á það að við lifum undir náð.

Náðin merkir að Guð almáttugur vakir yfir sínum börnum með föður/móður kærleiksþeli. Hann lítur á okkur sem sín börn. Og vill gefa kærleika og frið inn í mannanna heim – inn í líf okkar hvers og eins.

Skírnarkjóllinn er einmitt tákn fyrir þessa miklu náð. Hann er hvítur á litinn minnir á sakleysið og flekkleysið. Hann er tákn flekklauss hugar sem vill mæta þeirri kærleikans náð sem Guð veitir.

Það segir á helgum stað að Guð veiti af náð sinni í þeim mæli sem enginn maður verðskuldar en engum manni bregst.

Það er í því trausti sem við berum ungviðið að skírnarfontinum í Jesú nafni.

Skírnarkjóllinn er síður því náðin er stór – ef svo má segja. Og erum við hvert og eitt allt frá fyrstu árum að læra að þekkja þann náðarGuð sem skapað hefur allt líf, og vill mæta okkur í Jesú Kristi.

Með hverju ári lærum við meira og meira að kynnast því hve dýrmætt lífið er, og af þakklæti upplifum við smá brot af þeirri náð sem Guð veitir af gnægtum sínum.

En hvar er Guð? Þetta er eitthvað svo lítið orð, þriggja stafa orð, sem inniheldur það allra hæsta.

Sumir segja að Guð sé í himninum – einhverjir eiga mynd í huga sínum af vinalegum karli með hvítt skegg sem situr á skýi og lítur yfir og eftir mannfólkinu.J Aðrir segja Guð er allsstaðar, í öllu og hvar sem er. Bæði svörin eru ágæt og góð svör við erfiðri spurningu – hvar er Guð?

Betra svar er kannski það að: Guð er þar, sem honum er boðið inn! Þar sem Guði er boðið að ríkja, þar á hann heima. Og það er farsælt að bjóða honum inn.

En hver er Guð? Getum við eitthvað svarað þeirri spurningu? Er ekki Guð allt of stór til að við getum vitað hver hann er?

Nei, Jesús segir okkur það. Jesús segir okkur hver Guð er.

Í guðspjalli dagsins kemur einmitt fram að Jesús og Guð faðir eru eitt. Sá boðskapur er mikið fagnaðarerindi og einn af leyndardómum trúarinnar.

Í upphafi guðspjallsins talar Jesús af reynslu. Spekingar og hyggindamenn höfðu hafnað honum, þess vegna var fagnaðarerindið opinberað smælingjunum. Hinir miklu höfðu ekki þörf fyrir hann, hins vegar fögnuðu hinir lítt megnandi honum.

Ég velti svolítið fyrir mér hvort Jesús væri að dæma hyggindi, greind og menntun sem slæma eiginleika? Nei, hann er frekar að fordæma menntahroka! Eins og einhver sagði svo ágætlega: Hjartað er heimili fagnaðarerindisins um upprisu Jesú Krists, en ekki heilinn.

Það er hins vegar ekki menntun eða greind sem lokar Jesú úti heldur er það hrokinn. Það er ekki heimskan sem tekur á móti fagnaðarerindinu heldur er það auðmýktin. ,,Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því slíkra er Guðs ríki!”(Mk. 10:14)

Guðspjall (Mt. 11:25-27) dagsins miðlar okkar einingu Guðs föður og Guðs sonar. Jesús Kristur er Sonurinn. Eins og segir í Jóhannesarguðspjalli 14:9: ,,Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn!” En grundvallaratriðið er þetta, ef þú vilt sjá Guð, líttu þá til Jesú, ef þú vilt sjá hvaða afstöðu Guð hefur til mannanna, líttu þá til afstöðu Jesú Krists til mannanna.

Í næsta versi kemur svo frelsandi loforð: ,,Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrgðar, og ég mun veita yður hvíld.”

Þið kannist við frásögurnar af Jesú er hann læknaði Bartímeus, er hann læknaði lama manninn, er hann reisti Lasarus frá dauðum, er hann fyrirgaf hórseku konunni, er hann snæddi hjá Sakkeusi, er hann fæddi fjöldann, og fleiri og fleiri frásögur væri hægt að nefna í þeim öllum birtir hann hver Guð er, hvað Guð vill með okkur. Þessar lífsins frásögur er hægt að nálgast í hinni helgu bók.

Jesús gefur okkur nefnilega fordæmi að fara eftir. Að lifa í anda hans, undir friðarins lífsins merki, lifa lífi okkar í trú, von og kærleika.

Jesús skorar á okkur að nota líf okkar á slíkan kærleikans máta – lifa lífi okkar í Jesú nafni.

Það er gott að vita á hvern maður trúir. Það er dýrmæt gjöf að þekkja sinn Guð, geta nálgast hann, geta nálgast orðið sem hann vill boða okkur.

Og einnig að geta snúað okkur til hans í bæn og hugleiðslu hvenær sem er á nóttu sem degi. Sem og átt samfélag í sakramentum kirkjunnar líkt og við gerum í dag.

Fyrir nærveru sína og náð, sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.