“Það er nú heimsins þrautamein að þekkja’ hann ei sem bæri.” Þannig orti sr. Einar Sigurðsson í Eydölum. En það kom mér á óvart að þegar þetta vísuorð vitjaði mín, kom það í hugann sem: “Hann er nú heimsins hjálparráð,” en svo gat ég að sjálfsögðu ekki munað neitt meira fyrst ég mundi þetta vitlaust.
Það var þá mitt eigið þrautamein að muna það ei sem bæri. Og á endanum varð ég að láta mig hafa það að fletta þessum dýrðlega jólasálmi upp til að komast á rétta braut að nýju. Þannig er lífið oft að við erum að reyna að gera rétt en svo verður það einhvern veginn eitthvað allt annað sem við gerum, eða þá það sem er algengast, að við gerum eitthvað ekki alveg nógu rétt. Þetta minnir á notkun málshátta og orðatiltækja, og nú var ég næstum búinn að segja máltækja. Afar algengt er nú orðið að fólk ætlar að bregða fyrir sig málshætti eða orðtökum en það verður bara næstum því rétt. Sjáið til dæmis málsháttinn að dropinn holar steininn, sem er rétt því að þaðan er það dregið úr líkingamáli við lækinn. Eða þá kornið sem fyllti mælinn, sem er líka rétt svona því að það er greinilega verið að mæla eitthvað og það er ævinlega þannig að fylling mælisins veltur á endanum á einu korni. En svo nykra menn mál sitt með því að segja dropinn sem fyllti mælinn. Það gæti svosem verið ættað af rannsóknarstofu í lyfjafræði en trúlega er hér um að ræða nykur þess orðatiltækis sem notað hefur verið allt frá 18. öld úr aðstæðum kaupmannanna, því kornið var vegið og mælt í málum.

Ég tala um að nykra málið, en það er í merkingunni að allt virðist vera nokkurn veginn eins og það á að vera, lítur vel út, en eitt eða tvö atriði eru vitlaus, einni eða tveimur hugsunum er snúið við. Það er þá rétt eins og nykur, sem kemur úr vatninu, lítur út fyrir að vera hestur, nema hófarnir snúa aftur.

Á jólum þurfum við að fara yfir það af einlægni hvort við lítum bara út fyrir að lifa lífinu eins og kristið fólk, en eitthvað er svo vitlaust í okkur eða okkar fari, að allur okkar veruleiki verður dæmdur fyrir það. Að við missum af því tækifæri að vera eins og við eigum að vera.

Þegar segir í jólasálminum góða: “Nóttin var sú ágæt ein” merkir það einfaldlega að það var ekkert aðfinnsluvert við þessa nótt. Hún var fullkomlega eins og hún átti að vera. Þannig er og varið með trú og lofgjörð skáldsins. En meira en það, þannig er því og varið við hlutverk þeirra, sem koma við sögu í jólaguðspjallinu sjálfu. Þau eru öll eins og þau eiga að vera. María geymdi allt í hjarta sér, sem sagt var um barnið hennar nýfætt, og hugleiddi það. Hún gætti þess vel, sem hún heyrði. Hún hafði frá fyrstu köllun verið eins og hún átti að vera. Fyrir það hefur hún verið kölluð mætust. Hún var einsog hún átti að vera. Hirðarnir voru líka einsog þeir áttu að vera. Þeir heyrðu boðskap engilsins og herskara himnanna. Hirðarnir brugðust við því á óaðfinnanlegan hátt. Það fyrsta, sem þeir sögðu sín á milli, eftir að englarnir voru farnir, var einfaldlega: “Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss.” Það er eitt afar merkilegt við þessi viðbrögð. Þeir eru ekki uppfullir af því að Drottinn hafði talað við þá. Ekki eins og í dægurlaginu “Hann er ofboðslega frægur, hann tók í höndina á mér, heilsaði mér.” Nei, þeir voru ekki uppteknir af sjálfum sér og sinni eigin upplifun, heldur brugðust þeir rétt við og gerðu það rétta: Að fara eftir boðskapnum. Engillinn hafði sagt: “Þér munuð finna ungbarn reyfað og lagt í jötu.” Og hvað var þá réttara en að fara og sjá það, sem þeim hafði verið sagt frá. Ekki að gleyma sér í móðursýkiskasti yfir því að himneskur herskari engla og sendiboða hafði einmitt verið að tala við þá. Og takið eftir því að þeir fóru heldur ekki að láta taka við sig viðtal á næstu sjónvarpsstöð til að verða frægir af því að þeir höfðu lent í svo merkilegu. Þeir gerðu einfaldlega það, sem rétt var. Þeir fóru eftir boðskapnum, sáu að það var rétt, sem þeim hafði verið boðað, sneru síðan aftur og lofuðu Guð og vegsömuðu hann, enda var allt eins og þeim hafði verið sagt.

