Fyrsta virka dag ársins hófust iðnaðarmenn handa við lagfæringar, málun og lökkun Landakirkju að innan. Þar með er ekki hægt að nota hana til helgihalds um hríð og má búast við að það verði allavega þannig út janúar. Helgihaldið verður að mestu í Safnaðarheimilinu og er þess nánar getið í annarri frétt hér á síðunni.

Endurbætur í samræmi við húsafriðunarsjónarmið

Við málun kirkjunnar er unnið eftir tillögum Þorsteins Gunnarssonar, arkitekts og Helga Grétars, sérfræðings í málun og viðhaldi 18. aldar bygginga. Að þessu sinni stóð ekki til að gera meira en mála kirkjuna að innan og fara eftir þeim kafla í úttekt Þorsteins og Ríkharðs Kristjánssonar, verkfræðings, sem unnu þessa úttekt árið 2011 að beiðni sóknarnefndar og kynntu hana í heild sinni á aðalsafnaðarfundi í janúar 2014.

Drifhvítir veggir og alhvít hvelfing með blaðgylltum stjörnum

Í stuttu máli má segja að kirkjan verður núna máluð og lökkuð drifhvít á veggjum og undir pöllum. Mesta breytingin verður sú að hvelfingin verður máluð alhvít og verða stjörnurnar blaðgylltar með sérstakri aðferð. Þetta víkkar rýmið sjónrænt. Þá verður krossinn á gafli kirkjunnar ofan við prédikunarstólinn einnig blaðgylltur en rauði liturinn hverfur. Í stað þess að mála ýmist blátt eða rautt í bakgrunni táknanna verða táknin dregin fram með þessari nýju litasamsetningu. Þá er gert ráð fyrir því að grái liturinn og sá gyllti haldi sér í innréttingum en blái og brúni liturinn hverfi. Að þessu sinni verða innréttingarnar (umgjörð altarisins) ekki lakkaðar en tillögur þeirra Þorsteins gera ráð fyrir að þær fái jafnvel sterkari liti í framtíðinni til að vega uppá móti hvítum veggjum og hvelfingu. Allar myndir og gripir kirkjunnar hafa verið fjarlægðar í framkvæmdunum og boginn yfir kórþrepunum hefur verið tekinn niður vegna þessarar vinnu, en hann er orðinn mjög lélegur. Í þessum áfanga eru stokkar (gamlir kyndistokkar á norður- og suðurvegg) klæddir, lagnir í ofna kirkjunnar endurnýjaðar og ónothæf loftvifta fjarlægð.

Næstu áfangar og málun að utan bíða

Þegar hægt verður að vinna áfram að endurbótum á kirkjunni felst annar áfangi  í því að endurgera gólf kirkjunnar, kyndingu og bekki, auk þess að fjarlægja kyndistokkana og restina af skorsteini kirkjunnar.  Þegar gólfið hefur verið endurnýjað með gulu tígulsteinagólfi á neðra gólfi og nýrri viðarklæðningu á pöllum kemur heildarmyndin í litum kirkjunnar endanlega fram.

Í tillögunum er einnig lýsing á því hvernig hægt verður að vinna upp ytra byrði útveggjanna sem hefur verið mikið áhugamál margra sóknarbarna. Það er dýr áfangi því hreinsa þarf útveggina með háþrýstiþvotti, gera við sprungur og slétta að því loknu yfirborð klæðningarinnar, sem reynst hefur vel nema hvað það hafa sest mikil óhreinindi í yfirborðið. Þegar því er lokið verður loks hægt að mála kirkjuna en ekki hefur verið tekin ákvörðun um þessar framkvæmdir að svo stöddu enda fjármagnið takmarkað til byggingaframkvæmda eftir mikla skerðingu sóknargjalda frá árinu 2009 og allt til þessa árs. Sóknarnefndin er staðráðin í því að fara varlega í þessar framkvæmdir þar sem ófyrirséð vinna er mikil í endurbótum á svo gamalli byggingu sem Landakirkja er, en hún er byggð árið 1778.