Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Eins og þið sjáið þá nota ég gleraugu. Án þeirra á ég erfitt með að greina andlit og þekkja fólk í sundur, sérstaklega þegar fólk í langt í burtu eða þegar aðstæður eru þannig.

Ég tala nú ekki um þegar ég fer í sund, þá yfirleitt gleraugnalaus. Sit í pottinum, ásamt fólki, einhver kemur, heilsar… og maður sér ekki nokkurn skapaðan hlut, og á stundum heilsar út í loftið… til að verða ekki skammaður fyrir að heilsa ekki þeim sem maður þekkir.

Þið kannist við þetta sum. Maður upplifir vissa einangrun, bæði gagnvart því að sjá ekki heiminn sem og félagslega einangrun.

Prófum að loka augunum, gerum smá tilraun… ef maður hefði einungis eyrum, lyktina, snertingu… það myndi margt breytast hjá manni, eins og sum ykkar kannski kannist við… það fylgir því mikil skerðing að missa sjón, að missa skynjun á líf umhverfis.

Guðspjall dagsins fjallar einmitt um sjónina, eða réttara sagt sjónleysið.

Jesús var þarna á ferð um Jeríkó, þau mögnuðu og ríku landsvæði, þar sem borgin var miðstöð kaupsýslu og viðskipta, og mannfjöldinn fylgdi honum í þessum texta eins og flestum öðrum.

Bartímeus blindi kallaði á Jesú þegar hann heyrði hver fór þar hjá. Hann kallaði: ,,Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!”

Fólk vildi nú ekki láta hann trufla Jesú, og margir höstuðu á hann, en hann hrópaði bara enn þá meira eftir því að Jesú liti til sín. Sem hann og gerði.

Það er svolítið merkilegt í þessu sambandi nafnið hans Bartímeusar. Ef rýnt er í nafnið og merking þess krufin kemur í ljós að nafnið þýðir ,,sonur Tímeusar!” Bar – Tímeus!! Bar þýðir sonur! Eins og segir í textanum. Þess vegna má ætla að þessi blindi beiningarmaður sé eins og margir aðrir betlarar í Ritningunni, nafnlaus.

Hann er aðeins kenndur við föður sinn, Tímeus, og það að hann er blindur beiningarmaður.

Það er eitt af grundvallaratriðum Ritningarinnar, og samskipta manna við Guð, að Guð kallar alla með nafni. Eins og við gerum í skírninni að við biðjum fyrir litlu stúlkunni, nefnum nafnið hennar og biðjum algóðan Guð að varðveita hana, nafnið góða, helga og blessa lífið allt.

Eins segir í 2. Mósebók um samskipti Guðs og Móse sem lesið var hér áðan, að Guð kallar okkur með nafni.

Þessi frásaga af Jesú er ein af kraftaverkafrásögum biblíunnar. Fleiri slíkar eru til dæmis er Jesús læknaði lama manninn, reisti Lasarus frá dauða, útdeildi tveimur fiskum og fimm brauðum til hins griðarlega mannfjölda, breytti vatni í vín, gekk á vatninu og þannig mætti lengi telja.

En ávallt er Jesú þar sem þörfin er, þar sem lífinu er þjónað á þann uppbyggilega máta sem gefur ró í hjarta og skilning á framgangi lífs og sögu.

Ég minnist þess ætíð er ég les þennan texta um blinda beiningarmanninn, hvað gamli biskupinn okkar sagði um blinduna. Hann sagði eitthvað á þá leið að verri blinda væri til en þau sem snerti augun.

Þar var hann held ég að meina þá blindu sem sér ekki mikilvægi og dýrmæti lífsins. Þá blindu sem virðir ekki helgi lífs og þroska. Slík blinda er algengari í dag en sú sem snertir augun, að mínu mati.

Siðleysi, virðingarleysi, agaleysi, skeytingarleysi um afdrif og uppeldi barna, unglinga, annarra.

Slíkt skeytingarleysi hefur alla tíð verið þekkt í mannkynssögunni og sést meira segja í þessum litla guðspjallatexta, þar sem mannfjöldinn hlustaði ekki á harmakvein þess blinda og vildi ekki að hann truflaði meistarann á ferð sinni. Var kannski orðið þreytt á þessu harmakveini þess sem átti bágt.

En það er einmitt vettvangur Jesú hér í heimi, þar sem manneskjur líða, það sem fólk er að takast á við lífið. Þar kemur hann þegar kallað er og svarar.

Nafn þessa blinda beiningarmanns er athyglisvert. Bar-Timeus, sonur Tímeusar eins og áður sagði. Annar bar svipað nafn sem við þekkjum úr guðspjöllunum, Bar-abbas, Barabbas. Sem þýðir samkvæmt orðanna hljóðan: sonur föðurins. Bar – sonur, abbas – föðurins.