Og nú er komið að okkur. Við höfum fengið að hlýða á hinn gleðilega boðskap á jólum, að okkur er frelsari fæddur, sonur er í heiminn kominn sem heita skal friðarhöfðingi, eilífðarfaðir, guðhetja. Hann er kominn sem er kóngur klár um eilíf ár. Hann er kominn til að þagga niður í öllum harkmiklum hermannastígvélum og brjóta stafinn, sem reiddur er að herðum hinna undirokuðu. En enn í dag er það samt þannig að skykkjur hefndarvarkamanna eru blóðstorknar, enn er þrammað um á harkmiklum hermannastígvélum víða í veröldinni, en því miður, líka í heimi hinna kristnu. Svo eitthvað er hér verulega mikið að. Það er eitthvað verulega mikið bogið við myndina, sem þessi heimur ber, fyrst hann telst vera upplýstur í sinni góðu trú. Trúin er efalaust alveg eins og hún á að vera, en það er eitthvað verulega ábótavant með verkin. Verk okkar, sem manna í mannkyni eru þannig að þau ná seint að teljast samboðin því guðlega í þessum heimi. Þau grimmu voðaverk, sem enn eru framin, eru sannarlega af heiminum, svo ég notist við biblíulegt orðfæri. Skepnuskapur er ríkjandi víða og siðferði þjóða er ábótavant. Nú er að vísu erfitt að tala um siðferði þjóða, án þess að skilgreina það lítillega. Þjóð getur í reynd aldrei búið yfir siðgæði, en það má ræða um siðfræði mannanna, sem t.d. tala í nafni þjóðanna. Einnig má ræða um siðagildi, sem ríkja í tilteknu þjóðfélagi. Við getum og talað um siðferði í viðskiptalífi og opinberri þjónustu og samskiptum, en það er það siðferði sem er ráðandi frá einum tíma til annars. En í reynd erum við alltaf að tala um siðgildi og siðferði tiltekins fólks. Kenningar um siðfræði þjóða fjalla því um það siðgæði sem talið er æskilegt að ríki meðal þess fólks meðal þjóðar sem á í samskiptum við fólk annarra þjóða. Það er alltaf einstaklingurinn, jafnvel þótt mál virðist flókin í milliríkjaviðskiptum. Og á sinn hátt má vel tala um siðferði íslensku þjóðarinnar þegar kemur að spurningu um siðferði Íslendinga í verslun og viðskiptum úti í heimi eða hvernig siðferði þeirra er í friðargæslu úti í heimi, björgunarstörfum, hjálparstarfi, og nú síðast í hernaði. Því miður hefur engin umræða átt sér stað um siðferði íslensku þjóðarinnar í hernaði á erlendri grund, þótt nú sé það orðin staðreynd að við eigum fulltrúa í hermannaleikjum, þessi þjóð, sem um aldir var án hers og alltaf laus við herskyldu. En á einhvern óskiljanlegan hátt erum við orðnir þátttakendur í hernaði. Fyrst byrjaði það í borgarastyrjöldinni í Júgóslavíu en er nú orðið að þátttöku í stríðinu gegn hryðjuverkamönnum bæði í Afganistan og í Írak. Að mínu viti er þetta leikur að eldi. Bálið er í sjálfu sér það mikið að við þurfum ekki að kveikja þar neitt til viðbótar, en þátttaka okkar á hinn bóginn það smá að vöxtum, að hún ræður ekki úrslitum á þessum vettvangi.

