Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Stór dagur í dag, fermingardagurinn ykkar, kæru fermingarbörn. Til hamingju með daginn, til hamingju með þessa dýrmætu ákvörðun ykkar, að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Það var góður hópur sem gekk til fermingarfræðslu í vetur og vil ég þakka ykkur samveru og samfylgd, bæði ykkur fermingarbörnum sem og aðstandendum ykkar.

Það er spennandi að vera ungur í dag. Möguleikarnir eru margir og fjölbreyttir. Framtíðin stendur ykkur opin, er óskrifað blað. Það er spennandi og skemmtilegt, verkefni lífsins, að lifa lífinu og njóta alls þess sem rekur á fjörur okkar.

Aldrei í sögunni hefur verið svo auðvelt að afla sér þekkingar, sem og í dag.

Hægt er að fræðast um ótrúlegustu hluti í gegnum fjölmiðla og tölvutækni. Við erum fljót að fá fréttir af atburðum sem gerast óravegu í burtu.

Upplýsingaveitur nútímans eru öflugar og fjölbreyttar.

Aldrei áður hefur lýðræði verið svo mögulegt sem nú. Ekki er ólíklegt að tölva og internet séu öflugastu leiðirnar til að tryggja raunverulegt lýðræði: heimasíður, blogg og fleira, þar sem fólk, allir, geta komið skoðun sinni á framfæri.

Eins er með tölvutæknina, alla nútímatækni og lífið sjálft að hægt er að misnota allar góðar gjafir. Hægt er að fara illa með það góða sem okkur er gefið.

Það er hægt að finna margt misjafnt á netinu, eins og í lífinu sjálfu. Það er eins og fólk sé oft ekki vakandi yfir hættunum sem fylgja þessari nútíma upplýsingaveitu.

Það er ekki sama hvað við gerum í tölvunni. Við þurfum því að vera á varðbergi, bæði forráðamenn sem og unglingar.

Leiðin sem er farin skiptir máli. Þær slóðir sem raktar eru á netinu geta verið uppbyggilega, fullar af þekkingu og fróðleik, geta stuðlað að sterkri sjálfsmynd og því að við verðum sterkir og hamingjusamir einstaklingar. Og frábært að slík upplýsingarveita skuli geta flætt inn á heimili og í skóla.

Hins vegar er hægt að velja leiðir á netinu sem eru andstæður þessa – og bið ég og vona að þið veljið hinn góða veg, þar, sem og í lífinu öllu. Og fáið aðstoð við það frá þeim sem eru ykkur eldri og reyndari.

Manneskjan fékk þá náðargjöf að geta valið í lífinu. Valið á milli þess sem byggir upp og þess sem rífur niður. Valið á milli þess sem er gott og þess sem er slæmt, ljóssins og myrkursins.

Það er ávallt staða mannsins að hann getur valið afstöðu sína. Hvernig sem gengur þá getum við valið hvernig við tökum á málunum, það hugarfar sem við berum til lífsins, hvernig við nálgumst erfiðleika sem og njótum gleðistunda.

Nú í dag veljið þið að ,,leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins…” Veljið þann veg sem er ljóssins vegur. Þann veg sem Guð sjálfur varðar. Og ég hvet ykkur að þið leyfið honum að leiða ykkur áfram lífsins veg.

Fermingin er ekki útskrift heldur miklu frekar innritun. Innritun í söfnuð, ekki útskrift frá prestunum, heldur innritun í söfnuð Krists.

Með fermingunni staðfestið þið það að þið ætlið að tilheyra söfnuði kirkjunnar. Þeim söfnuði sem hefur Jesú Krist að sínum leiðtoga. Þeim söfnuði sem hefur lífið á oddinum, það líf sem hefur eilíft gildi og eilífan tilgang.

Það er aldrei að vita nema í framtíðinni eigið þið eftir að ganga inn þetta gólf með ástina við annan armlegg og játast frammi fyrir Guði og mönnum. Ganga hér með eyjabörn framtíðarinnar að skírnarfontinum. Koma hér saman á helgum sem hátíðum ársins sem og í lífi ykkar. Ég vil hvetja ykkur að eiga þennan bænarstað að lífsins griðarstað.

Þið verðið að muna það öll, að lífið ykkar er óendanlega mikils virði. Þess vegna verðið þið að fara vel með ykkur sjálf, vera ábyrg og lifa lífi ykkar lifandi og á þann máta sem þið getið verið stolt af, á þann máta sem aðstandendur ykkar geta verið stoltir af, á þann máta sem Guð getur verið stoltur af.

Látið engan líta smáum augum á æsku ykkar, njótið þess að vera ung, njótið þess að vita ekki allt, stígið hægt og örugglega þá braut að verða fullorðin.

Þegar maður er ungur finnst manni kannski að lífið sé bara slétt og fellt. Ekkert slæmt geti komið fyrir mann. Erfiðleikar séu hugtak en ekki raunveruleiki. Ég veit að það er misjafnt hjá ykkur, öll eigið þið ólíkar sögur, lífsins sögur.

En það geta skipst á skin og skúrir í lífinu, eins og þið flest vitið. Ég trúi því hins vegar að allt hafi tilgang. Það er ekkert hér í mannanna heimi sem gerist án þess að Guð viti af, án þess að hjarta Guðs sé með í spilinu. Sönn gleði er Guðs góða gjöf, hvert mannsins tár er þerrað af þeim sem stýrir stjarnaher.

Heilagt guðspjall dagsins er mjög merkilegt. Lærisveinarnir voru að veiða, og gekk illa. Eftir dauða og upprisu er Jesús staddur í fjörunni. Hann kallar til þeirra að þeir kasti netinu hægra megin. Þeir gera svo, þeir hlýða honum og viti menn, netið fylltist. Þeir hlýddu honum, hlýddu orði hans, og komu svo til hans, leituðu hans samfélags.

Þetta er dýrmætt fordæmi, kæru fermingarbörn, ég hvet ykkur til að leita Jesú í hvers kyns aðstæðum og netin ykkar munu fyllast. Leiðin sem er fær og góð, er leið bænarinnar.

Bænin er þvílík máttarleið í tilverunni. Það þarf ekki ADSL, eða breiðband. Það þarf einungis rétt hugarfar, trú og von, og augu sem líta til himins.

Ég vil hvetja ykkur kæru fermingarbörn til að iðka bænina, auðga ykkar bænalíf. Biðja fyrir ykkur, lífi ykkar, öðrum, fjölskyldu ykkar, einnig þeim sem eiga erfitt, einnig þeim sem hugsanlega særa ykkur eða þið fílið ekki. Leggið ykkar að mörkum á því bænarneti sem heimurinn er borinn á. Leggjum að minnsta kosti, svipaðan tíma á því bænarneti eins og við eyðum á internetinu!!

Jesús Kristur sagði sjálfur og er þar að tala við okkur, ,,biðjið og yður mun gefast”. Ekki er það lítið loforð, það er varla hægt að lofa meiru. En þarna er sannleikur sem þið skuluð endilega nálgast. Verið staðföst í bæninni, biðjið án afláts, eins og Páll postuli sagði á einum stað. Biðjið í öllum aðstæðum lífsins, ekki bara þegar þrengir að. Verið með þeim huga, þeim bænarhuga sem Jesús kennir okkur.

Fyrir æskuna og lífið allt, sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.