Líknargjafinn þjáðra þjóða,
þú, sem kyrrir vind og sjó,
ættjörð vor í ystu höfum
undir þinni miskunn bjó.
Vertu með oss, vaktu hjá oss,
veittu styrk og hugarró.
Þegar boðinn heljar hækkar,
Herra, lægðu vind og sjó.
Náð sé með yður nú á hátiðlegum sjómannadegi, og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Þjóðir heims líða og stríða, en líknargjafinn vakir yfir. Við Íslendingar höfum búið við frið og megum vera þakklát fyrir það.
Hátíðlegur sjómannadagur í dag – til hamingju með daginn.
Sjálfur hef ég ekki stundað sjómennsku, hef farið í nokkra dagróðra með einhverjum úr fjölskyldunni, og fraktsiglingar einnig. Það má segja að sjómannsblóð renni í mínum æðum, alla vegna sumum æðum!!
Þeir sem gengið hafa lífsveginn á undan mér, í minni fjölskyldu, hafa margir, og mér nánir haft það að lífsstarfi sínu að sækja björg í kaldan sjó.
Margar sögur, afrekssögur, heljarsögur hef ég heyrt frá þeim sem og fleirum, og sumar héðan úr Eyjunum.
Menn sem höfðu komist í hann krappann, staðið andspænis dauðanum, á stundum, sumir misst félaga og vini.
Minntu þær sögur sumar á vísuna gömlu sem hann sr. Hjálmar vinur minn og kollegi, kenndi mér:
Ég hef reynt í éljum nauða
jafnvel meira þér.
Á landamærum lífs og dauða
leikur enginn sér.
Ég held að þetta sé skýrt í máli og fasi þeirra sem hafa staðið í sjómennsku af fullri alvöru, Eyjapeyja í gegnum aldirnar, karla í fjölskyldu minni sem og annarra.
Frásögurnar eru sumar magnaðar, það er frá mörgu að segja. Mörgu sem landkrabbinn, stráktitturinn, veit svo lítið um og getur ekki sett inn í aðstæðurnar. Allt ber á góma, lífið allt er mönnum kært, maður heyrir hvað það er sem skiptir mestu máli.
Fjarvistirnar frá fjölskyldunum, einsemdin í fiskileysi, átök við tilgangsleysi á stundum. En líka stemmingin, lætin og fjörið í uppgripum og hrotum.
Ég hef hugsað mikið um það hvernig fjölskyldulífið sé eiginlega hjá sjómannsfjölskyldum. Ég hef kynnst mörgum hér, en einnig átt sjálfur, pabba sem var sjómaður, afa sem var sjómaður, Siggi á hvítu peysunni, og gerði á sínum tíma út hér í Eyjum.
Hjónalíf sjómannshjóna er yfirleitt mjög sérstakt. Hjón, þar sem annað, yfirleitt maðurinn er á sjónum, þurfa að vera sérlega samhent, hafa kynnst hvort öðru vel og geta treysta hvort öðru. Konan þarf að taka ábyrgð á heimilishaldinu, uppeldinu að stórum hluta, greiða reikninga og sjá um allan daglegan rekstur. Líka að fást við málin ein, veikindi hjá börnunum, og svo framvegis.
Ég hef svo oft séð það og heyrt á hjónum að erfitt getur verið að fara í langa túra og koma svo heim, þar sem hlutirnir eru í ákveðnum skorðum. Það er ekki óalgengt að sjómenn, kannski þeir sem eru í yngri kantinum, eins og ég, og eiga eftir ýmislegt ólært, eins og ég, að þegar búið er að vera í löngu úthaldi vilja menn náttúrulega að tekið sé almennilega á móti þeim þegar heim er komið.
En þegar í land er komið, kannski um miðjan virkan dag, eða undir morgun á virkum degi, þá verða menn fyrir vonbrigðum að ekki snýst allt upp í hátíð hvern heimkomudag. En þá fara börnin í leikskólann eða skólann, konan í vinnuna – og sjómaðurinn einn heima langt fram á dag – og harmar hlutinn sinn.
Það er svo mikilvægt að takast á við þessa hluti. Takast á við það að hlutirnir eru ekki alltaf alveg eins og við ímyndum okkur eða viljum allra helst. Sumir takast ekki á við það, eiga erfitt með sjálfan sig, samskipti við sína nánustu og sumir lenda á þeim villustíg að drekka brennavín í óhófi til að krydda tilbreytingarlaust lífið og losna við vonbrigði. En það krydd og sú leið veldur ef eitthvað er meiri harmi og vandræðum en ella. Og sá harmur getur þá fyrst smitað verulega út frá sér.