Annað er það sem ráðið getur úrslitum í þeim siðiferðilegum efnum, sem við getum lagt að mörkum. Það er í baráttunni fyrir friði – með friði. Síðan á Sturlungaöld höfum við verið friðarins þjóð og ekki haft her, ekki einu sinni efnt til hernaðar til varnar sjálfstæðinu, ekki til að hrekja Norðmenn í burtu, ekki Englendinga og ekki Dani. Ekki rákum við heldur Þjóððverja á brott með hernaði við upphaf síðari heimsstyrjaldar, ekki Breta og ekki Bandaríkjamenn. En með friði höfum við samið okkur til sjálfstæðis og með lögum lagt grunn að löggjafa og lýðræðisháttum í þessu landi. Almennt siðferði ætti því að draga dám af því og við getum í raun talað um siðferði þjóðarinnar, að því gefnu, sem ég hef sagt hér áður um framgöngu einstaklinganna. Við höfum verið afar þolinmóð í ýmsum þrengingum þegar yfir landið hefur verið lagst með erlendu hernámsliðum í gegnum aldirnar. En íslenskri fyndni er líka við brugðið. Við kölluðum það stríð þegar við fórum vopnlaus í baráttu við freigátur hennar hátignar Englandsdrottningar í þorskastríðunum og við höfum alltaf haft lúmst gaman að því þegar Jörundur gerðist hér konungur eina hundadagana. Sú tilbreyting var nánast bara til skemmtunar og lyfti þjóðinni upp í skammdegi hinna döpru alda. Það var svona eins og pínulítið ljós í myrkrinu. En við eigum að vera friðarins þjóð. Fátt hefur risið eins hátt á þeirri braut eins og Reykjavíkurfundur Regans og Gorbatjovs um árið. Og við höfum lagt okkar að mörkum með hugrekki þeirra, sem eru friðarins megin en án herstyrks. Vopnlaus afskipti eru það, sem við eigum að leggja að mörkum til að bæta siðferði heimsins. Við eigum að taka upp friðarboðskapinn, sem reyndar er hvergi skýrari en einmitt hér í jólaguðspjallinu á jóladegi. Og við eigum að gera hann að okkar. Við eigum ekki að vera upptekin af því hvað öðrum finnst um okkur, ekki frekar en hirðarnir, heldur eigum við að breyta eins og þeir, breyta eins og guðspjallið kallar okkur til. Og þá mun það koma í ljós í okkar lífi, að við munum fara og finna allt eins og okkur hefur verið sagt frá. Að Kristur er kominn í heiminn, sem ljós til að lýsa í myrkrinu. Til að lýsa í náttmyrkranna landi, en ljós þetta er það orð, sem til okkar er talað. En í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Og ef við gerum þetta orð að okkar, lýsir það upp fyrir okkur hvert skal stefna, og það lýsir veginn og sannleikann, lýsir, laðar og leiðir, til þess Guðs, sem kallar okkur til sín. Þá, ef við göngum við ljós af þessu orði, er líklegra en ekki að ganga okkar verði aðeins til góðs, og atvik á göngunni vitni um fundi okkar við Guð, þennan Guð, sem kom í heiminn að lýsa honum, bjarga’ honum, frelsa’ hann. En þá getum við líka sungið með sr. Einari:

Lofið og dýrð á himnum hátt

honum með englum syngjum þrátt,

friður á jörðu og fengin sátt,

fagni því menn sem bæri.

Fyrir þann frið, sem Guð einn setur, sé honum dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.