Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það var lítil mús sem kom til töframanns og tjáði honum að hún hefði mætt ketti. En við köttinn var músin svo hrædd að hún bað töframanninn að breyta sér í kött.

Töframaðurinn var slingur og kenndi í brjóst um músina. Frá honum fór músin sem köttur.

Stuttu síðar mætti kötturinn hundi. Hárin risu, hún flýði hratt til vinar síns, töframannsins. Hún sagði honum raunasögu sína og bað hann að breyta sér í hund.

Kötturinn sem áður var mús, gekk á fjórum fótum frá töframanninum en nú í líki hunds.

Hundurinn sem áður var köttur og þar áður mús, undi hag sínum vel í líki hunds. Allt þar til hundurinn mætti tígrisdýri, en þá spretti hann úr spori skelfingu lostinn og slapp frá tígrisdýrinu. Ekki hægði hann á sér fyrr en hann var kominn til töframannsins á ný og bar upp enn eina óskina.

Töframaðurinn var orðinn heldur leiður á þessum vana og hugsaði með sér: ,,Jæja þá í þetta síðasta sinn!” Og hundurinn sem áður var köttur og þar áður mús, fór nú út frá töframanninum sem tígrisdýr.

Tígrisdýrið drottnaði yfir gresjunni, og óttaðist ekkert. Enginn gat gert því neinn skaða. Eða það hélt tígrisdýrið, þar til það mætti manni, og maðurinn var með byssu.

Tígrisdýrið hljóp sem aldrei fyrr og kom fram fyrir töframanninn enn einu sinni.

En nú sagði töframaðurinn: ,,Nei, ég breyti þér ekki í mann!”

Þrátt fyrir að vera í nýjum líkama, með nýtt ytra atgerfi, þá var hjarta tígrisdýrsins ennþá lítið músahjarta! Hugrekki þess var hugrekki músarinnar.

Umræddri mús vantaði hugrekki til að takast á við eigin aðstæður, takast á við það að vera sú sem hún var.

Hversu oft er það ekki einmitt svo að leitum skjóls í því sem ytra telst en finnum ekki huggun, frið og ró hið innra.

Hættur lífsins geta verið margskonar, en í grunninn er hægt að tala um tvenns konar hugrekki.

Annars vegar hugrekki þess sem skyndilega stendur í þeim sporum að vera staddur í nauð. Og kannski án þess að hugsa mikið um það glímir við þann veruleika. Kannski er þar um ræða hinn venjulega mann sem lentur er í óvenjulegum aðstæðum.

Hins vegar er hugrekki þess sem veit af erfiðleikum eða hættu framundan. Af hugrekki heldur viðkomandi áfram þá lífsins leið, og tekst á við hætturnar af ákveðni og djörfung.

Það er erfitt að segja til um hvort sé merki um meira hugrekki, þar sem margur hefur sýnt hetjudáð á augabragði, brugðist rétt við strax er aðstæður koma upp.

En ljóst er þó að það kostar mikið hugrekki að sjá framundan mikla erfiðleika, eiga þá möguleika að snúa við og flýja, en halda áfram og klára sitt verk.

Það er svo merkilegt að sjá leiki barnanna okkar. Þeir eru svo oft uppfullir af Ímyndun þess að eitthvað skelfilegt sé framundan. Alltaf eru þau að takast á við ímyndaða erfiðleika og andstæðinga í lífi sínu og leik.

Það sem mætti Jesú í guðspjallatexta dagsins var enginn leikur. Þarna talar hann við eigin lærisveina og segir þeim hvað bíði handan hornsins.

Þar var hann ekki að tala um ímyndaða erfiðleika til að gera lífið meira spennandi, heldur var það fúlasta alvara. Það var hræðilegur og grimmur veruleiki sem beið Jesú, handan hornsins.

Hann vissi hvað fólst í krossfestingu, hann hafði séð manneskjur krossfestar. Það voru örlög hinna dauðadæmdu í samfélagi Jesú. En þrátt fyrir það hélt hann áfram sínu striki.

Miðað við hve oft hann talaði við lærisveina sína um hvað beið hans, er það svolítið skrýtið að sjá hve mikið áfall það var fyrir þá að horfa upp á það sem síðan gerðist, samkvæmt heimildum guðspjallanna voru þeir að sjálfsögðu skelfingu lostnir en einnig undrandi. Sannleikurinn er sjálfsagt sá að lærisveinarnir gátu ekki meðtekið það sem Jesús var að reyna að miðla til þeirra áður en þessi kaldi veruleiki rann upp.

Þeir hafa án efa verið svo uppfullir af hugmyndinni um Jesús sem hinn sigrandi kóng, sem myndi sigra óvinina á jarðneskan máta, með sverði og valdi. Máta eins og við þekkjum að stríð ganga út á í dag, en eins og við vitum þá sigrar enginn í þannig stríði.