Félagslega er það mjög sérstakt að vera sjómaður. Oft er það mjög óreglulegur vinnutími sem fylgir því starfi – prestar vinna stundum líka óreglulegan vinnutíma, en oftast sofa þeir nú í rúmi sínu við hlið konunnar, en ekki í koju út á rúmsjó.
Félagslega getur sjómannslífið verið erfitt að þessu leyti. Nýtt fjölskyldumynstur tekur við þegar pabbi kemur í land. Hlutverkin verða öðruvísi, það riðlast svo margt.
En oft, og kannski í flestum tilfellum nær fólk að stíga þær öldur sem verða til í þessu róti breytinga, þegar sjómaðurinn kemur í land, stíga þessar öldur og lifa hamingjusömu lífi. Hamingjusömu fjölskyldu og félagslífi, þar sem enginn þarf að harma sinn hlut.
Ef ekki væri fyrir sjómenn þá væri íslenska þjóðin ekki til. Að minnsta kosti ekki til í sinni mynd, þeirri mynd sem við þekkjum.
Þjóðin hefur alla tíð stólað á fiskveiðar. Bjargræði hennar veltur á þeim aflaverðmætum sem flotinn skilar að landi. Þrátt fyrir nýjar leiðir, þrátt fyrir nýjar útflutningsafurðir þá er það ennþá svo að lífsgæðin á Íslandi velta að stórum hluta á því hvernig fiskast og hvernig þjóðin fer með aflaverðmætin. Það er þakkarvert að okkur hefur auðnast í gegnum aldirnar að nýta þær náttúruauðlindir sem búa í hafinu, nýta fiskistofnana þjóðinni til framfærslu.
Sjómennskan er stórkostlegt starf þar sem menn ráðast gegn huldum kröftum lofts og lagar til að sækja björg í bú, til að sækja verðmæti, til að auka lífsgæði. Það er sjálfsagt vart til það starf þar sem maðurinn stendur jafn berskjaldaður frammi fyrir skapara sínum.
Vanmáttur mannsins gagnvart ógnum hafs og vinda getur sótt á og menn upplifað ógnir náttúrunnar. Margur hefur fundið fyrir návist hins æðra, fundið fyrir því að það er einn sem leiðir og vakir yfir með eilífri blessun sinni.
Margur hefur fundið svar þegar hann lyftir augum trúar og vonar til Guðs og biður í Jesú nafni að hann leiði áhöfn og skip. Leiði stjórnendur á rétta vegu, blessi áhöfn alla og verndi á veiðunum eða í flutningum, og skili skipi og áhöfn farsællega heim til hafnar á ný.
Í Jesú nafni biðja menn því það er það akkeri sem heldur. Ber hag mannsins fyrir brjósti. Haldreipi sem vill leiða og vernda, sem veitir styrk í hverri raun.
Orð ritningarinnar sem lesin voru hér áðan, eru kraftaverkaorð, sem glæða vonir og tala orði kærleika í hjörtu manna. Kærleiksríkur Guð hefur allt í hendi sinni, ógnir og tækifæri, dauða og líf, og vill framgang mannsins á sínum vegum sem mestan.
Merkilegt er að í guðspjallatexta dagsins, sefur Jesús í skutnum þrátt fyrir veðurofsann. Lærisveinarnir báðu hann. Færðu honum þá bæn að hann myndi bjarga þeim.
Bænin.
Bænin er svo mikill leyndardómur. Dulúðin sem umlykur þennan helgidóm sem bænin er, getur verið magnþrungin. Nærveran þrungin tilgangi og merkingu.
Mér er það ofarlega í huga hvernig Móðir Teresa svaraði blaðamanni eitt sinn. Hann spurði hana um bænina og sagði: ,,Hvað segir þú í bænum þínum?” ,,Ég segi ekki neitt!” svaraði gamla Guðskonan, ,,ég hlusta bara!” ,,Nú!” svaraði blaðamaðurinn undrandi, ,,á hvað hlustar þú?” ,,Ég hlusta á Guð!” sagði sú gamla. ,,Jæja, og hvað segir Guð?” spurði blaðamaðurinn og var orðinn nokkuð ákafur. ,,Hann segir ekki neitt, hann hlustar bara líka” svaraði nunnan gamla, og hélt áfram og sagði: ,,og ef þú skilur þetta ekki vinur minn, þá get ég ekki útskýrt það betur fyrir þér.”
