Árleg skólamessa var haldin í Landakirkju, sunnudaginn 29. ágúst kl. 11:00. Kennarar út Barnaskólanum, Hamarsskóla og Framhaldsskóla bæjarins lásu ritningarlestra og lokabæn. Kirkjukórinn söng undir stjórn Guðmundar H Guðjónssonar. Beðið var meðal annars fyrir komandi skólaári. Predikun dagsins fylgir hér með: Sálmur 8:1-10 1. Kór. 13:1-4 Mk. 8:22-26

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Kennari einn sagði að endurmenntun og símenntun væru spennandi möguleikar fyrir þá sem koma nálægt skólamálum. Og myndi hann án efa nýta sér þessa möguleika – það er að segja ef hann ætti eitthvað eftir ólært. Búinn að læra allt – frekar góður með sig! Kannski gamalt viðhorf en samt lífsseigt. Hvenær erum við að fullu menntuð? Það verður seint. Mikilvægt er að vera stöðugt að, stöðugt að viða að sér nýrri þekkingu, nýrri reynslu, vera opinn. Í síbreytilegum heimi, þar sem tækni og þekking fleytir fram á ógnarhraða, er nauðsynlegt að fá endurmenntun og símenntun, eins og við vitum. Ekki er það bara út af því hve heimurinn breytist mikið heldur einnig vegna þess hve við mannfólkið, gleymum, stöðnum. Það að kenna er eilífðar verkefni. Nýir einstaklingar taka við, þurfa að læra og kennarar að kenna. Það er eilífðar verkefni að ala upp komandi kynslóðir. Það er kannski það sem skólinn er farinn að gera í ríkara mæli en áður, það er að ala upp börnin.

Grunngildin og siðgæði, eru börn meira farin að læra í skólanum í dag en hér áður. Það er stundum eins og foreldrar vilji sleppa undan þeirri ábyrgð að vera foreldrar og segja að skólinn eigi að sjá um þetta verkefni. Það er ekki nógu gott viðhorf hjá foreldrum því þau bera fyrst og síðast ábyrgð á börnum sínum, þó svo að skólinn hafi í flestum tilfellum brugðist við nýjum verkefnum af festu og ábyrgð. Í nútíma samfélagi er það í senn forréttindi sem og ekki öfundsvert að koma að menntun komandi kynslóða. Það þarf ansi sterk bein til að standast allt það sem keppir um athygli barnanna. Ég hef stundum sagt að ef unglingar, þau sem ganga til ferminga, til dæmis, eyði jafn miklum tíma í að biðja bænir, (á bænaneti heimsins), eins og þau eyða á internetinu, þá væri nú heimurinn góður. Það eru margir möguleikar sem bjóðast börnum og unglingum í dag. Allir eiga möguleika á menntun og það góðri, og er það eitt af því dýrmætasta sem við eigum í okkar samfélagi. Tölvur og internet bjóða upp á form lýðræðis sem áður voru ekki þekktar. Þar sem heimasíður og blogg, veita hverjum sem er aðgang að eyrum og augum almennings. En öllum góðum gjöfum er hægt að misbeita og er það kannski hlutverk okkar sem eldri erum að beina hinum yngri á réttar og góðar brautir. Þar sem hreyfing, umhyggja fyrir náunganum, lestur og samfélag er blandað í góðu hlutfalli við aðra uppbyggilega möguleika.

Fyrir nokkrum árum var vandamál víða, hve unglingar voru lengi úti á kvöldin. Það hefur náðst góður árangur hér í Eyjum á síðustu árum, árangur í því að koma unglingum inn á réttum tíma. Kannski hefur tölvan hjálpað svolítið í þeim efnum, þar sem unglingar halda áfram að spjalla fram á kvöld og stundum nótt þegar heim er komið, spjalla saman á msn, eða netinu. Mikilvægt er að virða útivistartímann, og síðan halda utan um börnin, og fylgjast með börnunum þegar heim er komið. Mér finnst pysjutíminn vera dýrmætur tími, sérstaklega með börn á grunnskólaaldri. Það er dýrmætt sameiginlegt verkefni sem börn og foreldrar geta átt, að ganga, keyra eða hjóla um bæinn með kassa og bjarga pysjum. Og í fylgd með foreldrum og í þessu einstaka verkefni eru reglur útivistatímans stundum sveigðar undir formerkjum björgunar og samfélags foreldra og barna – sem er af hinu góða, í flestum tilfellum.

