Gleðilega hátíð hvítasunnudags!

Yfirskrift hvítasunnu í ár er “Samfélag í trú og gleði”. Hér í Vestmannaeyjum hefur verið lögð á það áhersla með því að efna til margvíslegs samfélags og margslunginnar gleði. Fjölskyldudagur Sameinuðu þjóðanna varð Vestmannaeyjabæ tilefni til að víkka út þá helgun og halda fjölskyldudaginn í þrjá daga, alla helgina. Það var reyndar svo mikið um að vera í gær í Íþróttamiðstöðinni, í ratleik um holt og hæðir, og tuðrusiglingar út fyrir Ystaklett, að margir áttu fullt í fangi við fylgjast með og komast á milli. Það var eiginlega fullt starf að vera fjölskylda. En það að vera fjölskylda er eitt af því, sem kallað er samfélag, og eitt af því, sem samfélagið okkar byggir á. Hún er kjarninn, hún er grunnurinn að frekara samfélagi manna. Í mörgum löndum kemur kirkjan þar næst, þ.e.a.s. fjölskyldan mín í kirkjunni, eins og margra þjóða fólk orðar það svo vel. Það er beinlínis orðalag yfir samfélagið í kirkjunni.

En það var líka margt annað í gangi. Listsýningar Páls Steingrímssonar og listaverk eftir nemendur hans og enn verður listin í stóru hlutverki í dag með listsýningu frá Listahátíð Reykjavíkur. Og við verðum bara að sjá hvort það verður ekki líka til innblásturs þótt lengra sé að komið.

Og Listvinafélag Vestmannaeyja gerir það ekki endasleppt frekar en fyrri daginn hér í þessari byggð. Það hefur sjálfsagt verið mikið af lífsgleðinni á hátíðinni í gærkvöldi, en sjálfur ætla ég örugglega að reyna að komast í kvöld að lifa minn part af Dögum lita og tóna, eins og það hefur lengi verið kallað. Og Listvinafélagið fer ekki með löndum í dag heldur, því efnt verður til tónleika þeirra Gunnars Gunnarssonar og Sigurðar Flosasonar hér í Landakirkju síðdegis. Það er tilhlökkunarefni að fá að njóta þess alls.

Já, það eru sannarlega dagar fyrir samfélag í trú og gleði. En af hverju að tala allt í einu um trú í þessu sambandi? Jú, trúin er það, sem er okkur næst, nær en nærskyrtan, nær en sjálfur blærinn, sem leikur um kinnarnar. Eins nærri og ástin er nærri í eigin barmi, þar er og trúin á Guð, því Guð er allavega þar, sem á hann er trúað.

En ég minntist á trú og gleði. Það eru líka tvö mál, sem aldrei verða aðskilin í mínum huga. Í tónlistinni, í jazzi og þó einkum í blúsinu, hefur verið talað um ákveðna stefnu í trega. Og þá kemur raunveruleg tilfinning inn í málið og við komumst jafnvel við, þegar hreyft er við þessum tilfinningum okkar. Og þá er hin ljúfsára tilfinning ekki langt undan og jafnvel rifjast upp raunverulegur tregi eða söknuður. Þegar við náum að gleðjast minnumst við um leið þess að við söknum þess er verið hefur. Það er eiginlega þess vegna, sem við eigum þær systur í eigin brjósti, gleðina og sorgina, gleði og trega. Og ef kallað er á eina þeirra í mat, koma þær gjarnan inn báðar saman. Annað svona systrasamband er sjálfsagt að nefna líka, en það er það, sem hefur verið og það, sem verður, hið gamla og nýja. Ég tárast gjarnan á áramótum því sjaldan er það augljósara, að við fögnum ekki hinu nýja án þess að kveðja hið gamla. En það er í þeim anda, sem það er satt, að við gleðjumst ávallt af heilagri huggun Guðs. Og í þeim anda er óhætt að tala um Hvítasunnu, sem himneska gleðihátíð í kirkjunni. En í raun og veru ekki fyrr en við erum búin að fara í gegnum þetta allt, trega og hlátur, tár og bros, að við nálgumst okkur sjálf. En þá fyrst að við nálgumst okkur sjálf, getum við verið við sjálf í samfélagi við annað fólk. Þ.e. án þess að þykjast, án þess að blekkja, en með því að vera í því öllu, sem eitt samfélag hefur uppá að bjóða. Og í því felst líka að vera skilin eins og við reynum að skilja aðra mæta vel. Og þannig er hinn mesti og fegursti samhljómur í því að vera í samfélagi og að eiga fjölskyldulíf og vera í andanum. Enda er það svo að gott samfélag hugsar vel um þá, og tekur þá inn að hjarta, sem virðast vera einstæðir í samfélaginu. Hinir einu eru þannig hluti af samfélagi, sem er eins og samfélag á að vera, því þar er enginn í raun einn, heldur eiga allir þar allt saman, ástina, gleðina, huggun og trú.