En Jesús segir: ,,Biðjið og yður mun gefast!” Sannleiksorð, máttarorð.
Kraftaverkafrásaga guðspjallsins getur hljómað hjákátlega þegar menn upplifa á sjálfum sér miskunnaleysi veðurs og vinda. Upplifa baráttu upp á líf og dauða. Hins vegar miðlar hún gríðalega miklum sannleika. Guð er nærri, og vill með orði sínu og kærleika leiða menn sinn veg í lífi og starfi. Hann er engum nærri en þeim sem þurfa og biðja. Hann er engum nærri en hjá þeim sem gefur á bátinn hjá. Allt lifandi kvikt, mannlegt líf og sköpun er í höndum þess er skapaði allt sem er. Sköpun sinni gleymir Hann aldrei og vill stöðugt vera manninum lífsins svar.
Stundum hefur verið sagt að formið þurfi að vera ákveðið, til dæmis það að biðja þurfi svona en ekki hinsegin.
Það er mikilvægt að formið sé fjölbreytt í því sem öðru, því engin ein leið er réttari en önnur við að meðhöndla Guðsorð, útbreyða það ríki sem er ríki lífsins.
Á einu sunnudagskvöldi var stuðmessa í kirkjunni, reyndar ekki þessari hér, en gæti hafa verið í kirkjunni okkar hér. Stuðmessa, á þeim poppuðu nótum sem stundum eru hér í kirkjunni okkar góðu. Létt messa í heilagri alvöru, ef svo má segja. Fyrir predikun flutti kórinn djassaða útgáfu af sálmi við undirleik hljómsveitarbands. Þau voru beðin að endurtaka lagið sem þau sögðust gera ef presturinn settist við trommurnar. Nokkur pressa á hinum hempuklædda, en hann kunni nú eitthvað fyrir sér í tónlistinni. Svo var lagið flutt aftur og presturinn naut aðstöðu sinnar til fullnustu og endaði með dúndrandi trommusóló.
Þegar hann var svo kominn upp í stólinn sagði hann: Að spila á trommur er eins og að predika. Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera þá gerirðu það bara með meiri hávaða.
Nunnan, gamla Guðskonan sem ég sagði ykkur frá áðan fór leið þagnarinnar, bænarinnar!! Engin voru lætin í kringum hana.
Lífið og kraftverk þess hefur mönnum löngum verið ráðgáta. En trúin á tilgang og framgang lífsins, trúin á orð Jesú Krists gefa lífsins svör. Kólumbus lagði á sínum tíma upp í hættuför, sigldi á vit ævintýranna og fann nýja heima, Vesturheim. Trúin og vonin teymdu hann þá leið, trúin á gildi lífsins, vonin að hans biði nýjar víddir, ný lönd og mið.
Það hefur kannski átt við um Kólumbus, og ferð hans vestur, eins og kannski margan farmann, útgerðarmann og sjómann, orðin sem voru skorin út í hillu afa gamla, Sigga á Hvítu peysunni, sem dvaldi margar vertíðar í Eyjum, en á hillunni stóð ef ég man það rétt:
Hvert þitt fljótandi skip
ber þá farmannsins svip
Hann er ferjunnar andi
og farskipsins sál.
(Höf. Ókunnur)
Það var ánægjulegt að vera með ykkur í gær, þakka ykkur fyrir síðast, þeim ykkar sem ég hitti á hátíðinni í gærkvöldi. Skemmtilegt og ánægjulegt kvöld, og þó svo rígur sé einhver í hópnum, þá voru það upp til hópa vinir sem voru þar komnir saman og var augljóst hve samkenndin var mikil og sterk. Samkenndin milli borða, áhafna.
Og þannig virðist það vera að vináttan verður heil og sterk meðal sjómanna. Þeir hafa sömu reynslu um margt, sem aðrir skilja ekki. Og dugnaðarsjómenn, öruggir, verkfærir víkingar til sjós, en kannski á stundum eins og sjófuglar á landi þegar heim er komið.
Bjargráð landsins djúpið leynir,
mannsins leið er hættuför.
Sköpun sinni Guð ei gleymir,
trúin geymir lífsins svör.
Megi framgangur íslenskra sjómanna og útgerða vera sem mestur. Megi algóður Guð vernda lífæð þjóðarinnar, vernda störf ykkar og vera með öllum þeim sem fara hafsins vegu.
Fyrir gjafir lands og sjávar sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Rísum á fætur og meðtökum postullega kveðju:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.