Það er annað tímabil, hér í Eyjum þar sem útivistartíminn er ögn sveigður, með gæfurík markmið að leiðarljósi! Þjóðhátíðin er merkilegt fyrirbæri og í flesta staði meiriháttar skemmtun og uppákoma. Ég á eftir að vera á fleiri Þjóðhátíðum og hlakka ég til. Þar sameinast kynslóðirnar í gleði, kærleika og söng, þegar best lætur. Og er þjóðhátíðin í nær alla staði stórkostleg. Eitt er þó sem ég, sem prestur, er alls ekki sáttur við, og það er unglingadrykkjan á Þjóðhátíð. Að sjá fermingarbörnin sín, frá ári eða tveimur áður, með bjór í hönd finnst mér eins og KR ingur í Vals búning – út úr kú!! Og mikið ábyrgðarleysi af foreldrum og samfélaginu öllu að bregðast ekki við því. Kannski er brugðist við því í mörgum eða flestum tilfellum. Mér finnst samt andi umburðarlyndis í þessum efnum, yfir þessa helgi vera of mikill. Umburðarlyndi gagnvart áfengi, er ekki gott. Það er sannað mál að því fyrr sem unglingar byrja að drekka, taka fyrsta sopann, því líklegri verða þau til að lenda í ýmsum vandræðum síðar. Hætta í skóla, fá ekki vinnu… osfrv. Það helst einfaldlega í hendur, eins og við vitum.

Hvert ár sem við höldum unglingunum okkar frá áfengi, er dýrmætt ár fyrir þau er lengra lætur. Gagnvart eiturlyfjum og öðru slíku ógeði hafa Eyjarnar verið á góðri braut og samstaða hér mikil um að útrýma því böli. Við höfum hér tekið eiturlyfjavandann föstum tökum og ætlum að gera enn betur. Það er gott að dóp skuli vera fordæmt, en af hverju ekki unglingadrykkja. Þjóðhátíðin er meiriháttar!! Góð stemmning þar sem kynslóðirnar skemmta sér saman, allir eru einhvern veginn jafnir og hafa rétt á því að teyga af því lífi sem í boði er. En ef það líf er áfengislíf, er kannski betur heima setið en af stað farið. Og eiga þessi orð kannski einnig við um aðrar unglingaskemmtanir. Við verðum að standa saman til að móta uppbyggilegar hefðir í kringum fjölskyldu og skólalíf!! (Eitthvað til umhugsunar!!) Hin helga bók talaði um kærleikann hér áðan, og er það góður texti sem lesinn er við allar hjónavígslur í kirkjunni okkar góðu.

Hann minnir okkur á það dýrmæta í lífinu. Og mikilvægt er í öllu okkar lífi og starfi, að hugsun, orð og athafnir stjórnist einmitt af honum, kærleikanum. Ramminn sem við gefum börnum og unglingum verður að vera búinn til úr kærleika, ásamt fleiru. Það gengur ekki að sleppa öllum hömlum lausum einu sinni á ári og segja það í lagi að unglingar í Eyjum megi detta í það á þjóðhátíð – við verðum að breyta því, sem og annarsstaðar, á öðrum unglingaskemmtunum. Áfengi er bannað innan tuttugu í okkar samfélagi (svo einfalt er það)! Við eigum svo fagran heim eins og Davíðssálmurinn númer átta, minnir okkur á, og best er að njóta hans allsgáður. Eins og frásagan af Jesú miðlar, þá geta kraftaverk gerst þegar maðurinn mætir orði Guðs, mætir Jesú á leið sinni!! Blindi maðurinn í guðspjallinu fékk að reyna það á sjálfum sér. Menn færðu manninn til Jesú. Hann tók í hönd honum og leiddi hann út úr þorpinu (út úr aðstæðum). Síðan skyrpti Jesús í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: ,,Sérð þú nokkuð?” Hann mælti: ,,Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga!” Þá lagði hann aftur hendur yfir augu hans, og nú sá hann skýrt, varð albata og heilskyggn á allt. Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: ,,Inn í þorpið máttu ekki fara.” Kraftaverk gerðist og sá blindi öðlaðist sýn, hann fékk sjónina, eins ótrúlegt og það hljómar. KRAFTAverk! Það er það sem Jesús gerði, hann gerði stöðug kraftaverk, og gerir enn í dag. Ennþá er fólk að fá sjón.

