Sunnudagskvöldið 23. mars nk. verður með frekar óhefðbundu sniði í Landakirkju. Æskulýðsfélag Landakirkju og KFUM&K í Vestmannaeyjum ætlar að halda upp á Æskulýðsdag Þjóðkirkjunnar sem var 2. mars sl. þetta sunnudagskvöld með því að slá upp heljarinnar tónlistarmessu. Undanfarin 2 ár hafa messur að þessu tagi borið reglulega á góma og hefur tónlist meistara á borð við Elvis Preasley, Johnny Cash og U2 fengið að hljóma, en í þetta skiptið mun vera farin heldur óvenjulegri leið. Titillög úr kvikmyndum um njósnara hennar hátignar, James Bond munu verða flutt af 10 manna hljómsveit. Söngkonurnar Sunna Guðlaugsdóttir, Una Þorvaldsdóttir og Helga Sóley Aradóttir munu ljá lögunum raddir sínar og brasskvartetinn Pípulagnirnar mun blása okkur Bond-línurar í brjóst. Æskulýðsfélagið mun verða með uppgjör af fjáröflun fyrir ferð félagsins á Norrænt KFUM og KFUK mót í sumar, eftir messuna en það verður eitthvað sem allir messugestir munu hafa gaman að. Prestur verður        sr. Guðmundur Örn Jónsson og Gísli Stefánsson æskulýðsfulltrúi mun predika ásamt því að leiða hljómsveitina. Nú er bara spurningin hvernig hægt er að flétta byssuglaðan Bond við orð Drottins.