Allra heilagra messa er haldin í Landakirkju með messu í dag kl. 14. Fermignarbörn lesa lestra og félagar í Kvenfélagi Landakirkju aðstoða, en þær halda aðalfund sinn eftir messu í Safnaðarheimilinu. Í messunni verður beðið sérstaklega fyrir minningu þeirra sem dáið hafa síðustu tólf mánuði, eða frá allra heilagra messu í fyrra. Stuðst er við prestsþjónustubók prestakallsins en einnig eru lesin nöfn sem fólk getur komið til prestanna fyrir upphaf messunnar. Oft eru lesin nöfn þeirra sem dáið hafa annars staðar en tengjast okkur. Þátttakendur tendra kertaljós fyrir ástvin en það er einnig bænarljós. Gengið verður innar. Kór Landakirkju leiðir söng undir stjórn Kitty Kováks, organista. Sr. Kristján Björnsson prédikar og þjónar fyrir altari.

Þess má geta að allra heilagra messa er ýmist haldin 1. nóvember eða fyrsta sunnudag í nóvember þar sem ekki er messað hvern dag, signt og heilagt. Í Landakirkju var að þessu sinni einnig helgistund 1. nóvember að frumkvæði eyjafólks frá Póllandi og hafði kórfélaginn Særún Eydís Ásgeirsdóttir veg og vanda að undirbúningi helgistundarinnar með presti. Sú athöfn fór fram á íslensku, ensku og pólsku og nöfn ástvina lesin í bæninni á móðurmálinu.