Hásumar er nú hér á norðurhveli. Sólin hvað hæst á lofti og lengstu dagar ársins.

Lesmessa og skírnarguðsþjónusta var kl. 11 í Landakirkju, sunnudaginn 20. júní. Barn var borið til skírnar og söfnuðurinn virkjaður til söngs. Organisti leiddi með undirleik.
Þónokkuð var um ungar sálir í kirkju og var ánægjulegt hve söfnuður kirkjunnar er lifandi og ærslafullur.

Nokkur orð um mannlegt líf, skírn, heilagt orð og synd fylgja hér með:

Þroski, uppeldi og menntun miða að því marki að gera manneskjur færar til að takast á við lífið.

Fullkomleiki, að fá tíu á prófunum, kunna að hegða sér vel, koma fram og nýta hæfileika sína.

Að virkja þær Guðs góðu gjafir sem okkur er gefið í vöggugjöf – það er eitt af lífsins verkefnum.

Jesús sagði á einum stað í guðspjöllunum: ,,Verið fullkomnir, eins og faðir yðar á himnum er fullkominn.” (Mt. 5:48)

Jesús gefur í þessum orðum sínum markmið sem manneskjan getur kannski aldrei að fullu náð. Tíu á öllum prófum, verðugt markmið en hæpinn veruleiki. Það er, Jesús gefur hinn mögulega ómöguleika. (eins og heimspekingurinn og tilvistarfræðingurinn Paul Tillich talar um) Í þessum orðum er ákveðin spenna.

Hvenær er manneskjan fullkomin?

Það er alltaf eitthvað sem betur má fara hjá okkur, (sama hvað við virðumst heilög). En er hægt að finna mistökum sínum/okkar farveg?

Það að viðurkenna ófullkomleikann er kannski hin fullkomna leið mannsins.

Iðrun, það að sjá eftir því sem betur hefur mátt fara. Að iðrast synda og biðjast fyrirgefningar er kærleikans leið.

Við burðumst svo oft með samviskubit, sem er svo mannlegt. Mikilvægt er að gera upp eigin sakir, biðja þá afsökunar sem hafa særst, biðja Guð að taka frá okkur vondar tilfinningar, sekt og synd.

Sá veruleiki stendur manneskjunni ávallt opin, það er að snúa sér til Guðs og biðja í Jesú nafni.

Það var einmitt það sem veislugestir gerðu ekki í guðspjalli dagsins. (Lk.14:16-24) Þeir snéru sér nefnilega undan, þeir vildu ekki taka þátt í þeim veruleika sem boðið var uppá.

Gestgjafi bauð til mikillar veislu og var gestalistinn langur. Þegar að veislunni kom voru gestirnir flestir ef ekki allir uppteknir við annað. Akurinn, hjónaband og ýmislegt. Skiljanlegt, voru að sinna sínum málum.

En þeir þáðu ekki boð þess gestgjafa sem býður lífið í sinni fullu gnægð, eilífa lífið. Þeir áttuðu sig ekki á því hverju þeir voru að hafna. Dæmisagan er frásaga af þeirri meðferð sem Guðs orð og borð fær gjarnan hjá mannfólkinu.

En þar er einmitt að finna þann mikilvæga hlekk sem kemur manneskjunni áfram í syndugri veröld. Hér í heilögu orði og í hinum heilögu sakramentum mætir maðurinn þeim sem fyrirgefur allar syndir.

Saga segir af ungum presti, gæti bara hafa verið ég. Sem hafði gert ýmislegt misjafn á sínum yngri árum, gæti bara verið ég líka. En það var eitt sem stóð algerlega upp úr. Presturinn ungi hafði á sínum tíma drýgt mikla synd sem hann hafði ekki fundið frið fyrir. Hann hafði engum sagt frá, nema hrópað á Guð eftir fyrirgefningu.

En alla tíð angraði þetta hann.

Í söfnuðinum þar sem hann var við þjónustu var kona gömul sem sagði hverjum sem vildi heyra að hún talaði persónulega við Maríu Guðsmóður í bænum sínum.

Presturinn ungi vildi trúa öllu góðu upp á söfnuð sinn, en vildi nú ekki að konan væri að segja ósatt ef enginn fótur væri fyrir þessu hjá henni.

Hann ákvað því að leggja fyrir hana smá þraut.

Næst þegar hann hitti bænheitu konuna bað ungi presturinn hana um greiða.

Hann spurði hana hvort það væri ekki rétt að hún ræddi við Maríu Guðsmóður í bænum sínum. Sagði hún það rétt vera og var svolítið upp með sér að nú loksins virtist einhver ætla að trúa henni, og ekki verra að það var presturinn.

Presturinn ungi sagði þá við konuna. Mig langar að biðja þig, næst þegar þú talar við Maríu Guðsmóður, að biðja hana að spyrja Jesús son sinn, hver mín mesta synd sé í lífinu.

Ef hún gæti sagt eitthvað um þennan atburð, myndi presturinn sjá að konan hefði greinilega talað við Maríu, því enginn lifandi maður vissi hver þessi synd var.

