Það eru heldur betur afgerandi skilaboð í boðskap dagsins um konungdóm Krists. Pálmasunnudagurinn er runninn upp og það eru einmitt skilaboð þessa dags, að Jesús frá Nazaret reyndist á þessum degi, með óyggjandi hætti, vera sá er koma skyldi.
Þarna var hann kominn, sem hin útvalda þjóð hafði vænst svo lengi, Messías, sem þýðir hinn smurði, konungur konunganna, Kristur. Konan, sem í frásögn Jóhannesar er nefnd María, en Lúkas nefnir bersynduga, brýtur buðkinn og hellir hinum dýru smyrslum yfir höfuð Jesú – hún smyr ekki aðeins fætur hans, heldur smyr höfuð hans. Það merkir venjulega smurningu til konungs og hefur það eflaust verið meining konunnar. Hún sá konungdóminn sem hann bar og brást við því á sinn hátt. Ekkert var til sparað í þessari lofgjörð hennar, eða ætti ég að segja lofgjörðarfórn. Hún tignar hann á sinn hátt. En um leið er það beryndug kona sem fær það hlutverk að smyrja konunginn fyrir hönd alls mannkyns. Hún er hinn verðugi fulltrúi, þrátt fyrir, eða jafnvel vegna þess, að hún hefur verið lítils metin af mönnum og lágt skrifuð. Jafnvel þótt færa megi fyrir því góð rök að áður hafi hún átt eitthvað saman við Jesú að sælda, leitað til hans og hann veitt henni fyrirgefningu, trúlega hreinsað hana af allri hennar synd, þá er hún enn nefnd í einu guðspjallanna hin bersynduga. Þetta skulum við hafa í huga, því það gerist margt í þessu atviki sögunnar, sem er ennþá til áminningar fyrir okkur á 21. öldinni.

Áður en ég kem að því skulum við líta á konungdóminn og smurninguna út frá viðbrögðunum í frásögninni. Fyrstu viðbrögðin sem við lítum á eru viðbrögð Jesú þótt þau komi í lok frásagnarinnar. Hann lýsir því fyrir lærisveinunum, þar sem þeir sitja þarna í húsi Símonar líkþráa, að þessi smurning hafi verið smurning til greftrunar. Þá vakna vangaveltur um það hvernig ein smurning getur bæði verið til konungdóms og til greftrunar.

Í fyrsta lagi kom það í ljós fáum dægrum síðar að eftir að Jesú dó á krossi vannst ekki tími til að smyrja líkama hans til greftrunar. Föstudaginn langa var hann lagður í gröf án smurningar, enda var það erindi kvennanna þriggja að gröfinni á páskadagsmorgunn að fara til að smyrja hann. Og til að taka af allan vafa í hugum ykkar, um hinar ólíku aðstæður og venjur, var hann lagður í viðhafnargröf, sem höggvin var inn í klettavegg og auðveldlega var hægt að ganga inn í og þar voru líkin lögð í tilhöggin fleti, eins og í fjölskyldugrafreit, nema hvað hér var ekki fyllt uppí heldur var steini velt fyrir munnann á þessum nokkurs konar hellisbústað. En það sem skiptir okkur máli í sambandi við frásögn pálmasunnudagsins, er að konan vinnur þetta nauðsynlega verk, að smyrja hann fyrirfram til greftrunar. Jesú túlkar þetta fyrir þá af því að þeir skilja alls ekki hið stærra samhengi, sem fólgið er í atvikinu.