Á hvítasunnu varð fólk vitni að því, sem gerst hafði, fyrir kraft heilags anda. Það er rétt eins og núna, að við erum orðin vitni að því enn einu sinni, hvað gerst hefur í þessu samfélagi. Þetta samfélag okkar lifir í trú og gleði og lifir fyrir það að eiga þessa trú og þessa gleði. Ágætir Eyjamenn ganga fram í trú og gleði, og það er ekki aðeins trú á Guð heldur eitt af því, sem af því leiðir að trúa á Guð – það er trú á það hvað hver og einn getur sjálfur gert. Það er nokkurs konar trú á mitt eigið líf, trú á það að Guð hafi lagt eitthvað verulega gott í hendur mér, til að ég geti orðið eitthvað í trú og gleði. Og þar kem ég aftur að þessari nálægð. Með sanni má segja að þetta stafi ekki endilega af því að Eyjamenn séu svo gríðarlega mikið ágætisfólk, sem af öðru fólki ber, heldur vildi ég miklu frekar skoða það út frá því, sem ég var að tala hér um áðan, hvað trúin er samofin lífsgleðinni hér í þessu samfélagi. En sá einn er glaður, sem hefur stjórn á sjálfum sér og aðstæðum sínum. Og þessi stjórn þarf að koma að innan. Og þar komum við að kjarnanum í boðskap dagsins, að hér ríkir gleði í þessu samfélagi, því hér ríkir Kristur. Og hans veldi kemur ekki að ofan, hann stjórnar ekki utanfrá, hann stjórnar að innan. Gríðarlega margt illt er að gerast í þessum heimi allt í kringum okkur, en oftast stafar það að því að allt of margir eru að stjórna þannig að þeir skipa fyrir. Ríki Jesú Krists er þannig stjórnað, að Kristur skipar ekki fyrir. Hann blæs í brjóst. Við eigum því ekki svo mikið að hlýða ytri röddum, heldur hlusta eftir því, sem segir hið innra. Og þegar því marki er náð, þeirri stöðu, eða þeirri stellingu í trúnni, þá er ekki annað hægt en að láta lífið okkar stjórnast af boði Guðs. Að boði Jesú Krists erum við það, sem við erum. Verkin okkar, sem við biðjum að þóknist Guði, eru eiginlega sjálfsprottin af því að elska Jesú hefur tekið sér bólfestu í okkar brjósti. Og þar blæs heilagur andi því eina í brjóst, sem er satt og gott, gleðilegt og huggunarríkt, uppbyggjandi og skapandi. Og þessi kraftur Heilags anda er svo mikill og ríkur að hann er eins og ylurinn af bjartri sumarsól. Guð, faðir er ef til vill eins og sólin, sem öllu veldur og öllu heldur uppi í þessu sólkerfi, og Jesús er ef til vill eins og geislar þessarar sólar, sem lýsa okkur og bera birtu sólarinnar til okkar mannanna á þessari jörðu, en heilagur andi, er ennþá nærri en sjálfir geislarnir, sem berast frá hvítasunnusólinni, því heilagur andi er ylurinn, sem vermir gras og hól, ylurinn, sem bræðir alla harðúð hjartans, og bræðir okkur öll í takmarkalausri elsku sinni, hvort sem við erum hvít eða dökk á skinn, há eða smá að vexti, döpur eða glöð, hvernig sem við tjáum okkur, allt lífgar þessi ylur af geislum sólarinnar. Eða eins og segir í sálmi sr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups:

Geisla þú, sál, mót sól þíns lífs og fagna,
sjá, það er vor á jörð, sem Drottinn gefur,
vittu það, barn, og vakna þú, sem sefur,
vitjar þín andi Guðs og skín um þig,
andar nú sinni elsku inn í þig.

Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta,
heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar,
uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar,
ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig,
anda nú þinni elsku inn í mig.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.

Sr. Kristján Björnsson, sóknarprestur Landakirkju.

Lexían; Sl. 104. 24. 27-30

Hversu mörg eru verk þín, Drottinn,
þú gjörðir þau öll með speki,
jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

Öll vona þau á þig,
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
Þú gefur þeim, og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til,
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

Pistillinn: Post. 2. 1-4 (-11)

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál? Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs.

Guðspjallið: Jóh. 14. 15-21

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.