Kirkjugarður Vestmannaeyja hefur verið í stækkunarferli undanfarin ár og nú sér fyrir endann á því í bili. Í sumar sem leið var sáð í nýjan reit í suðaustur horni garðsins en þar munu duftker eiga sérstakan stað. Hlýtt og gott sumarið tryggði góðan vöxt og er reiturinn því tilbúinn.
Margt mælir með því að vera með sérstakan reit fyrir duftker en dæmin annars staðar af landinu sýna að það sparar rými og hægir á þörf kirkjugarða við að taka aukið landssvæði. Bæði má jarða duftker í eldri kistureitum og þannig endurnýta plássið sem og að tilgreina sérstaka duftreiti þar sem má gjarnan jarða allt að 2-3 ker í hverju grafarnúmeri. Þetta tryggir minna jarðrask og betri nýtingu garðsins og er því afar umhverfisvæn leið.
Er það mat manna að með bættum aðbúnaði við brennslu muni eftirspurn eftir þessu úrræði aukast og smátt og smátt taka yfir jarðsetningu kistna. Ekki er heldur útilokað að brennsla verði með tíð og tíma fest í lög sem skilda og því gott að vera undir slíkt búin að einhverju leiti.
Í nýjum duftreit munu gilda sérstakar reglur um minningarmörk. Verða þær tilkynntar hér á heimasíðu Landakirkju og gerðar aðgengilegar þegar þær hafa verið samþykktar í sóknarnefnd.