En það er líka alltaf spurning hvort við skiljum hið stærra samhengi enn þann dag í dag. Skiljum við að smurning til greftrunar geti á einhvern hátt verið til sigurs? Getur það verið að sá konungur, sem vígður var þannig, hafi orðið sigursæll eftir það? Satt best að segja leit þetta ekki vel út á skírdagskvöldinu þegar hann var handtekinn án nokkurrar mótstöðu að kalla. Það er eins og í okkar lífi, að oft lítur það ekki vel út og við göngum í gegnum lægðir og jafnvel þrengingar. Það sér hver sjálfan sig í því þegar hann sér allslausan mann sem hefur misst allt sitt, launin lág og vinnan hörð, kjörin knöpp og reksturinn á fyrirtækinu gengur vægast sagt illa. Það er ekki auðvelt að halda þá í þá trú að við séum á sigurbraut. Og þá hef ég heldur ekki minnst á veikindi. Mitt í þjáningu, eða það sem oft er einna erfiðast, rétt eftir að við höfum verið slegin með tíðindum um alvarlega sjúkdómsgreiningu eða þegar óvissan er ríkjandi, þá er erfitt að trúa því, þótt við viljum, að Guð sé þrátt fyrir allt með okkur og að við erum á sigurgöngu. En þetta er einmitt boðskapur dagsins, þegar Jesús Kristur fullyrðir að smurningin, tákn hins konunglega sigursins, sé smurning til greftrunar. Hann segir það fullum fetum að hann sé að fara af stað í hina mestu sigurgöngu eins þótt ekki sjáist til lands úti á ómælisdýpi mannlegrar þjáningar. Einmitt þá lýsir hann yfir sigri. Og enginn lifandi maður botnar í því, eða skilur það til hlýtar fyrr en í fyrsta lagi eftir upprisuna, né heldur getur nokkur maður fylgt honum alla leið á krossinn. Þennan þjáningarveg gengur hann einn til sigurs, en aðeins fáir eru einu sinni með honum undir lokin við krossinn, utan María móðir hans og Jóhannes. En hann vitjar þeirra allra þegar hann hefur unnið hinn eilífa sigur, réttilega smurður, dáinn og grafinn og stiginn niður til heljar. Þar hófst hin eilífa frelsun er hann leyst þá úr haldi er þar voru hlekkjaðir í fjötrum syndanna, en hefur æ síðan leitt hina frelsuðu inn til sigurhátíðarinnar til að vera þar með sér á himnum. Það er á þennan hátt sem við getum gert tilraun til að skilja hvers vegna smurningin var til greftrunar en þó til sigurs, smurning til dauða konungs, er þrátt fyrir það skyldi ríkja yfir öllum heimi – öllu mannkyni – um eilífð.

Og þá komum við að öðrum viðbrögðum í frásögninni, sem eru okkur til áminningar enn þann dag í dag. Minnumst þess að með innreið sinni í Jerúsalem á pálmasunnudag kom Jesú til að hreinsa musteri föður síns og velta um borðum þeirra sem voru þar á óviðeigandi forsendum. Við skulum ekki gleyma því að hann sýndi heilmikla vandlætingu í verki þennan dag og sat svo við að kenna í helgidómnum. Fyrir það er þessi tími núna, upphaf dymbilvikunnar, mikill lærdómstími fyrir alla menn, þótt flestir nýti sér dagana sem frí til ferðalaga og skemmtunar hvers konar. Og kemur þá upp í hugann, sem snöggvast, sagan af manninum sem var nýbúinn að koma sér fyrir í sumarbústaðnum og leit síðan yfir landið í kring að morgni föstudagins langa að taka veðrið, en brá í brún að sjá hvað margir í bústöðunum í kring höfðu í sorg sinni dregið íslenska fánann í hálfa stöng. Og hann varð umsvifalaust hryggur í bragði yfir þessu og hvað þetta var óheppilegt fyrir aumingja fólkið, sem var nýkomið í langt páskafrí. Helgin yrði eflaust alveg ónýt fyrir þeim. En sjálfsagt skýrðist þetta fyrir honum þegar konan kom á fætur, eða bara eftir einn eða tvo kaffibolla.

