Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er sunnudagur, klukkan er rúmlega tvö. Sólin reis úr austrinu rétt eins og í gær, rétt eins og í fyrra dag, eins og í fyrra, eins og á fyrri öldum.
Í maganum bera hins vegar margir kvíðahnút, því hvað ber morgundagurinn í skauti sér?

Eitthvað sem við hugsum, og finnum allt of oft, kannski eitthvað sem margir hugsa í dag.

Áhyggjur!

Fjölskyldur, foreldrar, mörg okkar, standa frammi fyrir því að grunnskólabörn verða hugsanlega heima á morgun, því verkfall kennara er yfirvofandi.

Áhyggjuefni – svo sannarlega!

Það er svolítið merkilegt að guðspjall dagsins skuli tala í þessum dúr, ja, kannski inn í þessar aðstæður.

,,Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar”

,,Enginn getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn!”

,,Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.”

Ég veit satt að segja ekki alveg hvaða boðskapur þetta er inn í yfirvofandi verkfall kennara.

En eitt er víst að áhyggjur bola í burtu allri gleði. Áhyggjufullt líf, er gleðisnautt líf.

Það segir á nokkuð góðum stað, sá sem hefur brauð í körfu sinni og spyr áhyggjufullur, hvað á ég að borða á morgun, er trúlítill einstaklingur!

Guð gaf okkur lífið og mun sjá til þess að við öðlumst það sem við þurfum. Þess vegna ættum við ekki að eyða lífi okkar í gleðisnauðar áhyggjur.

Jesús bendir okkur til fuglanna og sýnir okkur að þeir hafa ekki áhyggjur.

Fuglarnir eru ekki fullir af áhyggjum. En það er ekki þannig að þeir chilli bara aftur í hreiðrinu, þeir láta ekki reka á reiðanum, þó þeir séu áhyggjulausir. Nei þeir eru duglegir. Þeir framkvæma en án þess að hafa áhyggjur – það er rótin, það er það sem Jesús vill koma til okkar.

Áhyggjur eru í eðli sínu andstæðar því að treysta á Guð, og að treysta á Jesú Krist er að byggja líf sitt á því bjargi sem veitir sannleika og líf, eilíft líf. Því Guð sjálfur hefur rist lærisveina sína á lófa sína, eins og lesið var fyrir okkur úr Jesaja spádómsbók hér áðan. En hluti Jesaja spádómsbókar (devtero Jesaja) er stundum nefnt fimmta guðspjallið.

Eins og við mörg þekkjum: Það að verða ástfanginn hrekur burtu allan efa og allt annað sem áður skipti mann máli. Það er kannski á þeim nótum sem Jesús er að tala. Ef maðurinn ber slíka elsku til Guðs, þá aukast líkur hans á því að hann eignist áhyggjulítið dugnaðarlíf, eilíft líf.

Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum. Því við vitum ekki hvaða árangur mun standa eftir daginn í dag.

Hvort kennarar og viðsemjendur nái saman, hvort markmið okkar nái fram að ganga!

Lífið er of stutt til að hafa of miklar áhyggjur. Hin óþekkta framtíð verður kannski ekki eins og við óttumst mest.

Kannski verður maður ekki á lífi – þá hafa áhyggjur dagsins í dag tilheyrt heimi sem við tilheyrum þá ekki lengur.

Eða með öðrum orðum:
Stærstu vandamálin sem maðurinn stendur frammi fyrir eru þau sem aldrei verða!!

Hláturinn lengir lífið, segir á góðum stað og er sannleikur í því. Hlátur og það að líta jákvæðum augum á umhverfið og tilveru sína kemur okkur lengra á lífsins vegi.

Hlátur var hins vegar ekki ofarlega í huga unga mannsins sem var með ungri eiginkonu sinni í gleðskap eitt kvöldið:

Hún vildi ekki fara strax heim. En hann vildi að hún fylgdi honum, leyfði honum að ráða. Henni fannst skemmtunin hins vegar ekki búin. En hann sagði með mikilli áherslu og þunga: ,,Konan á að fylgja manni sínum, (…)” og áður en hann gat klárað leit hann í augu hennar og sá óblíðan svip, og óánægju, og kláraði setninguna: ,,(…)fylgja manni sínum, hvert sem – hún vill!!”

Eitthvað þurfti hann að hugsa upp á nýtt stöðu sína og þeirra hjóna hvort gagnvart öðru. En þar sem hjón koma saman, eru jafningjar á ferð.

En nóg um hjónatal hér á sunnudegi. Við skulum ekki hafa dugnaðarlausar áhyggjur á sunnudegi, (á sólardegi!) Þessum fallega hátíðardegi.

Því áhyggjur eru með öllu óþarfar, þær skapa bara magasár og veikindi.

Í guðspjallinu koma þarna stuttu á eftir orðin, ,,Biðjið og yður mun gefast…” ekki lítið loforð það, en það frá þeim sem er yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni.

Áhyggjur eða yfirvegun koma ekki frá aðstæðunum sem við lendum í, heldur frá hjartanu okkar og því hvaða afstöðu við höfum til lífsins.

Afstaða betlara eins kom einum efnameiri ferðamanni á óvart.

,,Guð gefi þér góðan dag” sagði ferðamaðurinn við betlarann á götunni!

,,Ég þakka Guði fyrir að hafa aldrei átt slæman dag” sagði betlarinn.

,,Guð gefi þér hamingjusamt líf, vinur minn.” hélt ferðamaður áfram.

,,Ég þakka Guði að ég er aldrei vansæll” sagði betlarinn.

,,Hvað meinar þú?” sagði ferðamaðurinn og undraðist svörin sem hann fékk.
Sjáðu til, þegar allt er í góðu, þá þakka ég Guði, þegar ég er hér úti og það rignir þakka ég Guði, þegar ég hef nóg milli handanna, þá þakka ég Guði. Og fyrst Guðs vilji er minn vilji, og hvað sem gleður hann gleður mig, hvers vegna ætti ég að segjast vansæll þegar ég er það ekki!?

Ennþá varð ferðamaður undrandi og spurði: ,,Hver ert þú?” ,,Ég er konungur” svaraði betlarinn. ,,Nú, hvar er konungsríki þitt?” Og betlarinn svaraði hægum rómi og hægversklega: ,,Það er í hjarta mínu!”

Dýrmætt viðhorf til lífsins það, gleðin yfir því að vera til. Síðari ritningarlestur dagsins minnir okkur á auðmýktina, kannski er það leiðin sem báðir aðilar, sem deila, verða ð hafa í huga, hafa að leiðarljósi, til að samningar náist.

Skilaboð Jesú til okkar í dag, daginn fyrir boðað verkfall kennara er því eitthvað á þá leið: ,,Verið ekki áhyggjufull fyrir morgundeginum. Því leið auðmýktarinnar í lífinu er leið án áhyggju, leið til friðar, og ekki nóg með það heldur leið til valda, máttar og dugnaðar!!!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Rísum á fætur og meðtökum postullega kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

sr. Þorvaldur Víðisson