Matt. 6.5-13

Nær þú biðst fyrir. Ganga inn í herbergi þitt, loka dyrum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. Hann veit hvers þér þurfið.

Guð gefi okkur öllum farsæld og frið á ný ári 2005.

Það má segja að gamla árið hafi næstum því rokið í fangið á því nýja, svo mikill var veðurhvellurinn snemma í gærkvöldi, en svo rættist úr því þannig að eftir ávarp og skaup gafst yndælt næði til að skjóta gamlársrestinni út í loftið með rakettunum. Og þakkarvert var það að fá frábært veður líka á brennunni við Hástein. Allar þessar flugeldasýningar voru líka þakkarverðar því það eykur ekki aðeins gleði okkar yfir að vera til, heldur styrkir það líka Björgunarfélagið. Það minnir okkur öðrum þræði á að við höfum ekki allt í hendi og þurfum stundum aða láta bjarga okkur. Það minnir okkur á að stundum er maðurinn æði smár. Að stundum ræður hann ekki alveg fram úr því sem hann þarf að gera. Við erum minnt illþyrmilega á smæð mannsins andspænis náttúruöflunum í því ógnar manntjóni, sem varð í flóðunum miklu beggja vegna Indlandshafs á annan dag jóla. Nú er runninn áttidagur jóla og við erum að fá af því frekari fréttir hvað manntjónið varð skelfilega mikið. Hugur okkur er hjá því fólki sem þarf að syrgja, hjá þeim sem komust af og eru í sárum á líka og sál, og hjá þeim fjölmörgu vinum og vandamönnum sem mestan missinn líða. Við biðjum fyrir þeim og við sendum þeim hjálpargögn. Við getum ekki hjálpað nema að litlu en allt það litla verður efalaust vel þegið. Við getum ekki bætt þeim það tjón sem varð. Við getum ekki tekið frá augunum þeirra þá hörmung, sem fólkið þurfti að horfa uppá, en hörmulegt er það jafnan að þurfa að sjá fólk farast en standa þar hjálparvana hjá – horfa jafnvel uppá ástvini sína hverfa út í flauminn. Hörmungin er ólýsanlegri eftir því, sem við færum okkur nær því, sem gerðist í tilvikum hvers og eins. Eftir því sem áfallið verður persónulegra. Heildartala yfir fjölda látinna hefur önnur áhrif og skýrskotar meira til staðreynda um hamfarirnar, en við getum í sjálfu sér ekki gert okkur í hugarlund hvað það merkir í raun og veru að á annað hundrað þúsund manna hafi farist. Tjónið fær fyrst merkingu þegar við áttum okkur á persónulegri hörmung þeirra einstaklinga, sem lentu í flóðinu. Ef við náum að skynja hinar einkanlegu aðstæður, annað hvort í öllum tilvikum eða í því, sem er líklegra að við getum gert, að skynja einkanlegar aðstæður í einu tilviki fyrir sig, án þess að ætla að þeysa yfir allan völlinn. Hjálpina skynjum við mest ef við sjáum eitt lítið barn drekka hreint vatn af hreinum stút, frekar en að við sjáum fullan farm af drykkjarvatni, sem verið er að skipa á land. Litla atvikið snertir okkur dýpra af því að í því sjáum við að eitthvað er raunverulega að breytast í lífi þess, sem þarf á því að halda.

Þar með erum við alveg að komast í snertingu við það sem texti nýársdags boðar. Hann boðar breytingu – nánast umbreytingu – í lífinu. Það er því mikið í húfi að við náum boðskapnum og náum að fara eftir honum í okkar lífi og trú. Hann kallar okkur til staðar og stundar, sem er hér og nú. Ekki þá og þegar heldur hér og nú. Við getum ekki lengur verið yfirborðsleg eða hégómleg, því á stað og stund sem er hér og nú, þurfum við að vera raunverulega til staðar í okkar eigin atvikum lífsins, en af því leiðir – ef því takmarki er náð – að við getum ef til vill verið hér og nú með öðrum í þeirra eigin tilvikum, upplifunum eða lífsreynslu almennt talað.