Þeir ímynduðu sér annað en í raun varð. Þetta er mikilvægt sannleikskorn. Mannshugurinn verkar svo oft á þann máta að hann heyrir aðeins það sem hann vill heyra.

Það er enginn eins og blindur og sá sem neitar að sjá! Sagði einhver ágætur sálfræðingur.

Eins er enginn eins heyrnarlaus og sá sem neitar að heyra.

Hún er svo mannleg þessi óskhyggja sem trúir því að hinn óþægilegi sannleikur sé bara ekki sannur. Og það sem maður vill ekki að gerist, gerist bara ekki. Manneskjur verða að berjast gegn þeim mannlega breyskleika að heyra einungis það sem þær vilja heyra.

Þrátt fyrir bresti sína, yfirgaf Jesú lærisveinanna ekki. Þrátt fyrir vantrú þeirra og skilningsleysi þá treysti hann þeim, hélt sér við þá, þeir voru hans lærisveinar. – kannski einmitt af því þeir voru breyskir.

Þar mætum við einmitt Kristi, í okkar breyskleika, þar kemur hann til móts við okkur. Hann gefst ekki upp á okkur, aldrei. Hann gengur í gegnum allt, allan þann veg sem liggur til Jerúsalem, þrátt fyrir að vita hvað beið hans þar – og þannig gengur hann með okkur hverju einu í okkar persónulegu göngu lífsins, bæði í gleði og raun.

Það er merkilegt að sjá að Jesús talar aldrei um krossfestingu án þess að tala um upprisu og sigur.

Hann var viss um að niðurlæging, skömm og dauði biði hans handan hornsins en jafn viss var hann um að sigurinn kæmi þar á eftir.

Hann vissi hvað eyðingarmáttur manna er mikill, en einnig hvað dýrð Guðs er máttugri öllu.

Það var í þessum mætti sem hann talaði guðspjallsorðin við lærisveina sína, og það er þessi máttur sem ritari guðspjallanna vill að við kynnumst, að við sem trúum tökum þetta hugrekki til okkar er við mætum erfiðleikum lífsins.

Jesús var að mæta erfiðleikum og hörmungum, hann var að mæta dauða sínum sem svo leiddi hann til upprisu og sigurs. Ekki sigurs hins sterka heldur sigurs hins veika, þjáða.

Sá raunveruleiki tók ekki enda á Golgata heldur gengur Jesús einmitt þá leið með hverjum þeim sem misst hefur, hverjum þeim sem hefur þurft að ganga erfiða braut, missis og sorgar. Einmitt þar í þjáningunni er Kristur okkur til upprisu, nýrra dögunar, þar sem ný sól rís úr sæ.

Kross Krists miðlar til okkar sannleika upprisunnar og getur sem slíkur verið okkur það tákn þegar okkur líður sem verst.

Kross Krists, sem Jesús skýrskotar til í þessu texta, miðlar mikilvægum veruleika inn í erfiðar aðstæður. Sorg og þjáning verður merkingarbær. Sorg og missir er ekki tilviljunum háð heldur stefnir allt þá leið að ,,ný sól rís úr sæ” í lífi okkar hvers og eins.

Hann gengur þessa leið. Þetta er viðfangsefni hans, verkefni hans í lífinu. Verkefni hans til endurlausnar mannkyni, til hins nýja sáttmála.

Jesús átti svefnlausa nótt í Getsemane og bað til algæskunnar, föður síns, að ef einhver leið væri önnur: þá tak þennan kaleik frá mér. Jafnvel hann, bað á þeim nótum!

Öll stöndum við frammi fyrir einhverskonar vanda og ótta, missi eða sorg.

Hugrekki trúarinnar veitir styrk í öllum slíkum raunum.

Músin í litlu dæmisögunni að framan, tókst ekki á við sinn vanda heldur setti upp varnir til að þurfa ekki að takast á við óttann.

Jesús segir einmnitt í Mattheusarguðspjalli, og ávarpar þar manneskjur, lærisveina sína: ,,Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig…”

Mesta hugrekkið felst kannski í því að vera manneskja, vita sína stöðu, möguleika og hvar skóinn kreppir. Taka áskorunum, hlúa að öllu lífi, gera sitt besta, lifa lífinu og læra af því þegar sorgin kveður dyra. Og taka því öllu með tár á hvörmum en jafnframt með bros á vör yfir því hve tækifæri lífsins er dýrmætt þar sem trúin, vonin og kærleikurinn ríkir.

Fyrir hugrekki trúarinnar sé Guði dýrð föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Meðtakið postullega kveðjur: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður hverju og einu.

Amen.