Ég hef séð það gerast að sá sem hefur verið að missa sjónina, missa getu augnanna, hefur fengið hana aftur – og þá er ég ekki að tala í líkingum. Það er hins vegar ekki alvarlegasta blindan sem snertir augun. Þó svo að augun í höfðinu á okkur bili, þá verður manneskjan ekki verri. Hins vegar ef sjónin á trú, siðgæði og líf breytist getur voðinn verið vís. Eins og við sjáum á svo mörgum stöðum í heiminum þar sem ríkir voði og glundroði. Blessunarlega berum við gæfu til að búa í Vestmannaeyjum. En þessi umrædda blinda getur þrátt fyrir það snert líf okkar hér, og það á svo margan máta. Til dæmis sem firring, tilgangsleysi og ábyrgðarleysi. Og er það kannski hið síðastnefnda sem hefur snert marga í okkar íslenska samfélagi. Það er ábyrgðarleysi gagnvart þeim sem standa manni næst, maka og börnum. Ábyrgðarleysi gagnvart börnunum, til dæmis þegar við stöndum ekki saman gegn unglingadrykkju. Einnig er það ábyrgðarleysi þegar fólk skilur!! Þegar fólk á lítil, ung börn, hefur ákveðið að ganga saman lífsins veg en síðan breytir af leið og hættir því fjölskyldulífi, ákveður að láta þær skyldur lönd og leið. Þeim ber einfaldlega skylda til þess að láta dæmið ganga upp!! Það er þeirra en ekki barnanna að gera það!! Auðvitað getur ýmislegt komið upp á, en til eru leiðir til að aðstoða og leysa það. Þeir sem síst skyldi, börnin, verða iðulega fyrir barðinu á ábyrgðarleysi hinna fullorðnu.

Maðurinn er stöðugt að fá nýja sýn á tilveruna. Með árunum, reynslu sinni, og síðast en ekki síst með menntuninni öðlumst við víðari sýn á líf okkar, samferðafólks okkar og heiminn allar. Og með því öðlumst við dýpri tilgang, og nánara samfélag við þann sem er uppruni alls hins góða í heimi hér, sem er uppruni þess kærleika sem talað var um á helgum stað. Árleg skólamessa er mikilvæg fyrir kirkjuna, og vonandi fyrir skólann líka. Kannski verðum við í sameiningu að þróa þetta fyrirbæri. Skóli og kirkja eiga í íslenskri sögu afskaplega dýrmæta sameiginlega þræði. Íslensk tunga á margt undir hinum fyrstu biblíuþýðingum. Ef Ritningin hefði ekki verið þýdd eftir siðbót, þá er hæpið að lestrarkunnáttan hefði verið jafn almenn og raun varð á. Þessar þýðingar eiga einnig hvað mestan þátt í því hve íslenska tungan hefur varðveist vel. Það er með ólíkindum hve stór hluti íslensku þjóðarinnar var læs. Og þar var enginn ofar öðrum, allir áttu að læra Kverið, sálma og fleira og voru prestar, þrátt fyrir að vera breyskir margir, framarlega í allri kennslu á því sviðinu. Við vitum að orð Jesú og bæn í hans nafni er góður farvegur fyrir öll okkar lífsins verkefni. Og á þeim grundvelli er gott að eiga reglulegt samfélag á helgum stað og biðja fyrir komandi skólavetri. Fyrir menntunina og lífið allt, sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með ykkur öllum. Amen. Bæn fyrir komandi skólaári í Vestmannaeyjum: Algóði himneski faðir, þú sem veitir tækifæri lífsins, veitir nýjar farsælar leiðir í þínu nafni. Vér biðjum í dag fyrir öllu leikskólastarfi, barnaskólastarfi og framhaldsskólastarfi í Vestmannaeyjum og starfsfólkinu sem kemur að því. Vér biðjum sérstaklega fyrir Barnaskólanum, Hamarskóla og Framhaldsskólanum. Vaktu yfir starfinu í vetur, gefðu að andinn þinn ríki, andi friðar og kærleika, andi metnaðar og þekkingar. Efl kennurum þekkingu, þor og metnað, vaktu yfir þeim hverjum og einum og fjölskyldum þeirra. Vér biðjum fyrir öllum nemendum, gefðu þeim forvitni og áhuga, aga og festu. Vér biðjum fyrir öllum sem koma nýir í skólann, öllum sem koma aftur inn í skólastarfið. Hjálpa okkur að bregðast við nýjum og ögrandi verkefnum. Veittu okkur farsælan vetur og elju til að gera ávallt betur. Vér biðjum fyrir allri menningu og framgangi alls mannlífs, fyrir Jesú Krist, Drottni vorn. Amen.

Með kveðju, Sr. Þorvaldur Víðisson