Þetta er það sem er undursamlegt við samfélag manna. Þessi hæfileiki til að geta sett sig í spor annarra. Ekki bara að gefa samferðarmönnum sínum tækifæri til að segja sína sögu, heldur að þeir sem eiga í samskiptum geta í raun fundið hver sársaukinn, nú eða gleðin, bærist í brjósti, nú eða hvaða tilfinning önnur sem kann að hrærast þar. Og þá erum við æði nærri því að geta skynjað hvaða tilfinningar það eru, sem bærast í brjóstum þeirra, sem við mætum á förnum vegi, þegar við mætum þeim. Það er kallað að geta verið hér og nú með öðrum. Í því augnabliki gerast undrin í samskiptunum, við finnum fyrir skilning eða samúð eða getum samglaðst einhverjum innilega. Mörgum er þetta eiginlegt. Aðrir þurfa að þroskast upp á þetta stig í mannlegum samskiptum. Flestir þokast þangað við aukinn þroska. Í trúnni er þessu varið á sambærilegan hátt. Í trúnni þurfum við stundum á því að halda að fá næði til að geta farið á þetta stig. Í kristinni trú er það einmitt þáttur í trúarlífinu að draga sig afsíðis, til að láta ekkert glepja, til að geta einbeitt sér. Þér skuluð ekki fara með fánýta mælgi, segir Jesús í leiðbeiningum sínum til hins trúaða. Og hann notar það orðalag sem þýtt hefur verið: “Nær þú biðst fyrir.” Það er alveg magnað orðaval. Í því felst að þokast nær því að biðja. Hve nær sem þú biðst fyrir, er það í raun spurningin um það, hversu nær þú ert því að finna fyrir nærveru Jesú í því augnabliki sem við getum alveg eins kallað Hér og Nú, svo ég styðjist við það orðasamband áfram. Ef það er fyrir mönnum eða á torgum, sem bænin á sér stað, er líklegra en ekki að hugurinn sé hálfur við þær aðstæður og því aðeins að hálfu í nær verunni sem bænin krefst. Margt annað getur auðveldlega tafið fyrir og leitt okkur út um víðan völl í huganum mitt í bænatundinni okkar, sem einmitt átti að vera svo einlæg. Allt er það á endanum þó háð því hvar við erum stödd á þroskastigi í trúnni. Það er meira að segja til í keltískri trúarmenningu að tala um stig trúarinnar allt frá bernsku til visku og þroska fullorðinsára. Það skýrir út af fyrir sig hvað eldra fólk er oft sveipað trúartrausti og geislar af því í öllum sínum mannlegu samskiptum. Það hefur af miklu að miðla með nærveru sinni einni. Það er komið yfir það stig að þurfa að vera að fræða og segja alltaf frá. Það hefur komist til skilnings á mikilvægi þess að vera til staðar í trúnni og í hverjum þeim mannlegu samskiptum, sem verða vill. En sjálfur held ég reyndar einna mest upp á trúarstig barnsins. Í því er einlægnin ríkjandi og metnaðurinn er fyrst og fremst sá að komast til meiri skilnings á tilverunni og rökum hennar. Börnin eru laus við feimni og meting sín á milli, laus við allar trúarkenningar og hvað þá kreddur. Sjáið til dæmis drenginn, sem heyrði á spjall góðra manna, karla og kvenna, um trúmál núna rétt í aðdraganda jólanna hér í Eyjum. Hafði það borist í tal, af kvenguðfræðingi að Guð gæti alveg eins hafa verið kona en ekki karl, eins og guðsmyndin er oftast nær. Varð þetta honum til mikilla heilabrota og ekki bætti úr skák að stóra systir hamaðist svolítið á honum með þessa kenningu kvenguðfræðinnar. Og í þessum vangaveltum kemur peyinn til jólaguðsþjónustunnar í Landakirkju og hlýðir með athygli á jólaguðspjallið og allt sem hér fór fram. En allt í einu kviknar ljós og hann hallar sér að mömmu sinni, sem alltaf skilur allt. Og hann sagði einfaldlega: “Guð er ekki kona.” Athygli mömmu er vakin og hún spyr í hálfum hljóðum: “Nú?” “Jú sjáðu til,” segir peyinn, “ef Guð er kona, hefði hann bara fætt Jesú sjálfur.”

Þarna var eitt mikilvægt skref stigið í trúaþroska peyjans. Hann var að komast nær sanni um það, að okkar kenningar eru þeim mun meiri rökleysa, sem við teljum okkur færa fyrir því meiri rök hvað felst í trúnni. Guð verður einfaldlega ekki njörvaður niður í það að vera annaðhvort karl eða kona. Í því felst allt of mikil mannleg takmörkun á eðli Guðs, sem skapara okkar, eðli Jesú, sem frelsara okkar, og eðli Heilags anda, sem helgara okkar. Og ef við föllumst á takmarkanir á heilagleika Guðs, gætum við ef til vill sagt í fullri alvöru, að Guð hefði ekki þurft á Maríu mey að halda til að láta jólaundrið gerast í heiminum. En hann er samur við sig. Hann kýs að hafa þetta svona með fæðingu Jesú í Betlehem. Þegar nærvera Guðs og manns er mest, þegar Guð er að fæðast sem maður í Jesúbarninu, þá gerist það í einrúmi, ekki á torgum. Það er eins og hann bendi okkur á að nær við viljum vera honum nær, gerist það ekki fyrir mönnum. En á öllum stigum trúarinnar, erum við öll stödd á sama stað í raun og veru. Við erum öll frammi fyrir Guði. En það sem meira er, við erum öll nú þegar með annan fótinn í Eden. Ef við erum í Guði þegar í þessu lífi, nær við biðjumst fyrir, nær við stöldrum við hér og nú í iðandi mannlífinu, þá er Guð nær en blærinn blómi, nær en ást í eigin barmi. Hann sem er á himnum hann er hér. Og til að umbreytingin geti orði alger, hér og nú í upphafi ársins 2005, skulum við skynja að orð eru til alls fyrst og að í bæninni, höfum við í raun stigið fyrsta skrefið. Það er þetta fyrsta skref með annan fótinn yfir í Paradís. Það er líklega þess vegna sem Jesús segir við samferðamann sinn á krossinum: “Í dag muntu verða með mér í Paradís.” Því Frelsarinn var þar ef til vill að undirstrika þá staðreynd að um leið og við snúum okkur til Guðs í bæn, stígum við fyrsta skrefið.

Hér og nú í upphafi ársins, höfum við tækifæri til að stíga ný skref, eða öllu heldur okkar fyrstu skref inn í nýjan tíma. Og þá er það gerist munum við skynja, að hvert svo sem við ætlum, skulum við stíga það fyrsta skref í bæn. Þá mun okkur farnast vel. Hvar sem við verðum á vegi stödd, munum við lifa í þeirri vissu, að Guð er með í hverju verki. Já, haf Frelsarann ætíð í verki með þér og vertu í verki með Jesú.

Fyrir þau skref sem stigum í trúnni á liðnum ári, sé Guði þökk. Fyrir þau skref sem við fáum að stíga í trú og lífi hérna og núna sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.