Sá sem lýðurinn sleppti til að koma Jesú á krossinn.

Hver var það þá sem lýðurinn sleppti, ræningi, morðingi… af hverju bar hann þetta nafn? Er það tilviljun? Ég held ekki, þegar við hugsum þessi atriði í slíku samhengi.

Sonur föðurins, er hann kannski lýsandi dæmi um þá kynslóð sem Jesú kom til? Dæmi um það mannkyn sem Jesú kom til að frelsa með lífi sínu og dauða, með upprisu sinni. Jafnvel ofbeldismenn og morðingjar fá lausn því náðin er sterkari en allt, lífið með Jesú, sigrar allt. Athyglisvert í þessu samhengi.

En jafnskjótt og Bartímeus fékk sjónina fylgdi hann honum á ferðinni.

Það er sagt á stundum að ungi maðurinn sem var í gröfinni á páskadagsmorgni er konurnar komu að smyrja Jesú, hafi verið Bartímeus.

Hann hafði fylgt honum allt lífið og alveg þangað, inn í gröfina og með honum öðlast allt, líf í fullri gnægð, lífið eilífa.

Klæðin hans þar, eins og segir frá í Markúsarguðspjalli, skjannahvítu klæðin gefa skýrskotun til náðarinnar, hreinleikans, hins nýja upphafs, gefa í raun skýrskotun til skírnarinnar. Hann sem fengið hafði sjón, sýnina, boðaði þarna konunum að Jesús væri upprisinn, hann væri ekki þarna. Það hefur á stundum verið sagt að það hafi verið engill sem sagði konunum fregnirnar en í Markúsarguðspjalli er hann nefndur ,,ungur maður”.

Eftirfylgdin veitir allt með Jesú. Skírnin er upphaf á þeirri vegferð sem er lífsins vegferð vörðuð af algóðum Guði, í átt til gnægðar lífs og trúar.

Nafngiftin og skírnin. Símon fiskimaður gerðist lærisveinn Jesú. Þegar hann fylgdi honum sagði Jesú við hann að nú skyldi hann heita Pétur sem þýðir klettur. Hann sagði síðan við Símon Pétur að nú ætti hann að vera kletturinn sem kirkjan myndi verða byggð á. Kletturinn, Pétur tákn þess sem trúir, tákn trúarinnar.

Jesús, Júdas og Tómas eru nöfn sem eru skyld. Tómas var lærisveinninn efasemdafulli. Hann trúði ekki því að Jesú væri upprisinn þegar hann fékk fréttirnar frá lærisveinunum hinum. En játaði hins vegar er hann sá með eigin augum. Júdas var sá sem sveik, féll fyrir tilboði heimsins og sveik frelsara sinn í dauðann, tapaði öllu.

Jesús frelsari.

Ég kalla þig mig nafni og gleymi þér aldrei, segir Drottinn við þann sem snýr sér til hans.

Eins og Bartímeus sem snéri sér til Jesú, af mikilli þörf. Hann var ákveðin í að ná eyrum hans sama hvað tautaði og raulaði í kringum hann.

Hann sótti hart og fékk. En Bartímeus hrifsaði ekki bara það sem hann þurfti og strunsaði burt, nei, hann bað, þáði með þakklæti og fylgdi Jesú á veginum.

Það er einmitt svo algengt að það sé það sem gerist á veginum að þeir sem virkilega vilja eignast Jesú í lífi sínu, þeir fylgja honum með þakklæti á lífsins vegi.

Bartímeus vissi hvað hann þurfti, vissi hvað hann þráði af Jesú, hann vildi fá sjónina. Stundum þurfum við að ganga í gegnum ákveðna sjálfskoðun til að gera okkur í hugalund hvers við þörfnumst frá Jesú. Hvað er það sem við viljum að hann geri í okkar lífi? Hvað gerir það okkur að eignast Jesú, sem leiðtoga lífsins? Það getur verið ólíkt eftir því í hvaða aðstæðum við erum, við hvað við erum að glíma, hvaða lífsins svör við þörfnumst.

Sjálfskoðun er mikilvæg. Því einmitt þess vegna kallar Guð okkur með nafni, því engin er eins. Allir eiga mismunandi sögu, líf, aðstæður, þó svo ýmislegt sameini okkur. Þá erum við öll einstök, mikilvæg í lífsins keðju, og í raun kemur enginn í stað annars – öll erum við í lífi okkar og dauða óendanlega mikilvæg, bæði okkar nánustu sem og Guði sjálfum. Því öll höfum við helgan tilgang og heilagt hlutverk hér á jörðu.

Það vill Jesú frelsa okkur til, það var það sem hinn blindi Bartímeus fékk að sjá.

Fyrir veginn, sannleikann og lífið sé Guði dýrð föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Rísum á fætur og meðtökum postullega kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.