Þessa helgina heldur Æskulýðsfélag Landakirkju og KFUM og K til Reykjanesbæjar en hópurinn tekur þar þátt í Landsmóti ÆSKÞ sem haldið er á hverju ári í lok október. Er um að ræða stærsta einstaka hópinn á landsmótinu þetta árið en hópurinn telur um 40 þátttakendur og leiðtoga en á mótinu verða rúmlega 600 manns.

Hópurinn hefur ákveðið að halda uppi heiðri Vestmannaeyja á mótinu á dansleik sem haldin verður á laugardagskvöld en þar hyggjast meðlimir Æskulýðsfélagsins klæðsta búiningum íþróttafélagsins Þórs. Þemalitur mótsins er blár að þessu sinni og er það því vel við hæfi.

Landsmót Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar hefur vaxið og dafnað undanfarin ár en mótið hefur verið haldið vítt og breytt um landið. Á hverju ári er safnað peningum fólk sem er hjálparþurfi. Safnað hefur verið fyrir bágstadda í Afríku og fyrir fórnarlömb jarðskjálfa og kjarnorkuslyss í Japan, svo dæmi séu tekin. Í ár ætlar ÆSKÞ hins vegar, í samstarfi við Hjálparstarf Kirkjunnar að einblína á nærsamfélagið og þá sem hjálparþurfi eru hér á landi. Er það því vel við hæfi að halda mótið á Suðurnesjum en eins og fregnir herma og flestir vita er ástandið þar hvað verst í atvinnu- og félagsmálum sé horft yfir landið í heild.

Því er skemmst frá að segja að árið 2009 hélt Landakirkja utan um mótið ásamt ÆSKÞ en þá var mótið haldið í Vestmannaeyjum með dyggum stuðningi bæjaryfirvalda og bæjarbúa. Síðan þá hefur mótið verið haldið á Akureyri og Selfossi og nú síðast á Egilstöðum en Reykjanesbær er áfangastaðurinn þetta árið eins og fram hefur komið. Alltaf er vel tekið á móti Æskulýðssambandi Þjóðkirkjunnar hvar sem ákveðið er að halda mótið enda um gríðarlega mikilvægt framlag er hér um að ræði til æskulýðsstarfs almennt á Íslandi.

Við viljum benda þeim sem glöggva sig vilja enn frekar á mótinu á heimasíðu ÆSKÞ. http://www.aeskth.is