Vér áköllum þig, ó, faðir um frið,

að fái vort líf á jörðinni grið.

Vér biðjum að mannkyni bjargi þín hönd

frá böli sem altekur þjóðir og lönd.

(Pétur Sigurgeirsson)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Inn í birtu og fögnuð jólahátíðarinnar bárust fréttir af hinum hrikalegu náttúruhamförum í Asíu. Það er ekki nokkur leið að gera sér í hugarlund þá ægiskrafta sem þar voru að verki og þá skelfingu og eyðileggingu, örvæntingu og sorg sem allur sá atburður hefur leitt af sér.

Einar mannskæðustu náttúruhamfarir sem riðið hafa yfir heimsbyggðina og manntjón gríðalegt. Ásamt allri heimsbyggðinni erum við harmi slegin.

Þjóðir heims reyna að bregðast við, með því að senda hjálpargögn. Hjálparstarf kirkna, Rauði Krossinn, Rauði hálfmáninn, og fleiri og fleiri, allir standa saman, snúa bökum saman þegar mannslíf eru í húfi, þegar ægiskraftar náttúrunnar bitnar svo á mannfólki.

Við sitjum hér með okkar persónulegu áhyggjur, vonir og væntingar, sem fá á sig nýja vídd þegar slíkar hörmungar dynja yfir.

Á þessum tímamótum nú, á gamlárskvöld, komum við fram fyrir Guð á helgum stað og stöldrum við.

Árið sem er að líða. Voru áhyggjur okkar fyrir líðandi ár, á rökum reistar? Rættust vonir okkar og væntingar? Gerðum við okkar besta á árinu sem er að líða?

Hvað er það á liðnu ári sem betur hefði mátt fara, í okkar persónulega lífi?

Öll gegnum við mörgum hlutverkum í lífi okkar. Við erum feður, synir, frændur, vinir – ömmur, mæður, frænkur, dætur. Við sinnum störfum okkar, mætum náunga okkar á förnum vegi – svo fátt eitt sé nefnt.

Fjölskyldur Eyjanna, hvernig hafa þær það? Eiginmenn, eiginkonur! Börnin okkar, komandi kynslóðir. Lifum við frjálsu og réttlátu lífi?

Sú keppni sem einkennir líf okkar Íslendinga, keppni í íþróttum, í atvinnulífi, sjómennsku, og í raun flestu sem við tökum okkur fyrir hendur, er held ég eitt mikilvægasta aflið sem knýr hjól atvinnulífs og menningar. Og erum við hér í Eyjum framarlega á því sviði.

Í íþróttunum, þar á keppnin og baráttan heima, það er í eldri flokkum íþróttanna, en sama kappið og baráttan einkennir einnig önnur svið lífsins. Og fylgir sá böggull skammrifi, að keppnin leiðir af sér ákveðna þroskahömlun, óánægju og óeirðir – það er ef allir verða að vinna. Allir verða að vera fyrstir, vera í forsvari, ráða, stjórna, sigra andstæðinginn!

Barátta og ófriður sýnir hve erfitt er fyrir manninn að lifa í friði.

Af hverju þurfum við, mannfólkið, alltaf að búa okkur til andstæðinga?

Þegar allir vilja stærri sneið af köku sigurs og valda, þá er ekki von á góðu.

Samfélag okkar hér er illa sýkt af þessum leiða. Okkar annars öfluga og góða samfélag hér er illa rotið af þessu leyti.

Og þá skiptir ekki máli hvort litið er til hins smærra eða stærra, til fjölskyldna eða bæjarlífs, ljós umburðarlyndis, skilnings og kærleika fær þá ekki að skína.

Ég vil sjá breytingar, að þessu leyti, á öllum sviðum mannlífsins hér í Eyjum. Við verðum saman að girða lendar okkar og láta ljós okkar loga, það ljós sem er friðarins ljós, til eflingar gróskumiklum samskiptum og frelsi og réttlæti í samskiptum kynja, fjölskyldna, þjóða og í bæjarlífinu öllu.

En ófriðurinn er víðar. Það má kannski segja að við lifum á stríðstímum. Þótt sprengjuregnið sé langt undan þá lifum við, samt á stríðstímum.

Við höfum tekið afstöðu. Við erum í stríði gegn hryðjuverkum. Við sem þjóð erum stuðningsaðilar þeirra sem hafa gert sig seka um að ráðast inn í sjálfstæð ríki, með það að markmiði að útrýma gereyðingarvopnum sem ekki voru til.