Konan tók vel í þetta og var nokkuð upp með sér að fá slíka bón.

Skildu nú leiðir, en þau hittust seint næsta dag.

Það var presturinn sem bankaði á dyrnar, fór í húsvitjun, sem við prestar í dag gerum allt of lítið af, og konan kom til dyra.

Hún bauð honum inn og til sætis í stofunni.

Jæja, sagði presturinn. Ertu búinn að heyra í Maríu Guðsmóður?

Jájá, sagði konan! Við áttum gott samtal í gærkveldi.

Og spurðir þú hana fyrir mig? Sagði prestur.

Já, það gerði ég!

Nú og hvað sagði María? Sagði prestur og var orðinn all spenntur.

Jú, María sagði mér að hún hefði spurt Jesús son sinn um þína verstu synd, … en hann var fyrir löngu búinn að steingleyma því, hver hún var!!(Orð í Gleði bls.37-38 hr. Karl Sigurbj)

Svolítið skondin saga en miðlar miklum sannleika þó. Þeim sannleika að sakbitið mannshjarta finnur fyrirgefningu en ekki dóm þegar leitað er fyrirgefningar Guðs, þegar mannshjartað iðrast stöðu sinnar og gerða. Farvegur til fullkomnunar, hinn ómögulegi möguleiki.

Skírnin, þessi helgidómur, þetta sakramenti miðlar einnig boðskap fyrirgefningar, boðskap sakleysis, hreinleika og sannleika.

Skírnarkjóllinn, sem gjarnan er hvítur að lit og síður er tákn fyrir náðina.

Hann er tákn fyrir þá náð, að manneskjan skuli kallast Guðsbarn.

Kjóllinn er síður því barnið á að vaxa upp í náðinni, með tímanum öðlast skilning og þekkingu á því hvaða lífsins veg Guð hefur valið fyrir það að ganga.

Að lifa undir náð Guðs merkir að hvernig sem okkur gengur í lífinu, hvort sem við náum öllum okkar mannlegu markmiðum eða ekki, þá erum við alltaf Guðsbörn, Guð mun aldrei snúa við okkur baki, þótt heimurinn geti gert það.

Samhuga komum við til skírnarathafnar og biðjum að lífsins vegur litla drengsins, Símonar Þórs, verði langur og farsæll – og umfram allt í Jesú nafni – í lífsins góða nafni.

Skírnin er inntaka í söfnuðinn. Söfnuð kirkjunnar, söfnuð lífsins, þess lífs sem hefur eilíft gildi og eilífan tilgang.

Skírnin er leyndardómur. Annað tveggja sakramenta kirkjunnar. Hitt sakramenti okkar lúthersku kirkju er heilög kvöldmáltíð. Sagt er frá kvöldmáltíð í guðspjalli dagsins, máltíð þar sem gestirnir mættu ekki.

En leyndardómur sakramentanna felst í nærveru Jesú Krists í orði sínu og anda, og í vatninu hér.

Jesús segir einmitt: ,,Hvar sem 2-3 koma saman í mínu nafni og samhuga, þar er ég mitt á meðal.” Og við biðjum hér samhuga í dag.

Mig langar að nefna það hér, að skírnarvottar/guðforeldrar bera ákveðið hlutverk innan hverrar fjölskyldu, hlutverk gagnvart barninu unga.

Hlutverk skírnarvotta er að vera fulltrúar kirkjunnar í fjölskyldunni, ef svo má segja. Kenna barninu að virkja það bænarhús, sem spenntar greipar eru. Kenna því að biðja til Guðs, og kannski umfram allt að biðja fyrir því. Bera barnið á bænarörmum.

Ávallt er vettvangur opinn í þessu bænarhúsi hér, þessum aldna helgidómi. Þrátt fyrir að kirkjan hér sé gömul þá er hún síung og fersk því orðið heilaga er lofað og því er miðlað af nýjum kynslóðum sem taka við hinni góðu gjöf og bera hana áfram á milli kynslóða. Sunnudagaskóli hefst í haust ásamt barnastarfi og öðru vetrarstarfi kirkjunnar.

Boðskapur skírnarinnar er mikill og djúpur og kannski meiri en maðurinn fær nokkru sinni að fullu skilið.

Orð Jesaja spámanns eru mögnuð. (Jes. 49:15-16a) Í samhengi hvítvoðungsins hér og skírnarinnar segir himnafaðirinn við barnið litla: ,,…Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér ekki. Sjá ég hef rist þig á lófa mína!!”

Þvílíkur kærleikur sem mætir okkur í þessum orðum, sem og orðum postulans í kærleiksóð Kórithubréfsins. (1.Kór.13) En þar segir: ,,Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Græni litur kirkjuársins, sem nú er hafinn, minnir okkur á vöxtinn, gróskuna, vöxtinn í trúnni, voninn og kærleikanum. Einmitt þann kærleikans vöxt sem við biðjum algóðan Guð að vökva.

Megi Guð vaka yfir og varðveita ykkur hvert og eitt, í Jesú nafni. Amen.

Sr. Þorvaldur Víðísson