Hér má sjá dagskrá Landakirkju allt fram að þrettánda.
Aðfangadagur: Helgistund verður í kirkjugarðinum samkvæmt venju og lítur út fyrir að það muni blása heldur byrlega í ár. Það er ávallt gaman að sjá hversu margir vitja leiða ástvina sinna á aðfangadag enda leitar hugurinn gjarnan til þeirra sem ekki eru lengur meðal okkar. Klukkan 18 verða jólin hringd inn og jólafögnuðurinn byrjar. Sú nýbreytni verður í ár að streymt verður frá aftansöngnum. Miðnæturmessa er síðan kl. 23:30 þar sem um sannkallaða jólaandakt er að ræða.
Jóladagur: Það verða varla jól í Landakirkju án þess að Lúðrasveit Vestmannaeyja bregði á leik. Kl. 13:30 byrjar lúðrasveitin að spila og síðan hefst hátíðarmessan kl. 14:00.
Annar í jólum: Hátíðarmessa verður haldin á Hraunbúðum kl. 14 þar sem Kitty og kór Landakirkju syngja hátíðarsöngvana og jólasálmana.
Þriðji í jólum: Engin eru jól án jólaballs og jólaball Kvenfélags Landakirkju verður haldið á þriðja í jólum kl. 16. Dansað í kringum jólatréð við undirleik húsbandsins og kvenfélagið reiðir fram kruðerí og heitt súkkulaði.
Gamlársdagur: Aftansöngur kl. 18 þar sem gamla árið er kvatt og því þakkað og minnst í gleði og þakklæti jafnt sem sorg og eftirsjá.
Nýársdagur: Nýja árinu er heilsað kl. 13 þar sem framtíðina og hið óráðna er lagt í Guðs hendur.
4. janúar: Þrettándaguðsþjónustan verður haldin í Stafkirkjunni samkvæmt venju þar sem Tríó Þóris Ólafssonar sér um tónlistarflutning.
Við hlökkum til að sjá ykkur í kirkjunni yfir jól og áramót. Gleðjumst saman yfir fæðingu frelsarans og fögnum ljósi ljósanna.
Sjáumst í kirkjunni okkar