Við sem einstaklingar! Og við sem þjóð! Kannski tvennt ólíkt – eða hvað!?

Ég man eftir því að Elíe Wiesel orðaði það í bók sinni ,,The Night” að það versta við þriðja ríkið á sínum tíma, var ekki endilega ofbeldisverk SS sveita, eða afstaða nazistanna, heldur tilvera og afstaða hinna, sem ekki tóku virka afstöðu heldur flutu bara með – eins og við almenningur gerum, og höfum gert nú á liðnu ári!

Þar liggur mikill þróttur í samfélaginu, það er í afstöðu hvers og eins einstaklings sem byggir það ríki sem við búum í.

En hverjir eru hinir afstöðulausu, hverjir eru það sem fljóta bara með? Það eru yfirleitt þeir sem spjótin beinast ekki að, þeir sem standa á hliðarlínunni og horfa á – með pylsu í annarri og kók í hinni.

Og þeir gera sér iðulega ekki grein fyrir þeim mætti sem þeir sem hópur búa yfir, mætti friðar, og þeirri góðu stöðu sem þeir eru í. Eða kannski eru þeir einstaklingar vanir að vilja tilheyra þeirri menningu, sem við getum kallað menningu sigurvegaranna, þess að vilja skora mörk, ráða, stjórna, sigra andstæðinginn.

Þetta er hins vegar enginn leikur, stríð snýst ekki um að skora mörk heldur snúast þau ávallt um mannslíf, mannréttindi, börn, konur og komandi kynslóðir.

Ég er að lesa bók, þessa dagana, sem ber heitið ,,Guantanamo, herför gegn mannréttindum” eftir blaðamanninn M. Rose.

Eins og þið vitið þá hefur þetta orð svolítið verið í fréttum síðustu mánuði, Guantanamo. Fangelsi Bandaríkjahers á Kúbu.

En af hverju á Kúbu? Því þar eru fangarnir utan allra réttinda, þar nær Genfarsáttmálinn um meðferð á stríðsföngum ekki yfir þessar manneskjur. Þar fá fangar ekki réttmæt réttarhöld. Allt úr af þeim ótta sem skapaðist við hryðjuverkin sem gengu yfir Bandaríkin. Þar eru fangar niðurlægðir, líflátnir án dóms og laga. Og margir aðeins fyrir að vera á röngum stað á röngum tíma – heimildum um slíkt fer fjölgandi.

Hvað er Guantanamó – kallað Gitmó? Stór liður í stríðinu gegn hryðjuverkum. Stríðinu sem við sem þjóð styðjum.

Heimildarmyndin Fahrenheit 9/11 boðar einmitt sama veruleika. Veruleika blekkingar, veruleika olíu- og hagsmunastríðs í stað stríðs gegn hryðjuverkum. Og við í friðargæslu, að gæta friðar, vopnuð í grænum búningum – hvers konar blekkingarleikur er þetta!? Einnig hefur fangelsið Abu Graib verið í fréttum vegna harðræðis og mannréttindabrota bandaríska hersins.

Við verðum að láta ljós okkar loga. Það ljós sem er ljós frelsis og mannréttinda, til handa öllum mönnum bæði á okkar eigin heimili sem og út í hinum stóra heimi.

Stríð! Af hverju stríð? Hver vill eiginlega lifa við stríð? Þessi vanmáttur mannsins við að halda friði, er vitnisburður um virðingarleysi mannsins fyrir lífinu, kannski er þar dauðahvöt mannsins að verki, sem á stundum í vök að verjast fyrir þrá mannsins til lífsins.

En hvar hefst stríðið, og á hverju þrífst það?

Það hefst í hjarta mannsins og það þrífst á fordómum hans, þeim fordómum sem búa í því sama hjarta. Slíkt er undirbúið á margvíslegan máta og er ýmislegt sem hefur áhrif. Hvernig eru tölvuleikir barnanna okkar? Hvernig er stór hluti afþreyingar, íþrótta og tómstunda? Barátta við andstæðing, markmið að sigra.

En á hvaða vettvangi stuðlum við að friði á jörðu? Það má segja að okkar heimavettvangur, fjölskyldan, heimilið, bæjarfélagið, þjóðin öll, sé sá vettvangur sem við náum að hafa hvað mest áhrif á og berum ábyrgð á.

Einmitt í okkar nánasta samfélagi ber okkur skylda að vinna að friði og fögnuði í anda jóla, vinna á vettvangi hins smáa, í umgengni hvert við annað, í leikjum sem við kennum börnum okkar, í samtali um menn og málefni, í gagnrýnni umræðu um heimsmál og pólitík. Og svo kannski umfram allt í bæninni, að biðja Guð í einlægri bæn, fyrir okkar fólki, samfélagi og heiminum öllum.

