Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hér áðan heyrðum við mikilvægustu skilaboð sem hafa verið skrifuð í tvö þúsund ár, jólaguðspjallið, ritað af Lúkasi guðspjallamanni.

Jólaguðspjallið er engin ævintýrafrásögn. Þar er ekkert álfaglit eða töfraljómi, heldur byrjar frásögnin einfaldlega:

,,En það bar til um þessar mundir á boð kom frá Ágústus keisara.”

Það komu skilaboð frá keisaranum, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Tilgangur þess var sá að leggja skatt á þegna ríkisins.

Hvað er hversdagslegra og veraldlegra en einmitt þetta, keisari, skrásetning og skattheimta.

Það segir frá því í Mattheusarguðspjalli að vitringarnir hafi á ferð sinni, frá Austurlöndum, komið til Heródesar. Þar hafi þeir sagt honum frá tilgangi ferðar sinnar, það er að vitja um hinn nýfædda konung gyðinga sem stjarna vísaði þeim til.

Hann bað þá að bera sér upplýsingar hvar barnið væri þegar þeir væru búnir að vitja þess. Þeir játtu því en fengu vitrun í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, eftir að þeir fundu konunginn í fjárhúsi á Betlehem völlum.

Þegar Heródes áttaði sig á því að þeir myndu ekki koma aftur, varð hann illur því hann óttaðist þennan nýfædda konung gyðinga. Hann óttaðist að missa völd sín ef annar konungur væri að fæðast.

Hann lét því deyða öll börn tveggja ára og yngri á því svæði sem vitringarnir höfði lagt leið sína um. Deyða börn í sínu eigin ríki.

Þvílík skelfing, þvílík mannvonska, þvílík illska.

Hversu oft er það ekki einmitt svo að saklausar sálir hljóta hörmuleg örlög vegna bresta og synda annarra, og oft hinna fullorðnu!?

En þrátt fyrir þessa aðgerð Heródesar þá dó ekki Jesús. Jósep vitraðist í draumi að fara með barnið og Maríu burt til Egyptalands, og svo kom hann frá Egyptalandi eins og spádómarnir höfðu boðað.

Það er ekki töfraljómi yfir þessari frásögn heldur ómar hún af reynslu svo margra sem búið hafa þessa jörð.

Frásögn Lúkasar er í senn einföld og í flesta staði mannleg. En skilaboðin eru hin mikilvægustu sem mannkyni hafa borist. ,,Yður er í dag frelsari fæddur!”

Frásögnin ber þann keim að henni er ætlað að ná til allra, hversu jarðneskar og myrkar aðstæður manna eru.

En orð Mattheusar guðspjallamanns eru kannski ástæða þess að við söfnumst til kirkju og höldum Barnadaginn heilagan. Við minnumst þeirra barna sem féllu fyrir grimmdarhendi Heródesar, og þeirra fjölmörgu sem í gegnum mannkynssöguna hafa hlotið svipuð örlög.

Þegar ótti og völd fara saman, er aldrei von á góðu.

Mannkynssagan geymir mörg slík dæmi og nú síðast dæmin frá Írak og Afganistan.

Þess vegna fæddist Jesú. Þess vegna kom Guðssonur inn í mannanna heim, til að boða öllu mannkyni það að Guð er með okkur. Og engum nær en þeim sem þjást, sakna og syrgja.

Hjá Jeremía spámanni segir: ,,Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig.”

Þetta er einmitt það sem segir svo víða í hinni helgu bók, Guð er með okkur, jafnvel þar sem við teljum það nær ómögulegt, áður en við erum mynduð í móðurkviði.

Guð er með okkur! Um það snúast jólin.

Merkilegt með okkur mannfólkið hvað við erum ósjálfbjarga þegar við fæðumst.

Ef við lítum til annarra dýra þá erum við svo langt á eftir þeim að þessu leyti.

Hesturinn er fljótur að komast á fætur og átta sig á að sækja sér fæðu, kálfurinn einnig.

Lambið er blautt og þvælt þegar það kemur í heiminn, og sleikir móðir þess það yfirleitt og hugar að því. En fljótlega tekur það við sér og tekur til við að borða og nærast, fer að hugsa um sig.

En við mennirnir þurfum marga mánuði við móðurbrjóstið, og mörg ár á tryggu heimili áður en við getum farið að takast á herðar það verkefni að verða sjálfstæð.

Guðslambið þurfti líka á umönnun að halda, þurfti á því að halda að foreldrarnir sinntu sinni ábyrgð, sinntu sínu hlutverki. Sínu heilaga hlutverki. Og enn kallar það okkur að jötunni og biður okkur að taka við sér í huga og hjarta.

Hlutverk foreldra er ávallt mikilvægt. Öll eigum við mörg og misjöfn hlutverk í lífinu. Til dæmis í starfi, í áhugamálum, í fjölskyldum, gagnvart vinum og kunningjum, gagnvart náunga okkar sem við mætum í lífinu.

Hlutverk foreldra er eitt það mikilvægasta af þessu og verður sjálfsagt seint ofmetið.

En á því byggist að svo miklu leyti grundvallartraust barnsins til heimsins, til tilverunnar, til Guðs. Samskipti barnsins við foreldra sína.

Hér erum við samankomin á helgan stað, með Stúlknakór og barnakór, og litla skírnarstúlku, sem var borin til skírnar – til skrásetningar í ríki hans. Sem er ríki himnanna, sem er ríki lífs og gleði. Ríki eilífðar.

Jesús bar lærisveinum sínum skilaboð þess efnis í skírnarskipuninni: Að þeir skyldu fara um alla jörðina, skíra í nafni föður sonar og heilags anda, og kenna allt sem hann hafði boðað þeim. Og hann sagði: ,,Sjá ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar.” Og sagði einnig: ,,Hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir, samhuga í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal.

Í þeim anda kallar litla barnið í jötunni okkur til ábyrgðar á sér og öllum litlum börnum sem fæðast inn í þennan heim.

Verkefnið er ærið, og spurningin vaknar hvernig við eigum að takast á herðar slíkt verkefni.

Ein dýrmæt leið er leið bænarinnar, við getum beðið Guð, í einlægni og heiðarleika, og hann mun leiða okkur sinn veg þar sem við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar.

En með barnakór og Stúlknakór, ásjónu litla skírnarbarnsins og öll börn heimsins í huga er gott að minnast þess að einmitt þar sem einlægning, hreinleikinn, sannleikurinn er, þar sjáum við mynd hans. Í andliti hvers barns er ásýnd hans, sem í húmi heilagrar jólanætur fæddist og var lagður í jötu lágt.

Fyrir þau mikilvægu skilaboð sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.