En lítum þá á viðbrögðin í frásögninni sem eru ámælisverð. Það eru nokkrir í húsinu sem fannst það gremjulegt og jafnvel hneykslanlegt að horfa upp á þessa sóun á dýrmætu smyrslri. Þeir hikuðu ekki við það að fella umsvifalaust dóm yfir konunni. Sjálfsagt flýtti það fyrir hneykslaninni að hún var í fyrsta lagi kona, í öðru lagi bersyndug og í þriðja lagi hafði hún farið sínu fram án samráðs við þá í hópnum sem voru ábyrgir. Einn þeirra sem hneyksluðust er sjálfur féhirðirinn í hópi lærisveinanna, Júdas Ískaríót, samkvæmt því sem Jóhannes segir. Og er það táknrænt umhugsunarefni út af fyrir sig, fyrir næstu daga. En þeir láta sér ekki nægja að hneykslast á henni, heldur atyrða þeir hana. Þeir eru eins og samfélagið getur verst orðið. Þeir eru hneykslunargjarnir, hrapa að niðurstöðu og fella dóm án þess að vita nokkuð í sinn haus. Þeir eru eins og fólk sem á okkar tímum grípur upp kjaftasögu og fleytir henni ekki aðeins áfram, heldur fellir út frá henni dóm sinn og segir hana öðrum til að auka á dómhörkuna. Og svo er hnykkt á því með orðatiltækinu að sjaldan ljúgi almannarómur. Það hefur alltaf á öllumtímum verið grunnt niður á fordæmingu og sleggjudóma, og þá ekki síst í nánu samfélagi. Ef við tökum þetta sem áminningu fyrir okkur í þessum efnum, getum við skoðað hvað það getur stundum verið erfitt að búa í nánu samfélagi þar sem margir þekkja flesta, eins og það getur líka verið gott þegar á bjátar. Í nánu samfélagi er mikill stuðningur og þá er gott að geta staðið saman, en þetta sama nána samfélag þarf einnig að gæta þess sem sagt er á kaffistofunni, að þar gefst sjaldnast öll mynd þeirra atvika, sem átt hafa sér stað, né heldur er það líklegt að við getum skilið allt, sem er að gerast, þ.e. skilið hinn æðri tilgang, þegar honum er til að dreifa, eða skilið að ekki er allt sem sýnist, þegar því er þannig varið að manni sýnst eitt og annað. Því miður hefur það meira að segja borist mér, sem frétti allt síðast, að slæmar og jafnvel ljótar sögur eru sagðar af fólki og það jafnvel nafngreint, sem ekki er fótur fyrir. Og verst þótti mér að heyra að ýmislegt er borið upp á unglingsfólk, sem eru upp til hópa bæði saklausar sálir og grandvarar. Í flestum tilfellum ætti að vera nóg að hressa svolítið upp á brjóstvitið. Flökkusögur hafa borist yfir okkur Íslendinga með mun hraðari hætti eftir netvæðinguna, en þar er margri lyginni þeytt út í loftið eins og úr mykjudreifara. En einmitt af því að ég hef sjálfur mikið gagn af tölvupósti og því magnaða veraldarneti sem við höfum aðgang að, er mér fullvel kunnugt um hið gríðarlega magn af rusli, sem fær vængi meðal annars með því að uppgerð atvik eru heimfærð á persónur í hverri byggð fyrir sig. Þetta var einmitt eðli flökkusagna áður en nú er vandinn meiri þar sem aflið er meira í útbreyðslunni.

Og ég nefndi brjóstvitið. Það er einmitt heimfærsla af hluta þess boðskapar sem fólginn er í frásögn dagsins. Sjáið hver það er sem hneykslast mest. Það er sá sem sveik verst, ein mesta hneykslunarhella allra tíma. Nafn hans, Júdas, er meira að segja notað um stein sem er veikastur í vegghleðslu, afsleppur og veldur því að fyrr en síðar svíkur hann og veggurinn hrynur vegna hans. En á móti sjáum við brjóstvitið. Konan gengur til verksins og gjörði það sem gott var. Hún fór ekki eftir neinni samþykkt. Hún fór ekki eftir nokkrum fyrirmælum og hvað þá orðrómi. Hún gerði það sem andinn blés henni í brjóst og þjónustan varð þóknanleg. Hún smurði hinn smurða, konung konunganna. Hún birti hina auðmjúku trúarafstöðu lærisveinsins, ef hægt er að segja það um konu og við föllumst öll á að karlar og konur eru hvoru tveggja lærisveinar. Afstaða Jesú er í það minnsta skýr. Hann svarar henni í djúpum kærleika og virðingin fyrir verki hennar er slíka að hvar sem fagnaðarerindið verður nokkru sinni boðað, verður minnst á þetta góða verk hennar. Það sannaðist sem Páll postuli sagði síðar: “Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur”. Og einnig það sem segir hjá Sakaría spámanni: “Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn.” Svo segir Drottinn og hér hefur hann enn á ný talað til okkar.

Boðskapur hans er skýr. Ég er kominn til að frelsa þig og þú veist ekki af því ennþá hvað það er stórkostlegt atriði fyrir allt þitt líf. Drottinn ber svo mikla umhyggju fyrir þér, að nafn þitt er rist á lófa hans. Lófinn er hér tákn um hina sterku hönd Guðs og þann hluta handar, sem augað lítur. Lófinn er tákn um þann hluta handarinnar sem lagður verður á hjartað en hjartað táknar kærleikann. Þannig svarar Drottinn lærisveinum sínum í kærleika og með djörfung og með styrk, því Drottinn frelsar og Drottinn ríkir, Drottinn gerir mig og þig styrkann og styrka í trú á sig. Það sem breiðum út, skal því aðeins vera hið góða, góð verk sem bera ilm af þekkingunni á honum. Megi sá ilmur berast út á hverjum þeim stað sem okkur hefur hlotnast að búsetu. Þá mun ríki Guðs vera stöðuglega endurreist þar, í hverjum stað fyrir sig. Fyrir það séu Guði þakkir, þeim Guði sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists.

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Amen.