Árið 2004 hefur verið ansi viðburðarríkt í kirkjustarfi Ofanleitissóknar. Við erum að byggja við Safnaðarheimilið. Þær framkvæmdir hafa gengið vel og sjáum við nú fram á verklok, nú um ári eftir að fyrsta skoflustunga var tekin.

Við höfðum afleysingarprest hér á liðnu ári, sr. Fjölni, og höfum nú fengið sóknarprestinn, sr. Kristján til starfa á ný.

Á komandi ári á kirkjan okkar stórafmæli, hún er 225 ára. Landakirkju er ein elsta steinkirkja landsins, er í hópi með Bessastaðakirkju, Viðeyjarkirkju og fleiri þekktum helgum stöðum. Á afmælisári stefnum við á að vígja viðbyggingu Safnaðarheimilis.

Til þess að lifa í friðsælum heimi, öryggis og kærleika, og vinna að friði í heiminum verðum við að byrja á okkar heimavelli.

Búa börnum okkar afslappað og öruggt umhverfi til uppeldis og þroska. Búa hjónaböndum okkar kærleika, og hætta að ögra því sem okkur er mikilvægast. Hætta að ögra hjónaböndunum, þar sem traust og trúnaður á að ríkja og grundvöllur samfélagsins hvílir.

Það skiptir svo miklu máli að við komum þannig fram við samferðarfólk okkar að allir njóti virðingar og sama réttar til þessa lífs sem við lifum, hvert og eitt. Þannig að hver og einn geti fundið það jafnvægi í lífinu sem veitir sátt og hamingju.

Þetta er einmitt sá andi sem ríkir í skrifum Páls postula í Galatabréfinu sem lesið var hér áðan. ,,(…)hér er enginn gyðingur né grísku (…) vér erum allir eitt í Kristi Jesú.“

Við erum nefnilega öll eitt frammi fyrir honum sem helgar hátíðir jóla boða, sem hefur gefið okkur árið 2004 og við biðjum að helgi komandi ár 2005.

Guðspjall dagsins er ákveðið. Þar eru lærisveinum Jesú, skipað að vera viðbúnir því þar segir Jesús: ,,Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga(…). Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.”

Boðskapur Jesús í guðspjalli Gamlársdags er þolgæði og það að vaka. Að komandi ár verði ár nýrra tækifæra, nýrra sóknarmarka, ár vonarinnar og kærleikans.

Því Jesús Kristur vill að þú takir á móti sér, leyfir honum sem er ljós lífsins að lýsa upp hugskot þitt, lýsa upp tilveru þína og líf.

Fyrir þremur árum ákvað hinn kunni rithöfundur Gabriel Garcia Marqueas að draga sig í hlé frá opinberu lífi sökum veikinda. Hann skrifaði bréf til vina sinna sem dreift var á netinu þar sem hann velti því fyrir sér hvernig hann myndi nýta tímann ef Guð gæfi aðeins örlítið meira af honum.

Og þá sagði hann meðal annars: “Ég myndi ekki segja allt sem ég hugsa en ég myndi örugglega hugsa allt sem ég segði. Ég myndi sofa lítið en dreyma meira, ég geri mér ljóst að á hverri mínútu sem við lokum augunum missum við af sextíu sekúndum ljóss. Ég myndi ganga þegar allir hinir halda kyrru fyrir, ég myndi vakna þegar hinir svæfu.” Og síðar í bréfinu sagði hann: “Guð minn góður ef ég ætti örlítið brot af lífi. Ég myndi ekki láta dag líða án þess að segja þeim sem ég elska frá tilfinningum mínum því enginn á sér tryggan morgundag, hvorki ungur né gamall. Því skaltu ekki bíða lengur.”

[1]

Árið 2004 er að renna sitt skeið. Með þakklæti í hjarta kveðjum við enn eitt náðarár.

Fyrir árið sem er senn að líða og fyrir rísandi nýtt ár sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Ég vil nota tækifærið hér og þakka öllu samstarfsfólki mínu hér í kirkjunni fyrir viðburðarríkt og ánægjulegt samstarf á liðnu ári.

Ég bið að komandi ár verði ár friðar og kærleika fyrir fjölskyldur okkar hér, einstaklinga og heiminn allan.

Við skulum rísa á fætur og meðtaka postullega kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.